Takk Snæbjörn – fyrri hluti

Snæbjörn skrifaði frábæran pistil sem ég var að sjá rétt í þessu. Snæbjörn Brynjarsson heitir hann víst. Hann útskrifaðist úr Fræði og Framkvæmd, eins og ég. Býr í útlöndum, eins og ég. Ég minnist þess að hafa einu sinni talað við hann. Þá var ég að hefja mitt þriðja ár í skólanum, hann hélt hinsvegar að ég væri nýnemi og þuldi fyrir mér lífsreglurnar af mikilli velvild. Ég brosti á móti, þakklátur og móðgaður í senn.

Af hverju er ég að segja ykkur þetta? Ég veit það ekki, það skiptir ekki máli.

Allavegana. Mér fannst pistillinn sem hann skrifaði vera frábær og ömurlegur í senn. Frábær af því hann er fullur af hugmyndum og ömurlegur af því sumar hugmyndirnar eru alveg gjörsamlega ömurlegar. Gaman að því.

Í öllu falli heldur hann umræðunni gangandi, og tekst að vera pirrandi. Hvað er annars betra en að vera pirrandi? Er eitthvað mikils verðara en að ná að pirra einhvern? Vera svo djöfulli óvenjulegur að þér tekst að pota í einhvern vitleysing sem situr á íshokkípöbb í Finnlandi svo hann skrifar í tölvuna sína orð. Svei mér þá.

Allavegana.

Nokkrir punktar. Það voru nokkrir punktar í skrifum hans sem mér fannst svo sérstaklega ömurlegir að mig langar að kommenta á þá frekar. Og einn sem mér fannst frekar áhugaverður.

1. punktur.

Í stað þess að Þjóðleikhúsið keppi við aðra í försum, söngleikjum, nýjum dramatískum verkum, þá einbeiti það sér að því að viðhalda og kynna menningararf.

Þessi hugmynd er svo geðsjúk að ég get ekki einu sinni ímyndað mér að feita barnið sem ekki má nefna gæti látið sér detta í hug slíkan viðbjóð. Í Þjóðleikhúsi Snæbjörns yrði 1956 á hverjum einasta degi. Sheikspír, Laxness og hvað þeir heita allir svo nályktin myndi ná alla leið út að Viðey. Sigmundur Davíð og gamlar konur myndu fylla áhorfendaskarann. Vídjó frá Nóbelsverðlaunaafhendingunni 1955 yrði sýnt á lúppu á risaskjánum allan sólarhringinn.

Tekjuöflunarhugmynd: Hefur einhverjum dottið í hug að láta bjóða upp á jarðarfaraþjónustu í Þjóðleikhúsinu? Salurinn er yfirleittur tómur á daginn og það er örugglega fullt af fólki sem væri tilbúið að jarða sig í musterinu. Tekjuöflunarhugmynd lýkur.

Og hvað er annars menningararfur? Á virkilega að telja mér trú um að Halldór Laxness og einhverjir gaurar sem enginn hefur heyrt um áður séu menningararfur? Menningararfur íslensku þjóðarinnar er Spaugstofan, Áramótaskaupið og Bylgjulestin. Fóstbræður og Tvíhöfði.

Ekki einu sinni dáið fólk man eftir Jóhanni Sigurjónssyni og Jóhanni Jakobssyni.

Ef við vildum endilega vera svo djöfulli mygluð að setja upp menningararf þá ættum við að setja á svið gömul áramótaskaup. Svo gætu leikstjórar uppsetninganna greint frá því í viðtölum hve mikilvægt sé að halda þessum menningararf á lofti og hve efnistök þessara gömlu áramótaskaupa eigi vel við á okkar tímum og svo framvegis og myndu nota orðið sí-gilt í því samhengi.

Punktur 2.

Eva Rún Snorradóttir bekkjarsystir mín lagði til á málþinginu að í stað stóru stofnanaleikhúsanna væri tilvalið að hafa bara skrifstofu þar sem fagfólk aðstoðar hvort annað við að koma verkefnum í framkvæmd.

Ok. Að mörgu leyti góð hugmynd. En af hverju bara fagfólk? Endurorðum hugmyndina.

Eva Rún Snorradóttir bekkjarsystir mín lagði til á málþinginu að í stað stóru stofnanaleikhúsanna væri tilvalið að hafa bara skrifstofu þar sem FÓLK aðstoðar hvort annað við að koma verkefnum í framkvæmd.

Margar lélegustu sýningar sem ég hef séð eiga það sameiginlegt að hafa verið framkvæmdar af fagfólki. Af hverju bara fagfólk? Af hverju má ekki hjálpa venjulegu fólki að aðstoða hvort annað við að koma verkefnum í framkvæmd? Þykir það kannski of hættulegt? Ekki nógu faglegt?

Gömul þjóðleikhús ríkja sem ekki eru til

Þessi hugmynd er kannski svoldið ,,wild”, en hvernig væri að leggja Ísland niður? Gera Þjóðleikhúsið að munaðarleysingja – þjóðleikhúsi þjóðar sem er ekki lengur til? Efast ekki um að það myndi styrkja þjóðleikhúsið – sem gæti þá byrjað að tala til fleiri en þessara 300.000 kotungsbúa sem er hvort eðer ekki viðbjargandi. Enginn myndi sakna Íslands nema kannski þeir sem arðræna það.

P.S.

Svo er ég ósammála því að sjálfstæðu leikhóparnir eigi að fá meiri styrki, og telst ég þó samt til lesenda Reykvélarinnar. Eins og allir vita er allt sem kemur frá sjálfstæðu leikhópunum andskotans drasl. Annaðhvort tilgerðarlegt drasl eða ömurlegt drasl. Samt yfirleitt faglegt drasl. Réttast væri að leggja niður alla styrki til sjálfstæðu leikhópana, ellegar koma upp refsingakerfi samhliða styrkjakerfinu þar sem þau sem yrðu uppvís að því að búa til ömurlegt, tilgerðarlegt, faglegt leikhús fyrir styrkjapeninga yrðu fangelsuð á Litla Hrauni, til lengri eða skemmri tíma í senn, eftir því hversu ömurlegt leikhúsið hafi verið.

Valin yrði þriggja manna dómnefnd sem yrði skipuð af vinsælasta hommanum í íslensku leikhúsi í það og það skiptið. Fyrsta dómnefndin myndi hafa innanborðs Jón Viðar Jónsson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir og einhvern ungan og sætan. Svo yrði þetta sýnt í sjónvarpinu öll föstudagskvöld.

Sérstakir heiðursgestir í fyrsta þættinum yrðu síbrotafólkið Rúnar Guðbrandsson og Steinunn Knútsdóttir sem sett hafa upp ótrúlegan fjölda ömurlegra leiksýninga fyrir pening frá Leiklistarráði. Yrðu þau sett í ævilangt fangelsi.

Höfundur er atvinnuleysingi, búsettur í Finnlandi, skammt frá rússnesku landamærunum.

Seinni hluti greinar Kristins mun birtast á morgun, fimmtudag.