Hatur, glundroði og Guð

Þessa bók ætti að þýða á íslensku

Aðeins um skáldsögu þýsk-austurríska rithöfundarins Daniels Kehlmanns, Tyll, með það að augnamiði að vekja athygli á athyglisverðri skáldsögu og hvetja til íslenskrar þýðingar. Rowohlt Verlag gefur út. Verkið kom út í október á síðasta ári. 473 síður.

Tyll hefir hlotið mikið lof. Sú er allajafna raunin þegar kemur að verkum Kehlmanns. Volker Wiedermann, sem skrifar fyrir Der Spiegel, vill til dæmis meina að verkið sé hans besta til þessa. Kehlmann hefir skrifað mörg frambærileg verk. Kehlmann er einn vinsælasti rithöfundur Þýskalands.

Með verki sínu Die Vermessung der Welt árið 2006 (Mæling heimsins. Kom út hjá Bjarti árið 2007 í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur) hlaut hann alþjóðlega frægð. Mæling heimsins er næstmest selda þýska skáldsagan á eftir Ilmi Patricks Süskinds.

Mæling heimsins er söguleg skáldsaga. Tyll er það einnig. Mæling heimsins gerist á 18. og 19. öld og greinir frá náttúruvísindamanninum Alexander von Humboldt og stærðfræðingnum Carl Friedrich Gauß. Báðir andans stórmenni, báðir lögðu þeir sín lóð á vogarskálar aukins heimsskilnings, mælingar heimsins, því að koma honum í kerfi, kerfisbinda hann.

Stíll Mælingar heimsins er fjarlægur, kaldhæðinn, eins og sagnfræðingur hafi gengið af göflunum. Bókin er mikið til skrifuð í óbeinni ræðu, í viðtengingarhætti. Frásögn er ætlað að gefa tilfinningu fyrir jarðtengingu. Atburðir sögunnar gefa aftur á móti oftlega tilfinningu fyrir hinu andstæða. Verkið er grínaktugt.

Bæði Humboldt og Gauß eru stöðugt leitandi svara og skilnings á heimnum. Sú leit á það til að leiða þá í ógöngur. Fróðleiks- og skilningsleit er eitt megineinkenna sögupersóna Kehlmanns og gegnumgangandi í verkum hans. Oft virka þær einnig fjarlægar og kaldar enda kemst fátt annað að en þráhyggjufull leit þeirra.

Í Tyll fer Kehlmann lengra aftur í tímann. Aftur til 17. aldar. Sagan á sér stað á tímum þrjátíu ára stríðins í Evrópu. Árin 1618 til 1648.  Stríð það teygði anga sína víðsvegar um Evrópu og skildi eftir sig, eins og stríða er siður, sviðna jörð, fjöldann allan af syrgjandi fólki, limlestu fólki, fátækara fólki og kynferðislega misnotuðu fólki. Þýskaland eða hluti þess svæðis sem nú telst til Sambandslýðveldisins Þýskaland varð einna verst úti. Og eins og ekki væri nóg á fólk lagt ríkti einnig pestarfaraldur sem jók tölu látina til muna. Auk þess var barnadauði meiri en mikill. Fjöldi flóttafólks var ærinn og lá leiðin, ólíkt því sem við á í dag, frá Þýskalandi. Þess fyrir utan vorum ferðalög milli landa eða svæða ekki algeng. Fólk var átthagabundið og einnig stéttbundið.

Þetta var tími þar sem ógætileg orð um eigin vitneskju, vitneskju sem kunni að vera á skjön við hið „kristilega“ gat kallað dauðadóm yfir viðkomandi. Að hafa rangar bækur í fórum sínum gat haft slíkt hið sama í för með sér. Áður en dauðann bar að garði var hluteigandi aðili pyntaður játaði hann ekki strax sitt vafasama athæfi. Þetta var tíma hjátrúar og trúar á galdra og yfirnáttúrulega hluti. Í bók er kristmunkurinn Athanasius Kircher viss um tilvist ósýnilegra dreka af því þeir eru ósýnilegir.

Óreiða, ringulreið, glundroði, bókstafstrú á tímum þegar náð Guð var fjarri. Fjarri flestum. Í það minnsta fjarri almúganum.

Í einföldu máli má rekja upphaf stríðsins til þess að kjörfurstinn í Pfalz Friðrik V. vildi verða konungur. Mótmælendur (mótmælandatrúar) í Bæheimi ákváðu að bjóða Habsborgaraveldinu (kaþólikkum) birginn og að bjóða honum að gerast konungur þeirra. Hann varð konungur þar og ríkti einn vetur. Fékk hann því nafngiftina vetrarkonungurinn. Hinum kaþólsku Habsborgurum, aðallega Ferdinandi keisara og fyrrum konungi Bæheims, sem réðu á Spáni og í hinu þýsk-rómverska keisaradæmi, hugnaðist það eigi og braust út stríð, Bæheimska stríðið sem varði frá 1618 til 1620. Það varð púðurtunnan sem sprakk og drógust Trumpar, Pútinar og Erdoğanar þess tíma inn í átökin og áður en varði logaði álfan öll í skæðum átökum þar sem engu var eirt, hvorki konum né börnum. Málaliðar gengu um rænandi, ruplandi,  nauðgandi. Hvern þeir rændu, hverri þeir nauðguðu fór eftir því fyrir hvern þeir börðust, fyrir hvern þeir börðust fór eftir því hver borgaði best á hverjum tíma. Á þessum tíma var kristilegt vinarþel kaþólskra og mótmælenda ekki boðorð dagsins. Gerðu kirkjunnar hliðhollu menn fleira illt en að nauðga kórdrengjum.

Í grunninn var þetta stríð á milli Habsborgaraættarinnar og Valoisættarinnar í Frakklandi en margar þjóðir drógust inn í átökin, til að mynda Svíar og Danir. Þrjátíu ára stríðið var líka í grunninn trúarbragðastríð (kaþólskir og mótmælendur). Fleira spilaði þó inn í en bara trú. Það er gömul saga og ný. Stríð þetta hafði viðtæk áhrif í Evrópu til lengri tíma.

Þetta var sá tími, svo vitnað sé til orða áðurnefnds Volkers Wiedermans í Der Spiegel, þegar Þýskaland var Sýrland heimsins og þótt ekki sé endilega að greina beinar hliðstæður við stríðið í Sýrlandi né önnur heimsins stríð í verki Kehlmanns þá er allt að því óhjákvæmilegt að leiða hugann að stríðinu í Sýrlandi og öðrum stríðum við lesturinn. Verk Kehlmanns eru þó ekki gildishlaðin né með fingurinn á lofti.

Þetta er, í grófum dráttum, sögusvið Tyll. Umfjöllunarefni verks er samt ekki þrjátíu ára stríðið heldur eru atvik stríðsins og sögulegar persónur tímabilsins nýtar og þeim fléttað saman við skáldaðar persónur og atvik. Útkoman er verk um manngerðar hörmungar sem virka eins og náttúrulögmál.

Der Krieg kam ihm nicht wie etwas von Menschen Gemachtes vor, sondern wie Wind und Regen, wie das Meer, wie die hohen Klippen von Sizilien, die er als Kind gesehen hatte. Dieser Krieg war älter als er. Er war manchmal gewachsen und manchmal geschrumpft, er war hierhin und dorthin gekrochen, hatte den Norden verwüstet, sich nach Westen gewendet, hatte einen Arm nach Osten und einen nach Süden ausgestreckt, dann sein volles Gewicht in den Süden gewälzt, nur um sich sodann wieder für eine Weile im Norden niederzulassen. (bls. 193)

Sum lykilatriði stríðsins finna leið á síður verksins. Sögulega útlistunin er samt ekki aðalatriðið enda verkið ekki sagnfræðilegt.

Verkið skiptist í átta hluta sem má lesa hvern fyrir sig ef svo ber undir. Hvern hluta má lesa sem sjálfstæða einingu. Þeir eru ekki í krónólógískri röð og hafa mismunandi söguhöfund, mismunandi rödd og frásagnarmáta. Sem dæmi má nefna að í fyrsta hluta, „Schuhe“, er um að ræða kollektíft „við“. Rödd þorpsbúa lýsir því þegar hinn frægi farandlistamaður og háðfugl Tyll Ulenspiegel kemur til að skemmta og endar á því að valda mannvígum slagsmálum á meðal guðhræddra og að eigin sögn frómra íbúa þorpsins.

Í þriðja hluta, „Zumarshausen“, fjallar söguhöfundur um þann hluta æviminninga feita greifans Martins von Wolkenstein sem tekur á því þegar hann var, undir lok stríðsins, sendur  út af örkinni af keisaranum í Vínarborg til að finna áðurnefndan háðfugl. Þá var von Wolkenstein um tuttugu og fimm ára. Æviminningarnar skrifaði hann fimmtíu árum síðar. Söguhöfundur ber þar saman „staðreyndir “og „raunveruleika“ minninga von Wolkenstein og er oft hæðinn í garð feita greifans sem leyfir sér að skálda í eyðurnar og stela frá öðrum höfundum.

Rödd söguhöfundar hinna hlutana svo og umfjöllunarefni og frásagnarmáti er af ólíkum toga. Sammerkt eiga þeir að skrif Kehlmanns ganga nær manni og eru ekki eins vitsmunalega fjarlæg og í fyrri verkum. Þetta verk höfðar til tilfinningana og kann að hræra í þeim.

Það sem tengir hlutana saman er malarasonurinn Tyll Ulenspiegel sem hefði átt að taka við myllunni af föður sínum Claus Ulenspiegel. En drengurinn er öðruvísi innstilltur en fólk er „flesk“ og fer aðra leið en honum er ætlað. Hann hefir reyndar ekki langt að sækja það þar sem faðir hans er frábrugðinn sauðsvörtum almúganum. Hans þankagangur er svo frábrugðinn og ókirkjulegur að þegar það kemst upp verður það honum að aldurtila. Tyll ákveður að verða farandlistamaður, flakkari, og æfir sig sínkt og heilagt í jafnvægislistum. Í öðrum hluta, „Herr der Luft“ er þetta viðfangsefnið.

Tyll er eina persónan sem kemur við sögu í öllum hlutunum. Hlutarnir spanna öll stríðsárin.

Tyll á sér sögulega fyrirmynd í þýsku þjóðsagnapersónunni, skálkinum, hrekkjalómnum Till Eulenspiegel (Till Ugluspegill). Fyrirmynd Kehlmanns var að vísu  ekki uppi á 17. öld heldur á fyrri hluta þeirrar 14. Sögur um téðan hrekkjalóm má meira að segja finna í íslenskri þýðingu. Sögurnar flokkast undir svokallaðar skálka- eða prakkarasögur sem lýsa lífi flækings. Þær eru iðulega uppfullar af ærslum, strákapörum og fíflaskap. Tyll er ekki þess eðlis.

Tengingar við sögulegu persónuna má, líkt og gefur að skilja, óvíða finna. Tyll Kehlmanns er þó myrkari persóna, hefir yfir sér djöfullegt yfirbragð. Nærvera hans er oftar en ekki fyrirboði hörmunga, dauða og óreiðu. Fyrsta setning bókarinnar slær tóninn. Hér hefir fyrrnefnd kollektífsk sögurödd þorpsins orðið „Der Krieg war bisher nicht zu uns gekommen.“ (bls. 7)

Við lok þessa hluta hefir stríðið ekki bara lagt leið sína til þorpsins heldur einnig lagt flestalla þorpsbúa að velli og jafnað þorpið við jörðu. Hvar sem Tyll kemur við fylgir eyðilegging og dauði. Flestum stendur og stuggur af honum.

Meira að segja setur óhug að sænska stríðskonungnum og mótmælandanum Gústafi Adolfi þegar hann hittir Tyll, sem er í „hirð“ hins ólánssama Friðriks kjörfursta, vetrarkonungsins þegar hann, í fjórða hluta „Könige im Winter“ gengur meðfram lyktandi náhrúgum sem saurlykt þó yfirgnæfir á fund Svíakonungs í herbúðum hins síðarnefnda. Á þeim tíma gengur Gústafi allt i haginn í stríðinu, er duglegur við að vinna orustur og slátra óvinum. Friðrik sem er fallinn í ónáð og er í útlegð eftir að hafa tapað Bæheimska stríðinu leitar til hans ásjár hans við að vinna Pfalz tilbaka frá kaþólikkum. Svíakonungur er ekki hans bróðir í leik.

Í hinum hlutunum „Hunger“ (5), Die große Kunst von Licht und Schatten“, „Im Schacht“ og Westfalen“ er svipað upp á teningnum.

Vissulega má segja um Tyll að hann sé háðfugl en gamanmál hans hafa iðulega skuggalegar hliðar. Sumpart minnir hann á Jókerinn í meðförum Heath Ledger. Tyll Kehlmanns er og líklega morðingi, myrðir líkast til lærimeistara sinn í fimmta hluta.

Í þessu samhengi passar þýska orðið Narr betur en þau íslensku sem nota má yfir Tyll. Kehlmann sjálfur lýsti slíkri persónu með ágætum í Kommt, Geister (fimm fyrirlestrar sem hann hélt við Frankfurter Goethe-Universität um bókmenntir):

Der Narr „sei nicht nur bloß Spaßmacher, er ist ein Halbmensch, eine Gestalt aus dem Schattenreich, ein Witzbold aber er ist zugleich gefesselter Dämon.“

Fleiri sögulegar persónur birtast á síðum bókarinnar. Misþekktar. Sú þekktasta er William nokkur Shakespeare sem þó kemur ekki beint við sögu. Þar eru auk áðurnefndra Liz Stuart kona Friðriks kjörfursta og dóttir Jakobs VI Skotakonungs, Paul Flemming læknir og ljóðskáld, Jesúítinn og fjölfræðingurinn Athanasius Kircher sem er sá sem einna helst ber ábyrgð á dauða föður Tylls.

Hér mætti áfram telja. Augnamiðið er þó ekki að varpa ljósi á þessar persónur og vafamál hvort rétt sé farið með allt sem viðkemur lífi þeirra. En hvenær er svo sem rétt farið með útlistun á lífi fólks?

Hér um einkar athyglisverða skáldsögu að ræða og einn eina rós í hnappagat Kehlmanns.

Hér fyrir neðan birtist grein um Daniel Kehlmann, sem saman var sett árið 2007. Greinin var hugsuð fyrir Lesbók Morgunblaðsins.

Á slóðum skemmti- og vitsmunasögu, viðurkenningar og útskúfunar, snilligáfu og klikkunar með brotið raunsæi að leiðarljósi: Var þessi maður aldrei í villtum partýum?

Hér verður aðeins fjallað um höfund Mælingar heimsins, Daniel Kehlmann, sagt frá verkum hans og tæpt á einkennum þeirra.                                                    

Ef tala má um vonarstjörnu þýskra bókmennta er líklegasti kandídatinn í því samhengi rithöfundurinn Daniel Kehlmann. Það er ef maður titlar hann ekki nú þegar stjörnu; bókmenntastjörnu. Allavega er hann einhver mest lesni rithöfundur Þýskalands um þessar mundir. Seljast bækur hans – sérstaklega Die Vermessung der Welt – í bílförmum.

Er hann þá bara „popp-höfundur“? Er ekkert í hann spunnið líkt og raunin er með alla rithöfunda sem ná að selja bækur sínar að einhverju ráði? Ja, margir vilja meina að í bókum Kehlmanns sé einmitt sjaldséða blöndu að finna; blöndu sem höfðar bæði til vitsmunanna svo  og skemmtunar og afþreyingar. Einn þekktur hrifnæmur íslenskur bókmenntarýnir gekk meira að segja svo langt að kalla Kehlmann snilling. Kehlmann er enda Íslendingum að góðu kunnur. Hann var, líkt og bókmenntaáhugafólki er líkast til í fersku minni, gestur á bókmenntahátíðinni í Reykjavík síðastliðið haust. Kom svo einmitt Die Vermessung der Welt út um haustið undir titlinum Mæling heimsins í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Hefir og bókin selst afar vel á Íslandi.

Líkast til væri að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að bæta við enn einni greininni um Mælingu heimsins. Mikið hefir verið fjallað um þá bók á hinum margvíslegustu tungumálum, þar á meðal íslensku. Að vísu verður eitthvað minnst á téða bók, en þá í samhengi við önnur verk höfundarins. Hann hefir nefnilega gefið út nokkur önnur áhugaverð verk.

Þrjár skáldsögur –Beerholms Vorstellung (1997) Mahlers Zeit (1999) og Ich und Kaminski (2003)- , eina nóvellu –Der fernste Ort (2001- og eitt smásagnasafn –Unter der Sonne (1998)-. Að auki hefir hann gefið út ritgerðasafnið Wo ist Carlos Montúfar (2005) og fyrirlestur um skáldskap, Diese sehr ernsten Scherze: Poetikvorlesungen (2007), ásamt því að skrifa  reglulega fyrir dagblöð og tímarit á borð við Süddeutsche Zeitung, Frankfurter Allgemeine Zeitung, Frankfurter Rundschau og Literaturen. Þess má svo geta að hann var tilnefndur til Deutscher Buchpreis (þýsku bókmenntaverðlaunanna) 2005 fyrir Mælingu heimsins, en laut í lægra haldi fyrir Arno Geiger og bók hans Es geht uns gut. Ekki slæmt fyrir mann sem er rétt liðlega þrítugur.

Flestar bækur hans hafa komið út á vegum Suhrkamp, það er að segja fyrir utan Mælingu heimsins, ritgerðarsafnið Wo ist Carlos Montúfar og Diese sehr ernsten Scherze. Þær tvær fyrstnefndu komu út á vegum Rowohlt (þar sem hann gefur út núna) og sú síðastnefnda kom út á vegum forlagsins Wallstein í Göttingen. Þess má svo geta að fyrstu tvær bækur hans komu hjá Deuticke í Vín, en voru svo endurútgefnar hjá Suhrkamp.

Daniel Kehlmann er fæddur árið 1975 í München, en fluttist sex ára gamall til Vínar með fjölskyldu sinni. Faðir hans er hinn þekkti austurríski kvikmyndagerðarmaður Michael Kehlmann. Í Vín lagði hann stund á heimspeki og bókmenntafræði við Háskólann þar í borg og vann um hríð að doktorsritgerð um heimspeki Kants. Hann saltaði þó það verkefni fljótlega vegna velgengni á skáldskaparvettvanginum. Líkur eru á að sú velgengni haldi áfram.

Því hefir verið haldið fram að rithöfundar skrifi nokkurn veginn alltaf um það sama í bókum sínum. Þeir bestu geri það bara á fjölbreyttan hátt. Hér verður ekki beinlínis tekin afstaða til þessarar fullyrðingar. Það er þó ljóst að oft má greina eitthvað í fyrstu bókum höfunda sem verður gegnumgangandi í seinni verkum þeirra.

Í fyrstu skáldsögu Kehlmanns segir hinn um það bil þrítugi Arthur Beerholm sögu sína. Hann greinir frá undarlegri æsku sinni sem ættleidds barns, er móðir hans lætur lífið af völdum eldingar og frá veru sinni í elítuheimavistarskóla í Sviss þar sem hann byrjar að fikra sig áfram í heimi töfrabragða, kaupir sér ógrynni töfrabóka og æfir sig á manískan hátt uns hann nær góðum tökum á viðfangsefninu. Eftir skólann hefur hann nám við guðfræði en töfrarnir taka fljótt yfirhöndina og þröngvar hann hálfpartinn átrúnaðargoði sínu, Jan van Rode, til að taka sig sem lærling. Leið hans upp á við innan heims töfrabragðanna er skjót og innan skamms er hann orðinn vel þekktur. Þrátt fyrir það er hann allan tímann hálf utangarðs og á skjön við samferðafólk sitt. Hér er ekki greint frá löngu lífshlaupi, en á þessu lífshlaupi á sér stað fjöldinn allur af undalegum uppákomum sem eru á mörkum veruleika og ímyndunar. Og svo er meira að segja spurning um hvort sögumaðurinn sé látinn.

Unter der Sonne rær á svipuð mið. Það er að segja hvað undarlegheit og frávik varðar. Um er að ræða átta sögur sem fela allar í sér einhvers konar uppbrot á hvunndagsleikanum. Til dæmis lendir gríðarleg peningasumma fyrir slysni inn á bankareikning skrifstofublókar í sögunni „Bankraub“ (Bankarán). Það gefur blókinni möguleikann á að kúvenda lífi sínu. Það reynist þó hægara sagt en gert. Sagan „Auflösung“ (Upplausn) segir frá manni sem vinnur við að taka upp fyrirlestra og ráðstefnur sem ætíð fela í sér að ein höndin er upp á móti annarri (öllu má mótmæla, meira að segja því að öllu megi mótmæla). Eftir því sem hann heyrir meira missir hann smátt og smátt trúna á tilgang lífsins og afstæðishyggjan tekur algerlega yfir. Hann hættir, í orðsins fyllstu merkingu, að lifa. Í sögunni „Pyr“ (brennuvargurinn), sem er eina fyrstu persónu frásögnin, segir fjölskyldumaður og virtur fyrirtækiseigandi frá því áhugamáli sínu að kveikja í annarra manna íbúðum. Í „Töten“ (Að deyða) tekur svo unglingspiltur upp á því að henda steini af brú í bíl á umferðargötu og að drepa hund nágranna síns með eitri. Í öllum þessum sögum á sér stað hvunndagsuppbrot eða greint er frá persónum sem skera sig á einhvern hátt úr. Einnig er að finna undarlega atburði á mörkum ímyndunar og raunveruleika.

Í Mahlers Zeit segir frá stærðfræðingnum, vísindamanninum og séníinu David Mahler sem telur sig hafa fundið misfellu hjá skaparanum er lýtur að tímanum; tíminn er ekki eins reglulegur og menn hafa talið. Hefir hann fundið upp formúlu sem hann telur að sanni mál sitt. Hann reynir hvað hann getur að koma formúlunni á framfæri við átrúnaðargoð sitt og Nóbelsverðlaunahafann Valntinov. Það reynist þrautin þyngri. Í kringum hann sveima stöðugt þyrlur og drekaflugur og ýmislegt á sér stað sem fær hann til að halda að einhver (Guð) vilji stoppa hann. Alls staðar rekst hann á vegg og fær hann á sig geggjunarstimpilinn. Það er samt skilið eftir opið hvort hann sé geggjaður eða hafi í raun og veru rétt fyrir sér.

Í Der fernste Ort segir frá tryggingasölumanninum Julian sem í byrjun sögunnar er staddur á Ítalíu þar sem hann á að flytja tölu um tryggingamál. Julian þessi skrifaði doktorsritgerð um hollenskan heimspeking sem einbeitti sér að reikningi og guðfræði. Hefir því líf Julians ekki tekið þá stefnu sem hann átti von á. Julian ákveður að skella sér í nærliggjandi vatn þrátt fyrir að vita að það geti verið hættulegt. Í vatninu lendir hann í straumiðu og er næstum því drukknaður. Eftir að upp á land er komið ákveður hann að notfæra sér þetta, þykjast vera látin og hefja nýtt líf. Uppfrá því eiga sér skrýtnir atburðir stað; látnum föður hans bregður fyrir og hann þarf ekki annað en að labba inn á skuggalega knæpu (þar sem hann hefir ekki verið áður) og biðja um falsaðan passa fyrir sig. Passinn bíður eftir honum. Hér er ætlunin að láta lesandann fyllast efasemdum –spyrja sjálfan sig hvort sagan geti mögulega verið að eiga sér stað á síðustu andartökum lífs hans, áður en hann drukknar-. Þrátt fyrir þetta virkar sagan um margt raunsæ. Raunar það raunsæ að margir gagnrýnendur hömpuðu henni sem vel gerðu raunsæisverki (þeir hafa hugsanlega eingöngu lesið káputextann sem gefur til kynna að nóvellan sé raunsæisverk). Er það ofar skilningi Kehlmanns. Hann vill meina að sagan virki ekki sé horft framhjá því að hún sé í það heila allt annað en raunsæ.

Í Ich und Kaminski greinir frá hinum ofur hégómafulla, yfirborðslega og metnaðarfulla blaðamanni Sebastian Zöllner, sem telur sig hafa komist í feitt er hann fær það verkefni að skrifa ævisögu hins aldna listmálara Kaminski. Kaminski var eitt sinn stórt nafn í listaheiminum og naut velþóknunar málara líkt og Picasso og Matisse. Skáldsagan er raunar skrifuð inn í listasöguna, þannig að sú tilfinning skýtur upp kollinum að um lykilskáldsögu gæti verið að ræða. Það ku þó ekki vera raunin, heldur er leitast eftir að búa til nógu raunsætt andrúmsloft. Á það raunar við um öll verk Kehlmanns.

Í viðleitni sinni til að verða sér úti um krassandi efnivið rænir Zöllner hálfpartinn Kaminski og upphefst nokkurs konar vegasaga. Er ætlun Zöllners að leiða Kaminski fyrir fyrrum ástkonu hans til að búa til dramatískan endi á ævisöguna. Umrædd skáldsaga er sú sem hvað mest er með fæturna á jörðinni, þó persóna Zöllners sé öfgafull í alla staði. Markmið Zöllners er fyrst og fremst að svala sínum eigin metnaði og verða nafn í heimi listarinnar. Listin sem slík skiptir ekki máli. Zöllner hefir enda lítið vit á listum. Skáldsagan, sem er bæði fyndin og írónísk, hefur listaheiminn að háði og spotti.

Um Mælingu heimsins þarf ekki að hafa mörg orð, en það sem er áhugavert í ljósi fyrri verka Kehlmanns er að þar koma fram atriði sem einkenna skrif Kehlmanns: snillingur/ar á mörkum mikilleiks og geggjunar, þótt Humboldt og Gauß séu innan þess samþykkta, undarlegir atburðir á mörkum ímyndunnar og raunveruleika í sögu þar sem umgjörðin er raunsæisleg (verkið er sett upp sem sagnfræðirit þar sem sagnfræðingurinn hefir gengið af göflunum). Það er að segja Kehlmann leitast eftir því að láta sögur sínar virka sennilegar, „enda getur bara raunveruleikinn látið það eftir sér að virka ósennilegur. Skáldskapurinn er þvingaður til að vera trúverðugur“. Svo gerist eitthvað sem brýtur upp raunsæið. Kehlmann nefnir þetta sjálfur brotið raunsæi og getur falið í sér, Ufo, sjóskrímsli og drauga, líkt og í Mælingu heimsins, eða draugasporvagn, líkt og í smásögunni „Schnee“ í Unter der Sonne.

Fjallar Kehlmann meðal annars um brotna raunsæið í Diese sehr ernsten Scherz, sem samanstendur af fyrirlestri sem hann hélt í Háskólanum í Göttingen. Fyrirlesturinn er í formi nokkurs konar sjálfssamræðu, þar sem hann spyr sjálfan sig spurninga um eðli skáldskapar og af hverju hann sé yfirhöfuð að þessu og svarar þeim á stórskemmtilegan hátt.

Tekið saman þá innihalda verk Kehlmanns ætíð eins kona utangarðspersónur sem stíga yfir ákveðin þröskuld og lenda í furðulegum aðstæðum þar sem spenna liggur í loftinu (sú tilfinning að allt geti gerst), enda leggur Kehlmann sig í líma við að reyna að koma lesendum sínum á óvart. Persónur hans eru oft á tíðum hálf manískar; hafa eitthvað markmið í huga og róa að því öllum kröftum. Gildir þá einu hvort fórna þurfi brúðkaupsnóttinni, líkt og Gauß í Mælingu heimsins eða hvort leggja þurfi lífið að veði líkt og Beerholm í Beerholms Vorstellung og Mahler í Mahlers Zeit. Þessi manía leiðir oft af sér að persónurnar tapa áttum, átta sig ekki lengur á mörkum raunveruleikans og ímyndunaraflsins.

Persónur Kehlmanns standa alltaf á einn eða annan hátt útfyrir normið, annað hvort útfrá afburðagáfum og hæfileikum, líkt og Humboldt, Gauß og  Mahler, eða útaf aðstæðum og gjörðum sem fela í sér uppbrot á hvunndagsleikanum, líkt og Julian í Der fernste Ort og Zöllner í Ich und Kaminski. Persónur hans eru svo á mörkum viðurkenningar og útskúfunar og spurningin er hvort þær falli í hóp mannleysanna (þeirra geðveiku) eða snillinganna. Sögurnar eiga sér svo ætíð stað í raunsæu umhverfi sem iðulega er brotið upp.

Það er athyglisvert að Kehlmann hefir ekki enn skrifað ævisögulegt skáldverk, líkt og raunin er með marga rithöfunda á hans aldri. Allar sögur hans byggjast fyrst og fremst á ímyndunaraflinu, sem fær mann til að halda að hann hafi aldrei verið í villtum partíum. Enda fer það orðspor af honum að hann sé það sem kalla mætti bókmenntalúði sem vill fátt annað ræða en bókmenntir og pólitík og er oftast fyrstur í háttinn úr partíum. Og miðað við afköst hans gæti það verið satt.

Alltént búa verk hans yfir þeim eiginleikum að lesandinn er áfjáður í að lesa meira; þau eru bæði spennandi, áhugaverð og skemmtileg. Enda er mottó Kehlmanns að skrifa bækur sem hann sjálfur myndi vilja lesa. Þannig að í stað þess að skemmta sjálfum sér í villtum partíum, þá skemmtir hann sér og öðrum við skrif. Vonum bara að hann haldi því áfram.

Frá því að þetta var skrifað hafa komið út allnokkur verk eins og gefur að skilja.Hér verður ekki farið út í þá sálma að öðru leyti en að telja þau upp og að mæla með því að fólk kynni sér þennan magnaða höfund hafi það ekki gert það nú þegar. Um Ruhm sem kom út árið 2009 var fjallað í Mogga. Skáldsagan F: A Novel kom út 2014 og nóvellan Du hättest gehen sollen 2016. Tyll kom svo út í fyrra.