Patrick Modiano hlýtur Bókmenntaverðlaun Nóbels 2014

Rétt í þessu var tilkynnt í Stokkhólmi að bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2014 fengi franski rithöfundurinn Patrick Modiano. Engin þjóð á jafn marga Nóbelsverðlaunahafa og Frakkar eða sautján talsins (ef Xao Xingjian, sem hefur búið í Frakklandi lengi en skrifar á kínversku, og Jean Paul Sartre, sem neitaði að taka við verðlaununum, eru taldir með). Ein bók er til eftir Modiano í íslenskri þýðingu en það er Gata hinna dimmu búða í þýðingu Huldar Konráðsdóttur (eftir því sem Starafugl kemst næst að svo stöddu var þýðingin lokaverkefni við HÍ og hefur ekki komið út). Í rökstuðningi Nóbelsakademíunnar kom fram að Modiano fengi verðlaunin fyrir „list minnisins sem hann hefur notað til að vekja upp hin ómeðhöndlanlegustu örlög manna og svipta hulunni af lífheimi hernámsins.“

Modiano er fæddur 30. júlí, 1945 í Boulogne-Billancourt og hefur áður hlotið Grand Prix du Roman frönsku akademíunnar árið 1972 og Goncourtverðlaunin árið 1978 (fyrir Götu hinna dimmu búða). Árið 2010 fékk hann Prix mondial Cino Del Duca fyrir ævistarfið, og 2012 verðlaun austurríska ríkisins fyrir evrópskar bókmenntir.

Margar bóka hans hafa verið kvikmyndaðar, þar á meðal Lacombe Lucien, í leikstjórn Louis Malle.