Við erum stödd á gömlu lestarstöðinni. Yfirgefna kumbaldanum í Savonlinna sem einu sinni var lestarstöð en hefur verið látin grotna niður frá því nýja lestarstöðin var vígð fyrir nokkrum árum. Við erum stödd á gömlu lestarstöðinni í eigu bæjarverktakans sem vonast til að fá að rífa og byggja nýtt þegar byggingin verður orðin nógu sjúskuð og ljót. Þið þekkið þetta. Þetta árið hefur hinsvegar einhverjum tekist að væla nógu mikið í bæjaryfirvöldum og verktakanum og fengið að nota gömlu lestarstöðina undir hátíðina. Litlu performanshátíðina sem hefur verið haldin í bænum á hverju sumri frá árinu 2011. Einskonar svar við stóru listahátíðinni í bænum – Óperuhátíðinni sem dregur til sín ferðamenn, fyrirmenni og óperuunnendur héðan og þaðan og er stolt bæjarins. En það er ekki sú hátíð sem er til umfjöllunar hér heldur sú minni og óþægari.
Fyrsta árið hét hún Fucking Savonlinna. Annað árið hét hún bara Fucking. Í fyrra hét hún Science og í ár hét hún White Europe. Með tilliti til markaðs og kynningarmála er örugglega ekki góð hugmynd að vera alltaf að skipta um nafn á listahátíðum en á þessari hátíð eru markaðs og kynningarmál ekki í öndvegi. Hátíðin var upphaflega skipulögð af nokkrum krökkum í bænum. Eða ætti maður að segja ungmennum – ungu fólki sem fór í listnám til Helsinki eða Tampere og vildi gera eitthvað skemmtilegt í heimabænum yfir sumarið. Mér er sagt að hún hafi verið stærri í sniðum núna í ár en áður. Í fyrsta skipti sem fengnir hafa verið utanaðkomandi listrænir stjórnendur.
Hátíðin í ár var heildarupplifun. Frá laugardegi til sunnudags er þyrping gjörninga og þátttökuverkefna sem saman mynda ákveðan heild. Í umsjá tveggja listakvenna frá Volgograd sem kalla sig Shit Motherfuckers. Þær tilheyra hópi fjölmargra rússneskra listamanna sem eiga ekki afturkvæmt til heimalandsins sökum skoðana sinna og/eða verka.
Fashion and smart phones
Fyrsta verk hátíðarinnar var brúðuleikhús. Barnaleikhús. Snoturt verk um þrjár vinkonur sem langar til að eignast tískuföt og snjallsíma. Á meðan tvær þeirra gera ekkert nema tuða og væla vinnur sú þriðja hörðum höndum við heimalærdóminn svo hún geti eignast tískuföt og snjallsíma. Tíminn líður og viti menn – draumar hennar rætast. En Anna er ekki lengi í paradís. Hinar tvær, þessar lötu, verða öfundsjúkar, efna til kosninga og ákveða að banna tískuföt og snjallsíma. Í áhrifaríkri lokasenu verksins hrifsa þær tískufötin og snjallsímann af grátandi vinkonu sinni og henda í ruslafötu. Ég get ekki sagt að mér hafi fundist þetta skemmtilegt, eða gott á neinn hátt. En þó var eilítil sárabót að fá í lok sýningarinnar að heyra óánægða foreldra með grátandi dekurbörnin í eftirdragi fussa um slæman boðskap og skaðsemi.
Á meðan við biðum eftir næstu sýningu var boðið upp á veitingar. Það skal tekið fram að finnsk matarmenning er ekki í uppáhaldi hjá undirrituðum. Hér þykja aðrar kryddjurtir en feiti og salt til að mynda bölvaður andskotans óþverri og sykur er ekki brúkaður nema á jólunum. Allavegana þá var boðið upp á einhvern safa, og heimalagað hafrakex. Ég var orðinn töluvert svangur og óþolinmóður þegar ég loksins lét til skarar skríða og smakkaði þessar gjafir jarðar og ég var enn með óbragð í munninum þegar næsta verk byrjaði.
Dance of the negro
Ég veit ekki hvort það sé mörgum orðum eyðandi í þennan hluta hátíðarinnar. Verkið samanstóð af blökkumanni á lendaskýlu að stíga taktfastan dans við trumbuslátt og engu öðru samfleytt í rúman klukkutíma. Þegar leikar stóðu sem hæst dró hann úr skýlunni lítin regnbogafána sem hann veifaði af mikilli kátínu. Hvað sem öðru líður var hér um ótvíræðan lágpunkt hátíðarinnar að ræða. Fordómarnir og úr sér gengnu hugmyndirnar sem birtust í þessu verki í bland við ógleðina og magaverkin sem fylgdu veitingunum sem boðið hafði verið upp á í hléinu bjuggu til andstyggilegan kokteil.
Rules of Democracy
Ég skal alveg viðurkenna að ég batt nokkrar vonir við Rules of Democracy. Það var að heyra að það myndi verða slagæð hátíðarinnar. Hefðbundnara í formi en flest annað sem hátíðin hefði upp á að bjóða og myndi ef til vill skýra betur fyrir manni þær hugmyndir sem lægju að baki vali listamannanna á viðfangsefni. Sú varð raunin. Allavegana að nokkru leyti. Í raun var um að ræða einskonar heimildaleikhús, þar sem áhorfendur fengju að skyggnast ofan í hugmyndaheim Shit Motherfuckers – kynnast þeirra veruleika og þeirra bakgrunni.
Það sem helst sat í mér eftir þessa sýningu var perspektíf. Þær töluðu um baráttu sína fyrir tjáningarfrelsi í heimalandinu, og stöðu sína þar sem andstæðingar ríkisins, en samt sem áður mátti skynja í þeim ákveðna friðþægingu á stjórnarfari Pútíns. Þær væru ekki komnar hingað til að fjalla um hvað allt væri voðalega vont í Rússlandi. Þær væru hingað komnar til að fjalla um lýðræði. Mér fannst eins og það færi eilítill kliður um salinn. Hvað eru þessir rússnesku geðsjúklingar að segja okkur hvíta fólkinu hvernig eigi að gera lýðræði? Nei, ég veit það ekki.
Svo leið sýningin áfram eins og inngangskúrs í lýðræði með fallegum söngatriðum inn á milli. Fyrst var talað. Svo fengum við að hlusta á „Non Ho L’Età“. Svo var áfram talað svo fengum við að hlusta á „Poupée de cire, poupée de son“.
Leiðinleg sýning, en ekki alslæm með fallegum tónlistarflutningi.
Partý
Um kvöldið var síðan haldið partý. Þar sem ég er einstaklinga ófélagslyndur maður þá nennti ég nú ekki að fara í partýið. Það var ekki fyrr en löngu eftir það var byrjað að það var hringt í mig frá aðstandendum hátíðarinnar (allir sem pöntuðu miða þurftu að gefa upp símanúmer) þar sem ég var í boðhætti vinsamlegast beðinn um að mæta í partýið ellegar myndu þau senda mig „back to Sweden in a plastic bag!“ Það var ekki fyrr en þá sem ég uppgvötaði að partýið var vitaskuld leikþáttur.
Á pöbbnum við hliðina á lestarstöðinni. Þar inn í litlu hliðarherbergi. Hávaði. Strób. Svitamökkur. Fólk að dansa. Ungt fólk. Plastic Bertrand á repeat. Á breiðtjaldi er verið að sýna Clockwork Orange. Öllu heldur nauðgunarsenuna sem blikkar á mann undir stróbljósunum aftur og aftur og aftur og aftur. Í þessu partýi missir maður tímaskyn. Ég hef ekki verið þarna lengur en fimm sekúndur þegar einhver öskrar í eyrað á mér að ég eigi að fokking dansa og hafa gaman. Ég dansa. Þau dansa. Hér er fólk ekki að taka sig of hátíðlega. Þátttakendur blandast saman við leikendur í svita, tíma og rými. Þetta eru allt saman straight edge andskotar. Barnsleg gleði. Kynusli. Sigurreif. Það er eins og þau séu búin að vinna lífið. Minna mig svolítið á fávitana hans Lars Von Trier. Ef fávitarnir hans Lars Von Trier væru miskunnarlausir hægri öfgamenn. Þegar ég kem heim fer ég í sturtu. Kalda sturtu.
Children love it!
– þátttökuleikhús handa börnum
Fólki var sagt að mæta á torgið uppúr hádegi. Nánar tiltekið klukkan 14. Samt ekki með börn. Á torginu fengu þátttakendur plastpoka fullan af nammi. Karamellur og súkkulaði í fallegri litapallettu merktri fasisma. Verkefnið – að ganga um bæinn og bjóða börnum nammi úr pokanum. Fasistanammi. Fasistakaramellur og fasistasúkkulaðimola. Börn á götum úti. Börn að leik. Börn í stórmörkuðum. Eða bara dingla upp á hjá fólki, spyrja hvort það væru börn í húsinu. Hvort þau vildu fasistanammi? Börnin elska nammi. Verkefnið gekk misvel. Það gekk vel að ná til barnanna þar sem þau voru ein síns liðs. Væru þau með foreldrum mætti manni yfirleitt fjandskapur. Fólk vill ekki að börnin sín þiggi fasistanammi. Allavegana ekki svona á götum úti.
Hæ, viltu nammi væna?
– Hvernig nammi?
Þetta er svona fasistanammi.
Nokkrir pabbar hótuðu mér líkamsmeiðingum. Mæður og frænkur öskruðu á mig. Ég gaf nokkur nammi úr pokanum en gafst upp þegar ég nennti þessu ekki lengur. Kláraði restina af namminu úr pokanum sjálfur.
Fasistanámskeiðið
Athyglisverðasta verk hátíðarinnar var hinsvegar Analysis, einskonar námskeið, eða fyrirlestur um stöðu fasismans í evrópskum stjórnmálum dagsins í dag. Flutningsmaður var John Henderson sem verið hefur virkur í starfi UKIP í Bretlandi seinustu ár. Flutningurinn var í senn þurr en einkar lifandi og fannst manni stundum eins og maður væri staddur í verki eftir Friðgeir Einarsson. Studdist Henderson við svokallaða SWOT-greiningu á styrkleikum og veikleikum fasismans í stjórnmálum dagsins í dag. Var málflutningur hans einkar athyglisverður og var fróðlegt að sjá hvernig hann tæklaði algenga orðræðu sem höfð er um fylgismenn popúlista.
Við lítum oft á popúlista sem vitleysinga sem skilji ekki hvað þeir vilji. Sem skilji ekki að popúlismi sé slæmur. Sem skorti þá upplýsingu sem í flest okkar hinna er í blóð borin á leikreglum lýðræðisins og gildi siðmenningar. Fylgjendur popúlískra afla sem undirmálsfólks. Að hans mati er sú túlkun röng. Fasistar séu í grunninn gott fólk sem sé vel treystandi til þess að vita hvað sé því sjálfu og atkvæði sínu fyrir bestu. Fasistar séu enn fremur andsnúnir hverskyns ofbeldi sem sé ekki stundað í þágu ríkisvaldsins með samþykki lýðræðislega kjörinna valdhafa.
Henderson sagði fasista vera þann sem vill með lýðræðislegum hætti leggja niður frelsi og siðmenningu og koma á fasisma og alræði. Fasismi snúist í eðli sínu ekki um að græða. Það græði enginn á fasisma og frelsiskorti. Fasisminn rænir eignum auðmannana, stelur pennum rithöfundanna, hrifsar burt tjáningu listamannanna. Ekki til að nýta í eigin þágu. Nei. Heldur til að henda í ruslið. Gróðinn í fasisma fyrir kjósendur í Evrópu sé hinsvegar þórðargleðin sem fylgi því að sjá fólkið með kapítalið missa allt sitt. Peningana, áhugamálin og tjáningarfrelsið. Sóknarfæri fasista liggi fyrst og fremst annarsvegar í því hvað þau sem búa yfir kapítalinu séu blind á þær hræringar sem séu að eiga sér stað víðsvegar í Evrópu og hinsvegar í því hve þeim fer sífellt fækkandi á vesturlöndum sem njóta velmegunar og hafi því nokkru að tapa.
Þegar talið barst að því sem Henderson taldi að helst gæti staðið í vegi fyrir uppgangi fasismans í Evrópu nefndi hann í fyrsta lagi aukin jöfnuð, sem hann taldi þó óraunhæfan á meðan útópía vinstriflokka væri fyrst og fremst sú um að leyfa öllum að hefja leik á sama stað í hungurleikunum. En helst sagðist hann þó óttast samtakamátt borgaralegu aflanna og það sem hann kallaði „democracy with a human face.“ Borgaralegu stjórnmálaöflin styðji lýðræðislegar niðurstöður kosninga svo framarlega sem sigurvegarar þeirra séu borgaralega og lýðræðislega sinnaðir. Sagði Henderson marga kollega sína óttast að þegar, og ef, á reyndi myndu borgaralegu öflin hinsvegar fella grímurnar – ef Evrópa myndi kjósa fasista til valda myndu borgaralegu öflin mæta með skriðdrekana. Henderson vildi hinsvegar ekki taka undir þessar áhyggjur sjálfur og sagðist hafa meiri trú á lýðræðishefð borgaralegu aflanna heldur en svo.
END OF THE WORLD
Lokaverk hátíðarinnar var svo ekki af ódýrari gerðinni. Verkið END OF THE WORLD var Wagnerísk kakofónía sem reyndi að varpa fram þeirri spurningu hvernig endalok siðmenningar okkar myndu líta út – hvort sem það væri með sigri fasismans eða vaxandi gróðurhúsaáhrifa. Verkið var í senn gróteskt og fallegt og mátti þar sjá bregða fyrir persónum og leikendum frá deginum áður – brúðunum sem vildu tískuföt og snjallsíma og dansandi blökkumanninum með regnbogafánann. Mátti skilja á ídeólógíu verksins að rússnesku listamennirnir litu á heimsenda sem hina endanlegu byltingu Marx. Bylting sem væri stöðug, hinn endanlegi sósíalismi – þar sem allir deyja jafnt frammi fyrir náttúruöflunum. Bylting þar sem hinir ríku gráta glataðan auð en hinir fátæku yppa öxlum, glaðir í bragði að þjáningunni sé loks að ljúka. Enda var það sæll blökkumaður sem veifaði regnbogafánanum af ákafa í heimsenda undir fögrum tónum Wagners.
Rússneskt lýðræði
Það er óneitanlega frískandi að víkka sjóndeildarhringinn og skoða það nýjasta sem er að gerast í alternatív-sviðslistaheiminum, og þá sérstaklega í austri. Þó hátíðin hafi vissulega boðið upp á ágætar stundir, mætti þar helst nefna fyrirlestur John Henderson, get ég ekki ekki sagt að ég hafi verið yfir mig hrifinn. Ef frá er talin viðvaningsleg úrvinnsla á ýmsum faglegum þáttum leikhússins, sem hrjáði flest verk hátíðarinnar, voru efnistökin fjarstæðukennd og mótífin oft fyrir neðan allar hellur, og jöðruðu þegar verst lét við rasisma og mannfyrirlitningu. Slíkt á ekki að vera boðlegt í leikhúsi á Norðurlöndum árið 2014.