Er listin hobbí fyrir börn hinna vel stæðu?

Bandarískir listamenn áttu vel stæða foreldra en eru illa stæðir sjálfir. Þetta er meðal þess sem kom fram þegar Quoctrung Bui kannaði málið fyrir bandaríska almenningsútvarpið NPR. Bui skoðaði gögn um þjóðfélagsstöðu 12.000 ólíkra einstaklinga og bar saman tekjur foreldra þeirra árið 1979 og tekjur þeirra í dag. Ekki þarf að koma mikið á óvart að almenna reglan sé sú að þeir sem áttu fátæka foreldra eru líklega fátækir í dag og þeir sem áttu ríka foreldra eru líklega ríkir í dag. Á þessu eru þó undantekningar og líklega óhætt að segja að listamenn séu ein sú stærsta. Þeir áttu foreldra í fjórða hæsta flokki með árstekjur upp á bilinu 65-69.000 bandaríkjadali (um það bil 7,5-8 milljónir ISK) en höfðu að jafnaði um 35% lægri tekjur sjálfir – enginn með sama stéttarbakgrunn lækkaði jafn mikið í tekjum á milli kynslóða. Aðrir úr sömu stétt urðu einna helst framkvæmdastjórar, forstjórar, verkfræðingar eða arkitektar og höfðu umtalsvert hærri tekjur en foreldrar sínir.

Who Had Richer Parents, Doctors Or Artists? : Planet Money : NPR.