Lestrarhestum þarf að ríða út: Langþráð lestrarskýrsla ársins 2014

10322637_10152324614598174_7447367314726683803_n

 

Þótt þegar séu liðin fáein prósent af árinu 2015 langar mig að birta hérna örlitla (kannski, kemur í ljós) lestrarskýrslu fyrir árið 2014. Þetta kemur ekki síst til af þeirri staðreynd að síðastliðið ár var árið þar sem ég hysjaði upp um mig buxurnar sem lesandi og tók á sprett á nýjan leik sem viljugur lestrarhestur.

Ég hafði sumsé orðið latur lesandi og ákvað að gera eitthvað í málunum. Hvað gerði ég? Ég nýtti tæknina og sítenginguna sem öpp og alltumlykjandi nettengingar bjóða upp á. Á sáraeinfaldan hátt.

Ég útbjó skjal í Word og nefndi það LESLISTI 2014. Skjalið setti ég í rótina á Dropbox-möppunni minn og svo hlóð ég niður samnefndu appi í minn takmarkaða LG-snjallsíma. Þetta gerði að verkum að alltaf þegar mér datt í hug gat ég uppfært eftirtaldar þrjár tegundir upplýsinga um lesturinn:

LESNAR BÆKUR

HÁLFLESNAR BÆKUR

NÆSTAR Á DAGSKRÁ

Þetta var hin „mikla“ bylting. Aðrar leiðir eru vitanlega færar, t.d. hef ég verið fræddur um að á síðunni Good Reads sé þetta allt saman gert og meira til (stjörnugjöf og ábendingar). Enn önnur leið væri enn einfaldari, sérstaklega fyrir ötula samfélagsmiðlendur: Að búa til eins og eina glósu á Facebook og vista hana sem uppkast.

Lykilatriðin eru eiginlega bara tvö: Leslistinn þarf að vera aðgengilegur, öllum stundum, og hann þarf að vera nógu einfaldur til að þú notir hann.

„Af hverju ætti ég að standa í þessu?“ Þannig gætirðu spurt. Og svarið er: „Vegna þess að það skiptir máli að halda takti, líka sem lesandi. Það skiptir máli hvaða bók maður les næst. Og líka vegna þess að maður man ekki nokkurn skapaðan hlut stundinni lengur, ekki einu sinni eftir áhugaverðum bókum.“

Niðurstaðan varð sú að árið 2014 las ég miklu meira en áður, en það besta var samt að ég fann aftur lestrarþorstann og þörfina til að lesa eitthvað á hverjum einasta degi.

Ég varð aftur virkur lesandi – innan frá.

***

Neðst í pistlinum er að finna lista yfir allar bækurnar sem ég las árið 2014, nokkurn veginn í réttri röð, en þær urðu 36 talsins. Til að taka þetta örlítið saman eru hér nokkrir verðlaunastimplar – til gamans:

BÓK ÁRSINS: Hjarðljóð úr Vesturbænum eftir Svein Yngva Egilsson

NÝLIÐAR ÁRSINS: Herman Koch og Halldór Armand (Vince Vaughn í skýjunum)

VONBRIGÐI ÁRSINS: Sannleikurinn um mál Harrys Quebert og Colorless Tsukuru Tazaki and His Years of Pilgrimage

ENDURUPPGÖTVUN ÁRSINS: Þrjár eldri skáldsögur eftir Paul Auster, Invisible, Brooklyn Follies og Oracle Night

Og hvernig byrjaði svo árið 2015? Jú, nefnilega þannig að ég fékk lánaða Karitas – án titils eftir Kristínu Marju (hún hefur lengi verið næst á dagskrá). Bókin sú er feiknarvel skrifuð og togar allrækilega í mann … en af mjög sérstökum ástæðum framlánaði ég hana (!) og tók því niður úr hillunni bókina All Families Are Psychotic eftir Douglas Coupland.

Hún lofar svo sannarlega góðu.

Rétt eins og lestrarárið 2015 lofar góðu, því þar er ég harðákveðinn í að lesa fleiri en þrjátíu og sex bækur.

 ***

LESNAR BÆKUR ÁRIÐ 2014

  1. Fiskarnir hafa enga fætur – Jón Kalman
  2. Sigrún og Friðgeir – Sigrún Pálsdóttir
  3. Kära Agnes – Håkan Nesser
  4. Illska – Eiríkur Örn
  5. Tilvistarstefnan er mannhyggja – Sartre
  6. Vince Vaughn í skýjunum – Halldór Armand Ásgeirsson
  7. Sumarhús með sundlaug – Herman Koch
  8. Haruki Murakami and the Music of words – Jay Rubin
  9. Bréfberinn – Antonio Skármeta
  10. Kvöldverðurinn – Herman Koch
  11. Ég heiti Aram – William Saroyan
  12. Náttúruleg skáldsaga – Georgi Gospodinov
  13. Wild Sheep Chase – Haruki Murakami
  14. Sannleikurinn um mál Harrys Quebert – Joel Dicker
  15. The Empty Space – Geetanjali Shree
  16. Suðurglugginn – Gyrðir Elíasson
  17. Colorless Tsukuru Tazaki and His Years of Pilgrimage – Haruki Murakami
  18. Endurkoma Maríu – Bjarni Bjarnason
  19. Bónusstelpan – Ragna Sigurðardóttur
  20. Gefið hvort öðru … – Svava Jakbosdóttir
  21. Andlit – Bjarni Bjarnason
  22. Jójó – Steinunn Sigurðardóttir
  23. H h h h – Laurent Binet
  24. Glæpurinn – Árni Þórarinsson
  25. Flugur – Jón Thoroddsen
  26. Mánadúfur – Einar Ólafsson
  27. Snjóblinda – Ragnar Jónasson
  28. Styttri ferðir – Ýmsir höfundar
  29. Hjarðljóð úr Vesturbænum – Sveinn Yngvi Egilsson
  30. Pippi Langstrump – Astrid Lindgren
  31. Smásögur – Svava Jakobsdóttir
  32. Flugan sem stöðvaði stríðið – Bryndís Björgvinsdóttir
  33. Leið – Heiðrún Ólafsdóttir
  34. Invisible Auster – Paul Auster
  35. Brooklyn Follies – Paul Auster
  36. Oracle Night – Paul Auster