Í klóm knæpunnar (Tram 83 og síðnýlendan)

Skáldsagan Tram 83 eftir kongómanninn Fiston Mwanza Mujila – sem ég las á sænsku – gerist mikið til inni á knæpunni sem bókin heitir eftir.

„Borgarlandið“ þar sem knæpan er staðsett er námubær – borg eða land, höfundurinn segir að hún sé hvorugt og bæði.

Aðalsöguhetjurnar eru rithöfundurinn og leikskáldið Lucien og vinur hans, braskarinn og smáglæpamaðurinn Requiem; og svo rumpulýðurinn í kringum þá.

Ég veit ekki hvað er hægt að kalla söguþráð þarna – Fiston lýsir stríðshrjáðri þjóð í ljósi subbulegs skemmtistaðar þar sem stúlkur alveg niður í upphaf kynþroska eru til sölu; skemmtistaðar sem ríkir túristar hafa átt til að leigja undir plássfrek rassgötin á sjálfum sér, til að drekka í friði (og á meðan standa fastagestirnir – sem eru eiginlega allir íbúar Borgarlandsins – fyrir utan og bíða þess að komast aftur inn); skemmtistaðar þar sem hver einasti maður treður marvaðann til að halda lífi, gerir hvað sem nauðsyn krefur, það má kalla það ástríðu en það má líka bara kalla það örvæntingu.

Sjálfsagt væri hægt að endursegja einhvern þráð en það hefði lítið upp á sig – bókin gerist ekki í plottinu, heldur í stemningunni, sem er einhvern veginn post-apókalyptísk og oft hlægileg og oft siðlaus – eða í það minnsta afstöðulaus; barnavændi er til dæmis einfaldlega normalt ástand á Tram 83, og ekkert kommenterað sem slíkt, frekar en önnur heimsins mein. Framþróunin í bókinni er líka lítil sem engin. Það eru átök og það verða átök; það er harmur og hann fer ekki neitt. Svona er lífið og það er engin lausn.

Fegurð (eða fegrun?) harms

Einhvers staðar í bakgrunni er svo reyndar listin – Lucien byrjar stundum að skrifa um það sem hann upplifir, hvenær sem er, hvar sem er – og leikritið sem svissneskur útgefandi vill setja á svið (en er alltaf að biðja Lucien að breyta leikarafjöldanum – fyrst úr 20 í 10, svo úr 10 í 2 og svo aftur í 20). Og leikritið er sjálft einhvers konar allegóría fyrir Kongó og stríðshrjáðan kúltúr undir oki einræðis og óreiðu. En maður fær það ekki beinlínis á tilfinninguna að listin hafi annan tilgang en að koma manni í vandræði.

Í einhverjum ritdómi sem ég las var því haldið fram að eini boðskapur bókarinnar – sem líkt og leikri Luciens er allegóría fyrir Kongó, þar sem ofbeldi, nauð og stríð eru daglegt brauð – væri sá að maður ætti að drulla sér í burtu og segja einhverjum frá því sem maður upplifði. Taka til fótanna og segja sannleikann. Sjálfur býr Fiston í Graz í Austurríki, hefur slegið í gegn með þessari fyrstu skáldsögu sinni og er því kominn ansi langt í burtu, í mörgum ólíkum skilningi. Og hann segir frá – í ljóðum, leikritum og nú í skáldsögu.

En það er líka rómantík í Tram 83 – líka fegurð. Annar ritdómari talaði um smitandi ástríðuna sem hann sagðist þekkja sjálfur frá Kongó. Maður fær engan viðbjóð á Kongó við lesturinn (eða Borgarlandinu). Mann langar að vera þar, langar að vera í Borgarlandi bókarinnar. Hérna megin í raunveruleikanum – hérnamegin við blaðsíðuna – myndi maður samt líklega veigra sér við að fara í einhvern location túr í Kongó, einsog Tram 83 væri eitthvað Game of Thrones og Kongó Dimuborgir. Því þrátt fyrir ævintýralegar víddir, móðu og myrkur, þá finnur maður fyrir veruleikanum að baki.

Kannski er fegurðin – eða rómantíkin – að mestu fólgin í löngun hins firrta vesturlandabúa til að lifa hættulegra lífi. Kannski er sú löngun, sú rómantísering, aðferð til þess að réttlæta aðstöðumuninn – að hér skuli ég dunda mér við að ritdæma bækur með kaffibolla og nýbakað súrdeigsbrauð á náttbuxunum á meðan 12 ára stelpur selja sig rússneskum bissnissmönnum í Kongó.

Ég hugsaði strax í fyrsta kaflanum að Fiston væri einsog launbarn Kerouacs og Burroughs – rómantískur einsog Kerouac og svona brokkandi í prósanum, en líka sundraður, sturlaður og ofbeldisfullur á einhvern fjarlægan, afstöðulausan máta, einsog Burroughs. Sínískur og einlægur í senn. Einsog On the Road skrifuð í landslagi Naked Lunch (sem gæti reyndar líka verið lýsing á Fear and Loathing in Las Vegas; þótt sú bók sé talsvert ólík Tram 83). Bókin kallar líka oft fram djassinn sem ómar inni á Tram 83 og Fiston hefur sjálfur sagt – einsog bítnikkarnir, ekki síst Kerouac – að hann skrifi einsog djasstónlistarmaður.

„The great african novel“

Það hefur talsvert verið skrifað og sagt um að Fiston endurnýi afríska bókmenntahefð – skrifi sig út úr klisjunum (og því að vera „afrískur“ höfundur). Höfundar frá exótískum löndum, líkt Kongó (eða Íslandi) – höfundar sem standa til hliðar við miðevrópska, norður-ameríska bókmenntahefð, eða á jaðri hennar – eru oft fórnarlömb þeirra klisjukennda hugmynda sem heimurinn hefur um bókmenntir þeirra. Einhvers óríentalisma, einhverrar nýlendustefnu – stóri bróðir gægist inn og leitar „sérkenna“ annarra til þess að skilja sjálfan sig.

Þetta er mismikið milli þjóða – afríkumenn, s-ameríkumenn og asíumenn falla til dæmis allir saman í flokk, og að einhverju leyti norðurlandabúar líka (þótt það mengi sé augljóslega miklu minna) – rétt einsog það eru mismiklar og missterkar klisjur um þjóðir, og höfundar spila mismikið með – þótt það megi með einhverjum rétti fullyrða að þeir höfundar sem spila mest með njóti síðan mest fylgis erlendis.

Þ.e.a.s. þeir sem skrifa „íslenskustu“ eða „afrískustu“ bækurnar fá flesta lesendur útlendis, einfaldlega því fólk vill fyrst og fremst fá heimsýn sína og fordóma staðfesta – það er fróun í því, það fellur að sagnaminnunum í höfðinu á okkur, því sem fær heilann til að opna serótónínkirtlana og veita okkur lestrarnautn. Við föllum jafn léttilega fyrir „drykkfellda og þunglynda Finnanum“ og við föllum fyrir „ást í meinum“, Davíð vs. Golíat eða dularfullri ráðgátu. Lestrarnautnin sprettur ekki síst af þessari endurtekningu hins kunnuglega.

Play it again, Tram

Þetta er hugsanlega að breytast og er það vel. Mér finnst ég sjá því sífellt oftar fagnað að bók sé ekki „týpísk“ afríkubók eða „týpísk“ bók íslendings, konu, homma, garðbæings o.s.frv. Enda viljum við líka láta brjóta mótin og það er að einhverju leyti að komast í móð – sem skýrir hvers vegna svo mikil áhersla er lögð á það í kynningu á Tram 83 að hún sé óvenjuleg.

Það er heldur ekki svo að Fiston skrifi sig alveg frá hinni kunnuglegu Afríku; margt í Borgarlandsmyrkrinu minnir á aðra Afríku – ekki síst Tangers Burroughs, og sagnaminni Casablanca eiga áreiðanlega eitthvað í þeim rómantísku tilfinningum sem maður tengir við knæpulífið þar sem allir og frændi hans gætu stungið þig í bakið.  Þótt þar sé önnur stétt á ferð og auðvitað allir hvítir í báðum myndunum. Nema geimverurnar.

Það er eitthvað líka merkilega gamaldags við að skrifa djassskotinn stíl, slá á lyklaborð einsog maður hamrar og blæs í saxófón, a.m.k. ef það er metið út frá fyrrnefndri miðevrópskri og noðuramerískri bókmenntahefð. Mér skilst að vísu að maður missi af ansi miklu ef maður les bókina ekki á frönsku – tungumálið á henni er víst afar sérstakt, en um það get ég ekki borið merkilegt vitni.

Ég ætla samt að halda því fram að mikið af þessu endurnýjungartali um Fiston – að hann stígi út fyrir rammann – sé bull eða óskhyggja, a.m.k. að svo miklu leyti sem mér er óhætt að horfa þá framhjá tungumálinu. Ég hef engar forsendur fyrir því að meta hversu nýmóðins bítið sé í kongóskum bókmenntum en þessi heimssýn og þessi stíll eru hvorutveggja kunnugleg þótt þau séu kannski að birtast evrópumanninum mér úr nýrri átt.

Sem þýðir aftur ekki að þau séu ekki góð; ég er ekki að kvarta undan bókinni sjálfri heldur viðtökum hennar, klisjunum sem stokkið er á til að útskýra fyrir (aðallega vestrænum) bókakaupendum hvers vegna þeir eigi að kaupa hana. Þetta er sami markaður og reyndi að selja okkur aðra hverja bók sem „hinn nýja Da Vinci lykil“ og hina sem „hina nýju 50 Shades of Grey“ og vill núna einfalda ofan í okkur skáldverk með því að hún sé … hin nýja Americanah? (Varla er samt hægt að ímynda sér ólíkari bækur). Það er einhver svona afríkubylgja – og því ber að fagna, en því fylgir líka alls konar rugl og klisjubaggar. Og auðvitað hefði ég varla staldrað við hana sjálfur ef hún hefði verið markaðssett sem „bara svona, þú veist, bók – frekar góð meira að segja“. Kannski þarf bara húkk þótt húkkið sé vitleysa, svo maður hafi einhverja leiðarhnoðu í gegnum bókabunkana.


Tram 83 er í öllu falli frábær skáldsaga og væri það alveg jafnt þótt hún væri færeysk – vel skrifuð, ástríðufull, mennsk og full af bæði málakjamsi (líka á sænsku) og fílósóferandi perspektífi á heiminn. Kannski er afrek hennar fyrst og fremst fólgið í því að vera allegóría sem sleppur samt undan því að vera dæmisaga – vera lýsing á einhverju, fulltrúi fyrir eitthvað sem maður upplifir sem raunsatt og sársaukafullt, án þess að spinna sig í áttina að tilgerðri lausn.