Skömm og heiður

Um Hamskiptin og Skugga sólkonungs

Fyrir skemmstu komu út tvær bækur sem segjast fjalla um hrunið en virðast báðar í reynd fjalla um góðærið. Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson og Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnarson eru báðar ákæruskjöl og vilja færa fram rök fyrir því hverjum hrunið var að kenna. Í bók Ólafs birtist einn sökudólgur, Davíð Oddsson. Í Hamskiptunum er hins vegar bent á þig, það er Íslendinga yfirleitt, þjóðina eins og höfundur orðar það stundum.