Róbótinn Asahi.

Myndlist vikunnar: HARD-CORE

 

Hvað er HARD-CORE?

HARD-CORE er list-segull eða „artist-magnet“, hugtak sem við bjuggum til, til þess að reyna að víkka þá skilgreiningu og möguleika sem koma að samstarfi listamanna og stofnanna. Eins og segull virkar þá er HARD-CORE þannig að það dregur að sér hugmyndir og skoðanir eða hrindir þeim frá sér.

Hverjir eru í HARD-CORE?

HARD-CORE var stofnað árið 2011 af sex listamönnum sem þá voru búsettir í Amsterdam. Meðlimum hópsins getur hinsvegar fjölgað eftir verkefnum. HARD-CORE vill setja spurningarmerki við framgöngu einstaklingsins og leggur þar af leiðandi ekki áherslu á meðlimi hópsins heldur frekar á möguleika og virkni hans innan (list) heimsins. Þ.e.a.s HARD-CORE er sveigjanleg eining sem getur tekið á sig ótal form og samanstendur af mörgum viðhorfum sem í sameiningu hýsa vettvang fyrir samstarfsverkefni. Hópurinn lofsamar mótsagnir og reynir þannig að nálgast erfiðleika (sem felast í samstarfi) frá mörgum hliðum. Ef vel gengur, þá er möguleiki að ná svokölluðu „multi-perspective“ sem þýða má yfir á íslensku sem „samvitund“ eða „margviðhorf“. Þetta sjáum við í raun sem undirstöðu eða forsendu árangursríks samstarfs.

hard2Hver eru helstu viðfangsefni í sýningum HARD-CORE?

HARD-CORE vinnur aðallega að þróun sýninga-aðferða og sýninga-verkfæra. Eitt þeirra verkfæra er vélmenni sem við köllum Asahi sem er nokkurs konar sýningarstjóri. Asahi er forritaður til að taka tilviljanakenndar ákvarðanir um staðsetningar listaverka. Með því viljum við reyna að hlutgera ákvarðanatökur þegar kemur að uppsetningu sýninga og þar með forðast huglægar ákvarðanir einstaklinga og koma í veg fyrir og/eða skapa ágreining innan samstarfins. Einnig höfum við unnið að forritun reiknirits (Toolbox nr°1) sem listamenn og aðrir geta nýtt sér við sýningarhald. Reikniritið er hannað til þess að finna titil á sýningar, opnunartíma, birtuskilyrði, lit veggja, listamenn og svo framvegis.

Hvað er á döfinni hjá HARD-CORE

Eftir fyrstu þrjár útgáfurnar af Asahi (1.0, 2.0 og 2.1) er ný útgáfa (3.0) í þróun, sú útgáfa gerir vélmenninu kleift að hreyfast um sýningarrýmið og taka ákvarðanir útfrá skynjanlegum upplýsingum. Við munum svo tengja Asahi við net-gagnagrunn þar sem listamenn geta skráð sig og verk sín til þáttöku. Við erum að vinna að þessum gagnagrunni fyrir sýningu í samstarfi við Alternativa í Gdansk í Póllandi (sumarið 2015). En í sumar verðum við með fyrirlestur í Gdansk til að kynna verkið og starfsemi HARD-CORE. Þessa stundina erum við þáttakendur í LET GOOOOO tveggja ára langri samsýningu í Middelburg í Hollandi. Við höfum nýlega hlotið stuðning frá European Pavilion, sem er frábær samstarfs aðili.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðunni okkar: the-hard-core.eu

 

hard4

 

hard5