Samtakamáttur eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur

 

Þau eru í fullu starfi
við að vinna vinnuna sína
og vona það eitt
að hún gangi ekki að þeim dauðum.

Þau eru í afplánun
á skilorði
hjá yfirmanninum
og stimpilklukkunni.

Híma, hanga
finna sig
ekki.

Róta, plokka,
pikka, stinga
grafa sig
í sundur.

Þau eru ekki hér.
Loka sig af. Steikja fisk
kveikja á sjónvarpinu.
Vöðvabólga.

Brjótum, mölvum
sprengjum
helvítis stimpilklukkurnar
gróðursetjum traust
á leiði þeirra. Sigurskúf.

Mesti mátturinn í
samtaka
mætti
sam
vinnu                           steytum
hnefa hrópum
hærra
HÆRRA
fyrir þau
sem koma ekki fyrir sig
orði.