Heimferðir

Christine de Luca
ljóð
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson valdi og íslenskaði

Þegar ég neyti menningar núorðið, þá verð ég oftar en ekki pínulítið áhyggjufullur. Kvíðinn jafnvel. Hverju ætli sé verið að pranga inná mig núna? Verður þetta eitthvað? Verð ég ekki bara enn einu sinni fyrir vonbrigðum? Er þetta ekki bara sama gamla fjöldaframleidda draslið og allt hitt? Menningin er jú fyrir löngu orðin eins og stjórmálaflokkarnir og hamborgarastaðirnir. Iðnaðarframleiðsla á drasli í fínum umbúðum. Vinsælasta bragðið er vanillubragð. Og súkkulaðið er alltaf hvítt.

Heimferðir eru ljóðasafn. Ljóð úr sex ljóðabókum höfundar yfir tuttugu ára tímabil. Höfundurinn er Christine de Luca. Frá Hjaltlandseyjum. Fædd 1947. Gaf út sína fyrstu ljóðabók 48 ára gömul. Þetta er falleg bók. Fallegt umbrot. Eigulegur gripur.

Eins en ólíkir

Þar sem okkur eru frá upphafi gefnar tungur tvær
til að ljá hlutunum merkingu, lærum við að laga það
sem við segjum að því sem búist er við. Vorkunn er þeim
sem fæðast til einnar tungu: þeim sem aldrei bragða
kjötbita af öðru borði. Ómeðvituð veisla er það
að alast upp við tvö tungumál, tvenns konar hugsunarhátt.
Annar framlengir hinn, getur sýnt okkur annan heim
þó svo að allir heimar séu eins, en samt ólíkir.

Það sem situr skemmtilegan svip á Heimferðir er að hún er tvítyngd. Á hverri opnu er ljóðið í frumútgáfunni til hliðar við íslensku útgáfuna. Fyrir vikið fær maður einhverja tilfinningu fyrir frumtextanum, tungumálinu og þýðingunni jafnvel þó maður kunni ekkert í hjaltlensku.

Þýðandi hefur lagt sig sérstaklega eftir því að velja ljóð sem fjalla um eyjarnar og voru frumort á hjaltlensku, en höfundur skrifar á ensku og hjaltlensku jöfnum höndum. Sú ákvörðun litar alla bókina. Hjaltlandseyjar eru altumlykjandi. Christine de Luca býr í Edinborg en ljóðin eru heimferðir. 

Hjaltlandseyjar

Ég veit ekkert um Hjaltlandseyjar. Þær eru einhverstaðar þarna, þarna. That’s about it.

Gúglaði.

Eyjaklasi mitt á milli Færeyja og Noregs. 23 þúsund íbúar.  Mildur vetur og íslenskt sumar. Jafnt hitastig. Trendý lopapeysur. Rok. Mikið rok. Og rigning. Helstu atvinnugreinar eru olíuvinnsla og fiskveiðar. Kusu með áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu og með áframhaldandi veru Skotlands í Breska heimsveldinu. Hafa kosið fulltrúa Frjálslynda demókrata og forvera hans inn á Breska þingið síðan 1950 og eitthvað. Algengasta trúfélagsskráningin á Hjaltlandseyjum er utan trúfélaga. Athyglisvert. Bara 23 þúsund hræður? Vá. 

Af hverju veit ég ekki meira um Hjaltlandseyjar? Af hverju veit ég ekki miklu meira um Hjaltlandseyjar? Það er eitthvað skrýtið við það að samfélag sem er svona nálægt okkur – örsamfélag eyjaskeggja, millistéttarsamfélag ríkt af auðlindum í miðju Atlantshafi og svipaða veðráttu og Ísland, skuli vera svona tiltölulega fjarlægt og óþekkt frá Íslandi séð.

Og í ljóðunum skynjar maður náttúru ekki ósvipaða Íslandi. Maður skynjar eyjaskeggja. Eyju, altumlykjandi hafið, skipin, heim, æsku, sögu. Og maður skynjar þessi þemu ansi sterkt frá hendi höfundarins. Og maður skynjar þetta allt saman sem næstum því íslenskt. Kunnugleiki.

Annað sem situr sterkan svip á ljóðasafnið er tungumálið. Hjaltlenskan og tvítyngið. Á frummálinu koma ljóðin manni fyrir sjónir sem kraftmikil, með skriðþunga, og ef til vill hægu en ryðmísku tempói. Því miður fannst mér sá kraftur skila sér illa yfir á íslensku. Á íslensku fannst mér eins og ljóðin yrðu aðeins of eintóna, aðeins of falleg. Ekki nógu mikill tungubrjótur.

Aeshaness, battle-scarred
a shield o skerries
headbutts da Atlantic

verður í íslenskri þýðingu:

Esjunes, orustu-skrámað
skjöldur af skerjum
stangar Atlantshafið

Er það þýðingunni að kenna eða bara ólíkum blæ tungumálanna? Ég veit það ekki, ekki kann ég hjaltlensku. Kannski eru þau jafn kraftlaus á frummálinu og mér fannst þau á íslensku – en þau líta ekki út fyrir það. Ég finn vídjó af upplestri höfundar á internetinu, og jú, mér finnst það skemmtilegt. Í upplestrinum er leikgleði, kraftur og ryþmi og allt sem mér sýndist vera í ljóðunum á hjaltlensku.

En upplesturinn er fyrir börn, kannski eru hún meira döll þegar hún flytur fyrir fullorðna. Jú, frekari rannsóknir gáfu það til kynna.

Kannski er ekki við þýðandann að sakast, kannski þjást ljóðin sjálf af andleysi, en framandleiki tungumálsins gefi falsvon um kraft sem ekki sé til staðar? Hvað veit ég?

Jamm

Ja sko. Ég veit ekki alveg. Bókin gaf mér tilfinningu fyrir samfélagi sem ég þekkti ekki áður. Þegar maður flettir þessari bók finnst manni eins og maður standi á einhverju vindrassgati, einhverjum kletti, í óræðri árstíð á óræðum tíma á miðju atlantshafi í regnjakka, í 10 gráðum, roki og rigningu.

Ég gúglaði Hjaltlandseyjar. Eitthvað sem ég hefði annars ekki gert. Hún vakti áhuga á einhverju sem ég þekkti ekki áður. Það er eitthvað.

En samt finnst manni eitthvað vanta. Einhvern lífsháska. Einhverja hættu. Einhverja lífsbaráttu. Ekki einu sinni ljúfsáran sem oft er svo sterk í æskuminningabókmenntum nær því að vera nógu sterk til að maður nokkurn tímann finni til. 

Hér er tímaleysi. Slíkt getur verið kostur og galli. En hér er líka eitthvað bragðleysi.

Ég held áfram að gúgla Christine de Luca. Og ég finn eitt ljóð. Eitt vídjó. Lesið upp af skoskum börnum. Þegar Skoska sjónvarpið var að skipuleggja kosningavökuna fyrir kosningarnar um sjálfstæði Skotlands. Þá vantaði þeim eitthvað lokaatriði – eitthvað sem myndi slá botn í kosningavökuna þegar úrslit lægju fyrir – eitthvað sem hægt væri að nota, sama hvernig úrslitin færu. Eitthvað sem væri fullkomlega hlutlaust, og afstöðulaust. Lægsti samnefnari skosku þjóðarinnar. Móðgaði engan, og tæki örugglega ekki afstöðu. Þau fóru þá leið að velja ljóð eftir Christine de Luca, flutt af skólabörnum undir skoskum landslagsmyndum. 

Og það er kannski það sem ég er að meina.