Fullt fullt af bókum.

Spennt nálgast: 15.09.2014

Það styttist í að jólabókaflóðið bresti á og þar er nú sannarlega margt sem má hlakka til – en það þýðir líka að nú er síðasti séns til þess að sökkva sér í útlenskar skáldsögur í bili (nema auðvitað maður sleppi bara jólabókaflóðinu, hringi sig inn veikan, stimpli sig út úr öllum samræðum í jólaboðunum og afsali sér réttinum til að velja jólagjafir – brátt hefur heldur enginn efni á að kaupa bækur á Íslandi). Hvort heldur sem er er Starafugl á bókmenntalegu nótunum í Spennt nálgast og mælir með eftirtöldum titlum:

the children actThe Children Act er nýjasta bók Ians McEwan og bara rétt svo vikugömul. Hún fjallar um Fionu, tæplega sextugan dómara í fjölskyldurétti í Bretlandi, hjónabandið hennar sem er í hálfgerðum molum vegna þess að eiginmaðurinn vill hefja opið samband (til að geta riðið 28 ára vinkonu sinni), og samband Fionu við tæplega átján ára Vott Jehóva, ljóðskáld og undrabarn með hvítblæði, sem kemur fyrir réttinn vegna þess að hann vill ekki þiggja blóðgjöf og stendur frammi fyrir dauðanum nema Fiona dæmi hann til lífs. Nístandi og klínískur McEwan upp á sitt besta.

yourfaceinmine
Your Face in Mine eftir Jess Row kom út fyrir rúmum mánuði og fjallar um tvo félaga úr menntaskóla sem hittast aftur þegar annar þeirra – sem hefur farið í kynþáttaleiðréttingu í Tælandi, látið breyta sér úr hvítum askenasígyðingi í „african american“ – biður hinn um að skrifa sögu sína og koma henni á framfæri. Bókin er átakanleg (og oft hlægileg) úttekt á sjálfsmyndarvandamálum, réttinum til að skilgreina sig sjálfur og valdinu sem slíkum rétti fylgir – um svörtu ameríku, hvítu ameríku, Kína, Tæland, sorgina, ástina og framrás læknavísindanna.

lolstein
Starafugl – eða einn Starafugla – er bara nýbúinn að lesa hina dásamlegu Le Ravissement de Lol V. Stein (á ensku: The Ravishing of Lol Stein) eftir Marguerite Duras. Bókin fjallar um Lol þessa, sem er hamingjusamlega gift, en snýr aftur til smábæjarins þar sem hún glataði eitt sinn unnusta sínum – hreinlega í einni svipan, fylgist með honum stíga út á dansgólfið með annarri konu og ganga síðan með henni út og sjást aldrei aftur. Söguþráðurinn og viðfangsefnið eru í sjálfu sér nógu áhugaverð – þótt þetta sé enginn flettibók – og bókin býður upp á margar heimspekilegar vangaveltur. En það sem heldur manni við efnið er textinn – sjálf tilfinningin í orðunum. Dæmi: A cet instant précis une chose, mais laquelle ? aurait dû être tentée qui ne l’a pas été. A cet instant précis Lol se tient, déchirée, sans voix pour appeler à l’aide, sans argument, sans la preuve de l’inimportance du jour en face de la nuit, arrachée et portée de l’aurore à leur couple dans un affolement régulier et vain de tout son être. Elle n’est pas Dieu, elle n’est personne. At that precise moment, some attempt − but what? − should have been made which was not. At that precise moment Lol is standing, completely undone, with no voice to cry out for help, with no convincing argument, with no proof of how unimportant the coming day was compared to that night, uprooted and borne from dawn toward that couple, her whole being filled with a chronic, hopeless feeling of panic. She is not God, she is no one.

.

du
Þýska bókin Du eftir Zoran Drvenkar er æsispennandi tryllir um fimm unglingsstúlkur í Berlín og dularfullan fjöldamorðingja – öll skrifuð í annarri persónu. Du (sem kom út árið 2010 en birtist í enskri þýðingu þann 19. ágúst síðastliðinn) er kannski meiri sumarlesning en haustlesning – meiri spenna og minni metafýsísk átök – en vilji maður láta draga sig með í þeysireið um heim táninga, eiturlyfjabaróna, óreglu, sakleysis og sturlaðrar morðfýsnar, í bók sem er skemmtilega plottuð og skrifuð af fullkomnu öryggi, þá er Du alveg málið.

20605522
Skáldsagan 10:04 eftir Ben Lerner (titillinn vísar til þess tíma sem eldingunni lýstur niður í klukkuna í Back to the Future) er bók um dreng sem er að reyna að finna sig, eftir að hafa slegið í gegn fyrir að skrifa bók um dreng sem er að finna sig, eftir dreng sem sló í gegn eftir að hann skrifaði bók um dreng sem var að reyna að finna sig. New York metafiksjón fyrir þá sem hafa gaman af Lenu Dunham, Tao Lin og Miröndu July. Bókin kom út 2. september síðastliðinn.

ilcanedidioIl Cane di DioHundur Guðs, sem er líka fáanleg í enskri þýðingu frá því í desember í fyrra – eftir Diego Marani gerist í náinni framtíð þegar Vatíkanið hefur tekið yfir Ítalíu. Bókin fjallar um lögregluþjóninn Domingo Salazar sem starfar í lögreglusveit sem meðal annars sér til þess að eyðnilyfin sem send eru til Afríku séu lyfleysa, svo fólk missi trúna á vísindunum og snúi sér aftur að trúnni. Lögregluþjónninn rannsakar samtök öfgasinnaðra hryðjuverkamanna sem stunda líknarmorð á spítölum og ætla að ráða páfann af lífi. Salazar, sem er mikill bókstafstrúarmaður – sannkallaður „hundur guðs“ – en líka samkynhneigður og gefinn fyrir hassreykingar, er sjálfur í leynimakki um hina „einu trú“ með vini sínum og elskhuga sem er indónesískur bókstafstrúarmúslimi og vísindasinni. Bókin er í senn óður til trúarinnar og beisk gagnrýni á hana.

AuZenithĐỉnh Cao Chói Lọi eftir víetnömsku skáldkonuna Dương Thu Hương – sem er þýdd á ensku sem The Zenith – kom út á víetnömsku árið 2009, fljótlega eftir það á frönsku (en Dương er í pólitískur flóttamaður í París) og á ensku fyrir tveimur árum. Bókin fjallar um síðustu daga Ho Chi Minh árið 1969 – þar sem hann er valdalaus brúða, ósnertanlegur tákngervingur byltingar sem hann tekur ekki lengur þátt í. Hann býr uppi á fjalli við hliðina á nunnuklaustri nálægt smáþorpi. Bókin fjallar um efasemdir hans um byltinguna – og um fegurð byltingarinnar – og teygir sig inn í stríðið, á vígvöllinn, til besta vinar Hos frænda og hans nánasta ráðgjafa, og síðast en ekki síst niður í þorpið, þar sem fjölskylduerjur verða symbólískar fyrir vandamálin sem steðja að hinu sósíalíska kerfi, eigingirnina, valdagræðgina, fordómana, íhaldssemina, en líka fyrir hvatana – ástina, samstöðuna og réttlætiskenndina. Dương er líklega þekktasti rithöfundur Víetnama um þessar mundir. Hún er einsog áður segir pólitískur flóttamaður í París og var rekinn úr kommúnistaflokknum í byrjun tíunda áratugarins, en tvítug, árið 1967, bauð hún sig fram í kvennahersveit norður Víetnamska hersins og barðist sem slík í göngum og frumskógunum í sjö ár.

command-and-controlÞá barst Starafugli ábending um faktabókina Command and Control eftir rannsóknarblaðamanninn Eric Schlosser (sem er líklega þekktastur fyrir að hafa skrifað Fast Food Nation). Í bókinni skoðar Schlosser tilvist kjarnorkuvopna í samtímanum, slysin sem hafa orðið, skiptin sem litlu mátti muna að allt færi til andskotans, hetjudáðirnar og tækniframfarirnar. Bókin spyr þeirrar spurningar hvernig maður geti ætlast til þess að geta notað gereyðingarvopn án þess að búast samtímis við því að þau tortími manni.

Hún kom út fyrir nærri því akkúrat ári síðan (17. september, 2013).

Langi einhvern að líta í glatkistuna hefur Starafugl verið fullvissaður um að enginn geti orðið framúrstefnuskáld á Íslandi nema lesa Lablöðu Hérgulu eftir Einar Guðmundsson SÚMara. Því til sönnunar er hér lítið brot:

einargudmundsson_labladahergula

Sagan um litla gula hænuungann
Litli guli hænuunginn var brjálæðislega ástfanginn af litla bláa hundinum og hegðaði sér samkvæmt því.
Litli blái hundurinn fékk ekki við neitt ráðið.
Litli guli hænuunginn reið litla bláa hundinum eins og brjálæðingur.
Hættu að ríða mér allan tímann eins og brjálæðingur, öskraði litli blái hundurinn.
Haltu kjaftu eða ég treð steini velgengninnar upp í rassinn á þér, öskraði litli guli hænuunginn á móti.

Um tilurð bókarinnar segir í formála:

Skáldsaga þessi (eða skúlptúr), Lablaða hérgula er orðin til á eftirfarandi hátt: Þann 7. marz 1973 tók ég álitlegan stafla af handritum eftir sjálfan mig, afrakstur ca. Þriggja-fjögurra ára skrifa og reyndist bunkinn vera 16,4 cm skv. Tommustokksmælingu. Horfði ég stjarfur á handritabunkann í um það bil heila klukkustund og komst að þeirri niðurstöðu að í stað þess að gefa út þægilega og sæta bók með gamla hugsunarlaginu stæði mér nær að búa til prentunar eins konar þverskurðarskáldsögu, þar sem ég notaði hin margvíslegu viðfangsefni mín í gegnum árin.

Hófst ég nú handa, að skera sundur og tengja saman hina ólíkustu búta: heilar sögur, brot úr sögum, ljóð, teóríuljóð, heilar setningar og setningar í molum, og beittti sömu alúð og hjartaskurðlæknir sýniur við hjartaflutning á milli manna. Langaði mig sumpart til að gefa mynd af eðlisfari dagblaðs, sem gerir hvort tveggja í senn: að herma eftir lífinu og reyna að móta það. Valdi ég þó aðallega estetíkina í þurrari kantinum svokallaða og setti ég upp skilti í huganum þar sem á stóð:

ÓVIÐKOMANDI HUGMYNDUM STRANGLEGA BANNAÐUR AÐGANGUR.

Látið okkur endilega vita hvað ykkur finnst magnað. Þetta er bæði auðveldara og skemmtilegra ef þið takið þátt. Kommentakerfið er opið og netfangið er starafugl@gmail.com.