Flosmjúkt og nístingskalt: Um Velúr eftir Þórdísi Gísladóttur

Velúr er „flosofið efni, heldur grófgerðara og með þykkari loðnu en flauel,“ samkvæmt orðabókarskýringu á uppábroti bókarkápu annarrar ljóðabókar Þórdísar Gísladóttur. Auk hinnar fyrri, Leyndarmál annarra (2010), hefur Þórdís skrifað tvær glimrandi góðar barnabækur um skötuhjúin Randalín og Munda.

Velúr. Mjúkt, hlýtt, kveikir tengingar við munúð og nautnir. Ljóðin hafa mjúka áferð á yfirborðinu, en þó er einsog nafnið sé ekki nema flosmjúkt teppi sem er sveipað yfir hrjúft og á stundum nístingskalt innihald.

Ljóðin í Velúr leita oft á einn eða annan hátt í burtu frá nútímanum og nágrenninu, burtu frá Ártúnsbrekkunni og KFC í Mosfellsbæ, aftur til fortíðar eða inn í fantasíuheima, í vöfflukaffi til Dags B. Eggertssonar eða inn í franska bíómynd, þar sem börnin „eru kannski svolítið klístruð / en kurteis / og ekki með neinar greiningar.“

Sigríður Dögg er vöruð við því að reyna of stíft að vera sú sem hún er milli ráðlegginga um það hvað hún þarf að gera svo líf hennar komist í réttan farveg. Hin áttatíu ára gamla Margrét skráir sig á Facebook á gamals aldri og rifjar upp hvað Heiðar Ástvaldsson gat verið kurteis við konur. Kristbjörg býr á Akureyri og kaupir sér alltaf vínbelju á föstudögum, stundum með grátbroslegum afleiðingum. Og mennirnir í fyrirtækjunum urða öll sín bestu ástarljóð „í fjöldagröfum fullum af / kaldhæðni / hressileika / brjóstsviða / og vinnusemi.“

Dauðinn er eitthvert það hrollkaldasta ljóð sem ég hef lesið í seinni tíð. Þar er engin mýkt, ekkert flos, ekkert velúr, bara nakinn hryllingur í einni mannlýsingu. Sjálfur sé ég fyrir mér eitt andlit fremur en önnur (og eflaust sér hver sinn eigin Dauða við lesturinn), en Dauðinn er ekki einn, heldur margur. Hann býr á Selfossi, Seltjarnarnesi, við Suðurgötuna, suður með sjó. Og um hverja helgi þarftu ekki nema að bregða þér bæjarleið á barinn þangað sem hann bíður þín. Brosandi.

Kvöldbæn konu með of hátt kólesteról er í uppáhaldi: Riddarinn á hvíta hestinum er orðinn að félagsfælnum framhaldsskólakennara á Suzuki Vitara sem miðaldra ljóðmælandinn lætur sig dreyma um að komi, ekki sér til björgunar, eða þá ekki frá neinu nema þeim leiðindum að lifa með sjálfri sér, hún þráir að hann komi og „að við læsum útidyrunum / og elskumst úr augnakörlunum.“ (Augnakarlar – ég þurfti að fletta þessu upp: að ríða sig úr mjaðmaliðunum. Afsakið, ég er enn að flissa yfir þessu.)

Inn á milli er bókin skreytt með skemmtilegum blaðaúrklippum sem kallast á við ljóðin í því hvernig vísað er í horfna tíma þegar John Lennon og Michael Bolton gengu um jörðina og konur pöntuðu sér buxnapils úr Freemans-listanum. „Sumarið eftir urðu vinslit þegar þrenn hjón fóru saman í sólarlandaferð til Costa Brava og upp komu ýmis vandræðaleg leiðindi.“

Það læddist að mér við lesturinn hvort önnur merking bókartitilsins væri vel-úr, að bókin innihaldi ljóð sem höfundur valdi úr mörgum öðrum í handraðanum. Bókin telur rúmar fimmtíu blaðsíður og ljóðin skríða á þriðja tuginn. Þau eru vel valin. Ekki að mér finnist hvert einasta ljóð gott. Og stundum jaðrar við að beitt kaldhæðnin keyri svo um þverbak að bitið í járninu digni. En ef það má færa fyrir því rök að ekki þurfi nema eitt frábært ljóð til að gera heila ljóðabók þess virði, þá eru ljóðin sem Þórdís Gísladóttir hefur valið úr í sitt annað ljóðasafn af slíku kaliberi að dugað hefði til að bera uppi margar þykkari ljóðabækur en þessa.