Myndlist vikunnar: Claudia Hausfeld í Gallerí Úthverfu

Claudia Hausfeld
Sýning: The Stone is God but does not know it, and it is the not knowing that makes it a Stone
Gallerí Úthverfa
Aðalstræti 22 Ísafirði
22.03.14 – 13.04.14

Hver er titillinn á sýningunni þinni?

Titillinn er á ensku The Stone is God but does not know it, and it is the not knowing that makes it a Stone. Þetta er tilvitnun í miðaldaheimspekinginn Meister Eckhart. Hann er að tala um hluti sem eru ekki meðvitaðir um tilvist Guðs og eru þar af leiðandi ekki Guð.

Er sýningin þín um það að steinn er ekki Guð?

Nei, ég held að titillinn sé meira um steininn sem hlut, utan við okkar gildiskerfi eða utan við það sem okkur finnst kannski eiga við um mannlega hugsun. Í sýningunni er ég með sjö myndir og texta sem heyrist lesinn í gegnum heyrnatól og ég geri þennan stein aðgengilegan án þess að sýna hann í raun.

Hver er sagan á bak við þennan dulræna stein?

Ég rakst á þennan stein á ströndinni og fannst eins og ég félli ofan í einhvers konar ormagöng eða tímagat. Þessi steinn stendur fyrir eitthvað sem ég get ekki alveg náð utan um. Mig langaði tala um þennan hlut, það var ekki nóg að sýna hann, það þurfti mun hverfulli nálgun.