Hér hefur lífið staðnæmst

Um Út í vitann eftir Virginiu Woolf í þýðingu Herdísar Hreiðarsdóttur

Tíminn stöðvast aldrei heldur líður hann, hvað sem það þýðir. Oft er um tímann notuð sú rýmislíking að hann sé eins og fljót sem beri okkur áfram. Við höfum nokkra stjórn en straumurinn er kraftmikill og auk þess fullur leyndardóma. Vitundin streymir því með; eða vitundirnar réttara sagt. Við öll saman að streyma, stundum afar nálægt hvort öðru eins og þegar frú Ramsay gleymir sér í fegurð lystilega skreyttrar skálar á borðinu, sér að Augustus gamli gleðst yfir sömu skál og finnur fyrir tengingu við hann. Stundum svo fjarri, þegar straumurinn ber okkur eitthvert annað og okkur líður eins og við séum svo ógurlega ein í þessum heimi.

Bókin hennar Virginiu Út í vitann nær að fanga straum, hugsanastraum, upplifanastraum, tilfinningastraum sögupersóna sinna. Straumurinn, lífið þeirra, eða frásögnin er draumkennd, það er eins og maður nái aldrei alveg tökum á henni. Engu að síður tengir maður við frásögnina. Kannski einmitt vegna þess að maður nær aldrei tökum á sinni eigin hugsun, nær aldrei að fanga hana og setja í litla, snyrtilega kassa. Við getum aðeins streymt í gegnum eigin huga, ekki annarra í lífinu. Virginia notar því orðin og skáldskapinn til að horfa í gegnum marga huga í þeim stíl sem á íslensku kallast vitundarstreymi.

Virginiu er umhugað um þau andartök sem við stöldrum við og spyrjum okkur: af hverju er ég hér, til hvers er ég að þessu? Eins og sést þegar Lily Briscoe efast um málverkin sín því konur eigi ekki að mála jafnvel þótt hún sé hugfangin af formunum og litunum sem hún vill fanga á striga. Þetta sést vel á herra og frú Ramsay, aðalsöguhetjunum. Herra Ramsay, frægur spekingur þarf sífellda staðfestingu á eigin verðleikum, veit af því, en þarfnast hennar samt. Spyr sig sífellt að því hvort nafn hans muni lifa. Frú Ramsay getur heillað fólk með fegurð sinni og sjarma – er meðvituð um það og sér tilvist sína speglast í þessari aðdáun.

Frú Ramsay fangar þó einnig eitthvað annað. Í gegnum hugsanir hennar kannast maður við síbreytileika tilfinninga; að eitt augnablikið getur samband við aðra fangað eitthvað satt, en fyrr en maður veit er þetta horfið og maður veit ekkert hvar eða hver maður er. Yfir einu kvöldverðarboði getur maður farið frá því að vera í nöp við manneskju, elska hana, pirrast á henni aftur, sættast svo við hana og brosa. Og inní manni á maður eitthvað athvarf, sem gott er að leita til, fjarlægjast aðra og hvílast þar en samt verður maður líka að vera með hinum, sem skilja kannski ekki þetta athvarf. Frú Ramsay öðlast sinn tilvistarrétt sem eiginkona og móðir, reynir að koma hinum konunum í sama mót, sér eiginmanninn í snillingsljósi en vonar að skapið hans bresti ekki. Hún setur ekki spurningamerki við samfélagsskipanina en heldur öllu saman, skynjar þarfir annarra og gleymir stundum eigin sjálfi í þeim þörfum. Henni er umhugað um tengslin og samskiptin en er líka stjórnsöm: Á sviði tilfinningana skal allt fara eftir hennar höfði þótt hún vogi sér ekki yfir á svið vitsmunanna.

Vitsmunaþráin er sannarlega afhjúpuð í bókinni sem geld og leiðinleg, sem hún og er. Kjellar að rífast um pólitík og gamla daga, blablaba. Rífast og þrá að sitt sjálf vinni, sín skoðun. Á meðan hugsunin streymir, tilfinningarnar eru, fólk gerir út af við okkur en návist þeirra er lífið.

Það er ekkert smá gaman að búið sé að þýða þessa sígildu bók yfir á íslensku en það verk hefur Herdís Hreiðarsdóttir innt af hendi. Virginia Woolf er eitt af stóru nöfnununum af síðustu öld, brautryðjandi í skrifum og hugsun. Áður hefur aðeins komið út ein bók á íslensku eftir hana; Sérherbergi í þýðingu Helgu Kress. Sú bók er einn af hornsteinum kvenfrelsishreyfingarinnar en augljóst er á Út í Vitanum að Virginiu er umhugað um hvernig að samfélagskipanin takmarkar rými bæði kvenna og karla. Á sama tíma er hún að glíma við þessa tilvist, þessa einstöku tilvist hvers og eins sem ekki er hægt að skoða á samfélagslegu plani heldur aðeins mitt í straumnum sem virðist ætla að kaffæra manni. Ég heyrði fyrst af Virginu Woolf þegar ég las bókina (og sá kvikmyndina) Stundin sem að hluta til fjallar um Virginiu og lýsir þeirri melankólíu sem var hluti af henni. Eflaust les ég Út í vitann með það í huga en bókin er einmitt það: melankólísk.

Ég myndi ekki segja að Út í vitann sé auðlesanleg bók og að einhverju leyti fannst mér ég ekki nálgast hana sem skáldsögu heldur frekar sem fræðitexta. Það er, ég setti mig í stellingar við lesturinn sem ekki með öllu voru slakar. Á sama tíma naut ég fegurðinnar, en gleymdi mér aldrei. Hvorki nú né þegar ég reyndi að lesa hana á ensku fyrir ári. Textinn rennur hins vegar vel og er fallegur á íslensku. Herdísi tekst það ætlunarverk sitt með ágætum að hafa þýðinguna á kjarngóðri íslensku og endurspegla þannig orðfæri aldargamals tíðaranda. Bókin var þýdd sem meistaraverkefni í þýðingafræði og er það fagnaðarefni að lagt sé út í svo metnaðarfull meistaraverkefni sem þetta. Þýðing Herdísar á Út í vitann hennar Virginu eykur margbreytileika íslenskrar menningarflóru og hlakka ég til að sjá framtíðarverkefni hennar sem og annarra metnaðarfullra úr þýðingafræðinni. Auk þess hlakka ég til að dvelja lengur við þessa bók, leita í hana aftur og aftur og finna fleiri falleg brot eins og þetta:

Hver er tilgangur lífsins? Þetta var allt og sumt – einföld spurning; spurning sem gjarnan þrengdi að manni með árunum. Hin mikla opinberun hafði ekki látið sjá sig. Hin mikla opinberun átti kannski aldrei eftir að láta sjá sig. Í staðinn birtust lítil kraftaverk daglega, ljós, kveikt var óvænt á eldspýtu í myrkrinu; hér var eitt. (Út í vitann, bls. 247.)