Tónlist vikunnar: Karlsson & Karlsson

Já, já, já ég hata borgarastéttina.
Já, já, já ég hata alla konungsfjölskylduna.
Já við skulum vopnast,
já við skulum vopnast.

Svo söng sænska pönkhljómsveitin Ebba Grön árið 1979 og bætti við að aðallinn mætti vel þola „dálítið blý í hnakkann“. Lagið heyrir til sænskrar pönkklassíkur (kom meira að segja út á plötu sem hét „Svenska punkklassiker“) og hefur verið koverað af Gautaborgarhardkorsveitinni Skitsystem.

Á dögunum bar svo til að sænska ljóðskáldinu Athenu Farrokhzad var boðið að vera einn af gestafyrirlesurum í svonefndu sumarspjalli („sommarprat“) sænska ríkisútvarpsins P1 – Athena tók þar til varna fyrir þá varnarlitlu, fyrir minnimáttar, fyrir innflytjendur, hörundsdökka, konur, verkafólk og róttæklinga og benti meðal annars á að á meðan sænskir nasistar virðast komast upp með að drepa fólk (14 manns síðan 1999, minnir mig að hún hafi sagt) þá sé tekið afar hart á andspyrnunni gegn þeim. Fyrirlesturinn er gríðarlega öflugur og skal öllum þeim sem botna hið minnsta í sænsku bent á að hlusta á hann, helst sem allra fyrst, helst bara strax. Um tónlist í þættinum sáu þær Ylva Karlsson og Maja Karlsson, sem fluttu kover af ýmsum þekktum lögum úr verkalýðs- og mannréttindabaráttu, meðal annars áðurnefnt lag, Beväpna er eftir Ebba Grön.

Fyrirlesturinn var kærður 70 sinnum til rannsóknarnefndar Sveriges Radio eða oftar en nokkur þáttur í sögu útvarpsins (metið var 32) – meðal annars og ekki síst vegna lagsins Beväpna er, sem þó er reglulega spilað í útvarpi með bæði Skitsystem og Ebbu Grön. Var sérstaklega fundið að því – til dæmis af þingmanni hægrimanna, Gunnar Axén, sem kastaði sjónvarpinu sínu á haugana í mótmælaskyni, svo hann væri ekki nauðbeygður að borga afnotagjaldið og styrkja þannig ofbeldiskommúnismann – að þær Karlssonsystur hefðu sungið textann svo skýrt og greinilega að hótanirnar yrðu einhvern veginn skýrari. Og sannarlega syngja þær fallega, skýrt og greinilega.

Hægt er að hlusta á öll lögin úr þættinum – meðal annars You are my sister eftir Anthony & the Johnsons, They don’t really care about us eftir Michael Jacksons, 9 to 5 eftir Dolly Parton og ótal fleiri – og/eða hala þeim niður fríkeypis á soundcloudsíðu Karlsson & Karlsson.