Ofbeldi, einelti, hasar, skotbardagar, glæpasamtök… já og fjöldinn allur af morðum

Árið 2015 kom út glæpasagan Hilma eftir Óskar Guðmundsson. Nú kemur verkið út á ný hjá Bjarti í endurskoðaðri útgáfu. Verkið er 455 síður og telur 47 mislanga kafla.

Óskar Guðmundsson (1965) (ekki rugla saman við alnafna hans sem skrifaði til að mynda ævisögu Snorra Sturlusonar) er því að gera nýr af nálinni í heimi íslenskra glæpa- og spennusagna. Hilma var fyrsta skáldsaga Óskars. Fyrr á þessu ári kom út önnur saga hans, Blóðengill, sem er sjálfstætt framhald frumraunarinnar. Í tilefni þess að bókin er nú endurútgefin er hún tekin til umfjöllunar hér.

Það þarf vart að tíunda að vinsælasta skáldsagnaformið á Fróni er glæpa- eða spennusagan. Fólk þreytist seint á að lesa um afbrot, barsmíðar, morð, nauðganir og limlestingar sér til afþreyingar, sér til gamans. Gæði verks eru einkum og sér í lagi metin út frá því hvort lesandinn eigi erfitt með að slíta sig frá því, verði hreinlega að lesa áfram til að komast að því hvernig sögunni vindur fram. Hver er sekur um glæpinn? Fær óbermið makleg málagjöld? Slíkar bókmenntir eru allajafna auðveldar aflestrar, þrátt fyrir óhæfuverkin. Innihalds-, uppsetningar- og stíllega séð eru verk þessa geira allajafna ekki flókin. Þar er sjaldnast bryddað upp á miklum nýjungum, verkin hafa á sér formúlukenndan blæ og listrænt gildi þeirra hefir, í gegnum tíðina, verið umdeilanlegt.

Það verk sem hér um ræðir er tvímælalaust spennu- og glæpasaga. Verkið á sér stað í Reykjavík og í Osló. Sögutíminn er aðallega nóvember og desember 2011 en einnig er horfið til baka til ársins 1989 eða nánar tiltekið til 13. nóvember það árið. Sagan er sögð í þriðju persónu af alvitrum sögumanni sem þó opnar ekki inn í hug allra persóna sögunnar, né veitir hann (skiljanlega) allar upplýsingar. Þegar líður á söguna kemur meira og meira í ljós. Lesandi fær að vísu meiri upplýsingar en þeir sem rannsaka glæpina þótt ekki komi öll kurl til grafar fyrr en undir lok sögunnar.

Aðalpersóna sögunnar er samnefnd verkinu. Með nafngiftinni má ganga út frá því að sleginn sé tónn sem óma á áfram; að fleiri sögur um rannsóknarlögreglukonuna Hilmu muni fylgja (sem er raunin þar sem Hilma er einnig í Blóðengli). Nafngiftin endurspeglar einnig þá staðreynd að sjaldnar kemur fyrir að aðalpersóna slíkra sagna sé kvenkyns. Í ofan á lag er Hilma hörð af sér þótt hún eigi það líka til að brynna músum. Hörð og mjúk. Hún er einnig huguð, með bein í nefinu, slær oftast karlkynssamstarfsfélögum sínum við og sefur ávallt nakinn. Augljóslega fær hún mest rými á síðunum. Bakgrunnssaga hennar er ekki útskýrð til hlýtar. Vitað er að foreldrar hennar eru látnir og að hún á erfitt með að finna lífsförunaut eða kærasta. Hún er þó ekki fráhverf því. Gert er ljóst að þótt Hilma sé sumpart einfari og eigi ekki fjölskyldu né nákomna hafi hún þörf fyrir nánd. Að líkindum er hér spilað inn á að fleiri verk með Hilmu muni líta dagsins ljós og uppfræða lesendur betur um persónuna, líkt og raunin er til dæmis með kollega Hilmu hann Erlend Arnalds Indriðasonar.

Vindur aðallega tveim sögum fram. Í fyrsta lagi eiga sér dularfull sjálfsmorð stað sem tengjast atburði sem gerðist 13. nóvember 1989:

 

Eftir um hálftíma byrjar aftur að kyngja niður snjó. Heppilegt fyrir þá sem þurfa að hylja slóð sína. Óheppilegt fyrir drengina sem hafa orðið fyrir limlestingum og fennir brátt í kaf. (bls. 5)

 

Drengirnir sem voru illilega lamdir heita Elli, Ásmundur, Þorfinnur, Tryggvi og Ari. Sá síðastnefndi lést af sárum sínum. Drengir þessir gengu undir nafninu hinir fimm fræknu sem er rangnefni þar sem þeir voru ekki beint vandaðir. Þeir áttu það til að leggja aðra í einelti og þá einkum Ingvar skólafélaga þeirra. Sögunni víkur til ársins 2011. Þeir fimm fræknu, utan Ara sem er í eilífum viðtengingarhætti, hafa komið ár sinni ágætlega fyrir borð og standa einnig í sameiginlegum viðskiptum með gömlum skólafélaga, viðskiptarefnum Hannesi kókaínhneigða.

Ekki er kafað djúpt í sálarfylgsni þessara karaktera. Klárt er þó að þeir eru misvafasamir, misrætnir og mistilfinningalausir. Þeir byrja svo, ekki Hannes, hver á fætur öðrum að geispa golunni. Slysfarir eða sjálfsmorð er talið orsakavaldurinn. Fljótlega verður ljóst að þar er ekki allt sem sýnist. Fjöldamorðingi gengur laus.

Hér er gripið í blaðsíðu 30 þar sem Þorfinnur fær heimsókn frá ónefndri manneskju[1]:

 

Kannski skynjaði hann hina svörtu nærveru dauðans.

„Grínast? Nei, ég er ekki að grínast,“ sagði manneskjan og glaðlegi tónninn var horfinn. „Þó svo að þú horfir á mig hérna sprelllifandi, þá dó ég í raun og veru fyrir tuttugu og tveimur árum. Og þú varst einn af þeim sem drápu mig. Og nú er ég hér til að drepa þig. Er það ekki sanngjarnt?“ Sagði hún og þrýsti rafbyssu þétt upp að öxl Þorfinns.

Hann hljóðaði lágt og féll í gólfið.

 

Í framhaldinu setur manneskjan sjálfsmorð Þorfinns á svið. Lesandinn veit sum sé meira heldur en rannsóknarteymið. Í byrjun er lát Þorfinns afgreitt sem hreint og klárt sjálfsmorð af vafasömu og drykkfelldu rannsóknarlögreglunni Kjartani. Þegar Hilma dregast í málið verður henni, í gegnum náinn vin sinn Eyþór, fljótlega ljóst að ekki er allt með feldu.

Hin sagan felur í sér hinn útlenska (sennilega frá Litháen) Vladas Pavlovic, sem talar bjagaða íslensku, og hafði komið sér vel inn undir meðal valdamanna Íslands og þeirra í viðskiptageiranum.

 

Hann var virtur í viðskiptaheiminum og hafði dvalið á Íslandi í átta ár. Nú hefur hins vegar komið í ljós að markmið hans var að koma á fót skipulögðum glæpasamtökum hér á landi sem hafa með eiturlyf, peningaþvætti, mansal og þjófagengi að gera. (bls. 14)

 

Hilma smyglar sér innan hans raða (undercover) og kemst að því að hann hefir óhreint mjöl í pokahorninu. Hann hefir hendur í hári Hilmu, pyntir hana illilega þannig að hún ber ör, til að mynda þvert yfir andlitið og á brjóstunum. Vladas er handtekinn en sleppur á undraverðan hátt úr haldi lögreglu. Hér er fréttafluttningur af þeim atburði tekinn úr sögunni:

 

svo virðist að þegar sérstök lögreglubifreið, sem sér um fangaflutninga og var á leið með Vladas í héraðsdóm, ók hjá hafi annarri bifreið verið ekið á miklum hraða inn í hlið hennar. Samkvæmt óstaðfestum heimildum náðu grímuklæddir menn Vladas úr fangabílnum og hurfu svo á braut í þriðju bifreiðinni. (bls. 13-14)

 

Örðugt reynist lögreglu að hafa hendur í hári Vladas sem fer huldu höfðu á Íslandi. Nær hann meira að segja, ásamt hjálparkokkum að hitta Hilmu fyrir, ógna henni og miða á hana byssu. Hann ætlar sér þó ekki að ráða niðurlögum hennar heldur heitir því að allir sem hún elskar, verður hrifin af, muni deyja. Hann sjái til þess. Allir sem Hilma þekkir og ber taugar til eru því í hættu.

Mætti auðveldlega bæta við þessa innihaldslýsingu. Verkið er jú 455 síður. Þessi lýsing ætti þó að komast nokkuð nærri lagi. Minnir nokkuð á Hollywood hasarmynd.

All margar persónur birtast á síðum þessarar bókar. Skiljanlega. Hilma er auðvitað fyrirferðarmest. Kona í karlaheimi. Samstarfsfélagar hennar, glæpamennirnir og þeir sem hún rannsakar eru karlkyns. Flestir þessir karakterar eru tvívíðir, sumir erkitýpur líkt og Vladas og fylgismenn hans sem bera illmennskuna utan á sér og tala bjagaða íslensku. Ein önnur kvenkynspersóna spilar einhverja rullu. Það er hin föngulega Auður sem var í góðu vinfengi við hinn einelta Ingvar og fékk að gjalda fyrir það af hinum áðurnefndu fimm. Gegnumgangandi í verkinu er að fortíðin læðist aftan að fólki.

Þegar kemur að glæpasögum hefir það löngum verið móðins að tengja atburðarrás við samfélagstengd atriði. Mætti staðsetja slíkt innan skandinavískrar hefðar sem sumpart má rekja til sænsku hjónanna Sjöwall og Wahlöö. Hilma er þar innan hefðar þar sem komið er inn á atriði sem hafa verið áberandi í íslenskri samfélagsumræðu. Má þar nefna útlendingar  á Íslandi, sem tala skakka íslensku, og glæpastarfsemi, nauðganir og einelti sem aðalþemu. Einkum einelti og afleiðingar þess.

 

Hversu oft hafði hann dreymt um að drepa þessa stráka? Þeir höfðu lamið hann hvað eftir annað. Skorið fötin hans. Migið á hann. Skitið í nestisboxið hans. Niðurlægt hann dag eftir dag. (bls.9)

 

Textinn er ekki gildishlaðinn og samfélagslegi tónninn er ekki yfir og undir öllu. Sagan er fyrst og síðast spennu- og glæpasaga.

Sögur sem þessar eiga það oftast nær sammerkt að vera læsilegar í þeim skilningi að fátt fer milli mála. Lítið sem ekkert er túlkunaratriði ekki frekar en viðlíka frásagnir í blöðunum. Sjaldan þarf að lesa á milli línanna, stíllinn er allajafna yfirlætislaus og einfaldur. Slíku er fyrir að fara í Hilmu fyrir utan einstaka persónugervingu í umhverfislýsingum.

 

Tunglið tyllti sér makindalega á Esjuna, þetta látlausa fjall sem hafði þó ákveðið í gegnum tíðina að taka nokkur mannslíf. Nú naut það sín þarna í stillunni með hvíta og gatslitna nátthúfuna og horfði yfir borgina í þessu frostkalda síðdegismyrkri. (bls. 6)

Umrætt verk er ágætt fyrir sinn hatt. Það er ótrúlegt í þeim skilningi að hasarinn minnir nokkuð á bófahasar auk þess sem fleira mætti tína til er ekki virkar trúverðugt. Deila má um hvort það sé til vansa eður ei. Ekki verður farið nánar út í þá sálma hér til að spilla eigi fyrir. Vel skynigæddur og reyndur lesandi sakamálasagna ætti þó að geta getið sér tiltölulega fljótlega til hvernig sögunni framvindur.

 

– Hvimleiðar innsláttarvillur má finna í verki sem betri próafarkarlestur hefði átt að hindra, sérstaklega í endurskoðaðri útgáfu.

[1] Þegar ekki má koma fram um hvaða persónu er að ræða þá er hún nefnd manneskjan.