Ritstjórnarpistill: Að sitja fastur í streyminu

Ég hef átt kindil í fjögur ár. Það sér ekki á honum. Því miður, liggur mér við að segja, því ég er svoddan teknófíl að ég vildi gjarna fá að endurnýja hann bráðum. Skipta honum út fyrir nýjustu tækni. En hann eldist bara eiginlega ekki neitt, verður ekki seinvirkari einsog fartölvurnar mínar, spjaldtölvurnar og símarnir, og ég hef bara ekki lyst á að brjóta hann „óvart“ til þess að fá afsökun til að uppfylla neysluþörf mína. Ég er forhertur en kannski ekki alveg svo forhertur.

Ég hef fylgst með rafbókavæðingunni nokkuð lengi og las oft rafbækur – eða PDF – á fartölvunni áður en ég keypti kindilinn. Þá róteraði ég skjalinu í Adobe Reader og hélt svo á tölvunni í fanginu einsog stórri landabréfabók. Það var merkilega handhægt. Ég á iPad og ég hef lesið bækur á honum, ég hef lesið bækur á tveimur símum, og verið áhugasamur um alls kyns stafrænar bókmenntir eiginlega jafn lengi og ég hef verið áhugasamur um bókmenntir. Og ég treysti mér til að fullyrða að fyrir alvöru bóklestur er ekkert tæki sem stenst til þess gerðum raflesara snúning – hvort sem það er Kindle eða Kobo eða annað slíkt tæki með rafbleki sem þarfnast ekki baklýsingar. Allt annað er einfaldlega húmbúkk.

Hænan á þetta egg

Alveg frá því að rafbókin varð ákjósanlegur kostur fyrir fleiri en allra hörðustu tækninördin – það er að segja frá því að kindillinn kom til leiks, og svo Sony Reader og Kobo og allir hinir – hefur verið tekist á um ákjósanlegt formatt. Epub vs. Mobi deilunni mætti líkja við Beta vs. VHS deiluna, sem við gamalmennin munum eftir, nema fyrir það að í dag eiga allir tæki sem geta auðveldlega breytt Epub í Mobi og öfugt. Það var ekki svo hægur leikur að breyta VHS spólum í Betamax. Í raun og veru er því alls ekki tekist á um formatt heldur afritunarvörn – og jafnvel enn frekar um girðingar.

Ég kaupi rafbækur í þar til gerðum rafbókabúðum á öllum norðurlöndunum og á Amazon – þær dönsku, íslensku og finnsku þarf ég yfirleitt að krakka en sænsku og norsku eru jafnan bara seldar með vatnsmerki. Án afritunarvarnar. Það tekur vel að merkja svona fimmtán mínútur að læra að krakka bækur og svona 30 sekúndur að gera það þaðan í frá. Sá sem getur lært að sjóða egg getur lært að krakka bækur – og líkt og bent hefur verið á verður það aldrei erfiðara en það er núna, það verður einfaldlega auðveldara og auðveldara. Útgefendur og rafbókasalar gera sér alveg grein fyrir þessu – en þeir gera sér líka grein fyrir því að fólk er latt. Það nennir enginn að læra að sjóða egg nema hann þurfi þess, sérstaklega ekki þegar á því er hamrað við viðkomandi að það sé bæði siðlaust og ólöglegt. Hænan á þetta egg. Þú mátt ekki bara taka það – ekki einu sinni þótt þú hafir borgað fyrir það.

Girðingarhelvítið

Flestir þeirra sem eiga tæki sem er sérstaklega ætlað til að lesa bækur – og til þeirra tel ég einfaldlega ekki spjaldtölvur, sem eru meira fyrir Angry Birds og Facebook – eiga kindil frá Amazon. Einsog ég. Í honum er handhægasta og stærsta bókabúðin, þótt ekki fylgi með aðgangur að rafbókum íslenskra forlaga – það er að segja þar til nú að Bókabeitan er farin að bjóða sínar bækur til sölu þar inni. Fram til þessa hafa bókaútgefendur og íslenskri rafbókasalar haldið því fram að allt strandaði á vilja Amazon til að hleypa inn íslenskum bókum en svo virðist sem Bókabeitukonur hafi einfaldlega leyst þá hnúta – og spurning hvort að Forlagið standi við stóru orðin á heimasíðu sinni um að „um leið og Amazon opni flóðgáttir sínar“ þá verði þau með.

Einsog gerist svo oft þvælist svona umræða út í að vera háð á forsendum þeirra sem sækjast eftir markaðsráðandi stöðu – tveggja auðmagnsturna – og manni stillt þannig upp við vegg að maður haldi helst með annað hvort útgáfunum (eða hreinlega Adobe) eða með Amazon á meðan menningin eða almannahagsmunir mæta afgangi. Svona einsog maður var annað hvort í liði með Davíð eða Baugi.

Það er hins vegar enginn sigur í sjálfu sér fyrir íslenska rafbókaútgáfu að komast inn undir hjá Amazon – þótt það geti verið handhægt fyrir kindileigendur. Maður er svolítið einsog kind í réttum í Amazonskóginum – ekki bara vegna þess að manni er gert óþarflega erfitt um vik að versla bækur annars staðar en af þeim heldur vegna þess að algóritminn er alltaf að rétta að manni bækur sem maður gæti haft áhuga á, bækur hverra útgefendur hafa vel að merkja borgað sig fremst í biðröðina. Svo eru upplýsingar um neyslu manns orðnar að söluvöru, án þess að maður hafi mikið um það að segja. Það breytir svo aftur engu um að allir – að meðtöldum íslenskum útgefendum – vilja helst fá að smala manni inn í sína rétt og ekkert spes við Amazon í því tilliti. Það hvaða kapítalisti vinnur er ekki endilega spurning sem skiptir miklu máli.

Inni á einkabókasafninu

Nýjustu hugmyndir í rafbókaútgáfu hérlendis – sem eiga að lækna okkur af Amazonveikinni – snúa síðan að streymiþjónustu, þar sem þú kaupir þig inn í eins konar einkarekið rafbókasafn og færð allar þínar bækur í einni og sömu búðinni – eða færð réttara sagt aðgang að öllum þínum bókum í einni og sömu búðinni, því þá eignastu ekki lengur bækur. Svona einsog þú kaupir aðgang að Spotify og getur ekki hlustað á nýjasta uppáhaldsdiskinn þinn nema þú haldir áfram að greiða áskriftargjaldið, aftur og aftur og aftur og aftur. Fyrir utan tæknilegu vankantana á slíkri hugmynd – nettengd tæki blæða rafmagni, nettengingin sjálf kostar peninga og er ekki í boði alls staðar (svo sem í sumarbústöðum og flugvélum – og er oft margfalt dýrari þegar maður er á ferðalögum – en það er einmitt á þessum stöðum sem kindillinn er manns besti vinur) – þá er ekki gott að maður sé orðinn háður því að fá allar sínar bækur á sama staðnum, hvort sem það er íslenskt bókaspotify eða Amazonvefurinn. Kapítalisminn er vondur, og de facto einokunarkapítalismi er verri. Bókasafnsmódelið virkar eiginlega bara á meðan að bókasafnið er samfélagsþjónusta þar sem samkeppnislögmál eiga ekki við – einkarekin bókasöfn lokuð hinum fátæku eru einfaldlega viðbjóður.

Maður fær á tilfinninguna að rafbókasalar séu uppteknari af því að búa sér til kaupfélag – einhvern strúktur sem nota megi í áraraðir til að kreista fé úr öllum sem vilja lesa bækur, einsog blóð úr grjóti – heldur en því að veita einfaldlega góða þjónustu hér og nú, og hvað þá að þeir hafi háleitari markmið um að gera samfélagi sínu gagn. Kannski horfa þeir til Spotify krakkana með glýju í augunum. Kannski óttast þeir að úreldast (sem er skiljanlegt en óþarft og til óþurftar). Í öllu falli sýnist mér að bókabransinn sé tilbúinn til að endurtaka öll sömu mistökin og tónlistarbransinn gerði – helst í réttri röð – og sýna af sér sömu skammsýni, sama ótta og sama vilja til þess að hrifsa til sín helst alla kökuna í einu í krafti aflsmunar. Vonandi er það misskilningur.