Mikhaíl Gorbatsjov kom til Íslands í einkaþotu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Mynd: dv.is

Skömm og heiður

Um Hamskiptin og Skugga sólkonungs

Ritdómurinn sem rafbók:
kindleepubPDF
Tölum nú aðeins um hrunið. 1

Fyrir skemmstu komu út tvær bækur sem segjast fjalla um hrunið en virðast báðar í reynd fjalla um góðærið. Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson og Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnarson eru báðar ákæruskjöl og vilja færa fram rök fyrir því hverjum hrunið var að kenna. Í bók Ólafs birtist einn sökudólgur, Davíð Oddsson. Í Hamskiptunum er hins vegar bent á þig, það er Íslendinga yfirleitt, þjóðina eins og höfundur orðar það stundum. Bækurnar eiga það líka sameiginlegt að báðum virðist búa að baki hugmynd um andmælanda, sem haldi því fram að Davíð Oddsson, annars vegar, þjóðin, hins vegar, sé saklaus. Þá hafa höfundar báðir starfað sem blaðamenn. Að öðru leyti eru bækurnar gjörólíkar. Ég mun verja fleiri orðum í bók Inga Freys en Ólafs. Í fyrsta lagi er hún betur unnin og burðugra verk, svo að ég nefni það strax. Í öðru lagi kemur það að einhverju leyti, en ekki eingöngu, til af því að röksemdafærslan fyrir ábyrgð almennings er öllu flóknari og útheimtir fleiri sviðsetningar en röksemdafærslan fyrir ábyrgð Davíðs Oddssonar. Í þriðja lagi dregur Ingi Freyr af ábyrgð almennings frekari ályktanir: að til þess að þetta gerist ekki aftur, það er hrunið, þurfi almenningur að gangast við sekt sinni og skammast sín. Ég hef ekki áður séð talað um skömm sem jákvætt pólitískt hreyfiafl og staldra því nokkuð við þessar hugmyndir.

Skuggi Sólkonungs

solkonungurÍ upphafi Skugga Sólkonungs er kafli sem ber yfirskriftina „Hvers vegna ertu svona andsnúinn Davíð?“ þar sem höfundur sver það af sér að honum sé illa við Davíð Oddsson með snöggri upprifjun á öllum axarsköftunum sem hann segir Davíð hafa gert. Kaflanum lýkur á þessari niðurstöðu:

Ég hef ekki andúð á Davíð Oddssyni en ég hef megnustu fyrirlitningu á mörgum hans gjörðum og orðum. Hann notaði völd sín og áhrif til að hlaða undir vini sína og herja gegn þeim, sem honum mislíkaði við. Afleiðingarnar eru það Ísland, sem við búum í. Skuldum sett land, sem mátti af hans völdum þola fjögur ár af vinstri stjórn, sem engar lausnir hafði á vanda heimila og fyrirtækja aðrar en þær að hækka skatta og loka landinu. 2

Með öðrum orðum má skilja á Ólafi Arnarsyni að það versta sem Davíð Oddsson beri ábyrgð á sé ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Sjálfur lít ég ekki svo á að gallinn við hægriöfl séu vinstriöfl. Þetta er rétt að nefna skýrt í upphafi greinar til að það sé frá og trufli ekki umfjöllun um aðra þætti bókarinnar. Það að ég sé ósammála höfundinum um ákveðnar forsendur er ekki stærsti galli verksins.

Stærsti vandi bókarinnar finnst mér vera léleg heimildavinna. Í riti sem er ætlað að fjalla um umdeilda samtímasögu, leggja fram staðreyndir og túlka þær, skiptir burðug heimildavinna öllu máli, eigi bókin að geta varðað lesandann. Í fyrsta lagi vegna þess að eftirgrennslan í áreiðanlegum heimildum getur víkkað sjónsvið höfundar. Í öðru lagi gera vandaðar tilvísanir til heimilda lesandanum kleift að treysta textanum og draga af honum eigin ályktanir. Skortur á heimildum í riti Ólafs þýðir að lesandi fær ekki að vita heldur verður að trúa höfundi. Ég get valið dæmi nánast af handahófi. Á bls. 102 segir:

Þá sneru menn sér til Rússa og sú saga er nú að nokkru leyti þekkt. Rússnesk stjórnvöld munu hafa haft fullan vilja til þess að lána Íslendingum – ekki út frá einhverjum annarlegum sjónarmiðum að sagt var heldur hafi ráðið þar mestu löng viðskiptasaga Íslands og Rússlands. Þetta telja íslenskir ráðamenn sig hafa fengið staðfest í samtölum við æðstu menn í rússneska stjórnkerfinu. 3

Er það? Sem lesandi veit ég ekkert um stöðu þessarar staðhæfingar: er þetta alkunna og hefur það verið margendurtekið í fjölmiðlum? Eða er þetta þvert á það sem aðrir halda fram opinberlega? Ólafur heldur áfram:

Lánveitingin frá Rússlandi mun hafa verið á mjög viðkvæmu stigi þegar Davíð Oddsson klúðraði málinu með því að rjúka með það í fjölmiðla. Sendiherra Rússa, Victor I. Tatarintsev, mun hafa verið æfur yfir frumhlaupi Davíðs þegar það átti sér stað þó að hann hafi örfáum mánuðum síðar lýst því sem farsakenndri uppákomu í samtölum. 4

Rússar vildu lána, Davíð klúðraði því, sendiherrann varð brjálaður þó að hann lýsi því öðruvísi sjálfur. Hverjar eru heimildir Ólafs fyrir viðbragði sendiherrans? Ég veit það ekki. Af lestri bókarinnar veit það enginn. Kannski deilir höfundur því í einkasamræðum. Eftir stendur að ég get ekki haft þessar fullyrðingar með mér næst þegar ég sit í fjölskylduboði með aðdáanda Davíðs, ég get ekkert sagt um Rússalánið eða klúður Davíðs með fullvissu. Ég get bara endurtekið slúður. Það er gegnumgangandi vandi bókarinnar. Mér telst svo til að í þessari 179 blaðsíðna bók séu alls 51 neðanmálsgrein. Það er, á þriðju til fjórðu hverri síðu, yfirleitt aðeins þegar höfundur styðst við beinar tilvitnanir. Kaflinn „Ringulreið í Seðlabankanum“, sem hér er vitnað í um Rússalánið, inniheldur eina tilvísun í heimild, sem kaflanum lýkur á: „Þessi kafli er að mestu unninn upp úr samtölum við trausta heimildarmenn á æðstu stöðum í íslenskri stjórnsýslu. Einnig er notast við upplýsingar sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.“ Leturstærðin gefur til kynna að þetta sé heimildaskráning, en það er bara búningaleikur. Sumt af þessu ógegnsæja slúðri verður enn bagalegra fyrir að vera í skildagatíð. Svo að ég grípi aftur niður af handahófi – skáletranir mínar:

Ef Seðlabankinn hefði tekið tryggingar í eignasöfnum bankanna, þ.e. raunverulegum útlánum á borð við íbúðalán og þess háttar, í stað þess að taka sjálfskuldarábyrgðir frá bönkunum sem veð, hefði bankinn átt þessar eignir þó að bankarnir færu í þrot. … Snjóhengjan margumtalaða væri ekki nándar nærri eins stór og hún er í dag.“ 5

Af lestri bókarinnar veit ég ekki að þetta sé rétt. Ég veit aðeins að höfundur lítur svo á. Fyrir hverjum sem hefur ekki ástæður til að halda að höfundur hafi sérsamning við sannleikann og komist þar fram fyrir röðina, er þetta tvennt ólíkt. Í öllum tilfellum skiptir þetta máli, vegna þess að í öllum tilfellum eru staðhæfingarnar liður í röksemdafærslu fyrir sekt manns, Davíðs Oddssonar, sem öllu hafi klúðrað. Staðhæfingarnar eiga að leiða til sakfellingar. Niðurstaða þessa tiltekna kafla er til dæmis að: „Vegna afglapa bankastjórnar Seðlabankans þarf íslenska ríkið hins vegar að endurfjármagna Seðlabankann eftir þrot hans …“ og loks: „Þar með er gjaldþrot Seðlabankans óumdeilanlega versta höggið sem við Íslendingar urðum fyrir í hruninu 2008.“ Þegar kemur að þessari niðurstöðu kannast ég ekki við að mér hafi verið sýnt neitt slíkt í því sem á undan fór.

Davíð klaufi

Að því leyti sem höfundur heldur þekkingu með þessum hætti að mestu leyti fyrir sig en ætlast til að lesandinn trúi sér má kalla þetta verk svolítið ólýðræðislegt. Nú er ég hrifinn af smáútgáfum og því að bækur komi í heiminn án þess að höfundum finnist þeim skylt að sækja um leyfi til útgáfunnar. Í þessu tilfelli finnst mér hins vegar gallar slíkrar útgáfu birtast: trúlegt er að, væri bókin gefin út með aðkomu bókaforlags, hefði hún, við yfirlestur og ritstjórn, annað hvort batnað mikið eða dagað uppi. Bókin um Davíð, pólitíska fyrirbærið, tímann og ástandið, er enn óskrifuð.

Reyni maður að lesa Skugga sólkonungs sér til innblásturs, og leita í ritinu að forvitnilegum sjónarhólum, þá ber helst á því hvað Davíð Oddsson hafi reynst mikill klúðrari. Ólafur Arnarson virðist að mestu leyti samþykkur yfirlýstri stefnu Sjálfstæðisflokksins og gerir ekki verulegar athugasemdir við hugmyndafræði Davíðs Oddssonar og Eimreiðarhópsins. Fyrir vikið birtast skakkaföll flokksins og ríkisstjórna hans sem klúður eins manns sem aldrei tekst að gera neitt rétt. Myndin af Davíð, í þessari bók, er mynd af frekjuköstum og klaufaskap, mynd af manni sem sem gengur gott til en skorti sjálfsstjórn og klúðrar alltaf öllu. Mynd af Davíð klunna. Ef til vill er eitthvað til í henni.

Lykillinn að ritinu og það sem virðist tilefni skrifanna birtist hins vegar undir lok bókarinnar. Þá rifjar höfundur upp sögu Konrads Adenauer, sem varð kanslari Vestur-Þýskalands eftir seinna stríð, 73 ára gamall:

Ritstjóri Morgunblaðsins og Adenauer eiga sameiginlegar rætur, ef svo má segja. Báðir voru þeir borgarstjórar. Ritstjórinn hefur á stundum vottað Adenauer virðingu sína í samtölum við fólk. Ekki er laust við að sumir hafi túlkað þau samtöl á þann veg að ritstjórinn finni til samkenndar með Adenauer sjái sér sköpuð sömu örlög hér á landi – að snúa aftur í stjórnmálin á gamals aldri til að reisa landið úr rústum. Stöku maður hefur hvíslað því, að gamli stríðshesturinn virðist ganga með létta Adenauerduld. 6

Beint í kjölfarið minnir Ólafur á sögu Margaretar Thatcher: hún hafi ekki þekkt sinn vitjunartíma og staðið í vegi þess, með afskiptum af breska Íhaldsflokknum eftir að valdasetu hennar lauk, að flokkurinn kæmist aftur í ríkisstjórn. „Veruleg hætta virðist vera á því að sama gerist í Sjálfstæðisflokknum hér á Íslandi,“ segir Ólafur. 7 Hann hefur með öðrum orðum áhyggjur af því að Davíð þvælist fyrir Sjálfstæðisflokknum. „Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var líkast til versta ríkisstjórn lýðveldisins,“ segir hann. En verra hafi verið fálæti Sjálfstæðisflokksins sem „virtist ekki geta sýnt lífsmark nema þegar að því kom að verja heiður gamalla foringja flokksins eða hagsmuni þröngs hagsmunahóps í sjávarútvegi.“ Þetta virðist með öðrum orðum vera einhvers konar innanbúðarrit, sérálit við flokksályktanir, gefið út í kilju. Ég tilheyri ekki markhópnum. Ef til vill hittir bókin beint í mark hjá þeim sem hún er ætluð. Það hljómar ekki ósennilega, að allir þeir sem á annað borð orna sér við tilhugsunina um að Davíð Oddsson bjóði sig fram til forseta, eða seilist á einhvern hátt aftur til valda, þekki svo vel til þeirra mála sem höfundur reifar í ritinu, að engin ástæða sé til að geta heimilda um þau. Fyrir aðra, fyrir utanflokksfólk, gerir það ritið því miður lítils virði. Að því sögðu sný ég mér að Hamskiptunum, með örlitlu forspili.

Gallaðar hugmyndir

Davíð Oddson hafði ekki bara skap heldur stefnu. Það er ekki tæmandi lýsing að kalla þá stefnu frjálshyggju. Ég held að Davíð hafi sjálfur lýst stefnunni, eða í það minnsta mikilvægum þætti hennar, í grein sem hann skrifaði árið 1984 og birtist í tímaritinu Frelsið, í ritstjórn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Greinin ber yfirskriftina „Tómas Guðmundsson“ og fjallar um skáldið. Ég vona að mér fyrirgefist að vitna í hana í nokkuð löngu máli, en í mínum huga hefur þessi grein orðið einhvers konar lykill að því sem á eftir fór. Greinin hefst á þessum orðum:

Winston S. Churchill, forsætisráðherra Breta, varð ekki ótvíræður fyrir sínu liði fyrr en á þeim tímamótum, er margir voru þess fullvissir, að stjórn undir forystu hans hefði ekki um annað að velja en hvers konar blek hún vildi nota til að undirrita uppgjafarskilmála Hitlers, bandamanns Stalíns. Frá upphafi stappaði hann stálinu í þjóð sína með nýjum tóni, sem gaf um leið því fólki, sem þá þegar hafði glatað frelsi sínu, ástæðu til að ímynda sér, að það gæti glitt í vonarglætu í svartnættisskýjum. Um þær mundir fannst æði mörgum, að ræður ráðherrans digurbarkalega bæru einkum vott um það atgervi breska heimsveldisins, sem eitt stæði eftir, kokhreystina. Allir vita um lyktir þeirrar sögu.

Ekki verður sagt, að jafnmikið væri í húfi fyrir Tómas Guðmundsson, þegar hann ávarpaði þjóð sína fyrst, svo að eftir var tekið. Víst var bíræfni hans af öðrum toga, en umgjörðin bar sama svip. Þessi nýja rödd virtist ekki síður á skjön við daglegar staðreyndir, sem heilbrigð skynsemi dró sínar ályktanir af, en hvatningarræður vískitröllsins frá Blenheim sjö árum síðar. Stundin er á milli stríðanna miklu. Kreppan er kennimark þjóðanna, að minnsta kosti þeirra þjóða, sem upp úr því höfðu komist að búa við eilífðarkreppu. Þær höfðu um hríð engst sundur og saman úr étandi innanmeinum, sem ekkert virtist bíta á. Afleiðingum kreppunnar hafði skolað á íslenskar fjörur. Nútíminn sá til þess, að það ferðalag var ekki eins síðbúið og svarti dauðinn forðum. Minna var um skoðanakannanir þá en nú er. En hætt er við, að spurning á borð við þá, hvort mönnunum þætti ekki veröldin fögur, hefði þótt dularfull. En Tómas Guðmundsson spurði ekki. Hann tilkynnti þjóð sinni þetta. Allt var þetta löngu fyrir mína tíð. En margir hafa sagt mér, að þessi íslenski ólíkindaspámaður hafi með undraverðum hraða sannfært margan landann um þessa nýstárlegu kenningu. 8

Í þessari grein, þessu skammhlaupi milli stjórnmálamannsins og herforingjans Winstons Churchill í baráttu við nasista og ljóðskáldsins Tómasar Guðmundssonar í baráttu við vælið í fólki í kreppunni birtist veigamikill þáttur þeirrar stjórnmálastefnu sem var rekin á Íslandi frá 1991 til 2008, stjórnmálastefnu sem var að nokkru leyti túlkunarfræði: að slæmar fréttir séu oftast misskilningur, alltaf óþarfar, betur ósagðar og óheyrðar. Í sama hefti Frelsisins er prentað erindi sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson hélt á hádegisverðarfundi Stofnunar Jóns Þorlákssonar, sem í dag heitir Rannsóknarstofnun um nýsköpun og hagvöxt. Erindið hafði yfirskriftina: „Stúlkan í þrönga kjólnum – eða hvernig á að frelsa heiminn“. Í erindinu segir meðal annars:

Það sem við þurfum umfram allt að skilja, er það, að heimurinn er ekki gallagripur af því að einstakir menn eða einstakir flokkar séu gallaðir, heldur af því að þær almennu hugmyndir, sem menn hafa, eru gallaðar. 9

Þetta held ég að sé rétt. Bókin sem skoðar nýliðna Íslandssögu í ljósi þeirra „almennu hugmynda“ sem Davíð, Hannes og fleiri hrintu í framkvæmd, er enn óskrifuð.

Hamskiptin

hamskiptiIngi Freyr Vilhjálmsson fer hins vegar nær því að skrifa slíka bók með ritinu Hamskiptin: Þegar allt varð falt á Íslandi. Meginhluti bókarinnar, frá kafla eitt til sjö, hið eiginlega sögulega yfirlit, er fantavel unnið. Þessir kaflar telja um 200 blaðsíður, sem skiptast í umfjöllun um ólík svið samfélagsins og hvernig þau voru innlimuð af markaðsöflum, fyrst og fremst á tímabilinu 2002–2008. Heimildavinna þessa rits er burðug: höfundur leitar fanga víða, í bókum, skýrslum, fjölmiðlum og samtölum við menn sem hann gerir skilmerkilega grein fyrir þegar því verður við komið. Meginefni þessara kafla felur þannig í sér, að því er virðist, áreiðanlega þekkingu. Fjölmiðlar hafa þegar flutt fréttir af nýmælum sem koma fram í bókinni, á við einkaleiksýningu í Þjóðleikhúsinu, í tilefni brúðkaupsafmælis Björgólfs Guðmundssonar og konu hans. 10 Flest sem fram kemur telst líklega ekki til nýmæla en er í bókinni rakið svo skilmerkilega og með það vandaðri heimildavinnu að lesandi veit, að lestri loknum, það sem hann áður aðeins grunaði misáreiðanlega. Ágætt dæmi er frásögnin af því þegar Edda útgáfa fargaði upplagi af sögu Thors-ættarinnar eftir prentun, vegna kafla sem hefðu komið við kauninn á fjölskyldu Björgólfs Guðmundssonar, þáverandi eiganda forlagsins. 11 Ég hafði ekki áður heyrt að þar hefði lokið fjármögnun Björgólfs á rekstri forlagsins en eftir lestur bókarinnar virðist það nokkuð ótvírætt. Að hætti vandaðrar blaðamennsku leitar Ingi Freyr oft svara eða viðbragða hjá þeim sem um ræðir. Í þessu tilfelli vitnar hann í samræður við bókarhöfund, útgefanda og Björgólf sjálfan. Höfundurinn er yfirleitt varfærinn í meðferð upplýsinga og ályktana, setur nauðsynlega fyrirvara og teflir fram orðaforða sem gerir honum kleift að fjalla um gagnkvæma greiðvikni og önnur illáþreifanleg tilbrigði við spillingu, þegar ekki er um að ræða beinar mútugreiðslur eða hótanir – þegar allt er kræklótt. 12 Í kaflanum „Þögn listamannsins“ er til dæmis gerð grein fyrir einum slíkum vanda, spurningunni um sjálfsritskoðun. Höfundur segir að sjálfsritskoðun sé:

svo máttug því að hún felur það ekki í sér að sá sem ritskoðar sjálfan sig geri eitthvað, heldur öllu heldur að hann geri ekki eitthvað. Þannig er sjálfsritskoðun neikvæð en ekki jákvæð; hún snýst um að láta eitthvað ógert. Þar af leiðandi eru engin verksummerki um hana og ekki er hægt að sanna að hún hafi farið fram. Enginn þarf heldur að sæta gagnrýni eftir að hafa stundað sjálfsritskoðun þar sem hún fer ekki fram á yfirborðinu heldur inni í höfðinu á fólki. [… E]f játning viðkomandi liggur ekki fyrir, þarf enginn að frétta af sjálfsritskoðuninni og ekki er hægt að fullyrða að hún hafi átt sér stað. Í þeim skilningi má segja að sjálfsritskoðunin eigi sér aldrei stað[.] 13

Þó má finna gloppur. Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsti til dæmis ekki íslenskri þjóð sem svo að hún vildi „græða á daginn og grilla á kvöldin“, í frægu sjónvarpsviðtali, heldur meðlimum Sjálfstæðisflokksins. 14 Þá er hugtakanotkun stundum hraðsoðin, á við: „Nýfrjálshyggjan gengur ekki svo langt, nema í sinni róttækustu mynd sem er anarkisminn, að afnema eftirlitshlutverk ríkisvaldsins“. 15 Að kalla anarkisma róttækustu mynd nýfrjálshyggju er umdeilanlegt, hið minnsta. Bókin hvílir hins vegar ekki á þessum atriðum, sem virðast því ekki alvarleg. Eftir standa skýrar og ábyggilegar sneiðmyndir af vafasömum starfsháttum og undirgefni við auðvald á þessu tímabili.

2007 er víða

Að tala um hugarfarið og hættina eins og tímabili þeirra sé lokið væri þó háskaleg einföldun. Dæmi bókarinnar um að svo sé ekki eru mýmörg. Eitt er nýlegt viðtal höfundarins við Ásgeir Friðgeirsson, talsmann Björgólfs-feðga, um kauptilboð sem Björgólfur Thor gerði í DV, í kjölfar umfjöllunar sem þeir feðgar voru ósáttir við. Með fyrirvara Ásgeirs um að „þeir strákarnir, Jón Ásgeir og Bjöggi Thor“ hafi bara verið „í einhvers konar rifrildi“ má heita staðfest í bókinni að ásetningurinn með kauptilboðinu hafi verið að leggja blaðið niður. Í viðtalinu sem Ingi Freyr tekur í ritunarferli bókarinnar bætir Ásgeir við: „En það eru ótal, ótal dæmi um það að menn hafi keypt blöð og svo bara breytt þeim án þess að það teljist óeðlilegt.“ 16 Í kaflanum „Salan á háskólunum“ birtist hliðstæð samfella í viðhorfum frá því fyrir hrun í máli Snjólfs Ólafssonar, prófessors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. 17 Fyrr í kaflanum er Snjólfur kynntur með þeim orðum að hann hafi farið:

[…] fyrir rannsóknarverkefni hjá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands sem hét Útrás íslenskra fyrirtækja og var kostuð af Actavis, Eyri Invest, Glitni, Landsbankanum, Kaupþingi og Útflutningsráði. Í rannsóknarverkefninu var reynt að greina íslensku útrásina og ástæður hennar. … Hluti verkefnisins fólst í því að skoða „hvernig einstök fyrirtæki hafa þróast með áherslu á starfsemi þeirra erlendis.[…]“

Ingi Freyr segir að fyrirtækin hafi því öðrum þræði verið að „styrkja rannsóknir á sjálfum sér í gegnum Háskóla Íslands.“ Hann vitnar í rannsóknarniðurstöður þessa rannsóknarverkefnis, þar sem meðal annars er talað um „reddaragen“ Íslendinga sem hafi fengið að blómstra og gert þá að „víkingum í viðskiptum“. Snjólfi er gert færi á að svara fyrir sig. Hann segir:

Það eru margar hliðar á hlutunum og það er eðlilegt að menn hafi ólíkar skoðanir. Ég held hins vegar að það séð voðalega lítið til af réttum og röngum skoðunum og ég held að það sé voðalega lítið til af staðreyndum. Menn eru oft að leita að sannleikanum með staðreyndum en ég held að þær séu mjög oft bara ekki til heldur er það sýn manna og skilningur á heiminum sem gildir.

Þá segist Snjólfur telja „almennt æskilegt“ að háskólinn fái „meiri og meiri styrki“. 18 Það sem haft er eftir Snjólfi gætu virst vandræðaleg ummæli frá prófessor í fagi sem margir efast um að hafi staðist fræðilegar forsendur á síðustu árum, eins ef orðunum væri aðeins ætlað almennt gildi en beindust ekki einmitt sérstaklega að umfjöllun um spillingu innan fagsins. Þegar hér kemur sögu hefur höfundur þegar lagt til hugtakið „strokur“ yfir gagnkvæma greiðvikni, þegar ekki er þó um að ræða beinar mútugreiðslur, samkvæmt viðkvæðinu að „æ sér gjöf til gjalda“. 19 Með slík gjafahagkerfi í huga liggja allar styrkjagreiðslur undir grun. Snjólfur lýkur máli sínu á að segja: „Ég myndi þiggja svona styrki hvenær sem er aftur en aldrei ef það fylgdi að ég þyrfti að komast að einhverjum tilteknum niðurstöðum eða slíkt. Ég myndi ekki snerta það.“ 20 Þó það nú væri. Ætli flestir geri ekki ráð fyrir að styrkveitingar hafi frekar áhrif á rannsóknarsvið, rannsóknarspurningar, og hugsanlega hugtökin sem stuðst er við en að þeim fylgi ný margföldunartafla. Fljótt á litið virðist trúlegt að sjávarútvegsfyrirtæki styrki frekar rannsóknir viðskiptafræðinga á kostum og göllum kvótakerfisins út frá hagvaxtarreikningum en, til dæmis, rannsókn sálfræðings á áhrifum sama kerfis á geðheilsu og líðan í byggðarlögum sem fyrir kerfinu verða. Slík áhrif hefði mátt nefna berum orðum. Hér er ég að biðja um meira af því sem er þó þegar vönduð umfjöllun. Þessir sjö kaflar bókarinnar, lýsingar á „staðreyndum mála“, eru innihaldsríkt innlegg fyrir þá sem vilja skilja hvaðan við erum að koma og hvert okkur gæti verið heitið.

Samkvæmt kynningu bókarinnar og lokaköflum er henni hins vegar ekki fyrst og fremst ætlað að færa fram sögur úr góðærinu, heldur að setja fram kenningu um ábyrgð á hruninu.

Að leita sökudólga

Átökin um ábyrgðina á hruninu hófust um leið og hrunið sjálft: Geir H. Haarde og fleiri ráðamenn klifuðu á því í vikunni sem bankarnir féllu að nú væri ekki tíminn til að leita að sökudólgum heldur leysa úr vandanum. Þegar björgunaraðgerðum var lokið var sú mantra löguð að breyttum tímum: enn heyrist stundum að það þýði ekki lengur að hanga í fortíðinni, við verðum að horfa fram á veginn. En samfélag er fjölradda fyrirbæri. Margar skýringar hafa komið fram. Og margar ásakanir. Í sérstöku dálæti hjá mér er innlegg Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í viðtali við tímaritið The New Yorker í mars 2009, þar sem hann kennir linkind vinstrimanna um hvernig fór, þeir hafi alls ekki tekið nógu hart á móti:

[Hannes] sagði líka, eins og það væri að hvarfla að honum í fyrsta sinn, að það gæti verið að „einhverjum okkar sé óbeint um að kenna, fyrir að hafa skapað andrúmsloft þar sem frumkvöðullinn var lofaður. Viðskiptamaðurinn, gaurinn sem tekur yfir fyrirtæki, bútar það í sundur – hann var hetja íslenskra þjóðsagna, sköpuð af sumum okkar sem studdum markaðsfrelsið dyggilega.“ Hann hélt áfram: „Óbeint gengst ég við einhverri sök á þessu, en ef þú hugsar út í það er það ekki mér að kenna. Það er vinstrisinnuðu menntamönnunum að kenna, sem hefðu átt að færa fram andstæð sjónarmið!“ Hann bætti við: „Þú getur ekki ásakað fólk fyrir árangur þess – þú þarft að sækja mál gegn þeim sem mistekst. Við náðum of góðum árangri með heimspeki markaðsfrelsisins.“ 21

Skemmtilegast væri auðvitað að skeyta þessari skýringu Hannesar á því hverjum hrunið er að kenna – vinstrinu –, við útlistun Ólafs á því hver versta afleiðing hrunsins var – myndun vinstristjórnar: og eftir stendur bölvað vinstrið sem fékk öllu sínu framgengt …. Hvað um það, Hannes hefur reyndar nokkuð til síns máls, en einmitt þess vegna finnst mér þessi viðtalsbútur forvitnilegur: að hann getur samt ekki sagt það. Nánar að því síðar.

Fengist hefur verið við spurninguna um ábyrgð á marga vegu. Það liggur beint við að nefna fyrst dómsmálin; fyrst yfir mótmælendum, þá Geir H. Haarde, síðan yfir athafnafólki eða fjárglæframönnum, á vegum embættis Sérstaks saksóknara. Þeim vindur enn fram. Um þau segir Ingi Freyr:

Það lagalega uppgjör snýst hins vegar að litlu leyti um ábyrgðina á hruninu sem slíku … Ef horft er á þær ákærur sem gefnar hafa verið út hjá sérstökum saksóknara má sjá að þær snúast flestar frekar um viðskipti sem voru afleiðingar af hruninu eða afleiðingar af því að harðna tók á dalnum í íslenska efnahagskerfinu. … Ekkert dómsmál hefur verið höfðað þar sem sakarefnið er „ábyrgð á hruninu.“ 22

Ingi Freyr segir þetta skiljanlegt, ekki sé við neinn einn mann að sakast „þó að vissulega beri sumir meiri ábyrgð en aðrir.“ En „einhvers staðar hlýtur ábyrgðin að liggja?“ spursegir hann. 23 Með fyrirvörum um að sumir beri meiri ábyrgð en aðrir – lántakendur almennt einhverja, einkum þeir sem „skuldsettu sig óhóflega á árunum fyrir hrun til að kaupa hluti sem þeir gátu ekki staðið undir fjárhagslega“, 24 lánveitendur töluverða, kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 25 meiri en kjósendur annarra flokka, kjósendur Samfylkingarinnar árið 2007 þó einhverja, ásamt „meðreiðarfólk[i] bankanna og viðskiptalífsins“ að meðtöldum þeim sem „hlutu peningastyrki frá banka- og auðmönnum á Íslandi á árunum fyrir hrunið 2008“ 26 – er það meginniðurstaða Inga Freys að Íslendingar sem heild, eða íslenska þjóðin beri meiri ábyrgð á hruninu en þeir eða hún hafi gengist við. „Margir Íslendingar vilja heyra að þeir séu fórnarlömb sem bera enga ábyrgð,“ segir hann og að íslenska þjóðin hafi „sloppið merkilega vel frá hruninu siðferðilega og andlega þar sem viðkvæðið er að það hafi ekki verið henni sjálfri að kenna heldur stjórnmálamönnum, bönkunum og jafnvel ríkisstjórn Bretlands.“ 27 Ingi Freyr segir að það sé:

óþarfi að draga nokkuð undan í umræðunni um ábyrgð þjóðarinnar þar sem siðferðilega uppgjörið við hrunið er allt annars eðlis en lagalega uppgjörið við það. Rannsóknarnefndin gekk of skammt í því að dreifa ábyrgðinni á hruninu út til þjóðarinnar miðað við þau efni sem standa til slíkrar samábyrgðar.“ 28

Slíkt uppgjör ætti að fara fram, segir hann, „sem liður í samræðunni í samfélaginu, meðal annars í fjölmiðlum og eftir atvikum hjá einstaka stofnunum og samtökum og ekki síst í huga hvers og eins.“ Með því að gangast við ábyrgð virðist Ingi Freyr fyrst og fremst eiga við einhvers konar málræna eða huglæga athöfn, ígildi þess að segja – í það minnsta – við sjálfan sig eða aðra: já, þetta var að einhverju leyti mér að kenna. Björgólfur Guðmundsson hafi til dæmis gert þetta:

Björgólfur gengst til dæmis við sinni ábyrgð sem fjárfestir, stjórnarformaður og eigandi Landsbankans, með eftirfarandi orðum: „Ég ber að sjálfsögðu ætíð ábyrgð á mínum athöfnum og hleyp ekki undan henni, hvort sem gengur vel eða illa. Þegar ég lít til baka yfir árin frá 2002 til 2008 sé ég, að margt hefði ég mátt gera öðruvísi. Í dag er ég samt enn fullviss um, að á þeim tíma tók ég allar mínar ákvarðanir í góðri trú og taldi þær réttar. Hins vegar minnkar ábyrgð mín á stöðu minni ekkert við það.

Spurningin um ábyrgð er ekki aðeins tæknilega eða fræðilega áhugaverð í huga höfundar, ekki bara formsatriði, heldur praktískt mikilvæg í ljósi þess að sá sem „gengst ekki við ábyrgð finnur ekki til skammar fyrir það sem hann gerði af því að hann lítur ekki svo á að hann hafi gert neitt rangt.“ 29 Ég endurbirti ekki hvert tilfelli orðsins skömm úr þessum bókarhluta en Ingi Freyr áréttar mikilvægi skammarinnar: „Til þess að Íslendingar læri af reynslu hrunsins, og minni líkur verði á að þjóðin verði aftur að athlægi í augum umheimsins fyrir vanhæfni og heimsku, þurfa þeir að skammast sín.“ Af samhenginu má ráða að það þyki höfundi til dæmis Björgólfur hafa gert með ofangreindum orðum sínum, en allur almenningur ekki. Mér þykir nokkrum spurningum ósvarað í þessum lokaköflum bókarinnar.

Ábyrgð á hverju

Í fyrsta lagi er ekki ljóst hverju sá ber ábyrgð á sem ber ábyrgð á hruninu. Einn ábyrgðarhlutur virðist liggja í augum uppi: það fé sem erlend félög töpuðu: „Þýskir bankar töpuðu mest á Íslendingum, samtals 21 milljarði dollara, rúmlega 2700 milljörðum króna,“ segir Ingi Freyr. 30 Það eru þá einhvers konar fjársvik eða millibankarán. Annar ábyrgðarhlutur hrunsins er það fé sem Íslendingar sjálfir töpuðu, einstaklingar, félög og hið opinbera. Í fljótu bragði virðast þessar tvær stærðir eiga í núllsummuleik: því meira sem er endurgoldið af skuldum við erlenda kröfuhafa, því meira er tap Íslendinga sjálfra. Ef Ísland, Íslendingar, íslensk þjóð er einhvers konar persóna eða heilsteyptur aðili á þessum vettvangi, þá má hins vegar ætla að hún geti fyrirgefið sjálfri sér hvað sem hún skuldar sjálfri sér. Að tapa fé er leiðinlegt en það liggur ekki í augum uppi að það hafi, eitt og sér, siðferðilega vídd, í það minnsta ekki af þeim toga að aðrir eigi sökótt við mann fyrir það. En fjárskaði er ekki heldur það eina sem Ingi Freyr hefur í huga. Hann segir: „En þetta hrun var ekki bara bankahrun heldur líka pólitískt hrun, kerfishrun, samfélagshrun, mannlegt hrun.“ Og ennfremur:

Eitt af því sem þjóðin getur gert til að átta sig á umfangi vandans er að hætta að tala um hrunið sem bankahrun og nota þess í stað orð eins og samfélagshrun eða kerfishrun. Hrunið er miklu stærra, miklu djúpstæðara, umfangsmeira og alvarlegra en svo að hægt sé að tala um það með forskeyti sem vísar aðeins til heims fjármála og bankastarfsemi. Viðskiptabankanir voru aðeins það fyrsta sem hrundi á Íslandi haustið 2008. Svo hrundi allt hitt. En ábyrgð meirihluta þjóðarinnar er enn óuppgerð. 31

Það virðist að verulegu leyti vera allt hitt sem höfundi þykir tilefni til skammar. Í bókinni kemur fram að „enn sé óljóst hvað það var nákvæmlega sem hrundi á Íslandi í október 2008“ 32 en höfundur staldrar ekki við spurninguna heldur vindur sér beint að næstu spurningu, um ábyrgðina á því. En hvað var það sem hrundi, ef frá er talið glatað fé? Hvað var þetta „kerfishrun, samfélagshrun, mannlegt hrun“ – allt hitt? Af lestri bókarinnar sé ég ekki að það hafi verið neitt annað en Pótemkín-tjöldin sem höfundur minnist á en setur ekki beint í samhengi við spurninguna um ábyrgð. 33 Það sem hrundi, fleira en bankar og gjaldmiðill, var þá blekking – reyndar sarpur blekkinga sem studdi hver aðra. Blekking um meðfædda yfirburði Íslendinga, í það minnsta á sviði fjármála, blekking um tilkall, blekking um ágæti tiltekinna persóna og stofnana, blekking um ágæti tiltekinnar hugmyndafræði, blekking um að íslenskir fjölmiðlar væru óháðir eigendum sínum, háskólar óspilltir, listheimurinn sjálfráða og svo framvegis – allt það sem er rakið svo skilmerkilega framan af bókinni. Köllum atburðinn afhjúpun. Að blekkingar afhjúpist getur verið sársaukafull reynsla, og því sársaukafyllri sem sjálfsmyndir fólks eru háðari þeim. Það þýðir ekki að afhjúpunin sé slæm.

Á meðan ekki hefur verið bent á hvað annað felst í öllu hinu virðist mér því blasa við að eini skaði hrunsins hafi verið fjárskaðinn, og það þó meira að segja með þeim fyrirvara að við vorum, svo að segja, þegar búin að stinga öllum þessum varningi inn á okkur: hrunið fól aðeins í sér þær fréttir að kúnninn gæti ekki borgað góssið sem hann hafði þegar fengið heimsent. Allt hitt voru sársaukafullar fréttir og leiðinlegar. En það er aðeins í heimsmynd hinnar herskáu og viðskotaillu bjartsýni sem þykir skaði af því að misbrestir afhjúpist. Góðærið var sumum ljúft en reynist það hafa verið draumur er ekki við vekjaraklukkuna að sakast. Eða þjófabjölluna. Eigi að læra af reynslunni virðist þurfa að komast að því hvað olli góðærinu, ekki hruninu. 34 Mér sýnist jafnvel að spurningin um ábyrgð á góðærinu liggi að baki Hamskiptunum. Dæmisagan í formála bókarinnar, melódramatísk saga af framhjáhaldi sem ég ætla annars að leiða hjá mér, er augljóslega sett fram sem dæmisaga um góðærið, ekki hrunið. Sama gildir um hinn innihaldsríka meginhluta bókarinnar. Hvað olli blekkingarástandinu? Hvernig getum við komið í veg fyrir að það eigi sér stað aftur? Hvernig getum við séð betur?

Skaðinn

Allt frá fyrirlestri Karls Jaspers við enduropnun háskólans í Heidelberg í Þýskalandi, árið 1946, eru ritin sem Ingi Freyr vísar til varðandi umfjöllun um sameiginlega ábyrgð, tilkomin frammi fyrir spurningum um ábyrgð á ódæðum. Fyrst helförinni, síðar þjóðarmorðum og öðru óafturkræfu tjóni, fyrst og fremst mannskaða. Mannskaði er fyrir flestu fólki í siðferðilegum sérflokki. Fjártjón og sjálfsmeiðingar Íslendinga í hruninu hafa ekkert slíkt vægi, kalla ekki á sömu spurningar. Góðæristíminn stendur þó spönn nær slíkum spurningum – og raunar því nær sem okkur finnst það fjarstæðukenndari tilhugsun. Þessi fjarstæðukennd er valkvæm blinda. Við völdum að beina ekki mikilli athygli að verkamönnunum sem létu lífið við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Frá 2002 til 2009 voru tilkynnt 1700 vinnuslys á svæðinu. Árið 2010 voru á annað hundrað enn óvinnufærir. Á tímabilinu urðu tíu manns fyrir óbætanlegu líkamstjóni en fjórir létu lífið. 86% þeirra sem slösuðust unnu fyrir ítalska verktakafyrirtækið Impregilo. 35 Þar á meðal var kínverskur verkamaður, sem spurðist til í fréttum árið 2006 að hefði orðið fyrir alvarlegri líkamsárás. „Blóðslettur voru uppi um alla veggi en maðurinn missti mikið blóð og var honum vart hugað líf í fyrstu“ sagði í Fréttablaðinu. Þar birtist líka það álit læknis að hann hefði ekki getað veitt sér áverkana sjálfur. 36 Maðurinn sagði enda að grímuklæddir menn hefðu ráðist á sig að nóttu og hélt þeim vitnisburði alla tíð til streitu. Enginn var handtekinn. Lögreglan á svæðinu, sem hafði þegið námskeið á vegum vinnuveitenda mannsins, verktakafyrirtækisins Impregilo, komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að um sjálfsárás væri að ræða, unna með naglbít. 37 Fjölmiðlar og almenningur létu gott heita og maðurinn var sendur burt frá landinu án frekari eftirgrennslana. 24. apríl 2007 veiktust 180 manns „vegna mengunar og slæms aðbúnaðar“ við gangnagerð á svæðinu. 38 Þetta hafði gengið svona í nokkur ár hjá verkafólki sem bjó í fimmta stærsta bæ Íslands á þeim tíma, þorpinu sem var riggað upp fyrir framkvæmdina, og girt af. Íbúum bauðst þriggja tíma rútuferð til Egilsstaða á viku fresti, síðar tveggja vikna, þegar kínverskum verkamönnum fjölgaði. Annars var því haldið innan girðingar. 39 Rannsóknarverkefni í mannfræði lýsti forsendum byggðarinnar með líkingu við fríríki, þegar árið 2004 „vegna þess að innan þess hafi Impregilo komist upp með ýmiss konar brot á íslenskum lögum. Lögbrotin fólust meðal annars í því að komast hjá að greiða skatta, brjóta lög um aðbúnað verkamanna, brjóta á kjörum og réttindum þeirra og öryggi á vinnustað.“ 40 Það er hægt að ímynda sér samfélag sem þætti þetta óásættanlegt. Mannfallið, aðbúnaður og innanbúðarskýringar. Íslandi þótti þetta hagvaxtarins virði. Ég veit ekki til þess að hrunið hafi falið í sér slíkan mannskaða eða slíka siðferðisdeyfingu, ef það er nothæft orð.

Það var líka í góðærinu sem stjórnvöld tóku þá ákvörðun að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak, að því er virðist til að styrkja pólitísk tengsl og viðskiptatengsl við Bandaríkin. Á forsendum góðærisins var þetta hugsanlega raunsæ og hagkvæm ráðstöfun. Lungann úr 20. öld höfðu íslensk stjórnvöld getað stólað á aðstoð frá Bandaríkjunum í hvers lags hremmingum. Haustið 2006 lagði Bandaríkjaher niður herstöðina á Íslandi. Haustið 2008 tilkynnti bandaríski seðlabankinn að hann ætlaði að veita öðrum Norðurlöndum aðstoð í formi lána en Íslandi ekki. Það var á föstudegi. Eftir helgina var bankinn Glitnir þjóðnýttir. Síðan hinir. Hversu miklu máli skipti pólitískur innileiki við Bandaríkin um hágengi krónunnar, um tiltrú á íslenskan efnahag? Ég veit það ekki. En það er hugsanlegt er að Ísland hafi framlengt góðærið um nokkur ár með stuðningnum við stríðið. Í það minnsta virðist ljóst að það var ætlunin. Það virðist líka ljóst að breyting á afstöðu Bandaríkjanna til landsins hafi haft í það minnsta nokkur áhrif á framvinduna haustið 2008. 41

Loks er það ekki fyrr en undir lok góðærisins sem sjónir aðgerðahópa, síðan fjölmiðla og almennings, beinast að framkomu íslenska ríkisins við hælisleitendur. Miðað við öll þau mál sem hafa komið fram frá árinu 2008, og allar þær ákvarðanir sem hefur verið breytt eftir að athygli almennings beinist að þeim, má ætla að íslenska ríkið hafi brotið lög og rétt á nokkuð mörgu fólki fram að þeim tíma. Mér er þó ekki kunnugt um að nein skýrsla hefi verið tekin saman til að gera grein fyrir þeim brotum.

Þetta eru þrjú stór mál sem varða brýna hagsmuni annarra en Íslendinga, raunar líf og dauða. Þau hafa öll augljósa siðferðilega vídd. Þau tvö fyrstu tilheyra góðærinu augljóslega. Þriðja viðfangsefnið, andstyggð í garð hælisleitenda, teygir sig líklega lengra aftur en skánaði með hruninu. Gott og vont blasir við í þessum málum: það er vont að fórna lífum annarra í von um ágóða. Þetta er kannski einfaldasta kennileiti alls siðferðis, skýrara og áþreifanlegra en til dæmis heimskan sem fylgdi góðærinu eins og sólstingur sumardegi. Til að skýra hvernig almenningur beri ábyrgð, þó að hann hafi ekki vitað að hrunið myndi eiga sér stað vísar Ingi Freyr til heimspekingsins Thomas Nagel sem hefur fjallað um siðferðilega heppni og siðferðilega óheppni og segir: „Við getum sagt að tiltekinn verknaður, geti verið siðferðilega hlutlaus þar til í ljós kemur hvaða afleiðingar hann hefur.“ 42 Frammi fyrir spurningunni um ábyrgð á góðærinu skiptir hugtakið siðferðileg heppni eða óheppni hins vegar sáralitlu máli. 43 Allt framantalið vissum við eða hefðum mátt vita, eins og sagt er í lögfræði. Ef hrunið var aðeins afhjúpun en góðærið sjálft skaðvaldur, voru kjósendur í góðri stöðu til að vita nákvæmlega hverju þeir voru að greiða atkvæði: Sjálfstæðisflokkurinn var mjög opinskár um hollustu sína við utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Báðir flokkar voru opinskáir um stóriðjustefnuna, svo ekki sé minnst á áform um einkavæðingu og aðra þætti í innleiðingu frjálshyggjunnar. Auðvelt aðgengi að lánsfé fór ekki fram hjá neinum og svo framvegis. „Slysakenningin um hrunið“ er til en það er engin slysakenning um góðærið. Ríkisstjórnir tímabilsins fólu í sér gott og slæmt en hvort tveggja var yfirlýst og fyrirséð.

Sekt

Áður en Ingi Freyr beinir sjónum lesenda að mikilvægi skammarinnar, gerir hann grein fyrir möguleikanum á sameiginlegri ábyrgð með skírskotun til nokkurra nýlegra rita. Sem fyrr segir virðast þau upp til hópa vera framhald á samræðu sem hófst eftir seinni heimsstyrjöld um ábyrgð Þjóðverja á helförinni og öðrum stríðsglæpum. Ingi Freyr vitnar í frægan fyrirlestur eftir heimspekinginn Karl Jaspers þar sem hann greinir á milli fjögurra gerða sektar. Þýska orðið fyrir sekt er Schuld, af sama stofni og skuld á íslensku, en fjárhagslegar skuldir eða ábyrgðir eru ekki ein af hinum fjórum gerðar sektar sem Jaspers ræðir. Hann talar um glæpsamlega, pólitíska, siðferðilega og frumspekilega sekt. Sú frumspekilega er sektin sem allir menn bera fyrir að vera til í heimi þar sem brotið er á öðrum án þess að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva það. Maður fæst, samkvæmt Jaspers, við hana frammi fyrir Guði. Sú glæpsamlega eða lagalega er sú sem er farið með fyrir dómstólum. Hún er tiltölulega skýrt afmörkuð, einstaklingar bera hana, og hún er afgreidd með dómi og refsingu. Eftir stendur siðferðileg og pólitísk sekt, sem Ingi Freyr telur til viðfangsefnis bókar sinnar.

Í fyrirlestri Jaspers er gerður verulegur greinarmunur á þessu tvennu. Jaspers lýsir reyndar sjálfur þeirri tvöföldu hreyfingu sem hann vill fremja: fyrst að greina sundur ólíkar gerðir sektar til þess að fólk beri ekki meira en tilefni er til. Hann minnist reyndar á plaköt sem hafi verið dreift um borgir og bæi Þýskalands tveimur árum fyrr, sumarið 1945, með myndum frá fangabúðunum í Belsen og áletruninni Das ist eure Schuld! – Þetta er þér að kenna! Þjóðverjar, segir hann, eru að reyna að fóta sig frammi fyrir kröfunni um sekt beint í kjölfar stríðshörmunganna. Bæði sé til staðar tilhneiging til að hafna henni alfarið og að játast allri hugsanlegri sekt umhugsunarlaust. Hvort tveggja sé flótti undan ábyrgð. Það þurfi að stíga hægar og vanda sig til að greina á milli hvað maður ber og hvað ekki. Þessi sundurgreining er fyrri hreyfingin í fyrirlestrinum. Sú síðari er að draga hinar ólíkar gerðir saman aftur, þegar hann segir að jú víst sé þetta okkur að kenna. En það ætti þá að vera annars konar játun en sú sem væri mögulega fyrir aðgreininguna.

Pólitísk sekt, segir Jaspers, felur í sér ábyrgð sérhvers borgara á gjörðum ríkis síns. Það geri siðferðileg sekt ekki. Ennfremur er pólitísk sekt ákvörðuð af sigurvegaranum, segir Jaspers. Þeim dómi lúti maður. Siðferðilega sekt sé hins vegar ekki hægt að ræða sannlega nema í „ástríkum átökum manneskja á grundvelli samstöðu þeirra“. 44 Siðferðilega geti maður aðeins áfellst sjálfan sig, ekki aðra nema innan vébanda slíkrar samstöðu. Enginn geti dæmt annan siðferðilega. „Aðeins þegar hinn birtist mér eins og ég sjálfur, ríkir sú nálægð sem getur, í frjálsum samskiptum, gert að sameiginlegu viðfangsefni það sem hvor um sig fullnustar loks aðeins í einsemd sinni.“ 45 Jaspers segir líka: „Skilyrðislaus dómur yfir þjóð er alltaf óréttmætur; hann gefur sér svikna raunvæðingu (þ. Substantialisierung), sem leiðir til gildisfellingar manneskjunnar sem einstaklings.“ 46 Jaspers setur fleiri fyrirvara við meðferð siðferðilegrar sektar, en eftir stendur fyrst og fremst að hún er honum einkalegt fyrirbæri. Pólitísk sekt er hins vegar allra: „Þegar kemur að pólitískri ábyrgð og glæpsamlegri sekt, hins vegar, hafa allir réttinn á að ræða staðreyndir og úrskurði og að mæla þá við stiku skýrt skilgreindra hugtaka.“ Síðar í ritinu víkur Jaspers aftur að plakatinu með myndunum frá Belsen og sundurgreinir hvað ásökunin „Þetta er þér að kenna!“ getur þýtt. Sem ásökun um beina þátttöku í glæp sé hún ósönn um flesta Þjóðverja. Sem ásökun um að hver og einn þurfi að svara fyrir athafnir stjórnvalda sinna sé hún sönn um alla ríkisborgara Þýskalands, líka andspyrnuna. Sem ásökun um þá frumspekilegu sekt að láta glæpi hjá líða og þá siðferðilegu sekt hvers Þjóðverja að taka sjálfur þátt í ríkinu og veita því stuðning með einhverjum hætti sé hún líka sönn, en það að hún er sett fram sem „ástlaus vitnisburður“ geri siðferðilegu og frumspekilegu ásökunina ósanna. 47 Ósannleikur leynist hvar sem hroki býr að baki ásökun í garð annars. 48

Ég staðnæmist við þetta ekki vegna þess að ég upplifi hroka í skrifum Inga Freys eða nokkurn slæman vilja. Því síður myndi ég draga þetta rit upp til að rýra ábyrgð mína, okkar, annarra, í neinum hlut, samsekt eða einkasekt. Ég held hins vegar að Jaspers sjálfur, sem Ingi Freyr vísar til í sinu riti, varpi ágætu ljósi á það hvers vegna fólk getur upp til hópa verið tregt til að taka við siðferðilegum ásökunum frá ókunnugum. Hvers vegna það að hafna ástlausum aðfinnslum getur verið nauðsynlegur þáttur í því, óhjákvæmilega sumpart einmanalega, ferðalagi að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni.

Skömm

Í síðasta kafla Hamskiptanna brúar höfundur bilið frá sekt til skammar. Lokaorð bókarinnar eru þessi:

Rétta leiðin til að hefja ráðstafanir til að koma í veg fyrir að annað hrun verði á Íslandi er að meirihluti þjóðarinnar viðurkenni persónulega og siðferðilega ábyrgð sína á síðasta hruni. Sú viðurkenning á ábyrgð gæti leitt til þess að Íslendingar finni til skammar og eftirsjár sem vonandi mun leiða af sér að þjóðin dragi lærdóma af hruninu.

Stór hluti af þeirri seinni tíma sögu sem Vesturlönd og frjálslynd öfl eru stoltust af snýst um að leysa fólk undan oki skammar. Það virðist óumdeilt í dag að skömm hafi verið eitt sterkasta stjórntæki og kúgunartæki kirkjunnar fram eftir öldum. 49 Saga uppreisna gegn skömminni er löng en einn augljós brennipunktur er 1968: frá og með uppreisnunum á því ári hefur verið meðbyr á Vesturlöndum með hverri hreyfingu undirokaðra hópa sem hrindir af sér skömminni: kvennahreyfingunni, réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum, innflytjenda, samkynheigðra, fatlaðra og svo framvegis. Í þessu samhengi hefur skömm sem slík orðið að nokkurs konar skammaryrði, sem andstæða pólitískra umbóta. Ég held þó að fleira geri hugtakið vandmeðfarið. Skömmum kynnist flest fólk á barnsaldri af hendi foreldra eða annars yfirvalds. Að skamma einhvern er að ætla sér vald yfir viðkomandi. Að taka við skömmunum er að fallast, í það minnsta tímabundið, á þá valdastöðu. Það er mjög skiljanlegt og jafnvel nauðsynlegt að beita dómgreind sinni ekki bara á hvað maður skammast sín fyrir, heldur frammi fyrir hverjum maður skammast sín, af hendi hvers fólk er tilbúið að taka við skömm. Það er ábyrgðarhlutur og jafnvel mikilvægur þáttur í sjálfsákvörðunarrétti að hleypa öðru fólki varlega inn í súperegóið sitt. Ingi Freyr vitnar í Björgólf Guðmundsson og báðir virðast að einhverju leyti hissa á því, eða vonsviknir, hversu fálega almenningur tók athugasemdum Björgólfs um samsekt almennings skömmu eftir hrun. Það hvort manneskja er tilbúin að taka við slíkum athugasemdum frá Björgólfi Guðmundssyni eða öðrum leiðtogum góðærisins, segir ekki endilega margt um það hvort hún blygðast sín fyrir þátttöku sína í einhverju athæfi á tímabilinu. Mér finnst Karl Jaspers hafa gert ágætlega grein fyrir þessu hér að framan. Málflutningur Björgólfs virðist ó-for-skammaður. Í smáatriðum af þessum toga þykir mér höfundur stundum misstíga sig. Eftir sem áður setur höfundur Hamskiptanna fram spurningu um skömm og heiður sem á sér, að ég held, mögulegt markvert inntak. 50

Spurningin sem Ingi Freyr setur fram er hvort, þrátt fyrir allt framantalið, sé til réttmæt skömm og hvort hún geti verið mikilvægt hreyfiafl framfara. Hann vísar til lagaheimspekingsins Kwame Anthony Appiah sem gaf árið 2011 út ritið The Honor Code: How Moral Revolutions Happen. 51 Eins og Appiah bendir á er skömm nátengd heiðri: að verða fyrir skömm felur í sér að heiður manns verði fyrir hnjaski. Heiður skilgreinir hann sem tilkall til virðingar. Að skammast sín er þá að finnast maður eiga minna tilkall til virðingar en áður. Appiah rekur sögu þess hvernig tilfærsla eða viðsnúningur á heiðri og skömm hafi lagt ákveðna vonda siði að velli. Hann tekur dæmi af þeim sið að reyra fætur kvenna í Kína, af einvígum í Englandi og af þrælasölu í breska heimsveldinu. Hann segir að í öllum þessum tilfellum hafi breytingin á hátterni fólks átt sér stað þegar siður sem áður fól í sér heiður varð skammarlegur. Ingi Freyr kallar eftir viðlíka siðferðisbyltingu fyrir tilstuðlan skammar. Að við þurfum að skammast okkar fyrir hrunið til að hrynja ekki aftur. Rétt á undan lokaorðunum sem ég vitnaði í hér að framan, í upphafi sömu efnisgreinar, skrifar Ingi:

Meirihluti Íslendinga ber ábyrgð á því til framtíðar að hafa ítrekað á árunum 1995–2007 kosið yfir sig ríkisstjórnir sem gerðu grundvallar kerfisbreytingar á samfélaginu, kerfisbreytingar sem kölluðu efnahagshrunið yfir þjóðina.

Ég tel nauðsynlegt að skipta hér sem fyrr hruninu út fyrir góðærið. Skömmin sem Ingi Freyr kallar eftir virðist enda snúa að því breytingaskeiði, ekki hruninu heldur kerfisbreytingunum í góðærinu. En hvað skammast sá sín fyrir sem skammast sín fyrir góðærið? Ingi Freyr hefur nefnt dæmi, sem eru reifuð að framan: að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, óhóflegar lántökur, að láta spillast, eða í það minnsta linast, af fé í formi styrkja og svo framvegis. Í þágu skýrleika má segja að Ingi Freyr kalli eftir því að fólk skammist sín fyrir viljann til kapítalisma. Það mætti jafnvel sundurgreina þann vilja í veikan og sterkan: sterki viljinn er þá viljinn til að beita öðru fólki fyrir auð sinn, veiki viljinn sú afstaða að frammi fyrri beitingu auðs hafi maður sjálfur, önnur sjónarmið, aðrar forsendur, rangt fyrir sér. Gefum okkur, rökræðunnar vegna, að þetta sé rétt og það sé æskilegt að viljinn til kapítalisma verði skammarlegur. Ekki til að fólk lifi þaðan af í skömm heldur til að það breyti á annan veg – njóti þess heiðurs að breyta öðruvísi. Næsta spurning er þá: Hvernig komumst við héðan þangað? Á bakvið þá spurningu leynist önnur: er slík tilfærsla á skömm og heiðri eitthvað sem yfirleitt er hægt að stefna að? Viðmið um skömm og heiður virðast ekki af þeim toga að nóg sé að nefna þau, ákveða eða samþykkja í atkvæðagreiðslu. Hvernig breytast þau?

Kapítalismi sem hneisa

Dæmin sem Appiah velur um siðferðisbyltingar af þessum toga standa í sögulegu samhengi: samfélag sem litið hefur á tiltekinn sið sem heiðvirðan rekst á annað samfélag sem lítur á sama sið sem skammarlegan. Fyrrnefnda samfélagið verður sér þá til athlægis fyrir ósiðinn. Appiah segir að þegar ástæðan fyrir aðhlátrinum hefur siðferðilegt inntak þá geti – hann talar ekki um nauðsyn – en þá geti hið siðferðilega skárra orðið ofan á. Siðferðilegar röksemdir einar sér nægi þó ekki. Hann tekur þrjú söguleg dæmi: af einvígum í Englandi, þeim sið að reyra fætur stúlkna í Kína, sem varði í þúsund ár, og þrælasölu í breska heimsveldinu. Í öllum tilfellum segir hann að rök ein og sér hafi ekki fellt siðina, rök gegn þeim hafi svo gott sem alla tíð verið til staðar: skáld hafi ort um óbærilegan sársauka stúlknanna í Kína um aldabil; einvígi hafi aldrei verið lögleg í Englandi, heiðursmenn sem útkljáðu mál með þeim hætti hafi jafnvel beðist fyrigefningar á því í erfðaskrám, þar sem athæfið væri ókristilegt; röksemdir gegn þrælahaldi hafi loks ekki heldur verið nýjar af nálinni þegar það var aflagt í breskum nýlendum. Í öllum tilfellum hafi tilfærsla á skömm og heiðri leikið lykilhlutverk: siðirnir hafi þá fyrst breyst þegar það sem áður þótti sæmandi þykir hneisa og öfugt. „Hvernig gerðist það þá að einvígi tóku að þykja fyrirlitleg?“ spyr Appiah, í lauslegri þýðingu, í kaflanum „What killed the Duel?“

Ein sannfærandi tillaga – sett fram í verkum V. G. Kiernan, hins fremsta sagnfræðings evrópska einvígisins – er að stéttin sem hafði þau að viðmiði missti hægt og bítandi miðlæga stöðu sína í opinberu lífi í Bretlandi. Ráðandi yfirstétt var í upphafi nítjándu aldar á undanhaldi, eins og frægt er að Marx hélt fram, fyrir nýrri stétt.

– segir Appiah sjálfur. Í tilfelli fótareyringanna í Kína segir hann að ráðastétt hafi liðið fyrir ósigra í átökum við Bretland: Qing-veldið var að líða undir lok. Í tilfelli þrælasölunnar rekur Appiah flóknari sögu átaka stétta og heimsálfa þar sem einnig verður breyting á valdahlutföllum hópa. Í öllum þessum sögulegu dæmum standa skömm og heiður alls ekki ein og sér heldur í samhengi við breytingar í efnislegum veruleika og valdaafstæðum. Raunar er, þrátt fyrir áherslu Appiah á parið skömm og heiður, alls ekki ljóst af lestri bókar hans að líta beri á það sem hreyfiafl breytinga frekar en einkenni á breytingum. Sem liður í breytingaferli virðist það vera hvort tveggja, í óljósum hlutföllum. Þannig fylgir spurningunni um möguleikann á að snúa heiðri upp í skömm spurning um sögulegar aðstæður, sem er ekki víst að neitt svar sé til nema í sögulegri framvindu: mun hrunið hafa reynst undanfari svo víðtækra breytinga í valdaafstæðum á landinu að stuðningur við ríkjandi pólitík síðustu áratuga muni áður en líður á löngu þykja hneisa? Munum við sjá þann dag, eins og höfundur Hamskiptanna virðist kalla eftir, að það að segjast trúa á „frjálsan markað“, treysta markaðnum til að leysa flestan vanda o.s.frv., verði jafn fátítt og veki með fólki sams konar óhug og að segjast aðhyllast, til dæmis, rasisma, apartheid, feðraveldi eða þrælahald?

Að bera sig, að bera sig vel

Í inngangi að The Honor Code lýsir Appiah skömm og heiðri sem líkamlegu ástandi, í það minnsta öðrum þræðinum. Hann segir frá því þegar hann heyrði sem barn lagið Walk Tall með Val Doonican (á íslensku heitir lagið Á sjó) og hvernig sjálfsvirðing sést á því að fólk haldi höfðinu hátt. Beri sig vel eins og stundum er sagt á íslensku. Niðurlæging hins vegar „beygi hrygginn, láti augun lúta“. Á fjölda tungumála sé talað um að halda andliti, bjarga andliti eða, við vanheiður, að missa það. Ég er ekki viss um að heimildir séu til aðrar en frásagnir sjónvarvotta en ég man að í vikunni sem bankarnir féllu urðu mennirnir í jakkafötunum í fyrsta sinn um árabil lúpulegir. Sagan segir að hópur ungra anarkista hafi trítlað um Bankastrætið einn þessara daga og togað í bindin á stjórnunarstöðulega klæddum mönnum, sem hreyfðu engum andmælum. Þeir voru hins vegar fljótir að rétta úr kútnum, eins og er líka sagt. Að liðinni viku í viðbót hefði þeim líklega ekki verið jafn svarafátt. Og nú, tvennum Alþingiskosningum síðar, virðist ósennilegt að þetta hafi yfirleitt átt sér stað. Þekktara er tilfellið þegar ungur maður kastaði snjóbolta í Jón Ásgeir Jóhannesson á götu. Segja má að ástæða þess að snjóboltinn gat ratað í fréttir hafi verið að undir kringumstæðunum, einmitt þann vetur, snerist slíkur verknaður um skömm og heiður. Þá gengu sögur, áreiðanlega sannar, lognar og ýktar í bland, um glös sem væri hellt úr yfir auðmenn á börum, dagfarsprúðir rithöfundar birtu greinar um að mengi manna, yfirleitt þá helstu auðmenn landsins og þátttakendur í „útrásinni“, skyldu hvergi þrífast heldur finna, einmitt, til skammar á mannamótum. Þar til, væntanlega, að þeir hefðu sýnt einhvers konar yfirbót, snúið við blaðinu. Skáldsagan Mannorð eftir Bjarna Bjarnason kom út þremur árum eftir hrun og snýst um þessa skömm: framámann úr viðskiptalífinu sem sér ekki fram á að geta lifað með reisn eftir hrunið. 52 Í nokkur ár eftir hrunið, á tíma vinstristjórnarinnar, virtist sú skoðun ríkjandi á landinu að það væri eitthvað skammarlegt við Sjálfstæðisflokkinn, viðskiptalífið og stefnu fyrri ára. Ef til vill er það tilfellið með ríkisstjórnir, að umfram pólitískar ákvarðanir og stefnu, fylgi þeim hugmyndir um skömm og heiður. Hvers vegna hefði Steingrímur J. Sigfússon annars átt að draga fram Volvo-bifreið frá árinu 1971 þegar hann mætti til ríkisstjórnarmyndunar á Bessastöðum árið 2009? 53 Ef til vill er það þá einkenni lýðræðisríkja að í slíkum samfélögum þrífast ólík viðmið um skömm og heiður á sama tíma en að ríkjandi viðmið taka breytingum, að einhverju leyti eftir kosningaúrslitum. Skömmin sem fylgdi hruninu og sú staðreynd að sömu stjórnmálaflokkar eru engu að síður komnir aftur til valda, virðist til marks um að hún, skömmin ein og sér, sé frekar máttlaust tæki andspænis miklum hagsmunum.

Í leit að dæmi um jákvæð áhrif skammar á Íslandssöguna velur Ingi Freyr sögu torfbæjanna: það hafi verið undir augnaráði annarra, til að standast samanburð við menningarþjóðir, sem Íslendingar gerðu átak í að reisa nýtískulegri hús. Þetta dæmi hefur ekki augljóst siðferðilegt vægi: hafi torfbæirnir verið slæm híbýli bitnuðu þau varla á öðrum en þeim sem báru ábyrgð á þeim, ólíkt til dæmis þrælasölu sem bitnaði á öðrum en þrælasölunum. Ég held að betri dæmi megi finna í Íslandssögunni. Í sagnfræðiritinu Fjarri hlýju hjónasængur rakti Inga Huld Hákonardóttir meðal annars hvernig bæði geistlegt og veraldlegt vald lagði sig eftir því að íslensk alþýða hagaði sér skikkanlega. Hvernig heiðri og skömm var útdeilt á nýjan hátt við hver söguleg tímamót, til dæmis kristnitöku og siðaskipti. Og hvernig hinn nýi siður fól í hvert sinn í sér líklega eitthvað gott en áreiðanlega margt slæmt. Vilja til að refsa fyrir ódæði en líka mikla, og að því er virðast má í dag, þarflausa kúgun. Þeirri sögu er ekki lokið fremur en öðrum. Mér hefur verið sagt – ég vísa hér til einkasamræðu og þekki engar áreiðanlegri heimildir – en það sagði mér fróð kona að nokkur hluti þeirra kvenna sem ólust upp á Íslandi á millistríðsárunum hafi verið sjálfstæðari gagnvart körlum en kynslóðin sem á eftir kom: glanstímarit og aðrir slíkir boðberar réttrar breytni sem fylgdu herliði Breta og síðan Bandaríkjanna hafi fært landinu nýja hugmynd um hvernig konur skyldu klæðast og hegða sér, hugmyndina um vel til hafða og undirgefna húsmóður sem áður hafi verið fyrirferðarminni á Íslandi. Ég get ekki staðfest þennan söguskilning. En það virðist í það minnsta hugsanlegt að slík breyting hafi átt sér stað, sem við myndum þá í dag líta á sem afturför, en fyrir tilstilli nýrra hugmynda um skömm og heiður. Það má líka segja að góðærið sjálft hafi stafað af innfluttum, nýlegum hugmyndum um skömm og heiður: að kapítalismi væri flottur, allt annað gamaldags og vandræðalegt. Þetta skiptir hugsanlega máli í ljósi þess að sögur Appiah af hlutverki skammar og heiðurs í tilkomu nýrra siða eru sögur af menningarárekstrum: að samfélag, að einhverju leyti í undirstöðu, taki við sið af hópi í nýrri valdastöðu gagnvart því. Fjölmennt herlið í annars herlausu landi væri gott dæmi um slíka valdastöðu. Ef Íslendingar gerðu ekki eins og hinir – segjum bara Bandaríkin – í góðærinu, þá voru þeir svo sannarlega að reyna.

Og þar stendur enn hnífurinn í kúnni, eigi kapítalismi eða viljinn til kapítalisma að verða skammarlegur: í dag er enginn þarna úti að gera neitt annað. Allur heimurinn iðkar nú hér um bil einn sið. Það virðist sem fyrst þyrfti að finna upp hinn nýja sið – eða enduruppgötva hann, ef hann er þegar til – þá iðka hann og loks brjótast til þeirrar valdastöðu gagnvart öðrum að þeir skammist sín undir augnaráði iðkenda hins nýja en hafi um leið svigrúm til að fást við þá skömm innan ástríkra samskipta og í einrúmi huga síns, svo að við endurtökum ekki ráðstjórnarríkin, Sovétríkin og gúlagið. Það virðist mér að sé verkefnið sem mönun Inga Freys kallar á. Það er ýmsum vandkvæðum háð sem gefst ekki tóm til að rekja hér. En okkur er ærinn starfi fyrir höndum.

   [ + ]

1. Íslenskar ritreglur fara fram á að þetta orð sé skrifað með litlum staf eins og það sé lýsing. Þetta orð er auðvitað ekki lengur lýsing heldur heiti á atburði. Í mæltu máli gerir fólk andartaks töf áður en það segir hrunið, eins og til að gefa orðinu svigrúm til að vaxa stór upphafsstafur rétt á meðan við bíðum. Töfin er sérstaklega áberandi áður en fólk lætur út úr sér áminninguna „hér varð hrun“ sem heyrist stundum, þá helst sem athugasemd við athæfi sem þykir of 2007. Ég ætla að fylgja ritreglum en skáletra hrunið til sérkennis. Til að greina hrunið frá öðrum orðnum og óorðnum hrunum. Öllu er gefið að hrynja, sem á annað borð stendur. Enn er margt óhrunið. Ég mun líka skáletra góðærið. Þetta orð hefur verið notað um mörg tímabil, en hér verður gróflega átt við árin 2002 til 2007.
2. Ólafur Arnarson, Skuggi sólkonungs, Kver 2014, bls. 19.
3, 4. Ingi Freyr 2014, bls. 102.
5. Ingi Freyr 2014, bls. 95.
6. Ingi Freyr 2014, bls. 146.
7. Ingi Freyr 2014, bls. 148.
8. Davíð Oddsson, „Tómas Guðmundsson“ í Frelsið, 1. hefti 1984.
9. Davíð Oddsson, 1984, bls. 42.
10. Ingi Freyr Vilhjálmsson, Hamskiptin: þegar allt varð falt á Íslandi, Veröld, 2014, bls. 51.
11. Ingi Freyr 2014, bls. 69.
12. Ingi Freyr 2014, bls. 30 og 163.
13. Ingi Freyr 2014, bls. 196.
14. Ingi Freyr 2014, bls. 11.
15. Ingi Freyr 2014, bls. 132–133.
16. Ingi Freyr 2014, bls. 78.
17. Ingi Freyr 2014, bls. 165.
18, 20. Ingi Freyr 2014, bls. 189.
19. Ingi Freyr 2014, bls. 49.
21. Ian Parker, „Lost: Letter From Reykjavík“ í The New Yorker, 9. mars 2009, bls. 39.
22. Ingi Freyr 2014, bls. 218.
23. Ingi Freyr 2014, bls. 219.
24. Ingi Freyr 2014, bls. 226.
25, 33. Ingi Freyr 2014, bls. 228.
26. Ingi Freyr 2014, bls. 239.
27. Ingi Freyr 2014, bls.253.
28. Ingi Freyr 2014, bls. 222.
29. Ingi Freyr 2014, bls. 256
30. Ingi Freyr 2014, bls. 224.
31. Ingi Freyr 2014, bls. 258–259.
32. Ingi Freyr 2014, bls. 254.
34. Þar sem Ingi Freyr vísar í umfjöllun um þriðja ríkið og önnur ódæði til að fjalla um samábyrgð má ef til vill segja: glæpur nasista var ekki sá að tapa stríðinu. Slíkar hliðstæður eru þó augljóslega afar vandmeðfarnar.
35. „Fjöldi vinnuslysa við Kárahnjúka“, á fréttavef RÚV, 18.7.2010: http://www.ruv.is/node/124972 (sótt 11.6.2014).
36. „Kínverjarnir þegja allir sem einn“ á forsíðu Fréttablaðsins, 26. ágúst 2006: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3910884 (sótt 11. júní 2014).
37. „Talinn hafa veitt sér áverkana sjálfur“, á vef mbl.is, 24. ágúst 2006: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2006/08/24/talinn_hafa_veitt_ser_averkana_sjalfur/ (sótt 11. júní 2014).
38. „Greinargerð landlæknis um veikindi starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun í apríl 2007 og viðbrögð heilbrigðisstarfsmanna við þeim“, Seltjarnarnesy 18. júní 2007: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item2183/3219.pdf (sótt 11. júní 2014).
39. Hilda Kristjánsdóttir, Týnda samfélagið: Kárahnjúkar, lokaverkefni við Félagsvísindasvið HÍ, júní 2013
40. Sólrún María Ólafsdóttir, Hnattvæðing og Kárahnjúkavirkjun í hnattrænu ljósi, lokaverkefni við HÍ 2004, í endursögn Hildu Kristjánsdóttur, 2013.
41. Ég hef ekki séð unnið úr þessu samhengi hersögunnar við hrunið á prenti. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hugleiðir það lauslega í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon, 2010: http://youtu.be/3SWdtMI0jVw?t=1m38s (mín 1:38 og áfram).
42. Ingi Freyr 2014, bls. 233.
43. Ég er raunar ekki viss um að hugtakið „siðferðileg óheppni“ sé heimfæranlegt upp á kjósendur þýska nasistaflokksins fram að seinni heimsstyrjöld heldur, eins og Ingi Freyr heldur fram. (245) Þeir vissu vel hvaða stefnu þeir voru að kjósa. Á árunum eftir stríðið gáfu kannanir til kynna að meirihluti Þjóðverja liti enn á nasisma sem góða stefnu sem hefði aðeins verið illa framkvæmd. Samkvæmt könnun sem framkvæmd var síðla árs 1946, á yfirráðasvæði Bandaríkjanna í Þýskalandi, litu 37% íbúa svo á að „útrýming Gyðinga, Póverja og annarra sem ekki væru aríar hefði verið nauðsynleg í þágu öryggis Þjóðverja“. Í könnun árið 1952 sagðist sama hlutfall líta svo á að það væri betra fyrir Þýskaland að vera laust vð Gyðinga. Fjórðungur sagðist enn hafa gott álit á Hitler. Sjá: Tony Judt, Postwar: A History of Europe since 1945, New York 2005, bls. 58. Mér finnst vert að rekja þetta vegna þess að ég held að „siðferðilega óheppni“ sé ekki jafn algengt vandamál og margir gætu þó haft ástæður til að vilja.
44. Karl Jaspers, Die Schuldfrage, Heidelberg 1946, bls. 32. Ensk útgáfa: K.J., The Question of German Guilt, þýð. E. B. Ashton, Fordham University Press, 2000, bls. 27.
45. Jaspers 1946, bls. 37; 2000, bls. 33.
46. Jaspers 1946, bls. 39; 2000, bls. 35.
47. Jaspers 1946, bls. 46; 2000, bls. 44.
48. Jaspers 1946, bls. 92; 2000, bls. 100.
49. Um sögu Íslands í þessu samhengi samdi Inga Huld Hákonardóttir merkilegt rit, Fjarri hlýju hjónasængur, sem kom út 1992.
50. Seinni hluta maí 2014, eftir útgáfu Hamskiptanna, var tilkynnt um uppgjör á gjaldþroti Björgólfs Guðmundssonar. Skuldir hans persónulega námu 85 milljörðum króna en 35 milljónir fundust í búinu. Ef þetta er umreiknað á fjármál launafólks jafnast það á við að gjaldþrotaskipti upp á 20 milljón krónur hefðu leitt í ljós verðmæti upp á um níu þúsund krónur í búinu, til dæmis kassa af bjór. Raunin er auðvitað að þeir sem taka 20 milljón króna húsnæðislán enda á að greiða nær 35 milljónum til baka og verja í það starfsævinni. Ef skuldinni sem Björgólfur safnaði er dreift á árabilið 2002–2008 nemur hún raunar rúmum 35 milljónum á dag.
51. Kwame Anthony Appiah, The Honor Code: How Moral Revolutions Happen, W.W. Norton & Company, 2011. Rafbók án blaðsíðutala.
52. Bjarni Bjarnason, Mannorð, Uppheimar 2011.
53. „Fjármálaráðherra á 38 ára gömlum bíl“, á vef FÍB: http://www.fib.is/index.php?FID=2146 (sótt 11. júní 2014).