Frábær plata

Platan Brot með Svavari Knúti byrjar á alveg frábæru lagi þar sem Svavar setur tóninn og gerir áheyrandanum ljóst að í þetta skiptið ætlar hann að teygja sig lengra í útsetningum og soundi en hann hefur áður gert. Ég þekki ekki vel til annarra verka Svavars, nema það sem ég hef heyrt úr útvarpinu á undanförnum árum, en mér finnst skemmtilegt að hér syngur hann bæði á íslensku og ensku og er annað lagið á plötunni hið yndislega The Curtain eftir hann og Evu Hillered. Hér syngur Marketa Irglová með Svavari unison (sömu laglínu) sem kemur alveg ótrúlega vel út. Frábær byrjun á plötunni.

Girl from Vancouver er úkulele lag, en úkulele-ið hefur verið Svavari kært um langa tíð. Ég persónulega er orðinn svolítið þreyttur á því og þess vegna læddist að mér smá „oooh… ekki meira úku“ en Svavar sneri á mig – inn kemur hljómsveit í fullum skrúða og færir lagið í fallegan hljóðheim og slagverksútsetningin fær mann til þess að gleyma úkúlele-inu. Ágætt úkú-country, flott útsetning.

Ástarsaga úr fjöllunum. Mjög flottur og áreynslulaus gítarleikur setur allt niður á rólegt og þægilegt tempó. Flottar raddpælingar. Það er augljóst að Svavar og pródúsentinn Stefán örn hafa sett mikinn haus í útsetningar á þessarri plötu, Kristjana Stefáns gestar hér fallega og mikið aukaskraut er í laginu – en í engu ofgert, bara akkúrat.

Og svo loksins, trúbadúrinn syngur og spilar á gítar, Bátur biður. Mjög fallegt lag og einlægt.

Little things er síðasta lagið á hlið A.

Hlið B opnar á Wanderlust. Þéttur lágvær hljóðheimur undir bjartri og einlægri rödd Svavars. Í Wanderlust notar hann kór til þess að ýta undir hið auðmeðsyngjanlega viðlag. Hér verður enn ljósara en fyrr, til hversu mikillar fyrirmyndar öll hljóðvinnslan er.

Þokan er lag eftir Svavar og hinn færeyska Marius Ziska sem syngur líka með honum í laginu. Dúettinn kemur afar vel út. Marius hljómar svolítið eins og Högni Egils sem mér finnst flottur kontrast við bjarta rödd Svavars.

Allt fram að næsta lagi hef ég upplifað plötuna sem verk einhvers amerísks singer/songwriter höfundar, upplifað hana einhvernveginn international en Svavar kippir mér aftur heim til Íslands með laginu Úlfar, þar sem hann syngur fallega til sonar síns Úlfars. Ágætt lag, fallega væmið.

Síðasta lag plötunnar er Slow dance. Það er hrikalega gott eftir tvær hliðar af þægilegu gítar soundi að kveðja með áheyrandann með ruslaralegum overdrive gítar og Radiohead útsetningar-pælingum.

Svavar Knútur er oft fyndinn og kíminn en hér kemur það hvergi fram, á Broti framreiðir hann einfaldlega fallegar melódíur í framúrskarandi útsetningum, án gríns og glettni. Þetta er frábær plata.

ps. Svavar fær svo extra stig fyrir að framleiða tónlistina sína á vinyl, ég er vinyl nörd svo nálin fékk að dansa. Takk fyrir það.