Heimaflakk í Víghólum eftir Emil Hjörvar Petersen

Bókin Víghólar (2016) eftir Emil Hjörvar Petersen fjallar um mæðgurnar Bergrúnu og Brá. Bergrún er huldumiðill sem vinnur af og til með lögreglunni við miðlun huldumála. Hún á í flóknu og erfiðu sambandi við tvítuga dóttur sína, Brá. Þær flækjast inn í lögreglurannsókn þegar lík fara að finnast víða um land við hóla sem nefndir hafa verið Víghólar og virðast tengjast vættum landsins. Bókin er mjög spennandi og samtvinnun fantasíu- og glæpasagnaformsins afar vel heppnuð.

Emil hefur áður gefið út trílógíuna Sögu eftirlifenda sem kom út í þremur hlutum á árunum 2010, 2012 og 2014 og ljóðabækurnar Gárungagap (2007) og Refur (2008).

Staða Víghóla innan fantasíugreinarinnar

Viðfangsefni Víghóla, milliheimaflakk, er nokkuð áberandi í þeim furðusögum sem komið hafa út nýlega. í Netflixseríunni Stranger Things (2016) sem kom út nú í sumar veldur græðgi tilraunaglaðra vísindamanna því að rifa myndast á milli hliðstæðra heima og skrímsli þaðan getur ferðast á milli með. Græðgin er einnig í forgrunni í BBC þáttaseríunni Jonathan Strange & Mr Norrell (2015) og samnefndri bók eftir Susanna Clarke (2004). Þar fara galdramenn á 19. öld framúr sér í græðgi sinni og viðleitni til þess að færa töfra aftur inn í okkar heim og flakka töluvert á milli heims Hrafnakonungsins og þess sem við þekkjum. Philip Pullman fæst við græðgina og milliheimaflakkið í trílógíunni His Dark Materials (1995, 1997, 2000) þar sem margir heimar eru til samtímis, þó sagan hefjist ekki í þeim heimi sem við þekkjum.

Í Víghólum er það ekki bara í yfirnáttúrulegu flakki á milli heima sem við verðum vör við mismunandi heima. Þar er líka dregin upp sýn af þeim einkaheimum sem við búum í, þar sem hver og einn skilgreinir heiminn og annað fólk út frá sinni sýn og það hvernig heimar sumra skarast lítið sem ekkert. Þetta á sérstaklega við í tilviki Bergrúnar og Bjarka, fyrrverandi eiginmanns hennar og föður Brár.

Í bókinni notast Emil við nokkuð útbreidda trú landsmanna á huldar vættir. Athygli vekur að því lengra sem rannsókninni miðar, því minna hefur Bergrún fyrir því að fela starf sitt og finnst best að koma hreint fram með hver hún er og að hverju hún leitar. Það kemur því á óvart að í flestum tilvikum svara viðmælendur hennar í sömu mynt og tala hversdagslega um þá vætti sem búa í nágrenninu:

„En þegar þú minnist á það heyrðum við heimafólkið mannamál og uml í nótt. Við töldum það vera fornmannadraugana sem heygðir voru við Húsá. Stundum stíga þeir úr dysjum sínum og höggva hver í annan, en hverfa svo aftur.” (bls. 389)

Þetta á sér þó fyrst og fremst stað eftir að komið er út á land enda eru dregin nokkuð skörp skil á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í Víghólum. Sá munur er undirstrikaður með þeim upplýsingum að fleiri vætti sé að finna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þar sé færra fólk, minni byggð og meira næði fyrir vætti. Þessi munur er auðvitað staðalímynd sem höfundur leikur sér að, mynd sem við verðum talsvert vör við í daglegu lífi, í fréttum og samræðum þar sem landsbyggðinni hefur verið stillt upp á móti höfuðborgarsvæðinu. Landsbyggðin er iðulega skilgreind neikvætt og sameinuð í staðinn sem er ekki höfuðborgarsvæðið, sem endurspeglast vitanlega í að allt utan höfuðborgarsvæðisins fær orð eins og um eina byggð sé að ræða; landsbyggðin, ein og einsleit en höfuðborgin er svæði, hverfaskipt og fjölbreytt.

Kynhlutverk

Í Víghólum er að finna flest þau klassísku mótíf sem einkenna bæði fantasíu og glæpasögu.

Hvað glæpasögugreinina varðar er aðalpersónan erkitýpa sem glímir við hefðbundin persónuleg vandamál rannsakandans; hún vanrækir sjálfa sig og þá sem standa henni næst, sýnir stórkostlegt innsæi í málinu sem liggur fyrir og leggur allt undir svo málið verði leyst.

Mikið er lagt upp úr kvenkyns sögupersónum og reynsluheimi þeirra án þess þó að þær verði staðalmyndir. Því til dæmis á Brá sér þann draum að teikna myndasögur, spilar tölvuleiki, skrópar í skólanum og hefur áhuga á fantasíu án þess að vera troðið í hið undarlega hólf, strákastelpuna. Hún býr hjá föður sínum, stjúpmóður og hálfsystkinum en er aðra hverja helgi hjá móður sinni, Bergrúnu huldumiðli.

Þrátt fyrir að vera alls engar staðalmyndir, mæta mæðgurnar samt samfélaginu sem konur. Á þeim er ekki tekið mikið mark, stöðugt er reynt er að taka fram fyrir hendurnar á þeim og reynt er að fá þær til að hlýða, úr öllum áttum. Lítið er gert úr getu þeirra og hæfileikum og þær eru ofsóttar, fyrst og fremst af karlmönnum. Einnig er einni kvenpersónunni byrluð ólyfjan af karlmanni, eitthvað sem gerist reglulega á skemmtistöðum landsins. Það má því segja að þeirri raunverulegu hættu sem fylgir því að vera kona sé gerð góð skil, ásamt þeim áskorunum og fordæmingu sem konur verða fyrir í starfi og fjölskyldulífi.

Hefðarveldið

Í klukkustund hefur Logi þulið upp ljóð og kvæði og gasprað linnulaust um heimsbókmenntirnar sem ég ætti að hafa kynnt mér. Sumt þekki ég, annað ekki, og ég skýt að stöku athugasemd eða spurningu. Hann hneykslast á því að ég hafi ekki enn lesið Kafka og tautar yfir því að ég hafi ekki kynnt mér suður-ameríska töfraraunsæið. Hamskiptin og Hundrað ára einsemd breyttu lífi hans.

„Og þú segist vera fyrir furðubókmenntir, firn og ankannalegheit! Hvað lestu þá einna helst?” spyr hann, maulandi lakkrísrúllu númer tvö. Hann býður mér þá síðustu sem ég þigg.

„Ég hef alveg kynnt mér sumt af því sem þú hefur nefnt. En ég hef til dæmis ekki gefið mér tíma til að kafa í James Joyce. Það kemur kannski að því einn daginn. Margt annað hef ég hins vegar dýft mér í. Fantasíur, vísindaskáldsögur, hrollvekjur …”

„En eru slík skrif ekki veruleikaflótti?” gjammar hann. „Er þetta ekki bara fjöldaframleitt afþreyingarefni?”

„Alls ekki.” Ég reyni að setja mig á hans plan. „Margir höfundar draga upp mynd af samvistum manna og vætta, aðrir ganga lengra í því sem við vitum um Hulduheim og Handanheim, spinna og bæta við. Reyna á þolmörk þess sem við vitum. Hvernig getur það verið veruleikaflótti? Hefurðu til dæmis lesið Le Guin og Miéville?” (bls. 240-241)

Logi er þarna ekki bara fulltrúi bókmenntahefðarinnar, heldur er hann karlmaðurinn, ljóðskáldið, fulltrúi feðraveldisins og hefðarinnar að tala niður til ungu konunnar. Og unga konan reynir að verja sig með því að setja sig á hans plan – til að ögra ekki um of og vera í framhaldinu tekin alvarlega – og fer með varnarræðu sem flestir unnendur fantasíu kannast við að hafa einhverntímann farið með.

Græðgi er órjúfanlegt mótíf í fantasíuskrifum og er oftar en ekki það afl sem raskar jafnvæginu sem er til staðar í upphafi sögu og Víghólar er engin undantekning. Hér sem endranær fara saman græðgi, persónulegir harmleikir og kapítalismi, meira að segja bandarískur. Yfirleitt er það svo að fantasían er sífellt í samtali við þann samtíma sem hún verður til í. Þó Tolkien hafi neitað því að Hringadróttinssaga hafi verið innblásin af og fáist við tilveruna á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar þá er það augljóst, hvort sem hann hafi gert sér grein fyrir því eða ekki. Það eru ýmis samtímamál sem brenna á höfundi og eru í forgrunni í Víghólum. Þar má nefna náttúruvernd, hverju sé í lagi að fórna til að virkja landið, orðræðan um okkur og hina, málefni flóttamanna og kynjamisrétti. Það er því engin tilviljun að höfundur velji að nota anarkistann Le Guin og Marxistann Miéville gegn hefðarveldinu.