Nú er síðasta afsökun bókaútgefanda fyrir því að gefa ekki út bækur sínar á rafrænu sniði úr vegi. Nýlega voru fluttar af því fréttir að Amazon hafi leyft sölu bóka á íslensku á vef sínum. Íslenskir bókaútgefendur vilja þó ekki ana að neinu (rafbækur gætu nú bara verið bóla) og hafa því byrjað að kvarta yfir lélegum kjörum á þessum bandaríska vef.
Ein sú bókaútgáfa sem minnst hefur sinnt netinu er Hið íslenska bókmenntafélag. Á vef félagsins (sem best er að skoða í Firefox 2 eða 3—nýjasta útgáfan er númer 28) kemur fram að markmið þess sé að styrkja íslenska menningu og tungu:
„Umræður um viðgang íslenskrar tungu eru einatt á þann veg að lýst er áhyggjum af framtíð hennar. Með útgáfustarfi sínu leitast Bókmenntafélagið við að leggja fram ofurlítinn skerf til viðhalds tungunni og styrktar íslenskri menningarhefð á sviðum sem aðrir útgefendur sinna lítt eða ekki, enda ekki á markaðinn að treysta. Hér er á hinn bóginn verið að hugsa til fjarlægari framtíðar. […] Útgáfa markverðra fræðirita á mjög á brattann að sækja vegna yfirþyrmandi framboðs á afþreyingarefni, þ.á.m. í bókum, blöðum og tímaritum og annars konar margmiðlun.“
Hér eru lærdómsritin einn merkilegur og mikilvægur þáttur, þar sem heimsbókmenntir eru þýddar á vandaðan hátt og formálar og eftirmálar hjálpa lesandanum að setja efni bókanna í samhengi.
Einn skerfur til „viðhalds tungunni og styrktar íslenskri menningarhefð“ væri að gefa bækur sínar, til dæmis lærdómsritin, út á rafrænu sniði. Baráttan gegn yfirþyrmandi framboði afþreyingarefnis hlýtur að ganga betur sé lestur lærdómsritanna auðveldaður fremur en torveldaður. Þar sem ritin eru flestöll fallin úr höfundarrétti þætti þeim sem hér skrifar eðlilegt að rafrænar útgáfur bókanna yrðu einfaldlega gefnar. Hitt er ljóst að eitthvað vill HÍB fá á móti útlögðum kostnaði og þá er eðlilegt að rafbækur séu seldar gegn lágu gjaldi. Sérstaklega á útgáfa rafrænna bóka við um bækur sem eru uppseldar og en endurprentun óhagkvæm vegna lítillar sölu.
Nýr framkvæmdastjóri félagsins, Ólöf Dagný Óskarsdóttir, svaraði tölvupósti undirritaðs á þá leið að hún væri áhugasöm um útgáfu rafbóka. Þó hefur engin ákvörðun verið tekin um neitt enn, önnur en að skoða málið.
Mér er á móti skapi að segja að rafbækur séu framtíðin. Þær eru nútíminn. Hið íslenska bókmenntafélag, sem og aðrir útgefendur bóka og fræðirita, ættu að hætta að hugsa um að það sé skref inn í framtíðina að rafvæða útgáfu sína. Það er skref inn í nútímann.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.