Þrjú ljóð úr bókinni Hamingjan leit við og beit mig eftir Elínu Eddu.
Læknir
Áttu einhver lyf
sem breyta mér í
rólegan hlyn
eða kaktus
sem er umlukinn tónlist?
Eða er það eitthvað
sem tíminn breytir mér í
smátt og smátt?
Sólmyrkvi
Mér var sagt
að það væri von á sólmyrkva í dag.
Sólmyrkva sem liti út
eins og samþjöppuð hamingja.
Svo skínandi, skínandi björt
fyrir óreynd augu.
Mér var sagt að líta ekki upp.
Þriðjungur fær varanlegan augnskaða.
Hamingjan leit við á himninum í dag
en ég leit ekki upp.
Ég stóð fast í fæturna og dró fyrir
en hamingjan náði að narta í augnbotninn
gegnum rifuna á gluggatjöldunum.
Hamingjan leit við á himininum í dag.
Hamingjan leit við
og beit mig
í dag.
Stefnuleit
Kjarni epla
er harður.
Kjarni lífsins
er harðari.
Þess vegna
á að bíta laust í kring
og mæta hörðu með mýkt.
Tennur vita
margt.
Þær kenna mér
eitt og annað:
Bíta saman.
Stefnan er
einhvers staðar
á milli okkar.