Hve gröð er vor æska?

Nóvemberpistill um leikhús

Ef einhver getur ráðið úrslitum um hver framtíð mannkyns verður þá er það æskulýður heims, unglingar allra landa, ungmenni þjóða. Þetta á jafnt við um pólitík og listir. Það er æskan sem nú er sem skapar þá framtíð sem verður. Það er æskan sem ræður hvort kerfin fá að haldast óbreytt og þrengja að líkama og sál eða hvort þau molna niður undan átaki ungs og þróttmikils fólks sem þorir og getur tekist á við umhverfi sitt og breytt því til hins betra í þágu mannkyns alls.

Í aðdraganda hruns íslensku alþjóðabankanna voru allir svo graðir, jafnt miðaldra kallar og kellingar sem óharðnaðir unglingar og gamlar konur og ellihrumir karlmenn. Greddan var allsráðandi í máli og hugarheimi fólks enda orðið líkast til eitthvað sifjafræðilega og merkingarlega skylt gróða og græði. Að verða ríkur, vilja ná langt, láta að sér kveða svo eftir yrði tekið; þetta var markið sem ungir jafnt sem aldnir settu sér. Fá mikla peninga í handraðann og öðlast frægð. Að því beindist hugur flestra og hönd þeirra. Líka í listum.

Nú heyri ég ekki nærri eins mikið talað um greddu. Þetta veldur mér svosem ekki neinum áhyggjum en ég velti því fyrir mér hvar hún leynist heitust þessi glóð æxlunarfýsnarinnar sem er svo mikilvæg til þess að lífið haldi áfram og listir blómstri. Ég hef ekki endanlegt svar á reiðum höndum en hef fundið vísbendingar sem vert er að gefa gaum að.

Dadadans á Nýju sviði Borgarleikhússins

Það eru rétt í kringum eitt hundrað ár – heil öld – liðin frá því kampakátir ungir menn og konur komu saman á Cabaret Voltaire í Zürich og stofnuðu hreyfingu dadaista. Þessu fólki lá mikið á hjarta – það var alveg hjólgratt ef gripið er til orðræðu fyrirhrunsára. Styrjöldin mikla geisaði í Evrópu. Sumir segja að þetta hafi verið tilefnislausasta stríð allra alda og er þá langt til jafnað. Trúlega voru mörg önnur stríð jafn tilefnislaus en styrjöldin á árunum 1914 til 1918 var óhemju grimm og ungir menn – og konur – féllu og fórust umvörpum í skotgröfum og sprengjuárásum. Ekki bara í Evrópu heldur víða um heim allan og einhvern grun hef ég um að Afríku, þeirri eldheitu álfu, hafi kannski blætt allra mest. Svo mikið er víst að lönd og þjóðir um veröld alla voru í sárum meðan á styrjöldinni stóð og lengi á eftir.

Dadaistarnir litu svo á að þetta tilefnislausa stríð væri til þess eins háð að festa borgaralegt samfélag og smáborgaraleg gildi í sessi. Þeir réðust þess vegna gegn öllum hefðbundnum gildum og listina vildu þeir brjóta í smátt, tæta ljóðin og tónlistina í sundur, æpa og hrópa á torgum, kaffihúsum og í leikhúsum. Burt með borgarapakkið og kapítalismann og inn með frelsi í hugsun, listum, menningu og lífi. Drullum á skítinn og skítum í öllum regnbogans litum á drulluna.

dadarunthrough-55-1024x683Dansverk þeirra Ingu Huldar Hákonardóttur & Rósu Ómarsdóttur – í samvinnu við fleiri raunar samkvæmt leikskránni – sem frumsýnt var á Nýja sviði Borgarleikhússins fyrir miðjan nóvember sækir að sögn höfunda innblástur í hundrað ára afmæli dadaismans. Í Da da dansi, eins og verkið er nefnt, gætir ýmissa grasa sem benda til þess að kóreógraferar hafi stúderað sitt efni vel. Margar tilvísanir voru í abstrakt hugmyndir um vélgengni manns og veraldar, alls konar flottar myndir og mynstur mótuðust á sviðinu og hljóðgervilstónlist Sveinbjörns Thorarensen dundi og umdi undir og allt um kring. Hönnun leikmyndar, leikmuna, búninga, ljósa og danstakta var svo vel af hendi leyst að ég sá nánast engin feilspor þar á. Dansararnir allir fimir og frjálsir í sinni túlkun svo unun var á að horfa.

Á undan sýningunni var boðið upp á forleik í forsal Borgarleikhússins. Sá gjörningur hófst um það bil klukkan 20.07 þegar gestir á aðrar sýningar hússins, hinn geysivinsæla söngleik Mamma mia og hjónabandsvandræðaleikrit Ingmars Bergman, voru gengir til sæta sinna og leikurinn hafinn á Stóru og Litlu sviði hússins. Glaðvær mannþröngin í forsalnum var á bak og burt og grafalvarlegir áhorfendur að danssýningunni þjöppuðu sér saman við innganginn að sal Nýja sviðsins þar sem komið hafði verið fyrir leikpalli með baksviðsmynd sem minnti á dadaisma. Allir viðstaddir hegðuðu sér afskaplega prúðmannlega og enginn gerði neitt sem ekki hefði verið við hæfi í allra fínustu samkvæmum. Nema einn prófessor sem steig upp á setbekk nokkurn til þess að sjá og heyra betur það sem fram fór. Eftir á að hyggja var sá gjörningur trúlega það dadaískasta í þessari uppákomu og ég varð fúll út í sjálfan mig að hafa ekki orðið á undan Stefáni Jónssyni til að stíga upp á bekkinn því einmitt þar sem hann stóð hafði ég setið örskömmu áður.

Í gegnum mannþröngina sá ég dönsurum bregða fyrir og ungur maður með dadahatt fór með merkingarlitlar samstöfur í dadaískum stíl. Svo steig prófessor úr Háskóla Íslands upp á leikpallinn og flutti af munni fram eitt af manifestóum dadaistanna. Þetta var Benedikt Hjartarson bókmennta- og menningarfræðingur. Rödd hans er ekki þjálfuð til svona verka og barst fremur illa um óhentugt leikrýmið. Mér fannst þó enn lakara að manifestóið sem Benedikt flutti var ekki sérlega kraftmikið, fjallaði að því er mér heyrðist mest um merkingarþurrð orðanna og vandræðagang tungumálsins. Dadaistarnir áttu engan einkarétt á svoleiðis pælingum árið 1916, Saussure var að því er ég best man búinn að benda á margræðni og óræðni merkingar í tungumáli nokkru fyrr og allar götur síðan hafa menn spreytt sig á því að segja með orðum hvað orð eiga erfitt með að öðlast fulla og einarða merkingu. Dadaistarnir létu í sínum stefnuyfirlýsingum frá sér fara mun kröftugri og graðari ummæli en þau sem Benedikt flutti og það hefði verið meira töff að brúka eitthvað af þeim í svona gjörningi ef fólk vildi halda í þessa kynningarhugmynd á dadaisma.

Best hefði verið að sleppa þessum vandræðalega forleik og leyfa fólki að fara með óspjallaðan hug og hjarta inn í salinn til þess að njóta vandaðrar sýningar á sviðinu. Ég trúi því að hefðu menn bara borið út þetta óskabarn sitt og leyft því að deyja í hugmyndahafinu hefðu áhrifin af dansinum sjálfum orðið sýnu dadaískari en raunin varð. Hafi listrænir stjórnendur óttast útburðarvæl hugmyndarinnar og ólmir viljað halda í henni lífi hefði verið mun kröftugra – og dadaískara – að byrja forleikinn miklu fyrr á meðan forsalurinn var fullur af fólki og ögra í þessum gjörningi markaðsmenningarleikhúsinu með ópum og köllum, hrópum og heitingum. En kannski má ekki gera svoleiðis því að Borgarleikhúsið er auðvitað háð sínum borgurum og má þess vegna ekki við því að stuða þá sem hafa borgað sig inn á sýningar og vilja ótruflaðir af dadaískri greddu fá að gleyma sjálfum sér stundarkorn við skemmtisöng og smáskammta af hjónabandssálfræði Bergmans.

Óttastu ekki leigumarkaðinn Stóri-Björn

Miðvikudagskvöldið 9. nóvember var mikil eftirvænting í hinum litla forsal Kassa Þjóðleikhússins við Lindargötu. Gesti dreif að og það var áberandi hve flestir þeirra voru ungir og ákafir, reifir og kátir. Í vændum var árleg sýning Ungleiks á fimm völdum verkum höfunda á aldrinum 16 til 25 ára og aðrir aðstandendur sýninganna, leikarar, leikstjórar og aðrir listrænir stjórnendur voru að því er ég held allir á þessum sama aldri.

Ungleikur er hluti af Unglist og mun sú starfsemi njóta einhverra fjárhagsstyrkja frá Reykjavíkurborg. Hugmyndin er sú að ungir listamenn fái tækifæri til þess að láta reyna á verk sín í sem fagmannlegustu umhverfi. Ungleikir undanfarinna ára hafa ýmist farið fram á Nýju sviði Borgarleikhússins eða í Tjarnarbíói. Þetta var því í fyrsta sinn sem Þjóðleikhúsið hýsti þennan viðburð og Kassinn við Lindargötu umfaðmar fallega svona gjörning, hrár og hráslagalegur eins og hann er varð þetta rými að sjóðheitum útungunarkassa.

Að þessu sinni hafði nýr formaður, Unnur Agnes Níelsdóttir, tekið við stjórnartaumum af frumkvöðlum Ungleiks og þessi unga listahátíð fengið listrænan stjórnanda sem heitir Þorvaldur Sigurbjörn Helgason. Bæði eru þau menntuð á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Og þau voru frjálsleg og fagmannleg þar sem þau stóðu uppábúin á sviðinu og kynntu af einskærri gleði leikatriðin sem sýnd voru og kærleikurinn til listarinnar beinlínis streymdi frá þeim.

ungleikur2Alls voru sýnd þetta kvöld fimm stutt leikrit eftir jafnmarga höfunda. Leikarar í hverju verki voru mismargir en það var fríður og föngulegur hópur sem stóð á sviðinu í sýningarlok og tók við innilegu þakklæti leikhúsgesta. Mér er ógerningur að gera upp á milli þessara fimm verka. Þau voru innbyrðis ótrúlega ólík og margbreytt þótt efnin sem höfundar unnu með ættu það vissulega sammerkt að tengjast því sem ungu fólki er hugleikið, framtíð mannkyns og jarðar og aðstæðum ungrar kynslóðar til þess að fá að þroskast og elska á þann hátt sem það sjálft kýs. Í þessa sýningu skorti hvergi greddu og góðan skammt af eðlilegri æxlunarhvöt og það var óskaplega gaman að verða vitni að þessari mjög svo vel unnu sýningu. Það er nokkur lenska hjá sumum krítíkerum og leikhúsgestum sem komnir eru á miðjan aldur og þaðan af eldri að vera alltaf að kvarta undan óskýrri framsögn ungra leikara. Ég er reyndar ekki sérstaklega illa haldinn af þessum kvörtunarkvilla því að ég heyri oftast ágætlega það sem ungir íslenskir leikarar segja á leiksviði. Og þetta kvöld í Kassanum kvað hvert orð Ungleiks við af skörungsskap og skýrleika svo jafnvel mestu nöldrararnir hefðu ekki getað kvartað undan þeim þætti sýningarinnar.

Þótt ég hvorki vilji né geti metið eitt þeirra verka sem sýnd voru þetta kvöld umfram önnur þá voru tvær replikkur úr leikritunum sem sátu lengur í huga mér en aðrar. Önnur þeirra hljómar svo: Óttastu ekki leigumarkaðinn Stóri Björn. Hin er svona: Gerum eitthvað allt annað en stendur í handritinu. Mikið hefði verið gaman og gratt ef hinn vel menntaði listafólkshópur sem stóð að Da da dansinum hefði haft þetta mottó um brot á hefðum og handritum að leiðarljósi. Um Stóra Björn og leigumarkaðinn þarf ég held ég ekki að segja nokkurn skapaðan hlut. Það er svo augljóst hvað átt er við og auk þess kryddað með ögn af dadaískri nálgun sem okkur veitti ekki af að fá meira af í íslensku leikhúsi.

Glóðin og greddan er semsé fólgin í þessu unga Ungleiksfólki sem flest mun nú stunda nám í hinum ýmsu mennta- og framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, auk einhverra sem eru að fóta sig ýmist í akademíunni á Melunum eða hinni við Sölvhólsgötuna. Frammistaða allra sem að Ungleik stóðu ber kennurum þeirra fagurt vitni því að enginn sprettur alveg tilsagnarlaust fram sem höfundur, leikstjóri eða leikari.

Leikritin sem Ungleikur sýndi að þessu sinni voru:

  • Haglabyssu hjónaband eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur,
  • Hinn blóðugi máni eftir Regin Tuma Kolbeinsson,
  • Leikrit (hashtag)3 [tölvan mín er svo gömul að ég finn hvergi nokkurs staðar þetta hashtagtákn] eftir Stefán Gunnlaug Jónsson
  • 101 eftir Viktoríu Rún Þorsteinsdóttur og
  • Stóri Björn og kakkalakkarnir eftir Matthías Tryggva Haraldsson.

Höfundarnir leikstýrðu sínum eigin verkum nema hvað Ingimar Bjarni Sveinsson leikstýrði Haglabyssu hjónabandi og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir setti Stóra Björn og kakkalakkana á svið. Nánari upplýsingar um verkin, leikara og myndir úr sýningunum er að finna á facebooksíðu Unglistar og Ungleiks.

Það verður önnur sýning á verkunum fimm í Tjarnarbíói 28. nóvember. Mér finnst að allir þeir sem halda um sjóði sveitarfélaga og ríkis ættu að fara og sjá þá sýningu því að svona jákvæðri greddu þarf að hlúa að og gefa svigrúm með því að styrkja hana fjárhagslega úr opinberum sjóðum. Orka af því tagi sem er í Ungleik skapar nefnilega betri heim og bjartari framtíð fái hún réttan farveg að streyma um. Og vandræðin minnka því glóðheit hormónin fá skapandi vettvang að gleðja sig við og þroskast á.

Áfram Ungleikur!