Af villiljósum, náðargáfu og endalausu stríði

Viðtal við Guðmund Brynjólfsson, höfund Gosbrunnsins

Mér hefur verið teflt fram algerlega að tilefnislausu til að þjóna físnum höfundarins, raunar myrtur til þess eins að örva lyktarskyn lesandans. En hvers á ég að gjalda þegar gagnrýnendurnir fara svo að auki að draga mig fram og ljúga því blákalt upp að ég hafi sagt það sem þeir eru að hugsa?

– Lenor Ark

Þar sem geisar stöðugt stríð verður umhverfið og ástandið að sérstökum aftengdum heimi. Það má vera raunverulegur heimur – í skáldskap – en stendur um leið utan við eðlilegar reglur samfélagsins. Inn í þessum heimi hafa orðið til önnur lögmál sem aðeins íbúar hans skilja og sætta sig við.

Og stöku lesandi ef hann nær sambandi við verkið. Guðmundur Brynjólfsson býður okkur upp á svolítið af töfraraunsæi í sannri sögu af stríði, skáldsögunni Gosbrunninum, í bland við lipurlega glettinn stíl sem ber hugmyndaauðgi höfundarins ágætt vitni. Gosbrunnurinn er stutt en mannmörg saga sem gerist í litlu þorpi í óræðu landi, en þangað hefur sögumaður flutt sig til að starfa sem fréttaritari. Hann lýsir umhverfi og sögusviði auk þess sem hann á í samræðum við ýmsar persónur, rifjar upp ýmislegt sem á daga hans hefur drifið, skrifar dóttur sinni reglulega bréf en er fyrst og síðast einmana flökkukind með drykkjuvandamál. Persónur verksins eru sympatískar en um leið fantastískar – nokkur Macondo-bragur á þorpinu þó Buendía-fjölskylda Gabriels García Marquez sé víðsfjarri – og bera nöfn af slavneskum stofnum auk hinna klassísku engilsaxnesku og latnesku (t.d. Duncan, Sean, Pedró, Filippus, Immanúel, Míra og Lena).

Sá heimur sem Guðmundur smíðar haganlega, þar sem „ljúfmennskuna skortir mannhatrið og er þessvegna full af mannfyrirlitningu“, er um margt áhugaverður. Það veittist mér erfitt að átta mig á því hvert væri verið að fara í sögunni en viðurkenni þó fúslega að það skipti á endanum minnstu, enda þarna um áminningu að ræða sem varðar það hvort við erum að leita að endurspegluðum veruleika í bókum eða skáldlegu flugi. Í þeim heimi sem Guðmundur býr okkur eru öfgar og oft aðeins annað tveggja mögulegt; að fyrirgefa aldrei neitt eða að fyrirgefa um leið án nokkurra málalenginga.

Samtakavitund og streð þess sem stendur einn

Til þess að skilja betur í þessu hafði Starafuglinn samband við Guðmund og spurði: Út á hvað gengur þessi skáldheimur þinn og er samsvörun í samtímanum? Er til fyrirmynd að Gosbrunninum?

Þorpið er staðurinn. Staðurinn sem við erum í og staðurinn í okkur. Í mínum huga er það þannig að það dvelur staður í hverjum manni. Stundum staðurinn þar sem maður elst upp – sé það meira eða minna einn staður – kannski staðurinn sem maður finnur ástina, kannski staðurinn þar sem maður mætir sorginni eða siglir skútu sinni í strand. Gosbrunnurinn sjálfur er beintengdur þessari hugmynd. Hann er það sem þarf að bæta, hann er það sem má sameinast um, hann er það sammannlega og svo er hann eins og kemur svo skýrt fram í bókinni, gleðigjafi. Nú á dögum sjáum við að það er að vakna samtakavitund hjá stórum hópi í þjóðfélaginu, samtök, samheldni og samtakamáttur er stef í þessari bók versus streð þess sem stendur einn. Sá sem stendur einn og streðar getur átt fé og frama en hann getur ekki keypt sig inn í samtökin, hann getur tekið þátt – meðvitaður um þátttöku sína eins og vondur leikari á sviði sem er svo meðvitaður um rullu sína að hann tengir hvorki við mótleikara eða áhorfendur. Það er ekki gott. Leiðin út úr samtakamætti og samheldni samfélagsins, mannfélagsins, getur verið margvísleg en hún er aldrei til góðs. Þessi tiltekni maður stendur einn og nær ekki inn. Samt er hann boðinn velkominn. En hann getur ekki og það veit Guð að mig langaði svo mikið að leyfa honum að vera með af hug og hjarta í uppbyggingu gosbrunnsins, mannlífinu, samfélaginu – leyfa honum jafnvel að finna ástina sem flögrar við hlið hans eins og óínáganlegt fiðrildi. Mig langaði svo mikið að … en það var ekki hægt. Þá hefði þessi sanna saga af stríði orðið ósönn.

Gosbrunnurinn-175x278Að öðru leyti er mér sama – og hef auðvitað ekkert með það að gera – hvað fólk sér út úr þessum gosbrunni en væri ég eins og hver annar lesandi þá myndi ég staldra við þessa tilteknu dýrðlinga sem halda honum uppi; eru hans helsta umgjörð. Hljóta þeir ekki að vera tákn? Hvaða dýrðlingar eru þetta? … Ég á auðvitað ekkert með að gefa hint út í bláinn og bókaflóðið en þessir dýrðlingar eru þarna. (innskot Starans: hl. Katrín frá Alexandríu, hl.Sebastían og hl. Barbara.)

Gott og vel, allar sögur geta verið hvort þá heldur sannar eða ósannar, hvort sem þær eru skáldaðar eða ekki. En hvaða erindi á sönn saga við samtímann í samanburði við þá sem er ósönn?

Grétar Þorsteinsson fyrrverandi forseti ASÍ sagði einu sinni við mig: „Öll vinna sem er unnin er þess virði að hún sé unnin.“ Mér er þessi sannleikur minnisstæður og mér þykir vænt um hann. Í honum liggur virðing fyrir manninum og virðing fyrir vinnunni. Sem er fallegt. Ég lít svo á að allur skáldskapur eigi erindi sé hann þess virði að vera settur á blað, eða færður fram með öðrum hætti. En skáldskapur getur aldrei átt erindi nema hann eigi fyrst erindi við höfundinn. Ég var nýverið að kenna námskeið við Sviðslistadeild LHÍ þar sem viðfangsefnið var einmitt erindi verka. Þar lagði ég áherslu á erindið við listamanninn sjálfan. Erindið við flytjandan, en ég trúi því að til þess að eitthvað sé þokkalega gert verði listamaðurinn að finna erindi viðfangsefnisins við sig sjálfan. Þá fyrst getur hann miðlað. Mér leiðist þessi klisja hjá gagnrýnendum hvort heldur er leikhúsverka eða bókmennta um að eitthvað „eigi ekki erindi við …“ nú eða „eigi erindi við …“ Þetta eru persónulegar alhæfingar sem skila engu og ganga út frá því að samfélagsleg upplifun sé einhver fasti; líkt og allir leikhúsgestir búi í sömu blokkinni í Árbænum og hafi sömu laun – enda vinni þeir allir við það sama. Þetta er heimskulegt. Erindið liggur í listinni sjálfri, líka þegar hún liggur ósýnd eða ólesin, þá er það erindi í biðstöðu. Kyrrstöðu. Bara hugmyndin um erindi í kyrrstöðu er mögnuð, það er líkt og að vita af barni í móðurkviði sem senn muni koma til móts við okkur í hin í heiminum.

Sum verk fjalla einmitt um það, um kyrrstöðuna og það var eitt af því sem ég vildi fjalla um í Gosbrunninum. Því þetta er allt ein helvítis kyrrstaða sem gengur út á að finna leiðir til að brjóta upp sjálfa sig, og að sætta sig við vonbrigðin sem hljótast af því að þú getur ekki brotið þessa þrúgandi kyrrstöðu upp nákvæmlega eins og þú hafðir hugsað þér. Og þú þarft að sætta þig við það. Og sumir ná því ekki, ná ekki sáttum, aldrei. Þannig er minn maður. Þannig er prótagónistinn í Gosbrunninum. Hans viðbrögð við því að hafa ekki náð að brjóta af sér lífsfjötra kyrrstöðunnar með þeim hætti sem hann hélt að yrði, er að ljúga – en fyrst að drekka, drekka alveg þangað til hann getur ekki annað en logið. Að öllum, en samt mest að sjálfum sér – þó þess meðvitaður að hann er að ljúga og það er svakalega staða, drengur minn. Í þeirri stöðu er minn maður.

Sagan um manninn sem hefur kosið að fela sig í þorpi í fjarlægu landi átti erindi við mig. Reyndar var hann ekki í svo mjög fjarlægu landi til að byrja með en ég fann að væri hann staddur nær mér yrði hann tilgerðarlegur, ótrúverðugur. Ótrúverðugur í lífslygi sinni. Og af því að ég taldi hann eiga erindi færði ég hann fjær því ég lít svo á að erindi manna við aðra menn verði ekki alltaf rekið með þeim hætti að stilla þeim upp hlið við hlið eða andspænis hvorum öðrum. Erindið er ekki bara í manninum í sögunni heldur einnig og ekki minnst í textanum, í öllum textanum, erindið er í ljóðrænunni og í kómíkinni en síðast en ekki síst í tragedíunni. Ég rek erindi mín úr fjarska, bæði í því sem ég skrifa og einnig í því sem ég lifi, sem ég lifi, og síðast en ekki síst í gegnum það á hvað ég trúi. Ég er sem djákni erindreki eða þjónn Guðs. En ég er líka erindreki skáldskaparins. Guð er nálægur mér en samt er hann í fjarska, hann er handan við. Sama á við um skáldskapinn, ég er knúinn til að skrifa og hann er í mér en ég veit ekki hvaðan hann kemur, ekki frekar en ég veit hvaðan Guð kallar til mín.

Erindreki skáldskaparins

Er krafan óþörf, um að túlka bókmenntir í samhengi við hvenær og hvar þær eru skrifaðar?

Ég tel alls ekki að það verði að vera hægt að túlka bókmenntir í samhengi við ritunarstað eða –tíma. Bókmenntir eru bókmenntir og þær standa klárar á sjálfum sér og eru óháðar tíma og rúmi, þær eru auðvitað í fjötrum bókmenntasögunnar en bókmenntasagan er ekkert endilega rétt skráð. Og líklega vitlaust skráð ef eitthvað er. Hún er ekki ólík viðskiptafréttunum sem sögumaðurinn í Gosbrunninum skrifar, þær eru falskar en duga samt til allskonar brasks. En svo komast menn að því að þær eru bókstaflega falskar og þá vilja þeir setja fyrir það fals. En með hverju? Jú, með því að skipta um mann. Og fá annan mann til að skrifa? Hvað mun sá skrifa? Nýverið upphófst þvarg um Einar Ben – ekki var annað að sjá en fjöldi málsmetandi manna í bókmenntakreðsum landsins hefðu komist að því að Einar Ben væri ómögulegt skáld, í besta falli sæmilegt. En sjaldan þó. Og hvert var þá ráðið? Jú, skipta um mann, skipta út áherslum, skrifa nýja bókmenntasögu. Við erum alltaf að skrifa nýja bókmenntasögu en hún er bara alltaf jafn vitlaus. Hún er alltaf full af pólitík og útgáfusögufölsunum, við lagfærum á fimmtíu til hundrað ára fresti einhverjar mýtur en búum þá bara til aðrar í staðinn. Ármann Jakobsson hefur nýlega sett fram þá kenningu að bókmenntagreinin „Íslendingaþættir“ sé í raun ekki til sem forn og sérstæð bókmenntagrein. Í mörg ár hefur verið talað svo að Dieter Roth hafi verið útlitshönnuður tímaritsins Birtings þegar hið rétta er að hann hannaði eitt eintak og það varð allt vitlaust út af því í ritstjórninni. Í öndverðu datt einhverjum í hug að segja að leikrit Jóhanns Sigurjónssonar Rung læknir væri ekki gott leikrit, það hefur verið þulið síðan. En það er bara bull, Rung læknir er fínt leikrit.

Hitt er svo allt annað hvort menn geti lesið eða vilji lesa eitthvað samtímalegt og samfélagslegt út úr verkum manns og það er bara allt í lagi og gott með hinu. En verkið verður að lifa tímann og þola tímaleysið. Líka staðbundinn skáldskapur og tímastilltur. Og svo ég komi aftur að sögumanninum í Gosbrunninum þá var hann jú að skrifa viðskiptafréttir og það tekur í hrun-gikkinn hjá mörgum en það er samt ekki aðal atriðið: Hvað hann skrifaði eða hvernig hann skrifaði. Í þeirri bók Halldórs Laxness sem ég met mest, Brekkukotsannál, segir sögumaður að afloknum tónleikum Garðars Hólm í Dómkirkjunni: „Menn hafa spurt mig bæði fyr og síðar: saung hann vel? Ég svara, veröldin er saungur, en við vitum ekki hvort hún er góður saungur, af því að við höfum ekki annað til samanburðar.“ Eins er með það sem minn maður skrifar, við höfum ekki annað til samanburðar.

Þú ert menntaður djákni, ofaná reynslu þína af störfum við sviðslistir og bókmenntir. Þeir þræðir í sögunni sem fjalla um kirkjunnar þjóna eru áhugaverðir en um leið meira áberandi en trúarlegar spurningar eða vangaveltur um Guð. Þó að kirkjudeildin sem um ræðir sé kaþólsk spyr maður sig hvort þarna sé einhverskonar endurspeglun af reynslu þinni af kirkjunni?

Kirkjunnar fólk í þessari sögu er gott fólk, með einni undantekningu. Presturinn faðir Fals er óþverri. Stjórnsamur óþverri, falskur óþverri – í raun skíthæll. Hvers vegna? Kannski hef ég kynnst svona fólki? Kannski hef ég kynnst svona presti, presti sem er allur út á við og leikur sannleiksandann sjálfan og boðbera fyrirgefningar og kærleikans en praktíserar ekkert af því nema þegar honum hentar og þegar aðrir sjá til. Og er verstur þegar enginn sér til. Þessi saga hefur undirtitilinn: sönn saga af stríði. Kannski er það sanna sagan af stríði sem þarna birtist. Þarna eru jú mörg stríð í gangi. Stríð mannsins sem ekki getur komist á fætur öðru vísi en að „laga sig að lífinu“ með brandídrykkju getur eins verið sönn saga af stríði. Saga mannsins sem bregst. En eins og ég segi, þarna eru mörg stríð og ekki mitt að segja til um hvert þeirra er sannast. Þá væri ég að gera sögunni upp erindi við lesendur – sem ég þarf ekki að gera því ég veit að hver finnur sitt stríð í henni og sinn sannleik. Djákninn Sean er alls ekki vondur maður, hann er góðmenni en hann er útvörður valds og trúr sem slíkur. En af því að valdið, sem hann embættar fyrir, sér í gegnum illsku prestsins, og það vald er ekki nákvæmlega á sömu kirkjupólitísku línu og presturinn, þá sér hann sér leik á borði, þá sér valdið sér leik á borði. Bara peðsleik. En samt sterkan. Kannski eru sönnu sögurnar margar. Og ég hallast reyndar að því og þær eru örugglega fleiri en ég veit um.

Reyndar hef ég alltaf verið heillaður af kaþólsku kirkjunni, og ég hef kynnt mér hana nokkuð ítarlega. Það er mystíkin í henni sem höfðar til mín. Það er stundum talað um að kaþólskir hafi milliliði milli sín og Guðs í öllum sínum dýrðlingum. Það má vera rétt mér finnst þeir samt oft nær Guði en hinir dauðhreinsuðu lúteranar og þá ekki síst þeir þeirra sem hlaupa á harða spretti á eftir tíðarandanum og heiminum sífellt að gera Jesú Kristi upp skoðanir á hinum og þessum málum sem verða á vegi þeirra á hlaupunum: Hvað hefði Jesú gert? Hún pirrar mig þessi spurning. Mér finnst hún heimskuleg. Ef við vissum eitthvað um það hvað Jesú hefði gert þá væri hann ekki upprisinn, þá væri hann ekki Guð. Jesú Kristur er ekki eitthvað sem „hefði gert“ eitthvað í nútímanum. Hann er sá sem er að verki, alltaf. Og hann hefur boðið okkur að vinna í hans anda og umboði en af því að við erum kengbogin undir syndinni þá heppanst okkur misjafnlega. Leiðin til þess að gera betur liggur ekki í gegnum, „Hvað hefði Jesú gert?“ heldur í gegnum, „Hvað get ég gert? -í heiðarlegu sambandi við sjálfan mig og Guð.“

Guð er glíma og skáldskapurinn er glíma

Tilvistarkrísa sögumanns felur í sér leit að tilgangi frekar en nokkuð annað. Einhverjir hefðu kannski gert ráð fyrir því að guðfræðimenntaður penni myndi klykkja út með trúarlegri leið úr þeirri krísu en þér fer fjarri nokkur slík prédikun. Er skáldsagan e.t.v. ekki hentugt boðunartæki?

Að leita að tilgangi er sístætt viðfangsefni og um það hefur margur rithöfundurinn ofið sinn vef. Ég tel mig ekki vera við þann vefstól. Ég er að fjalla um þann mann sem leitar ekki. Leit hans er lokið og því fer sem fer. Hver maður getur séð upp undir sjálfan sig með það að sú staða er voðaleg. Það er staðan á brúninni. Án stökks. Hvorki fram af né til trúar í anda Kierkegaards. Sem þó er alltaf möguleiki. En maður verður að sjá þann möguleika. Sumir sjá hann ekki. Sumir kæra sig ekkert um að sjá hann og það er gilt sjónarmið en allt önnur saga.

Að mínu viti getur sögumaður ekki verið áfram í þorpinu vegna þess að þorpsbúar hafa náð – með óvæntum hætti eins og alltaf – að rjúfa kyrrstöðu og lífsleiða. Lífið blómstar og þar sem lífið blómstrar – þó ekki sé nema um stund og þó ekki sé nema út á óvissu – þá er þar ekki vært þeim sem hefur gefist upp á að taka þátt. Gefist upp við að leita. Sumir gefast upp á því að vera með. Við þurfum líka að tala til þeirrar staðreyndar. Við þurfum líka að skrifa bókmenntir sem fylgja ekki uppskriftinni um frásögnina af því: „þegar síðan og svo og bla bla bla …“ – hin línulaga metsöluuppskrift er ágæt til síns brúks en hún er ekki upphaf og endir alls þrátt fyrir sitt upphaf og sinn endi. Sagan sem segir frá tíðindaleysi og þröng mannsins er sögð á hverjum degi innra með okkur en af því að við erum á klafa gleðinnar og atburðanna þá búum við til metsöluuppskriftir af sjálfum okkur og setjum á Facebook og Twitter. Þar liggur freisting mannsins í dag, hann neitar að dvelja hið innra, hann neitar að skoða sig nema með aðkeyptum meðulum og hann hafnar Guði af því að Guð er glíma. Menn nenna ekki glíma, bara hlaupa á bretti og fara í brúðkaup þar sem presturinn er skemmtilegur. Guð er glíma og skáldskapurinn er glíma.

Gosbrunnurinn er líka glíman við þetta. Friðrika Benónýsdóttir snerti á þessu þegar fjallað var um bókina í Kiljunni á dögunum, um þetta stríð við skáldskapinn. Mér fannst hún ótrúlega glögg að sjá þetta því þetta þóttist ég hafa falið – bókmenntafræðingurinn sjálfur. Ég hef gert mörg vopnahlé við skáldskapinn, ég hef hörfað og ég hef varist en hann kemur alltaf aftur. Og ég verð að berjast og þegar ég tala um berjast þá meina ég skrifa því ég verð að skrifa, ég bara verð. Ég hef komið við margt, mæðst í mörgu, starfað við ólíklegustu hluti en þetta geri ég best. Og ég trúi því að ég sé til þess kallaður. Þetta er mín náðargjöf. Ég er held að ég góður kennari og ég var fínn í því að skoða gúmmíbjörgunarbáta og ég var held ég sæmilegur kjafthúsmaður á grjótmulningsvél, og ég er ágætur lesari og bara bærilegur bæjarstarfsmaður – en ég er bestur í þessu.

Ég er líka góður djákni en líkt og Sean þá var ég með of þröngan hring. Sean fær sinn hring lagaðan. Ég fékk minn hring lagaðan en kirkjan telur sig ekki hafa þörf fyrir mig. Kirkjan hefur ekki verið mér góð – það verður bara að segjast eins og er. Kirkjan hefur á ákveðin hátt brugðist mér en ég bregst henni ekki. Ég er henni trúr þjónn því kirkjan er Guðs en ekki manna og ég er trúr Guði. Ég hef aldrei fyrivarið mig fyrir frelsara minn – og það er minn styrkur í öllu sem ég geri. Líka í skáldskapnum.

Og þá spyr kannski einhver: Því skrifar svo trúaður maður sögu sem er í raun svo myrk og segir frá svo vonlausum manni? En þá er því til að svara að, ég var ekki bara kallaður til þess að segja fólki frá því sem það þegar veit, eða frá því sem aðrir hafa þegar sagt því frá og alls ekki til þess að segja því frá því sem er slétt og fellt og þaðan af síður til þess að skrifa eitthvað sem gerir ekki annað en að staðfesta ímynd (ranga eða rétta) lesandans af sjálfum sér. Hér gildir kannski að breyttu breytanda það sem segir á góðum stað: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.“

Galdurinn í sögunni er galdurinn í skáldskapnum, það fantatíska í sögunni er ljósið. Líka það er grimmt og þjáningin er vissulega þar en þar er samt ljósið. Í raun var það líka, bara með öðrum hætti, viðfangsefnið í síðustu bók minni, Kattasamsærinu, þjáningin og ljósið. Og líka í bókinni sem hlaut íslensku barnabókaverðlaunin, Þvílík vika. Og í leikritinu 21. manns saknað vorum við Bergur Þór lngólfsson líka með fingurna á þjáningunni en samt á ljósinu. Kannski er ég alltaf að skrifa um þjáninguna? Ég veit það ekki. En ég veit það fyrir víst að sú skáldsaga sem ég vinn nú að fjallar svo sannarlega um þjáninguna og grimmdina – en eins og er, eitthvað óskaplega lítið um ljósið.

Nú ertu leikhúsmaður auk þess að vera guðsmaður og bóka. Ertu með eitthvað í farvegi þar sem kallast á við það sem þú ert að fást við í Gosbrunninum?

Það vill svo til að ég sendi Borgarleikhúsinu leikrit í haust. Þar er það til yfirlestrar, til samþykktar eða synjunar eins og gengur. Verkið fjallar um eldri hjón. Uppistaðan er samtal þeirra. Manns og konu. Þar er ég að fjalla um grimmd, lygi, meðvirkni og þjáningu en samt á mjög kómískum nótum. Það leikrit stendur held ég alveg undir því að kallast tragikómedía. Þar kemur grimmdin og ofbeldið úr óvæntri átt og ástæðan er óvænt. Við gerum of oft ráð fyrir hinu og þessu – ég vil ganga á hólm við það. Þannig myndi þetta leikrit, verði það sett upp skemmta fólki og það myndi hlægja innilega, til að byrja með. En síðan fengi það framan í sig eitthvað sem það gerir ekki ráð fyrir. Þetta tengist því sem ég sagði áðan um kyrrstöðuna og það hvernig hún svíkst að manni þrátt fyrir að vera kyrrstaða, hvernig við þurfum að rjúfa hana – með óvæntum vopnum – vegna þess að allt er öðru vísi en við héldum það yrði. Og svo er að sætta sig við það. Þar er snurðan.

„Málið, orðin, orðið, þetta er stórkostlegur heimur“

Eigum við kannski að tala að endingu aðeins um guðfræði og guðstengslin við sköpunargáfuna og sköpunarkraftinn sem kirkjunnar fólk leggur aldrei nægilega mikla áherslu á?

Sköpunargáfan er Guðdómleg. Og það eru forréttindi að fá að kljást við frummynd hennar, orðið. Málið. Eðli málsins er Guðlegt og það segi ég vegna þess að innsta eðli málsins tjáir sig í málinu, ekki með því. Sú er að minnsta kosti skoðun Walters Benjamin og ég veit ekki betur en það sé rétt hjá honum, það hefur enginn hrakið það! Málið, orðin, orðið, þetta er stórkostlegur heimur og í sjálfu sér mystískt – enda Guðlegt. Þú manst að Guð gaf manninum orðið við syndafallið. Guð lætur þá manninum í té málið sem hann hafði sjálfur notað við sköpunarverkið. Lykilinn að Guði er í gegnum málið, í gegnum orðið því Guð hafði notað það til sköpunar og síðan fær blessaður mannauminginn það til að vesenast með til eilífðarnóns en af því að Guð hefur notað það er það auðvitað Guðlegt.

Stundum finnst mér kirkjan líta framhjá þessu. Í það minnsta sér hún ekki tækifærið í þessu. Kannski er hún of upptekin við að spyrja: „Hvað hefði Jesú gert?“ – sem bitnar á því að sjá möguleikana í því sem við getum gert. Með málinu, Guðs málinu. Mér finnst t.d. útgáfa kirkjunnar ekki burðug, mest af því sem þaðan kemur er eitthvað rell og samþykktir. Sem svo er kannski ekkert farið eftir. Þegar hún á að kenna Orðið með orðum, þegar hún á að nota starfskrafta og mannlega reynslu þeirra sem eru tilbúnir. Mér finnst til dæmis með ólíkindum að kirkjan virðist ekki hafa not fyrir mig með mína fjölbreyttu menntun, starfsreynslu, náðargáfu og lífsreynslu sem spannar allt frá helvíti og heim aftur. Ef slíkur maður – sem líka hefur orðið með sér í liði er ekki talið sterkara vopn til útbreiðslu á fagnaðarboðskap Jesú Krists en verksmiðjuframleiddir KFUM/K-englar með enga reynslu nema sprungið dekk á leið í Vatnaskóg eða Vindáshlíð, þá er eitthvað mikið að.