73: Back in Black með AC/DC

AC/DC er harðvíruð í sálina á mér. Ég veit ekki hvort það er nokkuð sem ég get að því gert. Þegar ég var svona átta-níu ára var sýnd auglýsing í sjónvarpinu – það var verið að auglýsa Bylgjuna – með upphafstónunum úr You Shook Me All Night Long. Ég man ekki hvað gerðist – það var áreiðanlega stelpa í mínipilsi úr leðri, einhver maður í leðurjakka, kannski stigið í poll, allir rosalega töff. Ég gleymi því aldrei, kannski var það þarna sem ég uppgötvaði kynferðið í sjálfum mér. Ég eignaðist plötuna löngu síðar – á hana enn á vínyl. 1

Og ég hafði hlakkað til þess að það kæmi að henni á listanum. Þetta er ekki góð tónlist, ekki í merkingunni að það sé neitt fínt við hana eða lagasmíðarnar séu merkar. Ég skammast mín fyrir að fíla AC/DC. En hún á eitthvað í mér – einsog handfylli af plötum sem ég hlustaði á frá því ég var 10 ára og fram undir fimmtán, frá Number of the Beast til Appetite for Destruction, Master of Puppets, Vulgar Display of Power og yfir í fyrstu Nirvana plöturnar – og ég hef ekki hlustað á hana lengi. Hreinlega ekki hlustað á hana edrú síðan ég var krakki. Ég setti hana í gang, fór út að hlaupa og hún svíkur ekkert stemningin – þessi riff, þessar rock solid no bullshit rokkmelódíur.

Og nú er ekki einsog það komi mér neitt á óvart að AC/DC séu svolítið að þenja mörk kynferðislegs siðferðis. Fyrir ekkert alltof mörgum mánuðum hlustaði ég á nokkrar af eldri plötunum í beit og man að ég tók sérstaklega eftir því hvað ásælnin var mikil – og hvað þeir ortu mikið um ungt kvenfólk. Og ég hlustaði auðvitað á þetta sem unglingur – get ekki sagt hversu mikið ég tók eftir textunum. En ég veit ekki. Ég var auðvitað að klára Kötu eftir Steinar Braga (það verður viðtal við hann á mánudaginn eftir viku) og það hjálpar ekki en þegar lagið Let Me Put My Love Into You kemur – og eitt af allra bestu, flottustu riffum Angus Young smellur inn akkúrat þegar Brian Johnson syngur:

Don’t you struggle
Don’t you fight
Don’t you worry cause it’s your turn tonight
Let me put my love into you babe
Let me put my love on the line
Let me put my love into you babe
Let me cut your cake with my knife

Já, æi, úff. Hvað get ég sagt? Ég missti dampinn á hlaupunum. Þetta er svolítið einsog að láta fjarlægja hluta úr hjartanu á sér með skurðaðgerð. Og jájá, aðrir tímar og þetta er metafóra – ég held að Brian hafi ekki beinlínis verið að tala um nauðgun en hann tignar þarna ákveðna hreyfingu, ákveðna tilfinningu sem ég kann illa við að sé tignuð. Robin Thicke á ekkert í þetta.

Og þeir eiga margt annað – eiga Hells Bells og Back in Black alveg skuldlaust. Tónlistin, stemningin – sjálf tignunin, frístandandi – er meira að segja falleg í Let Me Put My Love Into You, utan samhengis síns. Einsog píramídarnir mínus þrældómurinn.

Annars hefur það slegið mig talsvert á þessum 27 plötum sem eru komnar hversu mörkuð eða hreinlega afmörkuð tónlistarsaga tuttugustu aldarinnar er af kynferði. Það er kannski einhver ástæða fyrir því. Tónlistin sækir á eitthvað djúpt í manninum, held ég, spilar inn á dýrslegt eðli okkar – það er nákvæmlega ekkert vitsmunalegt við það hvers vegna og hvernig hún hreyfir við okkur. Og kannski er hún einmitt líka máttug vegna þess að hún er hættuleg – hún krukkar í manni á stöðum þar sem ekkert annað nær að hreyfa við einu eða neinu. Og textarnir hljóta að sækja þangað líka, meðvitað eða ómeðvitað.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Back in Black með AC/DC hlustaði hann á hlaupandi um í Hrábæ í Svíþjóð – og hann mun syrgja hana lengi.

   [ + ]

1. Vínyllinn er auðvitað á Íslandi, platan er ekki á Spotify, ég náði mér í eintak á svívirðuvefnum og lofa að eyða því rétt strax.