NAZIFIER

Bertolt Brecht var Þjóðverji og samt ekki nasisti. Þvert á móti var hann and-nasisti, vegna þess að hann var kommúnisti. Á ákveðnu tímabili var það skringileg staða og lífshættuleg. Ógnin teygði sig norður á Atlantshafseyríkið okkar með ýmsum hætti: í fyrsta lagi var Hermann Jónasson forsætisráðherra í landinu mótfallinn því að veita þeim gyðingum nokkurt skjól sem leituðu þess á eyjunni svo þeir yrðu ekki drepnir af þýskum nasistum. Við sendum þá einfaldlega burt, í vísan dauða. Í öðru lagi varð hættan á því að Þjóðverjar hösluðu sér völl á hafinu með herstöð á eyjunni til þess að Bretar urðu fyrri til og gerðu þar innrás. Vinsamlega innrás, indæla innrás, en innrás engu að síður, sem breytti þar hugsanlega öllu. Í þriðja lagi var nokkuð fjölmenn nasísk hreyfing meðal íbúa eyjarinnar, og sennilega áhrifameiri en við höfum enn þorað að horfast í augu við: eftir innrás Breta rann hreyfingin saman við Sjálfstæðisflokk og virðist það hafa gengið að mestu friðsamlega.

Útbreidd – ekki algild en alltof útbreidd – samúð Íslendinga með nasistum, þolinmæði fyrir nasistum, varð til þess, meðal annars, að Þórbergur Þórðarson var kærður og dæmdur fyrir að smána erlent ríki með því að segja Adolf Hitler haldinn kvalalosta.

Eins og Brecht stóð Þórbergur í lappirnar. Eins og Brecht var Þórbergur kommúnisti. Fremur en Brecht var hann jafnvel þess háttar kommúnisti sem var ekki ljóst að kommúnistaflokkar myndu vilja kannast við. Það voru allir bestu kommúnistarnir. Þórbergur hafði hugsanlega ákveðinn fimleika fram yfir Brecht – að kunna að hoppa, hamast, teygja sig og reigja. Brecht hafði á móti stirðleikann fram yfir Þórberg: fræðilega hugsun, svolítinn aga, nokkuð skipulega framsetningu.

Meðal þess sem Brecht skrifaði um á þessum árum var mikilvægi þess, í baráttunni gegn nasisma, að vera vör um orðin sem við notum – að falla ekki fyrir orðum óvinarins. Í greininni „Fimm vandamál við að skrifa satt“ brýnir hann fyrir lesendum að fallast ekki á orðið Volk, þýskt orð yfir þjóð, sem nasistar hlóðu sínum eigin merkingaraukum, hugmyndum um blóðskyldleika, mystísk tengsl við landsvæði og fleira, og nota frekar Bevölkerung, sem mætti þýða sem byggð eða íbúa í landi – eitthvað hliðstætt við enska orðið population eða people. Ekki segja Boden – hlaðið á svipaðan átt og fósturjörð – heldur Landbesitz – landsvæði eða landareign. Ekki Ehre, heiður, heldur Menschenwürde, mannvirðing, o.s.frv.

Hliðstæða baráttu um orðin þekkja íbúar Íslands frá 20. öld, þegar sagt er að úrslit baráttunnar um herstöð Bandaríkjamanna hafi ráðist þegar orðið varnarlið náði yfirhöndinni gegn hinu gegnsærra, hefðbundnara orði: her.

Stundum er erfitt að gæta að svona greinarmun á íslensku, tungumáli sem varð ekki aðnjótandi þess hefðarrofs á síðustu öldum sem ýmis önnur tungumál nutu. Á ensku á fleirtölumyndin people sér nú eigin fleirtölu, peoples, sem samheiti yfir þjóðir, til þess gert að tala þó ekki um þjóðir, nations, með öllum hugrenningatengslum þess orðs um blóðskyldleika og annan óþarfa. Á íslensku er hvort tveggja orðið yfirleitt þýtt á sama hátt – þjóð. Orð byggð á stofnunum Nation eða Volk heyrast kannski hvergi jafn títt í opinberri umræðu og orð byggð á stofninum þjóð í íslenskum miðlum. Meira að segja society – fullkomlega þjóðlaust hugtak að uppruna og merkingu – er enn í dag þýtt á íslensku sem þjóðfélag. Að einhverju leyti má kenna um þeirri opinberu stefnu að íslenskri tungu skuli haldið sem líkastri þeirri sem bændur töluðu til sveita fyrir þúsund árum síðan, að hún hefur ekki alveg haldið í við samtímann. Ég er bara með tvær hendur segir fólk sem er krafið um fleiri verk en það ræður við – og á sama hátt erum við bara með eina tungu hvert. Maður gerir ekki allt í einu með henni.

Eitt alþjóðlegt viðmið í þessum átökum festi hins vegar rætur á Íslandi: nasistar fá ekki að ráða því sjálfir hvað þeir nefnast í opinberri umræðu. Orðið nazi er uppnefni á þeim sem vilja kalla sig national-socialist, þeim til háðungar sem vilja að sérviskuleg upphafning ætternis og húðar ráði samfélagsstöðu, skilji milli lífs og dauða. Þetta er mikilvægt uppnefni og heldur til haga þeirri fordæmingu slíkra hugmynda sem siðferðilega tæk stjórnmál grundvallast á.

Nú hefur birst einhver aulahópur, samsafn vegvilltra fábjána sem sameinast í nafni húðar sinnar, og segjast vilja afla sér fylgis á Íslandi. Þeir kalla stefnu sína „þjóðernis félagshyggju“. Latur prófarkalesari myndi segja þeim að bæta bandstriki milli orðanna. Skárri prófarkalesari leiðréttir orðið sjálft og bendir þeim á að í samfélagi siðaðra heitir stefnan nasismi.

Ef villunni er haldið til streitu myndi góður prófarkalesari auðvitað leiðrétta hana með mólotoff-kokteilum. Framúrskarandi prófarkalesari þarf aftur á móti ekki mólotoff-kokteila, því hann myndi efla mótstöðuafl tungumálsins gegn vanvitaskap með ótal aðferðum. Sú fyrsta væri hugsanlega að koma hinu merkilega riti LTI eftir Victor Klemperer, í frábærri þýðingu Maríu Kristjánsdóttur, á námskrá tíunda bekkjar og framhaldsskóla – jafnvel þó það væri á kostnað svolítillar málfræði eða utanbókarlærdóms þjóðskáldaljóða.

Chrome viðbót

Screenshot from 2016-08-05 07-15-13

Hér er einhverskonar tilraun til að leiðrétta villuna.

NAZIFIER fyrir Chrome

  1. Halið niður skránni, afpakkið á viðeigandi stað.
  2. Opnið chrome://extensions/ í Chrome.
    Screenshot from 2016-08-05 07-21-25
  3. Screenshot from 2016-08-05 07-16-19

    Hakið við Developer mode.

  4. Smellið á LOAD UNPACKED EXTENSIONS og veljið möppuna sem inniheldur NAZIFER.
  5. Njótið!

Tenglar:

Þýskur Brecht: http://www.gleichsatz.de/b-u-t/spdk/brecht2.html

Enskur Brecht: http://ada.evergreen.edu/~arunc/texts/theater/brecht/fiveDifficulties.pdf

LTI: http://haskolautgafan.hi.is/lti_lingua_tertii_imperii

http://nordurvigi.is