Myndir: Vefur Borgarleikhússins.

Ferjan: Táknrænt ferðalag?

Ferjan
Kristín Marja Baldursdóttir
Leikstjórn: Kristín Eysteinsdóttir
Leikmynd: Vytautas Narbutas
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Hljóð: Baldvin Magnússon
Tónlist: Hallur Ingólfsson
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir

Leikarar
Hildur Berglind Arndal
Katla Margrét Þorgeirsdóttir
Halldór Gylfason
Guðjón Davíð Karlsson
Hilmar Guðjónsson
Birgitta Birgisdóttir
Anna Kristín Arngrímsdóttir
Elva Ósk Ólafsdóttir
Það er vissulega fólgið í auga þess sem horfir hvað mælistika er notuð á leikverk. Maður getur dregið það jákvæðasta út eða reynt að finna merkingu í einhverju sem er óskiljanlegt, fókuserað á eitthvað í ómarkvissri sýningu. Maður getur líka mátað verk við formúlur og reynt að benda í þá átt sem maður heldur að hefði getað bjargað einhverju verki. En raunin er að leiksýning er annarsvegar persónulegt höfundarverk leikskáldsins, textinn og söguþráðurinn, hins vegar samsetning ólíkra þátta þess sjónarspils sem á að skemmta áhorfandanum – nú eða leiða hann um eitthvert andlegt ferðalag – eina kvöldstund eða svo. Hér í framhaldinu verður leikritið Ferjan eftir Kristínu Marju Baldursdóttur í leikstjórn nöfnu hennar Eysteinsdóttur, Borgarleikhússtjóra, tekið til örlítillar umræðu og rýnt í merkingu þess.

Kannski er ósanngjarnt að ganga út frá því að sýningin geti sem táknfræðileg saga lýst íslensku samfélagi um þessar mundir en mér finnst áhugavert að fjalla aðeins um hana – vanda hennar – í samhengi vanda íslenskrar leikritunar, og um leið leikritunar almennt. Það verður nefnilega svo áþreifanlegt á þessari sýningu að allir þættir verks verða að ganga upp að einhverju marki til að heildarmyndin geti haft tilætluð áhrif. Eitthvað hefur verið ritað og fjallað um verkið, sumu myndi ég vera sammála en annað varpar ljósi á þann vanda að fjalla um íslenskt leikhús í litlu samfélagi. Það má ekki draga úr „góðum fyrirætlunum“ eða letja fólk frá því að fara í leikhúsið því það er svo menningarlegt og hollt. Sýningin, þegar maður fer á það svona seint á sýningartímanum birtir aftur á móti eitt vandamál í „kortamenningunni“ sem komið hefur verið upp í stóru leikhúsunum í dag. Alltaf er uppselt og aukasýningar boðaðar og tekjur leikhússins örugglega ágætar, en þessi umgjörð segir manni sjálfkrafa að um vinsæla (og þá væntanlega góða) sýningu sé að ræða. Ég fór því nokkuð vongóður í leikhúsið, þyrstur í nýtt íslenskt leikhús. Salurinn var aftur á móti mjög tæplega setinn og augljós þreyta farin að skila sér í leikarana eftir stífar sýningar og nokkuð dræmar viðtökur gagnrýnenda. Ég hafði ekki kynnt mér rýni annarra áður en ég fór og kenndi því um að margar sýningar gerðu það að verkum að „slaki“ væri kominn í leikinn framanaf, en þegar ljóst er að sami vandi var kominn upp í upphafi leiktímans þá er það stærsti galli verksins að leikurunum reynist erfitt að hafa trú á persónunum sjálfum vegna einhvers annars en „leikþreytu“. Þær eru einfaldlega ekki nægilega spennandi sem persónur af holdi og blóði, þrátt fyrir að öllum formúlum leikbókmenntanna sé fylgt um að „afhjúpa þær hægt og rólega“ og svo videre.

Kafað á sálræna dýpið með því að fleyta kellingar?

ferjan3Það var áberandi á stöku stað að Kristín Marja er að reyna fást við dramatíska og alvarlega hluti, hún er að reyna miðla okkur sannindum um stöðu kynjanna og því um líkt, vonir og þrár og vonbrigði og harmur bombast út úr leikurunum eins og lýsingar á þeim sjálfum, stundum í hálfgerðum einræðum, þar sem leikskáldið virðist ætla að negla það niður í textanum hvernig persónan er. Í raun og veru er textinn rígbundinn þessu, að reyna skapa framvindu í að fletta ofan af persónunum, en um leið þá stígur leikstíllinn textanum til höfuðs og æ ofan í æ fær maður á tilfinninguna að það sé verið að reyna gera „myndrænt súrreal-leikhús“ vegna banalitets einræðanna. Hin hádramatísku sósíal-realísku móment í verkinu virka nefnilega ekki í þessum búningi. Það sem höfundurinn sér fyrir sér á pappírnum skilar sér ekki í leikgerð leikstjórans. Ég gæti trúað því að leikararnir lendi í miklum vanda fastir þarna á milli og ráðið sem leikarahópnum nýtist til að reyna leysa vandann er því miður „the touch of farce“. Það er að segja: Textinn hefði borið mikla styttingu, senuskipti hefðu mátt vera tíðari og tónlistinni hefði annaðhvort mátt henda út eða hafa meira af henni. Og þá hefðum við verið að nálgast einhverskonar upplifunarleikhús, soldið absúrd og hlaðið symbólisma sem farsaleikurinn hefði passað við. Ég held að þá hefðu hæfileikar leikaranna notið sín til fulls og samhengisleysið í framvindunni ekki verið til trafala. Það er nefnilega oftar en ekki þannig að eitthvert drama sprettur fram sem hefur enga eiginlega sálfræðilega undirbyggingu í tempói verksins. En nóg um það!

Tilkomumikill misreikningur

Það er – frá mínum bæjardyrum séð – ekki hægt að horfa fram hjá þætti leikmyndarinnar í heildaráhrifum sýningarinnar. Hún er vönduð og glæsileg og það allt, en hún er um leið stóri faktorinn sem leiðir þetta leikrit í kolvitlausa átt. Hvort að Kristín leikstjóri var að vona að texti úr einni átt og leikmynd úr annarri myndu koma saman í einhverjum galdri getur maður ekki sagt til um. Kannski var þetta eina ráðið til að „bjarga leiktexta“ sem aðstandendur sýningarinnar voru ekki að tengja við en þá hefði líka þurft að aðlaga textann betur að hinu dystopíska dárafleyi og farsaleiknum. Tengslaleysið er nefnilega ekki bara tilkomið vegna skorts á flæði í texta (sem er enn nokkuð bókmenntalegur og skrifaður) heldur fjarlægðar leiksins frá áhorfendum.

ferjan5Stíll og sýn hins litháíska leikmyndameistara Narbutas hæfir ákveðinni gerð verka, en það verður að segjast að þær lausnir sem eru nýttar á litla sviðinu að þessu sinni auka á fjarlægð og stuðla að ýkjustíl í leiknum. Miklu magni texta þarf að koma til skila þegar grannt er skoðað þó sýningin sé rétt rúmir tveir tímar. Hún er drifin áfram á tempói sem hentar þessum texta ekki eins og hann er fram settur og umgjörð hins martraðarkennda skips hjálpar ekki til. Við erum stödd í einhverskonar víti allan tímann, það er verið að tala þar allan tímann, og við vitum ekkert hvað er að gerast, allan tímann. Þessi umgjörð hentar absúrd-leikhúsinu en það er tilkomumikill misreikningur að sósíal-realístískt verk Kristínar Marju sé texti sem passar inn í þann stíl. Kristín Marja var að ég held ekki að reyna skrifa verk sem væri eins og blanda af Skipi Stefáns Mána, Brimi Vesturports og Utan gátta eftir Sigurð Pálsson. Leiktextinn ber með sér að vera meira í ætt við Pókók Jökuls Jakobssonar eða Stundarfrið Guðmundar Steinssonar – svona í grófum dráttum – með áherslu á einhverskonar reynsluheim kvenna og staðalmyndir þeirra. Það er sök sér en uppsetning í stílhreinni ferju í nálægð við áhorfendur með minna drama og látum hefði gert leiktextanum þau skil sem mögulega hefðu skapað einhver tengsl við persónurnar.

Íslensk leikritun er í mikilli grósku og frumkraftur í gangi sem er eftirtektarverður og umbúnaður um hana betri í dag en hefur verið í mörg ár. Leikskáldastaða Borgarleikhússins er frábær vettvangur fyrir slíka nýsköpun og eðlilegt að stundum verði fólki á, jafnvel rækilega, en verði að sýna það sem er komið á koppinn í ljósi mikillar kortasölu á viðkomandi sýningar. Ferjan stendur engan veginn undir því að uppselt sé fram í júní, aukasýningum sé bætt við og svo framvegis. Borgarleikhúsið stendur undir því að um sýninguna sé rætt blátt áfram og því verður að segjast að það er ekki Kristínu Marju einni að kenna að ekki kom gott leikverk útúr þessari tilraun. Þó að reynt hafi verið að slá upp „dýpt“ verksins sem allegoríu fyrir þjóðarskútuna, að Ferjan sé dárafley sem lýsi firringu þjóðfélagsins, þá vakna frekar hugrenningartengsl um það hvort verkið lýsi óvart frekar siglingu hins íslenska listheims sem er aftur að taka við sér í takt við aukna velgengni í viðskiptalífinu. Nú verður bráðum hægt að gera hvað sem er því við erum best í heimi. Við skulum bara vona að Ferjan sé ekki fyrirboði um að þær fölsku vonir sem persónurnar gera sér í lok verksins séu til marks um þróunina á gróskumiklu leikhúslífi líðandi stundar. Margt bendir til annars.