Eymd, volæði, og harðneskja lífsins eru það sem við sækjum í að fá að heyra um á ljóðakvöldum. Lélegt kynlíf og eiturlyf eru fín umfjöllunarefni til að létta aðeins stemninguna en alls ekki nauðsynleg. Kvöld tileinkað búningum, kynþokka og fullfrísku fólki að leika sér með rýmið er örugglega alveg fínt fyrir þá sem tengja eitthvað við slíkt.
Ég hef ekki hugmynd af hverju Starafugl hélt að það gæti verið góð hugmynd að senda mig á þetta Ljóðakvöld Rauða skáldahússins. Kvöldið átti að vera sérstaklega tileinkað dauðasyndunum sjö. Það er örugglega mjög kitlandi fyrir heiðvirt fólk að kynna sér þær en full hversdagslegt fyrir jafn bersynduga konu og mig. Ó ef bara ætti ég krónu fyrir öll skiptin sem ég hef girnst asna nágrannans.
Þetta var mjög fallegt kvöld í Reykjavík. Minnti mig smá á eitt kvöld í Iðnó fyrir nokkrum árum þegar ég rakst á manninn sem ég hélt að væri að verða nýi kærasti minn. En þarna sá ég að hann var komin með nýja stúlku. Mjög myndarlega stúlku í hlébarðakjól og með mikinn eyeliner. Ég reyndi að sjálfsögðu að láta eins og ekkert væri. Seinna um kvöldið sá ég þegar þau fóru í svo ástríðufullan sleik við Tjarnarbakkann að þau runnu í gæsaskít.
Síðan hafa mér leiðst sólsetrin og Tjarnabakkinn en þykir alltaf aðeins vænna um gæsir einhverra hluta vegna.
Það voru fá sæti í salnum og það var viljandi gert skilst mér því allir áttu frekar að svífa um (eða slaga í mínu tilfelli) um salinn og drekka í sig stemninguna/aperol spritz-inn sem var blessunarlega á tilboði í andyrinu og ég lét skrifa 19 á Starafugl svo þeir myndu aldrei biðja mig um að fara á svona aftur.
Afskaplega hugguleg kona að nafni … mig langar að segja Nanna Gunnars (?) … var kynnir kvöldsins. Hún byrjaði á að ganga um salinn og með míkrófón leyfa öllum skáldunum að segja eina setningu, eða ég held hún hafi sagt eina setningu en sum(ir) skáldanna skildu þetta einhvern veginn öðruvísi.
Mér fannst það samt ekkert svo hræðilegt. Þetta var bara eins og að fá að standa kyrr og í friði út í horni á meðan einhver annar sæi um að blanda geði við alla þarna. Þannig mættu sem flest partý/uppákomur vera.
Ég skildi ekki ekki formattið. Þetta gekk út á að blanda saman fullkomnum andstæðum? Sexy dönsum og ljóðskáldum? Eða eitthvað þannig.
Ég fer aldrei að horfa á svona sexy dans- og dillsýningar. Ég vann einn vetur á strípibúllu þegar ég var unglingur og eftir heilan vetur af því að horfa á mansalsfórnarlömb fara úr öllum fötunum við lög með Celine Dion fékk ég svolítið nóg.
Eftir það finnst mér eiginlega fólk aldrei jafn sexy og þegar það situr bara í í rólegheitum í trosnuðum prjónapeysum og spilar tölvuleiki.
Mér fannst óþægileg strípibúllutengingin þegar listamennirnir byrjuðu að ganga um salinn og bjóða upp á einkashow. Mig langaði þá bara að faðma þau og hvísla: „ég skal bjarga þér frá grimma pimpinum sem er að pína þig til að gera þetta“.
En svo hitti ég átrúnaðargoð mitt, ljóðskáldið Kristínu Ómars og við Brynjar vinur minn ákváðum að slást í lið með henni og prófa einkaljóðalestur hjá einu hávöxnu skeggjuðu ljóðskáldi, Jóni Erni Loðmfjörð. Það reyndist svo vera mjög skemmtilegt.
Svo sá ég loftfimleikakonu sýna mjög fínar listir og fékk málað framan í mig eitthvað silfurlitað skraut fyrir ofan aðra augabrúnina sem mér fannst að léti mig líta smá út eins Seven of Nine úr Star Trek en sá næsta dag að það var nú bara einhver Aperol-mengaður misskilningur í mér.
Stjarna kvöldsins var svo Sjón. Hann mætti hvorki í búning né steig hann nokkur eggjandi spor á sviðinu. Enda þarf skáld af hans kaliberi ekki að gera neitt slíkt. Hann var bara í sínum venjulegu fötum og steig sín hefbundnu spor.
Mér leið eins og settið hans hefði endað á flugeldasýningu, það var svo stórkostlegt en ég held að húsið sé allt of friðað til að það megi þarna inni.
Ég prófaði fleiri ljóðskáld en vona að þau hafi öll fundið að ég bar alveg áfram virðingu fyrir þeim sem manneskjum þrátt fyrir að ég væri að láta þau fá þessa spilapeninga sem þau voru svo æst í.
Ég neyðist til að viðurkenna að allar mínar fyrirfram gefnu hugmyndir um að þetta yrði ein alls herjar hörmung voru bara vitleysa. Þetta endaði á að vera eitt skemmtilegasta ljóðakvöld ársins, hingað til. Ég mæli með því við alla að skella sér á þetta næst. Ég ætla alla vega að gera það.
Fimm stjörnur, því þetta var svo skemmtilegt og ég er með móral yfir að muna ekki nöfnin á neinum þarna.