Skáldskapur vikunnar: Svala Ósk eftir Þórdísi Gísladóttur

Svala Ósk býr í risíbúð á Melunum með eiginmanninum Jóhanni. Hún vinnur á Elliheimilinu Grund en Jóhann er sölumaður hjá heildsölu sem selur hreinlætisvörur til fyrirtækja og stofnana. Svala Ósk skráði sig í Samfylkinguna til að geta kosið Dag B. Eggertsson í prófkjöri. Henni finnst hann svo traustvekjandi og ábyggilegur. Hún sá Dag einu sinni í Bónus á Hallveigarstíg og gægðist í innkaupakörfuna hans. Henni fannst dálítið dularfullt hvað hann keypti margar rauðar paprikur, gott ef þær voru ekki sjö. Hvað gerir maður við svona mikið af paprikum? Svölu Ósk datt í hug að hann ætlaði að hafa fylltar paprikur í matinn. Hún keypti tvær og ákvað að prófa að fylla þær með hakki og hrísgrjónum. Það varð ekki sérlega gott. Líklega þarf að sjóða paprikur eða grilla áður en þær eru fylltar. Dagur B. keypti líka Neutral-sjampó. Hann er auðvitað með óvenjugott hár og þarf sennilega lítið að hugsa um það, heldur Svala Ósk.

Einu sinni ímyndaði hún sér að hún væri með Degi B. þegar hún var með Jóhanni í rúminu, það var samt bara mjög stutt og henni fannst það hálfóþægilegt. Henni finnst líka ást skipta meira máli en kynlíf og ást hennar á Degi B. er ekki kynferðisleg. En hún hefur samt látið sig dreyma um að þau Dagur eignist son saman. Hún myndi nefna hann Kjartan Örn. Kjartan Örn Dagsson er fallegasta nafn sem hún getur hugsað sér. Henni fannst samt dálítill galli hvað hann skoðaði Séð og heyrt áfergjulega við kassann í Bónus því henni finnst að Dagur B. Eggertsson eigi að hafa háleitari áhugamál en fólkið í Séð og heyrt. Hann er nú einu sinni læknismenntaður. Mikil synd finnst henni að hann starfi ekki sem læknir. Það væri nú ekki amalegt að hafa Dag sem heimilislækni. Hún hefur oft velt því fyrir sér hvort hann sé alveg hættur læknisstörfunum. Það er nú ekki eins og pólitíkin útiloki læknisstarfið, bláberjamaðurinn með Palestínusjalið er starfandi læknir og henni sýnist hann alltaf vera að vasast í pólitík.

Svala Ósk ætlar að fara í vöfflukaffi til Dags B. Eggertssonar á næstu Menningarnótt ef hann heldur þeim sið að bjóða heim til sín. Jóhann nennti ekki með henni síðast en ef hann vill ekki heldur koma næst þá fer hún bara ein.

Örsagan Svala Ósk er úr bókinni Velúr eftir Þórdísi Gísladóttur og kemur út hjá Bjarti í næsta mánuði