„Hér kemur ein væmin og krúttleg“.

Tilraunir í félagslegu krúttraunsæi

Viðtal við Sverri Norland, höfund Kvíðasnillinganna

 

hér?
Sverrir  • 7:54 PM

Sælinú
jú, ætla að sjá hvort ég geti ekki stækkað þennan glugga

Svona, þetta er betra.
Eiríkur • 7:57 PM

Haha, ókei
Og já: Heill og sæll, þú og aðrir í Svíþjóð
Sendi napra rokkveðju frá þessari eyju
Sverrir • 7:58 PM

Hér er enginn nema við rotturnar í veggjunum.
Jú og sólin.
(Sem er sest).
En ég ber þeim kveðju þína.
Eiríkur  • 7:59 PM

Glæsibær!
Sko, hvernig hugsaðirðu þetta hér?
Spurningar og ég vélrita í angist misheppnuð svör?
Eða bara leyfa þessu að fara út og suður?
Sverrir • 7:59 PM

Ég reikna heldur með að hafa þetta
fremur hrátt og óformlegt
– birta spjallið bara sirka einsog það kemur af kúnni.
Við kannski höfum í huga að spyrja í heilum
spurningum og svara í heilum svörum
– ýta á enter þegar við erum búnir og ekki fyrr,
og grípa ekki fram í.
Hvernig hljómar það?
Eiríkur • 8:00 PM

Heyrðu, það hljómar stórvel.
Spjall að hætti siðmenntaðra nútímamanna.
Sverrir • 8:01 PM

Viðtal // Tóndæmi // Brúskur af bringuhárum

Í síðustu viku kom út fyrsta skáldsaga rithöfundarins Sverris Norland, Kvíðasnillingarnir. Sverrir skrifaði Starafugli skömmu áður og falaðist eftir því að fá að skrifa um RIFF-kvikmyndahátíðina – sem hann fær auðvitað, styttist í það allt saman – en samskipti ritstjóra og höfundar urðu kveikjan að spjallinu hér að neðan 1, um Kvíðasnillingana, bókmenntir, blaðamennsku, hvort það sé betra að skrifa með penna eða tölvu og hvort veröldin sé meira glóandi eða logandi.

Í tölvupósti kom eftirfarandi fram:

Ég segi nokkrar sögur í Kvíðasnillingunum. Fyrsti hluti fjallar um vináttu drengjanna þriggja, „kvíðasnillinganna“. Þar eru þeir litlir og frekar saklausir strákar í leit að ævintýrum. Sá næsti lýsir því hvernig þeir reyna seinna á þrítugsaldri að slá í gegn í ferðamannabransanum með því að stofna farfuglaheimilið Hostel Torfbæ og síðan barinn Hipster Torfbar. Um leið klúðra þeir svo nokkrum ástarsamböndum við hæfileikaríkar og klárar stelpur. Þriðji og síðasti hluti fjallar um það þegar Steinar, aðalpersónan, gerist húsvörður í Íslendingakoti, eða „Aumingjahælinu“, heilsulind fyrir gjaldþrota og dapra Íslendinga sem rekin er af góðhjörtuðum útrásarvíkingi. Íslendingakot er eins konar ruslakista fyrir allt misheppnaðasta fólk þjóðarinnar.

Líklega mætti súmmera þema bókarinnar upp þannig: Langar okkur ekki öll að verða hamingjusöm, rækta hæfileika okkar, finna ástina, bægja burt kvíðanum, verða heilsteyptar og vandaðar manneskjur? Ég held að bókin fjalli að mestu leyti um slíka drauma. Að leita að samastað sínum í tilverunni. Að verða ástfanginn af einhverjum sem fagnar manni eins og maður er og kennir manni að slappa af. Að kynnast því hvernig vinir geta brugðist og svikið mann og hvað það er nauðsynlegt að fyrirgefa þeim. Og fatta um leið að það er bara allt í lagi að klúðra stundum málunum og láta allt fara í steik, þannig er einfaldlega að vera mennskur. Við erum flest, ef ekki öll, hálfgerðir kvíðasnillingar.

Og svo dálítið tóndæmi:

Þegar Steinar, Herbert og Óskar voru feimnir, litlir pjakkar seildust þeir eftir sólskinsbútum til að skylmast með en það var vandasamt að ná taki á þeim og því ráðlegra að smíða sér praktískari vopn. Eða öllu heldur: Þeir fóru þess á leit við afa tögg að hann smíðaði handa þeim praktískari vopn. Afi töggur hallaði sér sposkur að dyrakarminum, strauk sér um grásprengt skeggið, ég sem hélt að þið elskuðuð friðinn og strykjuð kviðinn, skrattakollarnir mínir, án frekari vífilengna hófst hann svo handa við að saga út handa þeim skildi, sverð, spjót – eða atgeir eins og afi töggur vildi kalla spjót – lensu, boga, örvar, örvamel. Það lék allt í höndunum á honum. Og hann brosti sínu blíðasta – um hann gekk sú gróusaga að hann hefði þegið þennan skínandi fína tanngarð úr fjallmyndarlegum, afrískum dansara í skiptum fyrir vænan brúsk af bringuhárum.

(bls. 41)

Spjall að hætti siðmenntaðra nútímamanna // Einlægni // Kynslóðin mín og kynslóðin þín

kvidasnillingarnirÉg kláraði bókina áðan – takk fyrir skemmtilega bók. Hún kveikti margar áhugaverðar spurningar við lestur – ég hef áreiðanlega gleymt þeim flestum, en skal reyna að rifja þær upp. Fyrst langaði mig að spyrja þig eitthvað út í stílinn og stemninguna. Hún er að mörgu leyti bæði létt og meðvituð um eigin frásagnartækni – röddin í sögunni er samfelld alla leið í gegn, og breytist ekki mikið þrátt fyrir að sögupersónurnar til dæmis eldist. Mig langaði jafnvel á tímabili að nota orðið „krútt“ – ef það væri ekki frátekið undir annað og þar að auki aðallega notað fólki til hnjóðs (ég er altso ekki að dissa þig). Hún sker sig talsvert úr dramatískari bókum síðasta áratugar, án þess að vera beinlínis léttvæg. Og þótt í henni séu einhvers konar fantasíustraumar þá er hún í grunninn realísk. Félagslegt krúttraunsæi? Hvað segirðu um það?

Jæja, það gleður mig að þér þótti hún skemmtileg. „Félagslegt krúttraunsæi“, veistu, það er ekki svo galinn stimpill kannski? Ég veit svo sem ekki hvernig stíllinn hjá mér þróaðist en ég er býsna meðvitaður um hvernig ég skrifa sögurnar. Sögumannsröddin helst út í gegn, rétt er það, hins vegar breytist hvernig aðalpersónurnar (kvíðasnillingarnir) tala, málið hjá þeim er miklu vandaðra og bóklegra þegar þeir eru litlir og óþroskaðir. Ég held að aðalmarkmiðið sé bara að reyna að hafa þetta eins skemmtilegt og aðgengilegt og ég get, en um leið vil ég læða að einhverri hlýju, fyndni, einhverri mennsku, eftir fremsta megni og bægja burt kaldhæðninni – sem er kannski grunnstilling kynslóðar minnar? og sérstaklega kynslóðarinnar á undan – og þar með slæðast krúttheitin saman við aðalmarkmiðið, að vera einlægur, helst vinalegur. En svo verða lesendur auðvitað bara að meta hvernig til tekst!

Ég þekki einmitt mikið af kynslóðinni sem kennd er við krútt og hún er alls ekkert krúttleg.

Og jú, ef ég má skjóta einu öðru að hér …

Skjóttu.

Þú segir að hún skeri sig frá dramatískari bókum síðustu áratuga – það er annað markmið. Sagan gerist mestmegnis á Íslandi en um leið er mér mjög mikilvægt að búa mér til eigin heim. Og eigin sögurödd. Sem tengist aftur stílnum á sögunni. Ég vildi alls ekki vera að apa eftir neinum. Og það hefur tekið mig dágóðan tíma að þróa þessa rödd – sem er auðvitað en að þróast!

Drjúpandi kaldhæðni // Áhrifavaldar // Laxness í eyðimörkinni

Það er góð brú að næstu spurningu. Ég velti nefnilega talsvert fyrir mér hverjur væru áhrifavaldar þínir – ég gef mér að þú hafir verið með hausinn í bókum lengi og sprettir ekki út úr tóminu (né að þú sért fullkomlega sjálfsskapaður). Ég fékk margoft upp í hugann svona fiskisögustemningu, skrökvusögu – kannski einsog í bíómyndinni Big Fish, hefurðu séð hana? – og hugsaði þá um fantasíuna, furðusöguna, sem er einmitt vinsælli hjá þinni kynslóð en minni (eru ekki áreiðanlega kynslóðaskipti á milli okkar? það vantar hliðvörð). Og velti fyrir mér strákabókum almennt – Frank og Jóa – Einörunum Má og Kárasyni, Riddurum hringstigans og Eyjubókunum. Og svo var reyndar líka eitthvað í setningunum, orðavalinu, sem minnti mig á bókina hans Halldórs Armands sem kom út í fyrra – þar var það reyndar enn sterkara, lýsingar á öllum hlutum voru svo spes, svo sérstakar, að veröldin glóði. Mér finnst það oft pínu erfitt, einsog yfirlýsing um að veröldin glói, hún eigi að glóa, það séu allir í raun hamingjusamir og erfiðleikar séu bara ljúfsárar raunir – það truflar mig, þótt ég dáist líka mikið að handbragðinu (svona einsog ég dáist að fólki sem er gott á hjólabretti). Einsog bíómyndin Amélie, hún var svolítið svona, allt of spes (það drýpur alveg af mér kaldhæðnin, sorrí!). En hverjir eru áhrifavaldar þínir, hvaðan er Sverrir Norland að koma?

Áhrifavaldar; á maður að þora að nefna þá? Ég skal þræða mig í gegnum þau nöfn/titla sem þú nefnir: Big Fish, já. Séð hana – man ekkert eftir henni. Hef lesið katalóginn hans Einars Más og haft gaman af, stærsti áhrifavaldur hans (leyfi ég mér að fullyrða), Richard Brautigan, var líka uppáhaldshöfundur hjá mér einu sinni. Ég hef þekkt Halldór Armand frá því að ég var sex ára og skrifaði eitt og annað með honum á yngri árum en hef hins vegar lítið séð hann síðustu ár, við höfum meira og minna verið í ólíkum heimshornum. Annars hef ég bara verið að skrifa frá því að ég var pinkulítill. Áhrifavaldar eru sennilega ekki bara rithöfundar, heldur bara menningin öll. Turtles. Bítlarnir. Tölvuleikir. Myndasögur. Gítarleikarar. Get samt vel slegið inn lista af höfundum sem hafa galdrað mig upp úr skónum á einhverju tímaskeiði þroskasögunnar: Montaigne. Thomas Bernhard. Wislawa Szymborska. William Saroyan. Charles Bukowski. Paul Gilbert. Georges Perec. Roberto Bolano. Susan Sontag. Tove Jansson.

Myndasöguhöfundur sem hafði mikil áhrif á mig: Jeffrey Brown, náungi frá Chicago. Frásagnarstíllinn hans er mjög opinskár og dagbókarlegur, enda skrifar hann nær einungis um eigið líf. Teikningarnar hans eru líka einfaldar og fyrir vikið verða sögurnar svo berskjaldaðar og einlægar, krúttlegar án þess að vera væmnar. Að lesa bækurnar hans hafði mikil áhrif á mig á sínum tíma.

Paul Auster og Murakami, ég las auðvitað allt eftir þá, líkt og svo margir, en ég hef samt ofnæmi fyrir þeim í dag. Síðustu bækurnar þeirra hafa líka verið alveg hvínandi vindhögg.

Íslenskir: Gyrðir Elíasson. Auður Ava. Mér fundust Heim til míns hjarta og Jarðnæði eftir Oddnýju Eir mjög flottar.

Og Laxness auðvitað, bannsettur. Ég endurlas Sjálfstætt fólk í vor, á ferðalagi um Texas og Nýju-Mexíkó. Það er eitthvað svo sterkt upplifun að lesa góðar, íslenskar bækur fjarri heimahögunum. Ég sat á litlu kaffihúsi í smábæ, með ís og kaffi, eini viðskiptavinurinn, þegar Bjartur og Ásta Sóllilja ná endurfundum í blálokin – ég byrjaði auðvitað að háskæla og þurfti að forða mér svo að kaffikonan sæi ekki að þessi skeggjaði og skrítni eyjaskeggi væri að skæla. Kláraði bókina svo kjökrandi á rölti um þennan litla bæ, úti í miðri eyðimörk. Þetta er kannski öflugasta og margslungnasta skáldsaga sem ég hef lesið: Sjálfstætt fólk. Allavega kandídat með á eyðieyjuna. Hún og ritgerðirnar hans Montaigne.

Fyndið með Halldór Armand – þetta er svo lítið land.

Svo að ég svo klykki út með þessari hugleiðingu um veröld sem glóir: Skáldskapur getur vissulega gætt veröldina ljóma, en ég er sammála því sem þú segir: Maður verður að gæta jafnvægis. Ég hef búið mikið í Frakklandi síðustu ár og Amélie er til dæmis einfaldlega of stór sletta af sniðuglegheitum í einum pakka. Eins og það eru nú til margar góðar, franskar bíómyndir er hálfgerð synd að þessi fari aðra eins sigurför um heiminn.  En jú: Bókin hans Halldórs var mjög skemmtileg og ég stend með honum. En við erum enn svo ungir náungar – það er kynslóðabil á milli okkar og þín. Báðir fæddir ’86.

Maður er að verða svo gamall.

Haha – þú ert að sigla inn í bestu árin, held ég.

Glóandi veröld // Kona er drepin // 17 einstæðar athugasemdir

Í framhaldi af glóandi heimi – já eða logandi versus glóandi. Þú skrifar á einum stað í bókinni: „[Steinar – sem ku líkastur söguhöfundi skv. bókinni] skildi reyndar ekki hvers vegna það var svona áríðandi að lýsa daglega upp hið stóra svið mannlegrar illsku en þræddi samt hvern dálk af viðrinislegri nákvæmni.“ Hér er að vísu talað um fréttir en ekki bókmenntir. En ertu til í að segja eitthvað um það hvert þér finnst hlutverk bókmennta vera – hér og nú eða eilíft og almennt. Eru þær athvarf frá heiminum eða verkfæri til þess að greina hann – jafnvel verkfæri til þess að lækna hann? Viltu forða lesendum þínum frá illskunni, fá þá til að horfast í augu við hana, eða jafnvel takast á við hana?

Sko – já, ég er ánægður með að þú fiskir út þessa klausu. Bókmenntir geta gert svo margt sem fjölmiðlar ráða svo illa við; þær eru búnar til í góðu tómi, af yfirvegun, og þær þykjast ekki ráða við hið ómögulega: að fanga/lýsa líðandi stundu. Það er oft talað um mikilvægi fjölmiðla (og auðvitað heilmikið til í því) en ég hef varla lesið dagblöð síðustu árin, frekar bara tímarit og svo gamla doðranta, frá 19. öld, eða 16. öld, og virðist samt oftast alveg ágætlega vel með á nótunum. Það er oft, allavegana fyrir svona gúrku eins og mig, miklu fleira fréttnæmt í þessum gömlu textum. Mér finnst oft eins og dagblöðin lýsi upp svið mannlegrar illsku án þess að taka nokkra afstöðu til hennar. Kona er drepinn úti á götu. Og svo kemur frétt daginn eftir: „Kona var drepinn úti á götu.“ En er það frétt? Í skáldskap – löngum, vel skrifuðum textum sem samdir eru í rólegheitunum (og þannig textar birtast auðvitað oft í tímaritum líka en næstum aldrei í dagblöðum nútímans) – er hægt að taka afstöðu til veraldarinnar. Og jú: Ég vil fá lesendur til að horfast í augu við illskuna, takast á við hana og vita af henni, en líka hughreysta þá. Það er hlutverk góðra bóka, held ég. Lífið er bæði hræðilegt og dásamlegt.

Ætli það sé ekki líka meinloka dagblaðakúltúrsins – kannski sérílagi íslensks (dag)fjölmiðlakúltúrs – að hlutverk hans sé að „spegla“ veröldina og sjá það hlutverk í algerlega ópróblematísku ljósi, spyrja sig aldrei að því hvort það sé hægt eða hvað það þýði, hvernig valið fari fram eða hvernig sambandi fjölmiðilsins við lesendur sína sé eiginlega háttað (ef undanskildar eru tuggur um að fjölmiðlar eigi að birta það sem lesendur vilji lesa – einsog þeir hafi allir sest niður og beðið um X mikið af hamfarafréttum, X mikið af fréttum af kynlífi, X mikið af fréttum af harmleikjum, X mikið af jákvæðum og uppbyggilegum fréttum, og fengið það svo, svona einsog af matseðli). Vantar ekki bara að skrifa skáldsögu um þetta? Eða ljóðabók?

Getur maður skrifað þannig bækur – í glóandi stíl? Svona In Cold Blood – hefurðu lesið hana? Eða bara glóandi Glæp og refsingu? Er það kannski bara annar bransi, þessi yfirgengilegi og allt að því óstjórnlegi harmur?

Það er einmitt vandinn og nokkuð sem ég hef velt fyrir mér. Nei, ég held að glóstíllinn ráði svolítið vali á umfjöllunarefni. Þessir stóru póstmódernísku, enskuskrifandi höfundar síðustu áratuga – kempur eins og Zadie Smith (get hana ekki), David Foster Wallace, Jonathan Franzen (versti núlifandi höfundur Bandaríkjanna miðað við hversu mikið hrós og athygli hann fær?), Salman Rushdie, fullt af öðrum auðvitað – gæða svo mörg smáatriði í sögum sínum alltof ríkri merkingu. Þau nota stafavíxl í nöfnum, ótrúlegar tilviljanir (aðalpersóna fæðist einmitt á sama augnabliki og faður hennar deyr, eitthvað svoleiðis), á hverri síðu eru að minnsta kosti sautján einstæðar og gáfulegar athugasemdir um lífið og tilveruna – og ég svo sem veit það ekki, kannski eru það tilraunir skáldsagnahöfunda til að ná utan um heim sem sífellt verður flóknari og erfiðara að temja og troða í textaform. En hér erum við komnir í svo stórar og miklar pælingar að ég þyrfti eiginlega að leggjast á nærbuxunum upp í rúm með kexpakka og te og hugsa um þetta samfleytt í fjóra sólarhringa til að geta sagt eitthvað gáfulegt um málið.

Hjá mér mótast stíllinn samt líka af rytmanum og flæðinu, ég umskrifaði flesta kaflana alveg vandræðalega oft, ekki hjálpar að ég nota til þess penna og pappír frekar en tölvu. Og þótt ég sé örlítið smitaður sjálfsagt af þessum póstmódernísku og fjörugu glóheitum held ég að ég sé svona hægt og bítandi að reyna að fikra mig fjær þeim, að einfaldari og hreinni stíl. Vonandi!

Pappír // Penni // Dagbækur // Snjallsímar // Te og kaffi

Ég hef stundum skrifað með penna og pappír – en þá yfirleitt í sérstökum tilgangi (t.d. til tilbreytingar í rytma, vegna þess ég vilji breyta ákveðinni rödd í verki – eða til að delera, framleiða hráasta mögulega efni – eða enn fremur til að pína sjálfan mig til að þurfa að endurskrifa hvern einasta bókstaf, taka endurnýjaða afstöðu til allra setninga bara fyrir að skrifa þær aftur). Hvers vegna skrifar þú með pappír og penna? Þú flytur væntanlega sjálfur textann á endanum yfir á rafrænt – á hvaða stigi gerist það? (Já og áttu númeraðar stílabækur? 2 )

Haha: Já, allt skráð eftir dagsetningu og borg. „13. febrúar – 1. mars, New York“, „25. ágúst – 13. sept., Reykjavík“ og svo framvegis. Vonandi hljómar það ekki tilgerðarlega, þetta er bara vinnuskipulag fyrir mig. Það sem af er þessu ári hef ég skrifað sautján dagbækur, held ég, og nota alltaf sömu gerðina af stílabókum, frá Muji; ef ég fæ ekki þessar stílabækur verð ég önugur og óstöðvandi og árásarhneigður og langar bara að ganga út í sjóinn. Svo að mestur tími fer líklega í að skrifa dagbækurnar mínar, sem er kaldhæðnislegt þar sem líf mitt er algjörlega 100% gersneytt tíðindum. Málið er líka að í Kvíðasnillingunum nota ég bara hluta af því sem ég hef verið að skrifa. Sömu persónur birtast líka í öðrum handritum. Þar sem ég hef verið dálítið á flakki á heiminn að undanförnu er gott að eiga lítinn geymslustað hjá mömmu og pabba og þar er bókaskápur með öllum stílabókunum mínum, veit ekki hvað þær eru margar, en ef sá skápur fuðrar upp og brennur er ævistarf mitt fram að þessu ónýtt.

Ég fresta því eins lengi og ég mögulega get að færa sögurnar yfir á tölvu – en þegar ég byrja á því flakkar þetta aftur á milli tölvunnar og skrifbókanna. Ég hefta hluti saman. Teikna. Í gær blæddi mér á heila síðu úr dagbókinni minni, þegar ég datt af hjóli í poll og fannst ég þurfa að nótera niður þann viðburð í heimssögunni: „Nærsýnn hjólreiðakappi hrapar fram af gangstéttarbrún og hruflar sig.“ Það er bara eitthvað svo gott og heilnæmt og gefandi við pappírinn.

Er þetta almenn lífsafstaða eða bara afstaða til skrifanna? Þú horfir ekki á fréttir og skrifar ekki á tölvu – áttu snjallsíma? Spjaldtölvu? Rafbókalesara? Útvarp? Ertu á Facebook? Ég er kominn með samviskubit að hafa gabbað þig út í tölvuskrifað viðtal á internetinu. Koma Kvíðasnillingarnir út á rafbók?

Haha: nei, þetta er ekki meðvitað, svona er ég bara. Ég á ekki snjallsíma en það er nú fyrst og síðast bara vegna þess að þeir eru svo dýrir. Auk þess meika ég varla að bæta nýjum skjá í tilveru mína. Þeir eru stundum eitthvað svo þreytandi og ágengir (þeir glóa!). Ég á spjaldtölvu og nota hana mikið – til að lesa New Yorker og Le Monde og New York Times, er í rafáskrift. Ég tók mér ársfrí frá Facebook en opnaði reikninginn minn aftur um daginn. Ég finn að einbeitingargáfan hefur rénað núna yfir sumarið. Virðist þurfa dálitla einangrun til að komast heill á húfi inn í söguheiminn minn og geta hreiðrað þar um mig í makindum. Ekki misskilja mig: Tölvur eru snilld. Ég hellti einu sinni heilum lítra af tei yfir eina slíka.

Og ég veit ekki hvort Kvíðasnillingarnir koma út á rafbók, en ég ætla að komast að því strax á morgun.

Og já, útvarp – hljóðvarp (podcast) er eitthvað sem ég nota mjög mikið.

Ég hellti einu sinni hálfum lítra af kaffi latté (landsbyggðarversjón) yfir fartölvu sem geymdi eina eintakið af fyrstu skáldsögunni minni. Það reddaðist, en reið tölvunni að fullu og næstum því mér líka.

Gott // Bæjó // Takk // Fakta // Now

 

Annars held ég að þetta sé bara að verða gott.
Eiríkur • 7 mins

Já, maður, er þetta ekki orðið elglangt?
En ég þakka kærlega fyrir mig: Þrusugaman.
Sverrir • 7 mins

Eigum við að fá allt faktað á hreint í lokin.
Fæddur 86, það var komið
– lærðir ritlist í HÍ?
Fyrsta skáldsaga, önnur prósabók
(er ekki hin með smásögum?)
Og svo ljóðabækur –
þýtt Ginsberg, Bukowski,
Langston Hughes (einsog ég)
en líka Eluard,
Sandburg og Szymborska …

Þau eru annars öll af minni kynslóð.
Gömlu kynslóðinni.
Eiríkur 6 mins

Haha – jú passar.

BA í lögfræði og ritlist frá HÍ.
MA í Creative Writing frá
Middlesex University í London.

Bækur:
Með mínum grænu augum
(ljóð) 2010, Nykur
og svo Kvíðasnillingurinn;
skáldsaga í hæfilegri lengd, 2013,
gefin út af Tunglinu
og svo plata með frumsömdum lögum:
Sverrir Norland, 2008
ekkert aðalatriði samt
svo var þarna ljóðabók sem kom út
þegar ég var tvítugur en hún gæti
sjálfsagt drepið flóðhest úr aulahrolli
Sverrir • 5 mins

Einmitt, hver hefur ekki
gefið út eina svoleiðis!

Glæsilegt.
Heldurðu að þú getir sent mér
mynd af þér í kvöld?
Svo birtist þetta á morgun.
Eiríkur • 4 mins

Haha, einmitt
ókei, kúl
þiggurðu höfundarmyndina frá forlaginu?
æ, ég sendi þér tvær þrjár
viltu fá kápuna að Kvíðó kannski líka?
sendi þér e-n smápakka bara
Sverrir • 4 mins

Ég er með hana.
Takk.
Eiríkur • 3 mins

já, einmitt
olræt
aftur: takk kærlega fyrir spjallið, maður
Sverrir • 3 mins

Takk fyrir mig. Gott gengi í flóðinu.
Eiríkur • 3 mins

já, kærar þakkir fyrir það
Sverrir • 2 mins

Bingó.
Eiríkur • 2 mins

ef þú nennir að senda mér viðtalið
áður en þú hendir því á síðuna
myndi ég alveg brenna í gegnum það
– en kannski er það bara óþarfi og bögg?
þú ræður, líf mitt er í þínum höndum
Sverrir • 2 mins

Ég geri mjög lítið með það.
Var að spá í að hafa það bara hrátt.
Eiríkur • 1 min

já, mér líst bara vel á það
Sverrir • 1 min

Þú ert líka búinn að játa fyrir mér
að þú sért sjúkur í endurskriftir
– guð veit hvar það myndi enda.
Eiríkur • 1 min

leyfi „haha“ að halda sér og svo framvegis
já – ekki senda mér viðtalið
ég myndi breyta ÖLLU
ætla að hlífa þér og forða mér í súpuna
bæjó
Sverrir • Now

Bæjó
Eiríkur • Now

   [ + ]

1. Listamenn athugið, besta leiðin til að koma verkum sínum á framfæri er að vinna sjálfboðavinnu fyrir Starafugl
2. Einsog Steinar í bókinni