Chamberlain
It seems the marriage with his brother’s wife
Has crept too near his conscience.SUFFOLK
No, his conscience
Has crept too near another lady.
Henry VIII er nýkominn heim af friðarsáttmálaráðstefnu í Frakklandi og aðalsmenn færa fregnir þaðan þegar einn þeirra, hertoginn af Buckingham, er handtekinn og sakaður um landráð að undirlagi Wolsey, biskups af York, kardinála og fjármálaráðherra. Friðarráðstefnan er búin að vera dýr og drottningin, Katrín af Aragon, færir konungi fregnir af kurri vegna skattpíningar sem runnin er undan rifjum Wolseys. Konungur skipar að skattpíningu skuli hætt, og Wolsey ráðgerir að eigna sér heiðurinn af afléttingunni. Í veislu á vegum kardinálans hittir konungur unga stúlku, Önnu Bullen, sem hann heillast af. Fljótlega fer af stað orðrómur um að skilnaður konungs og Katrínar sé yfirvofandi, enn og aftur af undirlagi Wolseys, sem reyndar kærir sig ekki um að hann giftist Önnu, heldur franskri prinsessu með meira pólitískt kapítal. Wolsey er hataður af aðalnum fyrir að vera uppskafningur, alltof valdamikill og í alltof mikilli náð konungs. Hann styður konunginn í skilnaðarmálum og hefur milligöngu um að fulltrúi páfa, Campeius kardináli, kemur til Englands til að úrskurða um lögmæti hjónabandsins við Katrínu, sem áður var trúlofuð bróður konungs. Á sama tíma byrjar Henry að senda Anne gjafir og sæma hana titlum. Við réttarhöld þar sem ganga á úr skugga um réttmæti hjónabands Henry og Katherine sakar hún Wolsey um að vera að baki ráðagerðunum, sem hann neitar. Konungurinn lýsir því fyrir réttinum hvernig franskur biskup hafi vakið hjá honum grunsemdir um að mögulega teldist, Mary, dóttir þeirra Katherine, vera óskilgetin, þegar til stóð að hún yrði gift Frakkakóngi, og jafnframt að mögulega væri dauði sveinbarna sem Katherine hafði eignast verið refsing Guðs fyrir syndina. Ósk aðalsins um ónáð fyrir Wolsey rætist að lokum, þegar kemur í ljós að hann er andvígur hjónabandinu við Anne, jafnvel eftir að giftingin hefur farið fram í laumi. Þá verður konungi loksins ljóst gengdarlaus auðsöfnun Wolseys. Á sama tíma snýr aftur til Englands hinn lúterski Cranmer sem styður málstað Henrys í hjónabandsmálum. Wolsey er settur af, Tomas More tekur við fjármálaráðherraembættinu og mótmælandinn Cranmer gerður að erkibiskup af Canterbury. Wolsey sættir sig við fall sitt, en hvetur aðstoðarmann sinn, Thomas Cromwell, til að gerast maður konungsins. Wolsey deyr síðan, áður en næst að rétta yfir honum. Anne er krýnd drottning, en Katherine komið fyrir í afskekktum kastala, þar sem hún biður þess að dóttur hennar, Mary, sé sómi sýndur, sem og starfsliði hennar. Meðan hin nýja drottning liggur á sæng vilja andstæðingar hins nýja siðar koma Cranmer frá, en konungur heldur yfir honum hlífiskildi og fær hann lokum til að ausa dótturina vatni. Við þá athöfn kemur spásagnarandi yfir erkibiskupinn og hann sér glæsta valdatíð Elísabetar og Jakobs I eftir hennar dag.
Laugardaginn 29. júní 1613 varð bilun í tækjabúnaði til þess að Globe-leikhúsið á suðurbakka Thames-ár í London brann til grunna. Nánar tiltekið kveikti illa undirbúin fallbyssuhleðsla í stráþaki hússins, en byssan var liður í hljóðmynd sýningarinnar á fjölunum þennan dag. Ef marka má samtímaheimildir urðu ekki meiðsli á fólki, utan einn leikhúsgestur sem þurfti að fórna bjórnum til að slökkva í buxunum sínum. Fjárhagstjón okkar manns hefur auðvitað verið umtalsvert, en hann var einn eiganda hússins, sem félagið endurbyggði árið eftir, en sjálfur var Shakespeare hættur að troða fjalirnar sjálfur þegar þarna kom sögu.
Það var hinsvegar leikrit eftir hann sem kallaði á þennan hvell sem kveikti í húsinu. All is True hét það, og hafði mögulega verið leikið við hirðina veturinn áður í tilefni af giftingu Elísabetar prinsessu. Það má auðvitað deila um – og hefur verið deilt um – hversu viðeigandi All is True er sem skemmtiatriði í brúðkaupsveislum, en þetta leikrit birtist síðan í heildarútgáfu Shakespeareleikrita 1632 undir nafninu sem við þekkjum það í dag: The Famous History of the Life of Henry the Eight, eða Henry VIII til þægindaauka.
Ekki það: kallinn var vissulega alltaf að gifta sig.
Það er ekki fyrr en undir lok nítjándu aldar að sú kenning fer á flug, og verður loks nokkuð viðtekin, að All is True/Henry VIII sé samvinnuverkefni Shakespeares og arftaka hans sem aðalhöfundur The King’s Men, og þar með Globe-leikhússins, John Fletcher. Sumir vilja reyndar meina að enn annar maður, Phillip Massinger, hefi rekið sína putta og penna í handritið líka. Tiltöluleg sátt virðist samt ríkja um hver gerði hvað og Arden-ritstjórinn Gordon McMullan eyðir litlu púðri eða blaðsíðum í málið. Eða réttara sagt: hann eyðir fullt af blaðsíðum í að fjalla um aðferðir við höfundagreiningu, en klikkir svo út með að honum þyki þetta allt fánýtt, enda hinn prentaði texti afurð allra sem áttu einhverja aðkomu að honum: heimildarmenn, leikhópurinn, prentarar, setjarar og guðmávitahverjir. Jájá, en samt. Djöfull leiðast mér svona fræðimennskudillur þar sem orðhengilshætti er ruglað saman við djúpstæðan heimspekilegan vafa. Ég er líka viss um að McMullan telur sjálfan sig óskoraðan höfund að inngangi sínum, hvað sem líður yfirlesurum, ritstjórum, tilvitnunum, framlagi fyrri fræðimanna og þeirri hefð sem hann vinnur innan, og hefur engan áhuga á að deila réttindum og umbun með þessum skara.
Inngangur McMullans er afleitur á fleiri vegu. Það er alltaf vont þegar svona inngangstextar vilja vera sjálfstæðar fræðiritgerðir. Þá festast þeir í þrengslum einnar hugmyndar, verða eins og hver önnur fræðitímaritsgrein um verkið og nýtast því ekki sem inn-gangur í bókstaflegum skilningi. Þannig er það með hrútleiðinlega og þráhyggjukennda ritgerð McMullans, sem vindur upphaflega titilinn „All is True“ eins og borðtusku í leit að öllum birtingarmyndum sannleikshugtaksins í textanum. Varla áhugavert sem slíkt og svona orðhengilsnálgun alveg klárlega gagnslaus sem opnun á verkinu.
En þetta gerir nú minnst til. Hvað með leikritið? Hvernig er það?
Frekar ómerkilegt er kannski stutta svarið. Ekki stórkostlega lélegt, langt í frá. En óneitanlega ófullnægjandi og enganvegin samanburðarhæft við fyrri afrek Shakespeares í söguleikjaritun. Enda eina dæmið um að mynd Shakespeares af aðalpersónunum verði ekki að viðtekinni mynd hennar, fyrir utan kannski Jóhann landlausa, þar sem sögurnar um Hróa hött trompa það skrítna leikrit. Já og Sesar; Goscinny og Uderzo vinna þann slag.
Og talandi um Sesar: Frægir rithöfundar eru ekki áberandi í persónugalleríi Shakespeares (eðlilega, og sem betur fer). Júlíus sennilega sá frægasti, en sá áhrifamesti er alveg mögulega Thomas Cramner, ritstjóri bænabókarinnar „The Book of Common Prayer“, sem hefur haft ómæld áhrif á enska tungu fram á þennan dag, og er þar þriðja stoðin við hlið Jakobsbiblíunnar og – verka Shakespeares. Cranmer bregður fyrir hér, og fær m.a. að flytja magnaða og spámannlega innblásna ræðu við skírn Elísabetar litlu Hinriksdóttur undir lokin.
Það hjálpar ekki að sjálfur er konungurinn heldur litlaus persóna í verkinu. Og fyrirferðarlítil, sem er enn skrítnara í öllum skilningi, þó hann hafi svosem ekki verið orðinn að því þrútna og sadíska skrímsli sem hann varð á endanum á þessum árum, þegar hann var að stíga í vænginn við ungfrú Bullen, drottningin að detta úr barneign en hirðmær hennar á táningsaldri. Þetta er reyndar nokkuð góð sjálfslýsing:
When these so noble benefits shall prove
Not well disposed, the mind growing once corrupt,
They turn to vicious forms ten times more ugly
Than ever they were fair. This man so complete,
Who was enrolled ’mongst wonders, and when we
Almost with ravished list’ning could not find
His hour of speech a minute—he, my lady,
Hath into monstrous habits put the graces
That once were his, and is become as black
As if besmeared in hell.
Fyrir utan að Henry er hér alls ekki að lýsa sér heldur hinum nýásakaða landráðamanni Buckingham.
Það er verðugt umhugsunarefni hvers vegna Henry VIII er ekki meðal áhrifaríkustu söguleikjanna, heldur þvert á móti sá veikasti. (Ég tel Sir Thomas More ekki með. Of lítill Shakespeare, og umtalsvert lakari en þetta). Það má horfa á það úr tveimur áttum:
I
Henry VIII/All is True fylgir atburðarás sögunnar of nákvæmlega og skortir því dramatískan fókus, sem raunveruleikinn á það til að búa ekki yfir. Það er einhvernveginn enginn skriðþungi sem býr til sannfærandi dómínó og tengir fall Buckinghams, samdrátt Henrys og Anne, skilnað hans við Katherine, fall Wolseys, uppgang Cranmers og fæðingu vonarstjörnunnar Elísabetar. Auðvitað er ástunduð hefðbundin samþjöppun; Shakespeare gefur tilfinninguna fyrir að allt gerist nánast í samfelldri atburðarás en ekki yfir nokkurra ára bil. Fyrir vikið er ýmsu hnikað til og persónum föðurs og sonar í einhverjum tilfellum steypt saman í eina, þegar sá eldri frá í raunveruleikanum á miðjum sögutímanum. Engu að síður er þetta sagan í skilningnum sem ég sá fyrst hjá Alan Bennett: One damned thing after another. Og það er ekki gott leikhús.
II
Skilnaði Henrys og Katherine fylgdi eitt af afdrifaríkasta mál í enskri sögu: skilnaður við Rómarkirkjuna sem markaði blóðug þátttaskil og er eitt frægasta og fyrirferðarmesta dæmi sögunnar um samslátt hins pólitíska og þess persónulega. Þessu mikilvægasta atriði í atburðakeðjunni er nánast algerlega sleppt úr gangverki leikritsins, sem fyrir vikið verður órökvíst og bláþráðótt. Sir Thomas More er sama marki brennt, reyndar talsvert verr brennt. Og aftur má líka horfa til King John: það eina sem allir vita um þann ógæfukóng er að hann undirritaði Magna Carta, sem Shakespeare hefur engan áhuga á.
Það er semsagt bæði of mikill og of lítill trúnaður við heimildirnar. Línudans sem er til staðar í öllum „heimildaleikritum“ Shakespeares, sem er bróðurpartur höfundaverksins, en nánast alltaf stiginn af meiri þokka en í þessu leikriti sem ber nafn manns sem var á yngri árum John Travolta Norður-Evrópu.
Það er auðvelt að gefa þeim Shakespeare og Fletcher dramatúrgísk heilræði eftir á. Auðvelt og fánýtt. Það er samt eiginlega skemmtilegasta leiðin til að skoða þetta skrítna leikrit. Og ég ræð.
Eins og allir vita, sem lesið hafa bækur Hilary Mantel um Thomas Cromwell eða horft á frábærar sjónvarpsendurgerðir þeirra, þá er lógískasta leiðin til að gera þessa sögu spennandi að segja hana alla. Gefa hinu pólitíska og trúarlega rýmið sem það verðskuldar. (Cromwell er persóna í verki Shakespeares og Fletchers, en bara smá.) Það er óraunhæft í svona leikriti, en hvernig á að velja? Mögulega hefði endurmótun efnisins með skýra aðalpersónu í miðju hennar skapað efni í eftirminnilegra verk. Henry Tudor hinn áttundi var auðvitað „larger than life“ persóna og skýr fókus á sálarlíf hans hefði alveg dugað sem drama. Eins má segja að raunir Katrínar af Aragon og togstreita þeirra hjóna með evrópsk stjórnmál í bakgrunninum sé þrusuefni. Katrín var systir valdamesta manns Evrópu og líklega hefði margt farið á annan veg ef hann hefði ekki haft páfann í Róm nánast í gíslingu, og því óhægt um vik að ljá máls á ógildingu hjónabands systurinnar. Engu að síður er hún meðal áhrifaríkustu persóna verksins, og á t.d. eina af bitastæðari ræðum þess, eignaða Shakespeare, þar sem hún setur fram málstað sinn við réttarhöldin um lögmæti hjónabands hennar:
Sir, I desire you do me right and justice;
And to bestow your pity on me: for
I am a most poor woman, and a stranger,
Born out of your dominions; having here
No judge indifferent, nor no more assurance
Of equal friendship and proceeding. Alas, sir,
In what have I offended you? what cause
Hath my behavior given to your displeasure,
That thus you should proceed to put me off,
And take your good grace from me? Heaven witness,
I have been to you a true and humble wife,
At all times to your will conformable;
Ever in fear to kindle your dislike,
Yea, subject to your countenance, glad or sorry
As I saw it inclined: when was the hour
I ever contradicted your desire,
Or made it not mine too? Or which of your friends
Have I not strove to love, although I knew
He were mine enemy? what friend of mine
That had to him derived your anger, did I
Continue in my liking? nay, gave notice
He was from thence discharged. Sir, call to mind
That I have been your wife, in this obedience,
Upward of twenty years, and have been blest
With many children by you: if, in the course
And process of this time, you can report,
And prove it too, against mine honour aught,
My bond to wedlock, or my love and duty,
Against your sacred person, in God’s name,
Turn me away; and let the foul’st contempt
Shut door upon me, and so give me up
To the sharp’st kind of justice.
Og þá komum við að feitasta bitanum í þessari kássu. Blómaskeið, ofmetnaður og fall kardinálans Wolsey er langsamlega dramatískasti þráðurinn í verkinu, en fær ekki nægt pláss til að gera það spennandi. Það er lauslega drepið á aurasýki hans og valdagræðgi, sem og metnað til að setjast í hásæti Péturs postula í Vatíkaninu, og hvernig hann missir smám saman sjónar á hvor þeirra Henrys sé hærra settur í hírarkíinu. Aftur rís verkið hæst í aríu eins af fórnarlömbum atburðanna, þar sem Wolsey hefur misst trúnað konungs og ákærður fyrir spillingu og mögulega landráð:
So farewell to the little good you bear me.
Farewell! a long farewell, to all my greatness!
This is the state of man: to-day he puts forth
The tender leaves of hopes; to-morrow blossoms,
And bears his blushing honours thick upon him;
The third day comes a frost, a killing frost,
And, when he thinks, good easy man, full surely
His greatness is a-ripening, nips his root,
And then he falls, as I do. I have ventured,
Like little wanton boys that swim on bladders,
This many summers in a sea of glory,
But far beyond my depth: my high-blown pride
At length broke under me and now has left me,
Weary and old with service, to the mercy
Of a rude stream, that must for ever hide me.
Vain pomp and glory of this world, I hate ye:
I feel my heart new open’d. O, how wretched
Is that poor man that hangs on princes’ favours!
There is, betwixt that smile we would aspire to,
That sweet aspect of princes, and their ruin,
More pangs and fears than wars or women have:
And when he falls, he falls like Lucifer,
Never to hope again.
Þessi dramatíski bogi nær ekki að taka yfir verkið eins og maklegt væri. Þá gengi ekki að halda hinum trúarlega þræði svona vannærðum, heldur yrðu þau og alþjóðamálin að vera í forgrunni.
En í staðinn er þetta svona sitt lítið af hverju. Og einhvernvegin ekki neitt neitt. Því miður.
Það er ofgnótt af Hinrik áttunda og hjónabandsraunum hans í kvikmynduðu formi, en fæst af því er byggt á leikriti Shakespeares og Fletchers. BBC-myndin frá 1979 er mjög dæmigerð fyrir það verkefni. Eins og vant er tekst leikurunum meira og minna að koma þyrrkingslegum skáldskap síð-Shakespeares til manns, ræðum sem á blaði virka svona nokkurnvegin óskiljanlegar. Claire Bloom (Katherine) og Timothy West (Wolsey) bera af, enda með safaríkustu bitana. Þegar upp er staðið er þetta nú samt frekar leiðinlegt. Það er ekki myndinni að kenna, lítið upp á hana að klaga þó ekki takist henni að „selja“ verkið sem vanmetna snilld.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.