Við svofelld annarleg orð

Um bókina Fjögur skáld – upphaf nútímaljóðlistar á íslensku eftir Þorstein Þorsteinsson

Nýtt rit um nútímaljóðlist eftir Þorstein Þorsteinsson sætir óneitanlega tíðindum og er fagnaðarefni af að minnsta kosti tveimur ástæðum. Sú fyrri er að síðast þegar hann sendi frá sér bók var það jú Ljóðhús, stórt og mikið verk um skáldskap Sigfúsar Daðasonar, sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita árið 2007 og hlýtur einfaldlega að teljast ein heildstæðasta úttekt á framleiðslu mikilvægs íslensks 20. aldar skálds sem rituð hefur verið. Undirritaður var þá kominn með bókmenntaveiruna í blóðið fyrir ekki svo löngu, var sjálfur farinn að prófa sig áfram við skrif og tók þeirri bók því ekki aðeins fegins hendi, heldur gleypti hana í sig. Seinni ástæðan er sú að svona ljóðagreiningarbækur virðast svo sjaldgæfar í íslenskri bókaflóru að við, sem höfum þetta skringilega áhugamál, getum vart annað en glaðst yfir hverri nýrri sem bætist í hópinn.

Í Fjögur skáld – upphaf nútímaljóðlistar á íslensku er Þorsteinn á svipuðum slóðum og í Ljóðhúsum en fer í þetta sinn aftur fyrir Sigfús og hin atómskáldin í tíma, til þeirra skálda sem fyrst ruddu módernismanum braut á Íslandi. Bókin er í grunninn safn nokkurra áður birtra ritgerða um þessa brautryðjendur. Hún samanstendur af einni ritgerð um Jóhann Sigurjónsson og Jóhann Jónsson hvorn; tveimur um Halldór Laxness, annarri um „Únglínginn í skóginum“ og hinni um nokkur styttri ljóð Halldórs frá svipuðu skeiði; og loks tveimur, eða einni langri í tveimur hlutum, um Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr. Það skal strax tekið fram að sá sem þetta ritar er enginn fræðimaður á þessu sviði og er því ekki þess umkominn að leggja fræðilegan dóm á bók Þorsteins. Hann getur hins vegar brugðist við henni sem svokallaður almennur lesandi með áhuga á ljóðlist.

Í formálsorðum lýsir Þorsteinn ásetningi sínum. Hann segir ritgerðirnar „mega kallast tilraun til endurmats á nokkrum kvæðum fjögurra merkra skálda frá fyrri hluta tuttugustu aldar“ og tilefnið sé að „[þ]að hefur verið grunur minn alllengi að kvæðin hafi í veigamiklum atriðum búið við rangt mat í íslenskri bókmenntasögu sum hver“ en höfuðástæða þess sé að hans dómi:

ónóg þekking á aðferðum samanburðarbókmennta, einkum og sér í lagi á eðli bókmenntagreina – ljóðtegunda – og mikilvægi þeirra fyrir skilning og bókmenntasögulega greiningu. Afleiðingin er sú að eyrnamerkja ljóðin evrópskum ismum frá öðrum og þriðja áratug aldarinnar enda brutu þau flest greinilega í bága við íslenskar ljóðhefðir, en sá lykill gengur þó yfirleitt ekki að þeim (bls. 7).

Óhætt er að segja að Þorsteinn efni þennan ásetning vel, sérstaklega þegar að því kemur að hrekja meint ætterni kvæðanna. Manni hefur löngum þótt eitthvað bogið við merkimiðana sem hengdir hafa verið á sum þeirra. Eða hví er „Únglíngurinn í skóginum“ til dæmis sagður vera expressjónískur eða súrrealískur? Af hverju er „Söknuður“ Jóhanns Jónssonar kenndur við expressjónisma? Það þarf ekki djúpa þekkingu á þeirri stefnu til að sjá að hvorugt ljóðið á mikið skylt við verk Benn, Trakl, Lasker-Schüler og félaga; það ætti að duga að grípa niður í einhverju góðu yfirlitsriti, til að mynda Poems for the Millennium 1, til að sjá að líkindin eru hverfandi. Eins og Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur hefur fært rök fyrir – og sem Þorsteinn vitnar til, góðu heilli – þá er lítið að marka slíka merkimiða þegar þeir koma frá skáldunum sjálfum 2 . Þegar íslenskir rithöfundar á borð við Laxness og Þórberg Þórðarson notuðu svona ismaheiti um eigin verk gerðu þeir það svo frjálslega að þau verða í raun víxlanleg; það sem þeir eiga við þegar þeir bregða þeim fyrir sig er í raun: „Þetta er það sem er nýtt og ferskt í útlöndum og ég er fulltrúi þess“. Þetta skiptir auðvitað máli að hafa á hreinu vegna þess að þessi hugtök eru ekki bara eitthvert skraut, þau eiga sína sögu og pólitísk-estetísku hugmyndafræði, sem skáldin annaðhvort aðhylltust eða ekki. Ef hægt er að sýna fram á rétt ætterni ljóðanna gæti það því mögulega sagt okkur eitthvað nýtt um upphaf íslenskrar nútímamenningar og væri þá til nokkurs unnið.

Í formálsorðum kemur einnig fram að upphaflega hafi Þorsteinn ætlað að hafa rannsókn sína ítarlegri en verið synjað um styrk til þess, m.a. á þeirri forsendu að hann hafi ætlað sér að framkvæma hana að hætti nýrýni eða New Criticism. Í stað þess að hljóta styrkinn hafi honum verið ráðlagt að nota aðrar og nýrri aðferðir, svo sem strúktúralisma, póst-strúktúralisma, síðnýlendufræði og sálgreiningu, sem sagt það sem stundum er einfaldlega kallað þeoría eða jafnvel póst-módernismi. Þetta svar hafi Þorsteini þótt hjákátlegt og ýjar hann að því að þeoría sé nú á undanhaldi í fræðaheiminum, þótt svo að styrkveitingarnefndin hafi máski ekki verið búin að frétta það. Raunar læðist að lesandanum sá grunur, eftir því sem lestrinum vindur fram, að Þorsteini sé ef til vill eitthvað í nöp við þeoríu, þó ekki verði svosem lesin mikil árásargirni í þá veru út úr afslöppuðum, góðlátlegum og einkar læsilegum stíl hans. Og þá er eins og rifjist upp fyrir manni að Ljóðhús, sem ritdómari hefur því miður ekki við höndina, hafi verið sama marki brennd, þ.e. að hún hafi innihaldið nokkrar pillur í garð þeoríu, eða kannski frekar í garð þeirra sem hafa beitt eða misbeitt henni. Nú má eflaust finna ófá dæmi um slíkt, en sínu hvimleiðari ósiður er þó þeoríuhatur. Það er ekki meiningin að væna Þorstein um þann löst né endurvekja deiluna um póst-módernisma (nóg var nú skrifað um þetta í Lesbókinni í gamla daga), en hjá mörgum jaðrar það við einhvers konar meinloku að áðurnefndir fræðastraumar séu bara eitthvert tyrfið, tilgerðarlegt og uppskrúfað orðaprjál í pseudo-fræðimönnum sem tala eitthvert annað móðurmál en ensku eða annað mælt mál. Það er viss fnykur af antí-intellektúalisma af þessu viðhorfi, sem reynist þegar að er gáð oft ekki annað en íhaldssemi í dulargervi.

Nálgun Þorsteins er sumsé dálítið af gamla skólanum, ef svo má segja. Hann telur sig fyrst og fremst eiga erindi við ‚orðin á blaðsíðunni‛ eins og nýrýnar kölluðu það, og við „innanríkismál bókmenntanna“ (bls. 10), þ.e. hluti eins og byggingu ljóða, tegundir þeirra (t.d. það hvort þau eru elegíur, hjarðljóð eða eitthvað annað), bragarhætti, stílbrögð, erkitýpur, genre, minni, stef og svo framvegis. Með öðrum orðum er lestur hans eingöngu fagurfræðilegur. Engu að síður er hann vel meðvitaður um ýmsar takmarkanir nýrýni eins og fram kemur í fróðlegum inngangi bókarinnar, auk þess sem hann tekur fram að hans eigin lestur sé í andstöðu við margt í henni, einkum það tvennt að ljóð skuli skoða í einangrun og áhrifavilluna svonefndu (affective fallacy), þ.e. að ekki megi taka tillit til lesenda og áhrifa ljóðsins. Það hentar að mati Þorsteins ekki við túlkun á Tímanum og vatninu því sá bálkur snúist að svo miklu leyti um að vekja hughrif fremur en að miðla innihaldi. En jafnframt telur hann nýrýni sérstaklega til tekna hve mikla áherslu hún leggur á vandaðan eða ítarlegan lestur (close reading) og „þá afstöðu til ljóða að þau væru listaverk […] en ekki einungis vitnisburður um þetta eða hitt“ (bls. 33). Hér getur gagnrýnandi hins vegar ekki stillt sig um að skjóta því inn, að þeoría er ekki í einhvers konar andstöðu við ítarlegan lestur, heldur leggur þvert á móti mikla áherslu á hann sömuleiðis. Eins og breski bókmenntafræðingurinn Terry Eagleton bendir snyrtilega á í lítilli bók eftir sig, þá stunduðu allir helstu „þeoristarnir“ mjög ítarlegan lestur; rússnesku formalistarnir á Gogol og Púshkín, Bakhtín á Rabelais, Adorno á Brecht, Benjamin á Baudelaire, Derrida á Rousseau, Genette og de Man á Proust, Hartman á Wordsworth, Kristeva á Mallarmé, Jameson á Conrad, Barthes á Balzac, Iser á Henry Fielding, Cixous á Joyce, Hillis Miller á Henry James svo nokkur dæmi séu nefnd 3 .

Hvað um það; Í innganginum gerir Þorsteinn ágætlega grein fyrir tilurð nútímaljóðsins og helstu einkennum þess en meðal þeirra má nefna, sem kunnugt er, að horfið er frá eftirlíkingu að hætti Aristótelesar, að horfið er frá hefðbundnum bragarháttum, að tungumálið sjálft verður eitt helsta viðfangsefnið, að form og innihald renna saman í eitt, eða svo gripið sé til strúktúralísks tungutaks: táknmyndin fer að skipa æ stærri sess en táknmiðið. Einnig rekur hann þar mikilvægan þátt í hugmyndafræði symbólismans skilmerkilega aftur til Baudelaire og Poe, sem sagt það viðhorf að ljóðlist geti ekki haft annan tilgang en sjálfan sig (í stað þess að kenna eða boða eitthvað), sem síðan má aftur rekja til þýsku rómantíkurinnar og þeirrar kenningar Immanuels Kant að listaverk skuli vera hrein af öllum hagsmunum. Þessar hugmyndir settu heldur ekki lítinn svip á nýrýnina. Þorsteinn segist þó ekki vilja halda því fram að nein ein ljóðgreiningaraðferð sé yfir aðrar hafin og leggur áherslu á aðlögunarhæfni fræðimannsins, eða eins og hann orðar það:

Lestur nýrýninnar smættar ljóð. Það gerir einnig félagsfræðilegur lestur ljóða […]. Sama gildir um sálgreiningarlestur og afbyggingarlestur og pólitískan eða hugmyndafræðilegan lestur. Eða lestur sem hugar eingöngu að inntakinu. Hver slík aðferð kann að vísu að varpa gagnlegu ljósi á ljóðið. En ef vel á að vera þarf að skoða ljóð frá mörgum hliðum og velja leiðir við hæfi hverju sinni. Engin aðferð er almáttug og á alstaðar við (bls. 34).

Hér kynni einhver að vilja bæta því við að vandamálið við nýrýnina, sem Þorsteinn virðist þrátt fyrir allt hafa hvað mestar mætur á, sé kannski ekki beinlínis það að hún smætti ljóð, heldur að hún slíti þau úr samhengi. Það er að segja – og þetta hefur Þorsteinn örugglega heyrt þúsund sinnum áður – að þegar öll athyglin beinist að „orðunum á blaðsíðunni“ eru ljóðin einangruð frá sagnfræðilegum, samfélagslegum og efnahagslegum aðstæðunum sem þau spretta úr. Fyrir vikið er mjög margt hunsað sem þó gæti veitt okkur dýpri og margslungnari skilning á ljóðunum. Þetta hefur verið kallað hlutgerving (reification) bókmenntatextans. Einnig mætti leiða að því rök að þessi nálgun feli í sér hálf-trúarlegan þátt – að ljóðlist sé kannski nokkurs konar veraldleg ritning (secular scripture) svo að frasi sé fenginn að láni frá Northrop Frye – og raunar trúðu því sumir forvígismenn nýrýninnar, að minnsta kosti I. A. Richards, að ljóðlistin gæti hreinlega „bjargað okkur“, verið límið í okkar sundruðu nútímatilveru.

Sumstaðar í túlkun Þorsteins mætti ef til vill segja að hann reki sig á takmarkanir nýrýni. Til dæmis í kaflanum um Jóhann Sigurjónsson þegar hann tekur fyrir ljóðið „Bikarinn“ sem endar, líkt og kunnugt er, á þessari mögnuðu mynd:

Bak við mig bíður dauðinn,
ber hann í hendi styrkri
hyldjúpan næturhimin
helltan fullan af myrkri.

Hér setur Þorsteinn fyrst fram tvær vísvitandi klénar túlkunarleiðir á myndinni, nefnilega að hún geti verið áminning um feigð okkar allra eða að áfengisneysla geti farið með mann í gröfina, en „Gallinn er bara sá að hver túlkun er skelfing sviplaus í samanburði við hina máttugu mynd Jóhanns“ (bls. 51) og er látið þar við sitja. Hér held ég að smá þeoría hefði einmitt getað komið að góðum notum. Gaman hefði verið að sjá Þorstein reyna hér einhvers konar söguspekilega túlkun í anda þess sem Theodor Adorno gerir í fyrirlestri sínum „Ræða um ljóðlist og samfélag“ 4 svo dæmi sé tekið, eða prófa að nálgast þetta eins og Kristin Ross nálgast Rimbaud í The Emergence of Social Space 5 , einni af uppáhalds ljóðfræðibókum undirritaðs. Hver veit, máski hefði það getið af sér áhugaverðar tilgátur um gildismat Jóhanns, samtíð hans, íslenska bókmenntasögu og ýmislegt fleira.

Raunar er margt eftirtektarvert í kaflanum um Jóhann, til að mynda áherslan á áhrif frá symbólisma og það að hið fræga kvæði „Sorg“ sé ekki hið eina nútímalega ljóð hans, heldur séu sum önnur, svo sem „Bikarinn“, „Heimþrá“ og „Odysseifur hinn nýi“ einnig mjög módern á sinn hátt, þ.e.a.s vegna þess hve myndmál þeirra er nýstárlegt. Þetta finnst mér einfaldlega mjög sannfærandi. Samanburður Þorsteins á ólíkum handritsgerðum „Sorgar“ er sömuleiðis allrar athygli verður.

Á bls. 52 hnaut ég hins vegar um þessa fullyrðingu, svo varfærnislega sem hún þó er: „Hér er að vísu komið að umdeildu atriði en almennt má líklega segja að gagnrýnandi skyldi varast að reyna um of að skýra ljóð með því sem stendur utan við þau. Reyndar fer það mjög eftir eðli skáldskapar hvort slík aðferð er vænleg til árangurs“ (bls. 52). Umdeildu, segirðu? Jú, það er ekki laust við að maður hafi heyrt einhvern ávæning af slíku. Hve mikið er annars „um of“? Gagnrýnandi verður að viðurkenna að þegar þarna var komið lestrinum fann hann sig knúinn til að seilast upp í hillu til að ganga úr skugga um að höfundurinn væri sami Þorsteinn Þorsteinsson og annaðist útgáfu hins frábæra ljóðaþýðingasafns Bertolts Brecht, Kvæði og söngvar 1917-1956. Hvað ætli Brecht hefði sagt um þetta viðhorf? Eða Majakovskíj, til dæmis? Nú eða Sigfús Daðason? Og nú er eins og rifjist líka upp fyrir undirrituðum nokkuð sem Bergljót Kristjánsdóttir skrifaði, að hann minnir, í gagnrýni sinni um Ljóðhús sem birtist í hausthefti Skírnis árið 2009 og sem hann hefur því miður ekki heldur við höndina: pólitíkin er að mestu fjarverandi í þessari stóru og miklu bók um Sigfús, rammpólitískt skáld sem þýddi Gramsci og Hobsbawm, svo eitthvað sé nefnt, og birti í tímaritinu sem hann ritstýrði, Tímariti Máls og menningar. Fari aumur ritrýnir hér rangt með telst honum vonandi til málsbóta að hann er staddur erlendis og hefur ekki aðgang að téðum heimildum. Ef ekki þá verðum við Þorsteinn víst bara að vera ósammála um þetta atriði.

Helstu niðurstöður Þorsteins hefur undirritaður í sjálfu sér fátt útá að setja, til dæmis það að „Únglíngurinn í skóginum“ sé í raun goðsagnakvæði í anda symbólisma um guðinn Adónis. Halldór virðist hafa verið hallur undir symbólisma og dulhyggju í ríkari mæli en talið hefur verið, sem er áhugavert ef rétt reynist og sem manni finnst að hefði mátt rekja lengra. Kannski sæjum við þá í skýrara ljósi hugmyndafræði Halldórs, kaþólsku hans, stjórnmálaskoðanir og spennuna þar á milli. Á Halldór sér kannski líka meiri tengingu við dekadens en áður var talið, þar eð symbólismi og dekadens eru upphaflega eitt og hið sama? En líklega er það hlutverk annarra fræðimanna að taka upp þann þráð.

Eitt það besta við ritgerðirnar um Tímann og vatnið er að Þorsteinn forðast að lesa bálkinn ævisögulega, sem endurspeglun á lífi Steins Steinarrs, enda hefur víst verið nóg gert af því og stundum með billegum afrakstri. Hafa slíkar slúðurkenningar jafnvel ratað í bókmenntaþætti í sjónvarpi allra landsmanna, svo að manni þykir orðið nóg um. En Þorsteinn er yfir slíkt hafinn og segja má að hér sé hann í essinu sínu og að nákvæm vinnubrögð hans njóti sín til fulls. Í lestri sínum leggur hann meiri áherslu á skáldskaparfræði en túlkunarfræði: „Of mikil áhersla hefur að mínu viti verið lögð á túlkun og skilning á Tímanum og vatninu en of lítil á aðferð ljóðanna og áhrifagildi þeirra“ (bls. 191). Það er heldur ekki laust við að þannig takist honum að ljúka svolítið upp fyrir manni ýmsum hliðum á þessu dularfulla verki, sem á köflum er svo órökrænt að engu er líkara en að Steinn hafi verið að reyna að bíta af sér fyrirfram alla túlkendur. Eða hvað þýðir „Sólvængjuð hringvötn/búin holspeglum/fjórvíðra drauma“? Eitthvað ætti að segja manni að það sé ef til vill ekki rétt spurning, ekki frekar en að spyrja brunahana hvort hann versli frekar í Bónus eða Krónunni.

Í framhjáhlaupi sakar heldur ekki að geta þess að í hlutanum um Stein er talað um að því er virðist einu hugsanlegu áhrifavaldana í allri bókinni sem ekki eru evrópskir heldur bandarískir: Archibald MacLeish og Elinor Wilye (sem virðist vera eina kvenskáldið) – tvö skáld sem nú til dags teljast minniháttar, hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt sem það kann að vera. Edgar Allan Poe er sér á parti því hann var innlimaður í evrópskt bókmenntakerfi með þýðingum Baudelaire. Óþarft er að taka fram að Eliot og Pound höfðu mikil áhrif en þeir voru líka að miklu leyti evrópskir höfundar, settust að í Evrópu og gerðu evrópska menningu að sinni eins og alkunna er. Það er athyglisvert út af fyrir sig ef enginn þessara fjögurra frumkvöðla íslenskrar nútímaljóðlistar varð fyrir teljandi áhrifum af Whitman og Dickinson, eða síðar af Stein, H.D. eða William Carlos Williams, en ekki er svo að sjá af þessari bók. Kannski er það tilefni til frekari rannsókna hvort og þá hvers vegna bandarískur módernismi átti síður upp á pallborðið hjá íslenskum skáldum. Eða kannski helgast það einfaldlega af því hvar Þorsteinn kaus að hafa fókusinn í þetta sinn, sem er í sjálfu sér gott og blessað.

En hvað sem öðru líður er auðvitað mikill fengur að bókinni Fjögur skáld fyrir alla sem hafa áhuga á ljóðlist. Það er hvort tveggja skemmtilegt og fróðlegt að endurvitja þessara ljóða í fylgd Þorsteins, leyfa honum að sýna sér nýjar hliðar á þeim frægustu og uppgötva önnur sem hlotið hafa minni athygli. Óneitanlega finnst undirrituðum þó að hann hefði mátt leyfa sér að draga fleiri ályktanir af niðurstöðum sínum um heiminn utan ljóðanna. En kannski er það bara ósanngjörn krafa og ætti frekar að vera hlutverk þeirra fræðimanna sem fylgja munu í kjölfarið og geta þá byggt á því mikla starfi sem hér hefur verið unnið. Svo hamrað sé á því sem sagt var í upphafi þessarar umfjöllunar: gaman væri ef fleiri svona bækur kæmu út á Íslandi. Mætti maður kannski biðja Þorstein um nokkrar í viðbót?

   [ + ]

1. Poems for the Millennium: Volume One. Joris, Pierre og Rothenberg, Jerome (ritstj.). University of California Press, 1995.
2. Sjá t.d. „Þjóðlausar tungur“, Að skilja undraljós, Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Hjalti Snær Ægisson (ritstj.), bls. 109-133. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010.
3. Eagleton, Terry. How to Read a Poem. Blackwell, 2007.
4. Adorno, Theodor. „Ræða um ljóðlist og samfélag“. Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, bls. 183-204. Þýð: Benedikt Hjartarson.
5. Ross, Kristin. The Emergence of Social Space. Verso, 2008.