Áður en ég hóf þennan heildarlestur voru Sonnetturnar það af ódramatískum verkum Shakespeares sem ég komst næst því að hafa lesið.
Ég skal útskýra.
Fyrir átta árum hafði Kristjana Arngrímsdóttir samband við mig og bað mig að semja lag fyrir sig. Ekki bara lag: tangó. Ég var auðvitað til í það, Kristjana er stórkostleg söngkona og það er gaman að semja lög. Mjög fljótlega fékk ég svo konsepthugmynd: að semja lag fyrir svarfdælsku sönggyðjuna við eina sonnettu Shakespeares í þýðingu Daníels Daníelssonar, sem var einmitt héraðslæknir á Dalvík meðan hann dundaði sér við að snúa þessum fræga ljóðabálki á íslensku. Mér fannst líka freistandi að gá hvort þessi tvö ástríðulistform gætu átt samtal. Það reyndist vera, og lagið sem kom út er ákaflega dæmigerður tangó. Jafnvel óþarflega. Sennilega samt meira finnskættaður en argentínskur. Eins og ég. Og sonnettan kann ekkert illa við sig í þessu hljóðfalli.
En fyrst var að velja vers. Ég blaðaði í safninu en las fátt í þaula. Ljóðið varð að vera sæmlega auðskiljanlegt – sem þær margar eru alls ekki, gjarnan þannig að orðum væri ekki augljóslega beint að stúlku (meira um það síðar) og sonnettan varð að standa sjálfstæð, ekki vera hluti af einhverri hugsunarheild – sem margar þeirra eru.
Niðurstaðan var sonnetta úr þeim hluta bálksins, sem Daníel kallar hinu rómatíska nafni „Hrafnhödduljóð“ og vísar þar til dularfullu óþekktu konunnar sem Shakespeare yrkir þar til og oftast er nefnd „The Dark Lady“. Engu að síður er ástarjátningin í þessu tiltekna ljóði kynhlutlaus.
In faith I do not love thee with mine eyes
For they in thee a thousand errors note,
Þannig hefst 141, eða í snörun Dr. Daníels:
Mín sjón hún getur aldrei unnað þér,
því urmul þinna galla vel hún sér,
Hér er nefnilega ekki verið að lofsyngja neina fegurðardís. Annar lagasmiður sótti einnig línu í upphaf úr þessum kafla, þar sem Shakespeare lýsir þessari sömu konu svona:
My mistress’ eyes are nothing like the sun;
Coral is far more red, than her lips red:
If snow be white, why then her breasts are dun;
If hairs be wires, black wires grow on her head.
I have seen roses damasked, red and white,
But no such roses see I in her cheeks;
And in some perfumes is there more delight
Than in the breath that from my mistress reeks.
I love to hear her speak, yet well I know
That music hath a far more pleasing sound:
I grant I never saw a goddess go,
My mistress, when she walks, treads on the ground:
And yet by heaven, I think my love as rare,
As any she belied with false compare.130
Ófríð. Andfúl. Litaraftið gráleitt og dauft. Hárið strý. Röddin sker í eyrun. Engin dís. En samt. En samt.
Þetta eru ógurleg ljóð. Óraljóð. Allt er í hæsta stigi. Tilfinningaskalinn er nánast alveg ónýttur, nema efsta stigið. Rauðabotninn. Ellefu. Nema síðan eftirmálinn, A Lover’s Complaint. Hann er bara skrítinn og óeftirminnilegur. Nenni ekki að tala um hann. Netturnar sjálfar eru andskotans nóg.
Þær eru dálítið torf. Mun torfærari en söguljóðin tvö, enda að stofni til ort mun síðar, af skáldi sem var hætt að leggja mikið upp úr mýkt og hljómfágun. Það er allavega skoðun Katherine Duncan-Jones, ritstýru Arden-útgáfu sonnettanna, en ekki endilega almenn skoðun. Sennilega eru þær reyndar ortar á mjög löngum tíma. T.d. er þarna eitt ljóð sem sumir virtir fræðimenn telja vera það fyrsta – langfyrsta – sem Shakespeare orti, og geti jafnvel verið úr tilhugalífi þeirra fröken Hathaway upp úr 1580:
Those lips that Love’s own hand did make,
Breathed forth the sound that said ‘I hate’,
To me that languished for her sake:
But when she saw my woeful state,
Straight in her heart did mercy come,
Chiding that tongue that ever sweet
Was used in giving gentle doom;
And taught it thus anew to greet;
‘I hate’ she altered with an end,
That followed it as gentle day,
Doth follow night, who like a fiend
From heaven to hell is flown away.
‘I hate’, from hate away she threw,
And saved my life, saying ‘not you’.145
Helvíti lélegt. Og svo er þetta eina sonnettan sem ekki er í fimmliðalínum, heldur þessum halta fjórliðahætti.
Annað sem gæti bent til að sonnetturnar séu seint til komnar að mestu leyti er hvernig talað er um þannig kveðskap í verkunum framan af ferli. Sonnettusmiðir og ástsjúklingar eins og þeir sem hér hafa orðið eru miskunnarlaust skopsettir og tuskaðir til í leikritunum fram á miðjan feril. Shakespeare boðar almennt mun jarðbundnari afstöðu til gæfuríks sambands karls og konu en að byggja það á bruna af þessu tagi. Kannski mildaðist hann í afstöðunni – af einhverjum ástæðum – upp úr 1600.
En er Shakespeare ljóðmælandi sonnettanna? Það er erfitt að afneita því alveg, enda leyfa fræðimenn sér alveg að vera eins og við hin þegar kemur að þessu verki, leita dyrum og dyngjum að persónum og leikendum í umhverfi skáldsins.
Fyrir utan inngangserindin seytján, sem sennilega eru pöntuð ljóð, ætluð til að æsa og/eða skamma ungan aðalsmann til ásta og barneigna. Duncan-Jones og margir aðrir telja unga manninn vera William Herbert, sem átti eftir að verða jarlinn af Somerset, og beiðina komna frá móður hans. Undir lok inngangsins fer að gæta hrifningar skáldsins/ljóðmælandans sjálfs á ungmenninu, sem er svo fagur að það væri skandall að hann dæi barnlaus.
Devouring Time, blunt thou the lion’s paws,
And make the earth devour her own sweet brood;
Pluck the keen teeth from the fierce tiger’s jaws,
And burn the long-lived phoenix in her blood;
Make glad and sorry seasons as thou fleet’st,
And do whate’er thou wilt, swift-footed Time,
To the wide world and all her fading sweets;
But I forbid thee one most heinous crime:
O! carve not with thy hours my love’s fair brow,
Nor draw no lines there with thine antique pen;
Him in thy course untainted do allow
For beauty’s pattern to succeeding men.
Yet, do thy worst old Time: despite thy wrong,
My love shall in my verse ever live young.
Þetta er nr. 19. Drengurinn strax orðinn „My love“.
Og í ríflega hundrað sonnettur frá og með nr. 18 er hann mærður, fjarvist hans hörmuð, sem og samneyti drengsins við önnur skáld og annað fólk og kvartað yfir stjórnlausum ástartilfinningunum sem eru að ræna skáldið vitinu. Ungi maðurinn verður að miðju heimsins fyrir ljóðmælandanum.
„Fair Youth“ kaflanum líkur á aldeilis makalausu ljóði.
O thou, my lovely boy, who in thy power
Dost hold Time’s fickle glass, his sickle, hour;
Who hast by waning grown, and therein showest
Thy lovers withering, as thy sweet self growest.
If Nature, sovereign mistress over wrack,
As thou goest onwards still will pluck thee back,
She keeps thee to this purpose, that her skill
May time disgrace and wretched minutes kill.
Yet fear her, O thou minion of her pleasure!
She may detain, but not still keep, her treasure:
Her audit (though delayed) answered must be,
And her quietus is to render thee.( )
( )
Svigarnir eiga að vera þarna. Þetta er prentað svona í frumútgáfunni. Það er enginn endir. The rest is silence. Eða eitthvað. Þetta gæti verið eftir Gyrði. Shakespeare Our Contemporary.
Í næsta ljóði, nr. 127, erum við aftur komin með fast form undir fætur. Og viðfang ástarinnar hefur skipt um kyn. Og húðlit. Og áhuginn er orðinn mun kynferðislegri. Klúrari. Og – að mati ljóðmælanda – skammarlegri.
Duncan-Jones vill meina að sú staðreynd að ástin í sonnettunum er svona „bi“ hafi tafið mjög fyrir því að þær fengju verðugt sæti á toppi höfundaverks Shakespeares. Nefnir reyndar sérstaklega hvað dálæti Oscars Wilde á þeim (hann vitnaði til þeirra fyrir rétti í Bosie-málinu) hafi gert þær að miklu feimnismáli. Segir einnig frá því hvernig editorar reyndu að „hreinsa“ Fair Youth hlutann af karlkyns persónufornöfnum. Nýrýnin kom síðan eins og frelsandi engill, bannaði allar vangaveltur um allt sem ekki stóð í bókunum sjálfum og sonnetturnar voru hafnar á sinn stall í krafti nærsýnnar textagreiningar. Það er góðu heilli löngu búið að slaka á púrítanismanum hvað þetta varðar, en hann gerði sitt gagn við að auka vegsemd bálksins.
Í inngangi og skýringum hennar fær talnaspeki líka töluvert pláss og aldrei þessu vant fannst mér pínu gaman að þeim pælingum, sem virðast líka viðeigandi til að skýra uppbygginguna að einhverju leyti.
Þannig er meginhlutinn rammaður inn með tveimur styttri köflum. Fyrst 17 sonnettum um mikilvægi þess að jafn fagur drengur fjölgi sér, en 18 ár þótti rétti aldurinn til að hefja barneignir (fyrir karla). Og svo í lokin 28 erindi um „The dark lady“, en tunglgangurinn og staðlaður tíðahringur er jú 28 dagar.
Nr. 63 kynnir til sögunnar hugmyndina um elli og hrörnun sem bíður ungmennisins fagra. Talan er margfeldi 7 og 9 og hefur mikið gildi sem umbreytingatala. Hún markar nákvæmlega miðju Fair Youth-kaflans.
Fleira smálegt má tína til til gamans. Nr. 12 hefst á orðunum: When I do count the clock that tells the time, og nr. 60 byrjar: Like as the waves make towards the pebbled shore, / So do our minutes hasten to their end.
Gróflega má segja að ástin til drengsins sé andleg en til konunnar holdleg. Það er alls ekki laust við að kvenfyrirlitningar gæti í Surtlukaflanum. Fyrir utan að þar má alveg grafa eftir rasisma, ef maður á góða 21. aldar PC-skóflu. En stundum er það greddan ein sem ræður för. Þá er gaman:
Whoever hath her wish, thou hast thy Will,
And Will to boot, and Will in over-plus;
More than enough am I that vexed thee still,
To thy sweet will making addition thus.
Wilt thou, whose will is large and spacious,
Not once vouchsafe to hide my will in thine?
Shall will in others seem right gracious,
And in my will no fair acceptance shine?
The sea, all water, yet receives rain still,
And in abundance addeth to his store;
So thou, being rich in Will, add to thy Will
One will of mine, to make thy large will more.
Let no unkind, no fair beseechers kill;
Think all but one, and me in that one Will.135
Og hvað er að gerast hér?!
Lo, as a careful housewife runs to catch
One of her feathered creatures broke away,
Sets down her babe, and makes all swift dispatch
In pursuit of the thing she would have stay;
Whilst her neglected child holds her in chase,
Cries to catch her whose busy care is bent
To follow that which flies before her face,
Not prizing her poor infant’s discontent;
So runn’st thou after that which flies from thee,
Whilst I thy babe chase thee afar behind;
But if thou catch thy hope, turn back to me,
And play the mother’s part, kiss me, be kind;
So will I pray that thou mayst have thy ‘Will,’
If thou turn back and my loud crying still.143
Það er ómaksins vert að dást að þýðingu dr. Daníels á þessari:
Sem húsfrú dygg, á hlaupum til að ná
í hanann einn sem rása burt hún sér,
frá barni sínu hendist hratt að fá
þann heimt er skyldi kyrr en farinn er –
og afrækt barnið eftir henni fer,
en eyrum hennar senn þess köll ei ná
er eltir hún hvað undan fjaðrað ber
svo yfirgefna krílið skæla má:
eins eltir þú hvað ákaft svo þig flýr,
en eg, þitt barn, fer lengi þína slóð.
– en lánist þér, kom aftur, elskan dýr,
sem ástrík móðir kyss mig fagnaðsrjóð.
Kom elskan dýr – lát ekka þagga sinn
í opnu skauti litla Villa þinn.
Hvernig tókst mér að sjást yfir þessa þegar ég valdi tangósonnettu fyrir Diddu á Tjörn?!
Ég las einu sinni frásögn af hjónum sem sögðust hafa það fyrir sið að þegar bóndinn fór í bað sat konan á karbrúninni og las fyrir hann sonnettur Shakespeares. Núna er ég viss um að annaðhvort var þetta haugalygi eða þetta var hjónaband sem enginn heilvita maður vildi vera í.
Sonnettur Shakesperes eru allt öðru vísi en ég bjóst við. Skrítnari, trylltari, erfiðari. Ástarkveðskapur vissulega, en í allt öðrum skilningi en ég hélt.
Í ágætu spjalli þriggja djúpvitringa um sonnetturnar staldraði ég við lokaorð eins þeirra. Hann hvetur lesendur til að lesa þau hægt, lesa þau sem sjálfstæð ljóð, og læra þær utanað. Allt eru þetta held ég góð ráð. Efast samt um að ég muni fara eftir þeim.
Textinn: Hér er frábær síða með sonnettunum og ítarlegum útskýringum um hverja og eina.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.