Vindinn hafði lægt á meðan við töluðum saman. Barþjónninn byrjaði að stóla upp og ganga frá. Ljóskastari lýsti Lúðmillu upp og í smástund var allt úr fókus nema hún. Hún var ein á sviðinu þegar hún tilkynnti að hún tæki núna síðasta lagið.
Það var enginn þarna inni lengur nema við þrjár, barþjónninn og gamli maðurinn í horninu sem var sofnaður.
„Lífið er fullt af neistum,“ sagði Móna. „Stundum líki ég þeim við regndropa. Þeir koma stundum nokkrir, einn heitir kannski „sykurpúði“ eða „trúðaskór“ áður en þeir falla til jarðar. Þegar þú beygir þig til að þreifa eftir þeim er dropinn horfinn og grasið orðið þurrt. Allt er eins og fyrr og það er allt í lagi. Þannig verður það að lokum hjá okkur líka, þetta verður allt að minningu sem kannski var aldrei neitt.“
Móna brosti svo skein í hvassar tennurnar.
„En ekki strax,“ bað ég.
„Nei, ekki strax,“ svaraði hún.
„Höfum við verið hér áður?“ spurði ég.
Móna hló.
„Núna ertu farin að hljóma klikkuð. En vissir þú,“ spurði Móna, „að þegar Hekla gaus í síðasta sinn lifðu allir refirnir að Fjallabaki af. Það fannst ekki einn dauður refur í friðlandinu þótt þeir hefðu grafist undir öskunni. Það er af því að þeir skríða ofan í holu, þeir búa sér til fylgsni en flýja ekki þegar hætta steðjar að. Það eru þeir sem eru alltaf á flótta sem koma verst út úr hörmungum.“
„Við erum þá ekki refir,“ svaraði ég hugsi.
„Stundum finnst mér ég vera refur. Eða andi.“
„Góður eða illur?“ spurði ég.
„Góður andi.“
„Þú þekkir góðu andana á augunum,“ útskýrði ég, enda sérfræðingur um anda.
„Illir andar eru með sokkin augu eins og fiskar. Þeir sitja ekki á börum að hlusta á djass.“
„Hvar eru þeir þá?“ spurði Móna.
Ég yppti öxlum.
„Ef ég væri illur andi myndi ég eiga fylgsni í skóginum við fjallið. Ég myndi hringja dyrasímanum á heimili foreldra minna og þeyta húsgögnum um á nóttunni.“
Móna kláraði rósavínið úr glasinu sínu ákveðin.
„Saknarðu mömmu þinnar?“
„Nei,“ svaraði Móna. „En þú þinnar?“
„Ég sakna þess ekki að vera lokuð inni en kannski var öryggi í tilbreytingarleysinu. Mig langar að vera hún áður en hún varð brjáluð.“
„Vá,“ sagði Móna og saup hveljur.
„Ég mála myndirnar oftast þegar ég sakna. Myndir af henni eða dýri sem minnir mig á hana eða ég skrifa henni bréf eða sögu um Júpíter eða eitthvað úr sögunum sem við áttum saman. Um sokkaskrímslin eða nágrannana sem við njósnuðum um í næsta húsi. Ég er ekki góð í að mála, ég er ekki góð í neinu en mér finnst róandi að týnast inni í myndum. Mamma sagði mér einu sinni að hún vildi ekki að ég væri alltaf að mála því þá væri ég ekki alveg hjá sér, ég væri inni í myndinni.“
„Ertu inni í mynd núna?“ spurði Móna.
Ég leit þögul í kringum mig í smástund á tóma stólana á barnum.
Hafði kannski enginn setið á þeim?
Ljósin urðu bjartari og þungri bjöllu var hringt á barnum til að minna á að nú færi brátt að loka. Þótt flestir væru farnir greindi ég samt skugga á veggnum, skugga sem föðmuðust og dönsuðu hægt, þétt upp við hvern annan við lokalag Lúðmillu, September in the rain. Svo leit ég á Mónu fallegu sem, öfugt við alla hina á barnum, var hjá mér í alvörunni.
„Ég held það.“
Júlía Margrét Einarsdóttir gaf út sína fyrstu skáldsögu í lok ágúst, Drottninguna á Júpíter, en hún er þriðja bók höfundar. Júlía er með meistaragráðu í ritlist og aðra í handritagerð.