MAR: Ískaldur raunveruleiki

 

Höfundar: Kári Viðarsson, Hallgrímur H. Helgason.
Meðhöfundar: Birgir Óskarsson, Freydís Bjarnadóttir
Leistjóri: Árni Grétar Jóhannsson
Leikarar: Freydís Bjarnadóttir, Kári Viðarsson
Hönnun hljóðmyndar: Ragnar Ingi Hrafnkelsson
Hönnun sviðsmyndar: Kári Viðarsson
Hönnun lýsingar: Friðþjófur Þorsteinsson, Robert Youngson
Hönnun veggspjalds: Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Leiksýningin MAR sem sýnd er í Frystiklefanum Rifi um þessar mundir segir frá tveimur sjóslysum. Annars vegar þegar togarinn Elliði sökk út af Öndverðarnesi í febrúar 1962 og hins vegar þegar trillan Margrét sem hvarf í júlí 1997.

Öðru megin á sviðinu er leikin atburðarás þar sem loftskeytamaðurinn, Birgir Óskarsson (Kári Viðarsson), á sökkvandi togaranum Elliða stendur í ströngu við að ná og halda sambandi við björgunaraðila sína. Rólupallur þjónar hlutverki loftskeytaklefans og á honum eru móttakari og sendir. Pallurinn vaggar til og frá, þeim mun meir eftir því sem nær dregur að skipið fari niður og vatn sturtast í takt við ágjöfina sem sífellt verður meiri. Hinu megin á sviðinu segir Freydís Bjarnadóttir, fósturdóttir annars sjómannsins sem fórst með trillunni Margréti, frá reynslu sinni af því að pabbi hennar týndist í hafi í orðsins fyllstu merkingu og rifjar upp minningar um hann. Hún er stödd í rými með útvarpi og standlampa; stofunni á æskuheimili sínu. Sjónum áhorfenda er beint til skiptis að þessum tveimur stöðum á sviðinu og einföld og upplýsandi samskipti eiga sér stað þar á milli. Eins má lesa samtal þegar neyðarblysunum þremur er skotið á loft úr Elliða, þá er eins og þau kveiki ljós á minningum Freydísar. Þrjú blys, þrjár minningar, eins og hjá litlu stúlkunni með eldspýturnar sem hvert barn grætur yfir. Og áhorfendur gráta í Frystiklefanum. Finna fyrir samlíðan með unglingnum, fjölskyldunni og samfélaginu sem missir og hefur misst menn, eiginmenn og feður í hafið.

Sýningin byggir á mjög persónulegri reynslu í tilfelli Freydísar og erindi hennar við áhorfendur er einfaldlega að deila með þeim þeirri reynslu sinni. Hún rifjar upp tilfinngar og sorg unglingsins sem missir pabba sinn og hún rifjar upp hversdagslega hluti eins og unglingafýlu sem í ljósi reynslunnar fær ógnarvægi við það eitt að vera hluti af síðustu samskiptum hennar og pabba hennar.
Frásögn hennar er lágstemmd, einlæg og stælalaus. Sú staðreynd að Freydís segir sjálf frá en ekki leikari í hlutverki hennar gefur sýningunni ákveðna hlýju en vitnar um leið um ískaldan raunveruleikann. Af slysinu sjálfu og þeirri atburðarás sem átti sér stað um borð í Margréti eru engar heimildir til enda hvarf trillan eins og áður segir og týndust með henni mennirnir tveir. Þögnin af slysinu er napurleg og sorgin sem situr í hjarta Freydísar skerandi. Hér er ekkert verið að leika neina dramatík, þess þarf ekki.
Frásögnin um slysið á Elliða byggir á upptökum af samskiptum úr loftskeytaklefanum og viðtölum við loftskeytamanninn Birgi. Hér er heldur ekki verið að prjóna við neina útúrdúra eða skálda upp tilfinningar á sviðinu. Staðreyndirnar tala sínu máli. Kári Viðarsson leikur á móti upptöku úr radíóinu þar sem skruðningar og bjögun eru til staðar rétt eins og verða vill þegar skilyrðin eru ekki ákjósanleg. Það er skringilega undirliggjandi spenna í þessum samskiptum. Áhorfandinn veit allan tímann, í það minnsta sá sem hefur kynnt sér leikskránna, að 26 af 28 manna áhöfn Elliða bjargaðist og hægt að tala um björgunarafrek. En maður fylgist spenntur með allan tímann hvernig þessu vindur fram: Af hverju sendir útvarpið ekki út tilkynningu strax? Nær Elliði sambandi við Júpiter? Nær Júpiter til Elliða í tæka tíð? Hvernig í fjandanum geta menn athafnað sig í myrkri, kulda og djöfulganginum í öldunum? Þetta leikhús sýndi svo sem ekkert af þessu og var meira að segja mjög einfalt hvað varðar sviðs-, ljós- og hljóðmynd. En frásagnarkrafturinn gerði áhorfendum kleift að upplifa allt þetta innra með sér og hávaðarok og rigning sem skók Frystiklefann jók enn á upplifunina sem og sú staðreynd að skipskaðarnir báðir áttu sér stað svo skammt frá sem raun ber vitni.

Hægt er að tala um frásagnar- og heimildaleikhús þegar rætt er um sýninguna Mar en staðreyndin um nálægðina bæði í efni og anda er helsti styrkur hennar. Að segja frá því sem hjartanu er nær skiptir hér máli og erindið er afmarkað og skýrt.