Skáldskapur vikunnar: Kauði eftir Bjarka Karlsson

kaudiAfi minn á Rauði
er ribbaldi og kauði
honum fylgir holdsveiki og herpes og dauði
sitt af hvoru tagi með sykri og brauði
suður á bæjum handjárnar hann Auði
heimasætan signir sig:
taktu mig afi, taktu mig
taktu mig upp til skýja
þar sem amma þæfir sokk á þeldökkan Svía
þangað vil ég flýja
mun þar vera margt að sjá
mikið tekið aftanfrá
(frillur og fraukur
þar galar gaukur)
en afi segir OK þá –
komdu litla lipurtá
hér er sykur, hér er strá
sæktu þér mebba
í nebba
nóg er til af brauðinu, brjótum það og bruðlum
strjúkum af Stuðlum
ríðum burt og reykjum gras
reddum stöffi, sniffum gas
afi kemur með róhypnol og rauðvínsglas
en messías
mætir í boðið
(þó honum sé ekki boðið)
með andlitið loðið en allt annað snoðið
snúinn upp í roðið
blekaður á bláum kjól
breytir vatni í alkóhól
hann var að kaupa hundaól
handa henni Auði
hirðirinn snauði
sína elur sauði
á sykri og brauði
og gonsa og ellu og ólöglegu búsi
í afahúsi
þar sitja bræður
sem berja húsmæður
einkum þessar innfluttu með andlit bak við slæður
hræða allar hræður, hnúajárnið ræður
skríllinn er skæður
þannig er afi
þorpari á hrossi með þessu ívafi
það er enginn vafi að þrjóturinn hafi
helblekaður handrukkað með höggborvél þanda
á hnéskeljagranda.

Ljóðið Kauði er hluti af ljóðapakka sem Almenna bókafélagið gefur út í haust og kallast Árleysi árs og alda. Pakkinn samanstendur af myndskreyttri ljóðabók, hljóðbók og hljómdiski. Bókin inniheldur allt sem var í fyrri ljóðabók Bjarka, Árleysi alda, auk annars eins af nýju efni og þá er bókin skreytt teikningum eftir Matthildi Margréti Árnadóttur. Á hljómdisknum koma fram samtals um 100 listamenn sem túlka texta Bjarka Karlssonar. Þar má meðal annarra nefna Skálmöld, Megas, BlazRoca, Hallveigu Rúnarsdóttur, Gunnar Guðbjörnsson, Steindór Andersen og Jón Ólafsson. Hilmar Örn Hilmarsson stýrir framleiðslu. Bjarki les sjálfur ljóð sín á hljóðbókina en lesari með honum er Gerður G. Bjarklind.