Skáldskapur vikunnar: Sjálfshugul gögn eftir Donato Mancini

Í þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur

Muna að vera varkárari í upphafi og afhjúpa frekar smám saman það sem ætlunin er að skýra hér.

– Marquis de Sade

La réponse est le malheur de la question.

– Maurice Blanchot

Hver er formgerð spurningarinnar?

„Það sem við vissum þegar við vorum þú veist hvar?“ (S. Rodefer)

Hefur þú yndi af fallegri ljóðlist?

Hvað ef raunveruleikinn þvælist fyrir?

Sundurlyndi, ósætti, skuldir, ágreiningur, þras og æsingar?

Er eðlilegt ástand sjúklegt?

Hver hefði getað skrifað þetta?

„Hver lofar fæðunni?“ (A. Notley)

Hversu mörgum skilgreiningum á HÚMANISMA er hægt að koma fyrir
1 – í símaklefa
2 – á eins gígabæts minnislykli

Er allt áhugavert?

Leynidyr?

Fjöldamorð á Heimspekikaffinu?

„Ég var svo utangátta að ég hélt
…………………………………………..
að heilhveiti væri pottaska
og mortél flókahattur
…………………………..
að himinninn væri koparpanna
og ský væru kálfskinn
að morgunninn væri kvöld
og kálstilkur næpa
sýrði bjórinn væri ungt vín
og múrbrjótur vindmylla
og snara böðulsins beisli“ (F. Villon)

Hvort væri verra

1 – endalok heimsins
2 – að heimurinn héldi áfram að vera eins og hann er

Hvort af eftirfarandi er líklegra
1 – endalok heimsins
2 – endalok kapítalismans

Ætti fólk að
1 – hætta að kvarta
2 – kvarta betur

Hvenær varð örvæntingin hversdagsleg?

„Geta tilfinningar átt sér sögu?“ (B. Geremek)

Hvernig veistu að viðburði er lokið?

Að draga mörkin eða drafa mörkin?

Hafa vísindin dregið marxismann uppi?

Ertu hissa?

Er það fyrirboði um eitthvað slæmt eða er það slæmur fyrirboði?

„3. júlí. Við borðuðum steiktar krabbakökur í morgunmat og drukkum ólýsanlegt kaffi. Meðan aðrir voru uppteknir við að hlaða og smyrja og dæla bensíni hitaði ég dollarapening úr silfri og vafði honum varlega inn í trefilinn minn; síðan þegar við vorum öll komin inn í bílinn, búið að athuga keðjuna í hjólhýsinu og hún var í lagi, kastaði ég heitri myntinni í átt til gestgjafa okkar, hreistraða kráareigandans. Reiði- og sársaukaöskur hans var sem tónlist í eyrum mínum.“ (K. Patchen)


Hefurðu einhverjar spurningar um peninga?

Hvaða aðhaldsaðgerða grípur þú til?

Hvernig útskýrirðu virði 1.000.000.000.000 dollara?

Fyrir sex ára barni?

Sérðu alþjóðahagkerfið fyrir þér sem
1 – köngulóarvef
2 – örverur iðandi í dropa af munnvatni
3 – pípulagnir
4 – þjóðvegakerfi
5 – skarlatrauða klessu

Hvenær gerirðu ráð fyrir að núverandi starfi þínu ljúki?

Þegar talað er um AÐ SKERA NIÐUR hugsarðu um
1 – fallöxi
2 – bókhald
3 – fitusog

Til hvers er reimin í HORREIMINNI?

Sem vísindi er HAGFRÆÐI líkust
1 – höfuðlagsfræði
2 – stjörnuspeki
3 – díanetík
4 – fjarskoðun
5 – innyflaspádómum

Við hvers konar skort finnst þér þú dyggðugastur?

Áttu skilið að vera ríkur?

Þegar eitthvað kostar HÖND OG FÓT, verða útlimirnir sem þú borgar með að vera þínir eigin?

Felst siðferðislegt eðli auðs í
1 – að nota hann
2 – að eiga hann
3 – að safna honum
4 – ósýnilegri hönd hans

„Hvernig verða draugar feitir?“ (S. Dalí)

„Farið og leikið í garðinum, börn, og gætið þess, meðan þið dáist að sundi svananna, að falla ekki í skrúðtjörnina.“ (Lautréamont)

Hvaða neysluvara skilgreinir þína kynslóð best?

Veðlánabúð sem skýringardæmi?

Er notandinn
1 – á netinu (þegar hann er við störf)
2 – að netinu (þegar hann er við leik)
3 – í netinu (þegar hann er þunglyndur)

„Hverjum er á skemmtistað raunverulega skemmt?“ (A. Huxley)

Rétt eins og fólk byrjar að líkjast raftækjunum sínum?

Er inntak ÚTÓPÍUNNAR
1 – hamingja
2 – fullnægja
3 – ódauðleiki
4 – tilgangur
5 – réttlæti

Eru vonir þínar raunhæfar, sértækar eða almennar?

Berð þú þess merki að hafa reynt að ala þig upp?

Myndir þú giftast framapotara?

Er yfirmaðurinn kynbundinn?

Finnst þér ósanngjarnt að umhverfishamfarir gætu bundið enda á starfsferil þinn?

Að knýja fram kreppuna – eða leyfa réttu stundinni að dafna?

Þolinmæði byltingarinnar?

„Hver sem er getur séð að laglegt andlit er laglegt, en hvernig getur maður vitað nákvæmlega hversu laglegt það er fyrr en það hefur fengið skírteini?“ (N. Chernychevsky)

Ógildur kjörseðill í fegurðarsamkeppni?

Er HRAÐSOÐIN hugmynd eins og hálfbakað
1 – leirker
2 – brauð
3 – bakkelsi
4 – lasanja

Misstirðu athyglina eftir hápunktinn eða þrátt fyrir hápunktinn?

Er þetta klístraða drasl á gólfinu hluti af sýningunni?

Er þér verulega illa við listrænar afurðir náins vinar?

Þurrkuntufönk og/eða hvítur djass?

Myndirðu sofa hjá vondum listamanni?

Listunnandi eða ekki listunnandi?

Fagurfræðileg ívera eða sneytt úran?

„Lúsin á kraga Stilitano, sem hinir mennirnir höfðu enn ekki komið auga á, var enginn villuráfandi smádepill; hún var á ferðinni; hún hreyfðist með geigvænlegum hraða, eins og hún væri að skáskera og mæla út yfirráðasvæði sitt – eða öllu heldur rými sitt. En ekki einungis var hún eins og heima hjá sér; á kraga Stilitano var hún staðfesting þess að hann tilheyrði heimi sem iðaði af meindýrum, þrátt fyrir kölnarvatnið og silkiskyrtuna.“ (J. Genet)

Hversu innilega fara betlarar í taugarnar á þér?

Gera stjórnmálaskoðanir þínar þig undanþeginn því að gefa þeim smápeninga?

Myndir þú tilkynna GRUNSAMLEGT ATHÆFI?

„Hvers konar lífi þarf maður að hafa lifað til að nota orðið MANNSORP?“ (L. Boldt)

Hefur lögreglan einhvern tímann elt þig gegnum ballettsal?

Þú getur dregið skýrustu ályktanirnar um stjórnmálaskoðanir fólks út frá
1 – póstnúmeri
2 – leitarsögu
3 – mataræði
4 – uppruna

Hefur útidyrahurðinni þinni einhvern tímann verið sparkað upp?

Varstu heima?

Ef þú hefur staðreyndirnar, þarftu þá kenningu?

Eru upplýsingar þekking?

Fjöldi látinna – í heilum tölum?

Að slást í hópinn eða deyja?

Gerir sannleikurinn ráð fyrir lygi?

Myndirðu einhvern tímann nota orðið AUÐVITAÐ?

Gjöreyðandi. Þrumufleygar.

Er. Ég. Uppaógeð?

Fegurð. Er. Umsamið. Vald.

Velgengnin. Verður. Þér. Að. Falli.

Þú. Gætir. Líka. Haft. Gaman. Af.

Of. Upptekinn. Til. Að. Elda?

Hefur. Verið. Langur. Dagur.

Hver. Borðar. Hver. Sveltur.

Ruggaðu. Bátnum. Ekki. Vöggunni.

Jákvæðni. Er. Andleg. Auðsveipni.

„Geirvörturnar á mér þrá það sem oftast gerist. Þær eru ekki jafn langar og sumar aðrar sem ég hef séð, lögun geirvartanna minna í reglulegu rými. Sykraðu þær, elskan. Geirvörturnar á mér halda því ekki fram að allt sé eins, en þær stara á skjáinn og hugsa um þig.“ (D. Bellamy)

Ljóðlistin
1 – staðfestir heiminn eins og hann er
2 – gerir heiminn betri
3 – hefur engin áhrif á heiminn
4 – fegrar einungis kapítalismann
5 – blekkir, ruglar, flækir

„Dregur skömmin fram það versta í sjálfselsku fólki?“ (B.J. Bushman)

Hvaða kanadíska ljóðskáld ætti alls ekki að vera á kanadískum peningaseðli?

5 dollara, 20 dollara eða 1000 dollara?

Kæfa fagnaðarlæti listina?

Vildir þú vera höfundur klisju?

Vekur konseptlist með þér
1 – fyrirlitningu
2 – hatur
3 – öfund

Hvað aðgreinir þessi lína?

Er menning í dag
1 – brotakennd ringulreið
2 – þrúgandi eining

Er hægt að dást að listaverki af röngum ástæðum?

Af hverju að mála mynd af árás grábjarnar?

Hvenær er betra að nota heftibyssu sem vopn?

Hvaða lag segir það allt?

Ónákvæmur spegill?

Tíminn mældur í lækkandi höfundarlaunagreiðslum?

Hvort er hljómfegurra að brenna vopnaverksmiðju eða tónlistarhús?

„Gæti sagnaritari hvatt sögu sína áfram eins og ekill hvetur asnann sinn – beint af augum; … [með alla þessa] fjölmörgu

vitnisburði til að samræma:
frásagnir til að sanka að sér:
áletranir til að ráða í:
sögur til að flétta saman:
hefðir til að gaumgæfa:
persónur til að særa fram:
lofræður til að festa á þessa hurð:
níðrit á hina: -“ (L. Sterne)

Er hljótt þar sem þú ert staddur?

Situr þú eða stendur?

Er almenningssími hérna einhvers staðar?

Hvar get ég stungið þessu í samband?

„Hvað eru bókmenntirnar að hugsa um?“ (P. Macherey)

Af hverju hefur gráum skólabíl verið lagt fyrir utan þessa byggingu?

Kalkúnasamloku eða óreiðuhugtakið?

Life, Total, Just Right eða Count Chocula?

Hver setti blóðmör og sýrðan rjóma í tenórsaxófóninn minn?

Ættu bókakassar Góða hirðisins að vera fullir af eintökum af Kommúnistaávarpinu?

Ég verð að spyrja: Er spurning á leiðinni?

Ef þú áttir ekki von á spænska rannsóknarréttinum, áttirðu von á brunaliðinu?

Veldu eitt
1 – Louise Bourgeois spikuð af heilindum
2 – Twisted Sister Stay Hungry
3 – ●

„þegar þú hefur glatað því öllu, allt sem hægt er að segja
…..hefur verið sagt
legg ég eyrað að veggnum
og hlusta á steypuna
sorfna hægt
allir eru að byggja byrgi og hvelfingar“ (P. Saarikoski)

▪▪▪▪

Þýðing: Kristín Svava Tómasdóttir. Um er að ræða fyrstu fjórar og síðustu fjórar blaðsíðurnar úr ljóðinu Sjálfshugul gögn úr bókinni Loitersack.