74: Otis Blue með Otis Redding

Í rokkplötusafninu hans pabba voru Otis Redding, Wilson Pickett, Aretha Franklin og Ray Charles saman á tvöfaldri plötu. Gott ef Otis og Wilson voru ekki á sitthvorri hliðinni á einni. Ég er meiri Wilson maður, þótt ég kunni líka ágætlega við Otis. En það er kaldhæðnislegt að á Otis Blue séu áhugaverðustu lögin annars vegar lag sem hann samdi – en Aretha Franklin flutti betur – og frekar misheppnuð tilraun til þess að taka Satisfaction með Rolling Stones.

Hið fyrrnefnda er flott lag, í sjálfu sér, en það er ekki jafn epískt og hjá Arethu, þótt Otis hafi samið það.

Og það síðarnefnda hljómar einsog hann sé að reyna að sýna fram á að þessi þarna næpuhvíti náungi frá Bretlandi viti bara ekkert um kynþokka.

Og úr verður einhvers konar brandari. Það má vel vera að bresku strákarnir hafi stolið rokkinu frá svörtum bandaríkjamönnum – en ég man ekki eftir neinni sérlega vel heppnaðri tilraun til að stela því aftur til baka. Þetta er í öllu falli ekki gott.

En það eru lög á plötunni sem eru betri, og jafnvel rosaleg – klassískara sálarrokk einsog Change Gonna Come, My Girl (sem er auðvitað ein epíkin hans Otisar – og væntanlega stór hluti ástæðunnar fyrir því hvers vegna platan skorar svona hátt) og Shake, sem hann flytur hér (með smá Land of a thousand dances tvisti) ásamt Eric Burdon úr Animals og breska blússöngvaranum Chris Farlowe. Sem eru fínir. En þeir vita ekkert um kynþokka. Ég er ekki einu sinni viss um að Mick Jagger gæti keppt við Otis á heimavelli, svona þegar ég hugsa út í það.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Otis Blue með Otis Redding hlustaði hann á meðan hann skokkaði frá Hotel Esplanade í Stokkhólmi út í Djurgården og til baka.