Hið dularfulla hvarf MH370

Í grunninn fjallar Hvarf MH370 um örlög 227 farþega í Boeing þotu sem hvarf sporlaust þann áttunda mars síðastliðinn. Vélin lagði af stað frá alþjóðaflugvellinum í Kúala Lúmpúr en stefnt var að því að lenda í Peking í Kína nokkrum klukkustundum síðar. Flugvélin hvarf hins vegar óvænt af ratsjá á miðri leið, yfir Suður-Kínahafi, án útskýringa. Allt samband við vélina rofnaði á sama tíma. Um borð voru sem sagt 227 farþegar frá fimmtán löndum auk tólf manna áhafnar. Vélin, sem var af gerðinni Boeing 777-200ER, var á um átta hundruð kílómetra hraða þegar hún hvarf. Nákvæm staðsetning hennar þegar sambandið slitnaði: 6° 55′ 15″ N, 103° 34′ 43″ A.

Helstu persónur eru flugstjórinn Zaharie Ahmad Shah, maður á miðjum aldri með rúmlega átján þúsund flugtíma að baki, og Fariq Abdul Hamid, rétt tæplega þrítugur með um þrjú þúsund flugtíma að baki. Báðir eru þeir frá Malasíu.

Herra Alí á einnig stutta viðkomu í mikilvægu, en litlu aukahlutverki.

Flugstjórinn Zaharie virkaði traustur. Hann hafði unun af Futsal; en líkt og fram kemur er það einhverskonar innanhúsfótbolti. Hann virtist að auki áhugamaður um mat og eldamennsku. Hann kom oft með heimaeldaðan mat á viðburði í nærsamfélagi sínu. Ef Zaharie komst ekki sjálfur, sendi hann konu sína og börn með mat.

Yngri flugmanninum, Fariq, er nokkurnveginn lýst svona: Hann var góður múslimi.

Sagði einhver hryðjuverk?

Eftir allnokkra leit að braki flugvélarinnar birtist dularfyllsta hliðarpersóna sögunnar. „Herra Alí“ frá Íran hafði keypt tvo flugmiða í Tælandi í flug MH370 nokkru áður. Miðana notuðu tveir karlmenn sem komust um borð í flugvélina á stolnum vegabréfum frá Ítalíu og Austurríki.

Rannsakendur skoðuðu málið gaumgæfilega. Einn þeirra sagði í viðtali við allar fréttastofur heims að það væru tvennskonar fólk sem ferðaðist á stolnum vegabréfum; glæpamenn og hryðjuverkamenn.

Heimsbyggðinni var örlítið létt. Það var þá eðlileg skýring á þessu öllu saman. Sagði ekki einhver örugglega hryðjuverk?

Skömmu síðar kom í ljós að mennirnir tveir sem notuðu vegabréfin voru einnig frá Íran. Þeir voru á tvítugs og þrítugsaldri. En eftir allnokkra rannsókn reyndist hvorugur þeirra hafa nokkra tengingu við hryðjuverkasamtök, þrátt fyrir að vera frá hinu vonda útlagaríki Íran. Rannsakendur höfðu gleymt þriðja hópnum sem notar stolin vegabréf; flóttamönnunum.

Dýrlegt fjöldasjálfsmorð

Eins og í öllum frábærum ráðgátum er enginn eins og hann er séður. Enn var leitað að braki vélarinnar þremur dögum eftir hvarf og þegar búið var að útiloka hryðjuverk beindust sjónir áhorfenda aftur að flugmönnunum. Ástralskur sérfræðingur steig fram og sagði ráðgátuna eiga sér nokkuð einfalda og átakanlega mannlega hlið. Annar flugmannanna hafi verið svo þunglyndur að hann hafi ákveðið að fremja dýrlegasta fjöldasjálfsmorð mannkynssögunnar. Sagt var að hann hefði læst að sér þegar hinn flugmaðurinn yfirgaf stjórnklefann. Því næst átti hann að hafa tekið þétt um stýri flugvélarinnar og steypt flugvélinni beint ofan í svarblátt hafið. Ekki er tekið fram hvor flugmaðurinn hafi verið líklegri til þess að enda líf sitt með svona dramatískum hætti. Bara að möguleikinn hafi verið til staðar.

Fátt virðist samt benda til þess að flugmennirnir hafi verið þunglyndir eða í sjálfsmorðshugleiðingum, þó ekkert sé útilokað að svo komnu máli. Áhorfendur voru dálítið skúffaðir yfir þessari tilþrifalitlu skýringu. Við höfðum búist við einhverju stórkostlegra.

Og svo verður þetta örlítið krípí

Eftir árangurslausa leit í fjóra daga tekur sagan sérkennilega stefnu. Þá greinir Washington Post (þið munið, blaðið sem kom upp um Watergate-hneykslið) frá því að blaðamenn hafi hringt í farsíma farþega þotunnar. Niðurstaðan var sláandi; það var enn hægt að hringja í símana nokkrum dögum eftir hvarf vélarinnar. Í kjölfarið staðfestu nítján fjölskyldur að þær hefðu hringt í farsíma ættingja sem voru um borð í vélinni. Í öll skiptin hringdi út.

Einn ættingi kom fram í beinni útsendingu í malasísku sjónvarpi og hringdi í farsíma ástvinar sem var í flugvélinni.

Áhorfendur horfðu á með öndina í hálsinum. Einhver hvíslaði eflaust mikilvægustu spurningunni:

Ætli einhver svari?

Skyndilega var hrollvekjandi tónn sleginn og líkindin við vísindahrollvekjuþættina Lost urðu augljós – eins og allir á Facebook (meðal annars undirritaður) bentu vinum sínum á. Slíkt varð álagið að maður varð að slökkva á internetinu í smástund.

Eitt er þó ljóst: símar hringja ekki á hafsbotni. Þá situr bara spurningin eftir; er símasamband í hinni víddinni.

Gagnvirkt leikrit

Það nýstárlegasta við leikritið um Hvarf MH370 er tvímælalaust gagnvirknin. Áhorfendur flykktust nefnilega á internetið og fóru að leita að flugvélinni. Á Google Maps.

Það sem fjölmargt sófarannsóknarfólk vissi ekki var að gervihnattarmyndirnar sem stuðst er við á síðunni geta verið nokkuð gamlar. Margir töldu sig samt hafa fundið flugvélina á úreltu heimskorti Google og komu skilboðunum áleiðis til yfirvalda í Malasíu. Raunar voru ábendingarnar orðnar svo þrálátar – og átakanlega rangar – að yfirvöld komu þeim tilmælum áleiðis til fjölmiðla að almenningur ætti að hætta að leita að flugvélinni á Google Maps. Google fyrirtækið gaf einnig út tilkynningu og útskýrði fyrir notendum forritsins takmörk þess.

En eins manns dauði er annars manns brauð – bókstaflega í þessu tilviki. Nú hafa um 25 þúsund manns skráð sig inn á heimasíðuna Tomnods. Þar er hægt að notast við splunkunýjar gervihnattamyndir og geta því sófarannsóknarmennirnir dundað sér við að leysa ráðgátuna um hvarf MH370 í tölvunni heima. Engar gagnlegar vísbendingar hafa borist úr þeirri átt.

Allti í lagi, góða nótt

Svo virðist sem grunur rannsakenda beinist ávallt aftur að þeim Fariq og Zaharie, flugmönnum vélarinnar. Nýjasta kenningin (þegar þetta er skrifað) er sú að þeir hafi rænt flugvélinni sjálfir og flogið í áttina til Indlands eða Kasakstan. Ekki er nákvæmlega útskýrt hvað ætti að vaka fyrir þeim. Sérfræðingar virðast hinsvegar sammála um að einhver hafi slökkt á samskipta- og eftirlitstækjum. Síðasta kveðja flugstjórans áður en það gerðist, var þó undarlega hversdagsleg. Zaharie sagði einfaldlega: Allt í lagi, góða nótt.

Síðustu skilaboð flugstjórans ríma mjög undarlega við þann róttækling sem breskir fjölmiðlar hafa dregið upp, en hann er sagður harður stjórnarandstæðingur. Kannski hefðu flestir róttæklingar splæst í örlítið öskur um niðurrif kerfisins, eða eitthvað í þeim dúr, svona rétt áður en þeir slitu á öll samskipti við umheiminn.

Þeir Fariq og Zaharie sveiflast þannig nokkuð hratt á milli þess að vera þunglyndissjúklingar í sjálfsmorðshugleiðingum yfir í að vera lúmskir flugræningjar með einlægan áhuga á Futsal. En það er auðvitað sjarmi sögunnar; þessar dásamlegu mótsagnir.

Flóknasta tryggingasvindl sögunnar?

Svo eru það auðvitað samsæriskenningarnar. Þær helstu eru nákvæmlega átta.

Sú fyrsta og fyrirsjáanlegasta er óvænt heimsókn utan úr geimnum. Jafnvel sú kenning reyndist ekki nægilega tilþrifamikil fyrir áhorfendur. Enda fjaraði geimveruæðið nokkurnveginn út með X-Files í lok tíunda áratugarins.

Önnur kenning, og sú sem ég held raunar mest upp á, gengur út á að hér sé á ferðinni eitthvert flóknasta tryggingasvindl sögunnar. Rannsakandinn, Khalid Abu Bakar, segir í viðtali við vefmiðilinn Daily Record, að hann vilji ekki útiloka neitt. Allt sé mögulegt þegar að þessu dularfulla hvarfi kemur. Líka að einhver hafi ákveðið að sviðsetja eigin dauða til þess að svíkja fé út úr tryggingafélagi. Það er ljóst að Khalid vill hafa vaðið fyrir neðan sig.

Aðrar kenningar sem vert er að minnast á er að herinn hafi skotið flugvélina niður. Sumir trúa því að einhverskonar hátækni hafi verið notuð til þess að hylja flugvélina. Og svo spaugilegasta kenningin; að snillingarnir í Norður-Kóreu hafi rænt henni.

Draugaskipið

Tilþrifamesta kenningin er þó tvímælalaust sú sem Andrew Aude í Stanford háskóla í Bandaríkjunum bauð upp á og Huffington Post greindi frá.

Hann taldi að hugsanlega hefði loftþrýstingur vélarinnar fallið með þeim afleiðingum að allir í flugvélinni, farþegar og áhöfn, misstu meðvitund. Vegna þess að flugvélin var á sjálfstýringu gat hún flogið áfram í margar klukkustundir eða þar til hún var eldsneytislaus og hrapaði. Þannig breyttist flugvélin í draugaskip fullt af meðvitundarlausum farþegum sem flutu, eða flugu, sofandi í átt að feigðarósi.

Einhverjir gagnrýnendur setja þó spurningamerki við þennan þráð sögunnar. Spyrja hvernig, eða af hverju, flugstjórinn hafi slökkt á öllum búnaði sem var hannaður til þess að fylgjast með vélinni og viðhalda samskiptum. Hvernig sem í pottinn er búið er draugaflugvélin með dramatískari og myndrænni kenningum leikritsins.

Ekki fá samviskubit

Leikritið fer útum víðan völl og fá svör eru gefin. Um leið fær sagan þessa sérkennilegu dýpt sem er í senn kómísk, hrollvekjandi og hræðileg. Áhorfandinn tengir ágætlega við persónurnar þó upplifun þeirra af atburðinum sé oftast frekar fjarlæg. Hún er svipuð og þegar maður les um andlát fólks í sprengjuárás í Írak eða þegar einhver stingur mann til bana að ástæðulausu. Hversu oft lesum við ekki um dauðann í blöðunum án þess að það vekji upp nokkrar tilfinningar?

Eini munurinn á þessari sögu og öllum hinum er fólginn í gæðum verksins. Það er nefnilega ansi vandað. Öllum þráðum er fylgt vel eftir, öllum steinum er velt við í leit að einhverskonar svari við ráðgátunni. Um leið er sagan keyrð miskunnarlaust áfram. Þannig verður verkið næstum skáldskapur og næstum veruleikasjónvarp; skilin hafa líklega sjaldan verið jafn óljós og einmitt þarna.

Eftir stendur heilsteypt leikrit með sterkri frásögn. Áhorfendur sveiflast á milli þess að vera með bullandi samviskubit yfir því að fylgjast af slíkri ánægju með framvindu svona sorglegs máls og þess að vera beinir þátttakendur í leikritinu í gegnum leitarsíður á internetinu.

Kannski má finna lunkna samfélagsádeilu þarna einhverstaðar líka.

Það er þó óþarfi að vera með samviskubit; við höfum jú horft á heilu stríðin í beinni. Við skulum hlífa okkur sjálfum við kröfum um hærra siðgæði í þessu sambandi og láta eftir okkur mannlega forvitni og njóta hugarflugsins sem fylgir slíkum leikritum.

Það liggur því beinast við að gefa Hvarfi MH370 fjórar og hálfa stjörnu af fimm. Leikritið er á margan hátt nýstárlegt þó það sé sviðsett á kunnuglegum slóðum, það byggir á þekktum aðferðum afþreyingariðnaðarins, þó sagan sé vandlega dulbúin sem fréttamál. Verkið má finna í öllum fjölmiðlum veraldar. Það er oftast ókeypis inn. Og ég mæli eindregið með því.