Leitin að Blóðey hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin

Guðni Líndal Benediktsson hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin 2014 fyrir sögu sína Leitin að Blóðey. Hún geymir spennandi sögu sem afi segir barnabarni sínu á rúmstokknum og fjallar um það þegar ógurlegur galdrakarl rændi ömmu og afi lagði upp í ævintýralegan björgunarleiðangur þar sem við sögu koma galdramenn og ninjur, ljónhestar og drekar, ófreskjur og tröll – og dularfull eyja sem hvergi finnst á korti. Afi segir að sagan sé sönn en samt er hún ótrúlegri en nokkuð sem strákurinn hefur heyrt.

Leitin að Blóðey er tuttugasta og níunda bókin til að hljóta Íslensku barnabókaverðlaunin en þau hafa verið veitt frá árinu 1986. Stofnað var til verðlaunanna í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar en auk fjölskyldu hans standa Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið að verðlaununum. Fulltrúar þessara aðila skipa dómnefnd, auk tveggja nemenda úr 8. bekk sem að þessu sinni komu úr Langholtsskóla í Reykjavík. Í ár bárust fimmtíu handrit í samkeppnina um verðlaunin og þakkar stjórn verðlaunasjóðsins öllum höfundunum sem tóku þátt.

Leitin að Blóðey er fyrsta bók Guðna Líndal Benediktssonar, æsispennandi og bráðfyndin saga fyrir 7 til 12 ára lesendur Guðni er 26 ára Borgfirðingur. Hann er menntaður í kvikmyndagerð og hefur skrifað leikrit, smásögur, stuttmyndir og ýmislegt fleira.