Mynd: Af Facebooksíðu Leikfélags Akureyrar.

Hvað er þetta? Af hverju?

Upphaf allra viðburða skal, ef gott skal heita, vera bið. Með því á ég við að viðkomandi sé mættur tímanlega og sýni með því virðingu fyrir atburðinum sem mætt er á. Einnig gefur það mér — svo ég skjóti innpersónulegri athugasemd — nokkrar mínútur til að pústa og róa hjartsláttinn sem ávallt gerir vart við sig í margmenni.

Það var því hressilega kvíðaaukandi að standa tíu mínútum fyrir sýningu Sjeikspírs eins og hann lagði sig það kvöldið (athugið að titlinum hefur verið breytt til að fá einn snilling með gráðu í ensku og nýræktarstyrk undir beltinu til að flissa) á bílaplaninu heima – bíllaus. Ég stóð á planinu því sammenningarnautur minn þetta kvöldið fékk kærasta sinn, æskuvin minn, til að skutla okkur í leikhúsið. 1

Þegar mætt var á sýninguna höfðu allir horfið til sæta sinna og ég þakkaði Guði pent fyrir að sætin okkar væru við ganginn. Við vorum ekki fyrr sest fyrr en herlegheitin byrjuðu. Æsingur, ávörp, glósur og einn leikaranna skullu á áhorfendum — sumt af full bókstaflegum þunga.

Skríkjandi skríllinn dáði byrjunina sem tengdist Sjeikspír jafn mikið og Laxness tengist Skagafirði, þ.e. ekki beint en þó er þarna skemmtileg saga sem fær fólk til að flissa. Eftirminnileg setning þar sem honum er gefið að sök að hafa skrifað visst hatursrit um þjóðflokka og stjórnsýslu sló rækilega í gegn.

Bent er á, tiltölulega snemma í verkinu, að Sjeikspír hafi verið latur við að skrifa konur og í ofanálag skrifað þær af illri nauðsyn, taugahrúgur eða dræsur. Staðreynd sem síðar er ýtt undir með þeirri snilldarlegu ákvörðun að láta karlmann taka að sér kvenhlutverk sýningarinnar. Ákvörðun sem virkilega nýtur sín og undirstrikar það andrúmsloft sem þegar liggur í loftinu og síðar lendir framan í áhorfendum á fremsta bekk.

Sýningin er farsi út í gegn, stílbeittur og sjarmerandi í tilraunum sínum til að fá áhorfandann til að pissa á sig úr hlátri. Leikararnir vita hvar mörkin liggja og þó sýningin sé á köflum á ystu brún hins viðurkennda í skrípalátum og æsingi gamanleika þá fer hún aldrei fram af. Jafnvel í hinum svakalegustu æfingum — þar sem salurinn ýmist sveiflaði höndum, steytti hnefa, níddist á þríhorni eða hljóp fram og aftur um sviðið — var húmorinn þvílíkur að þáttaka áhorfenda var hætt kominn vegna hláturs. Undirritaður gafst í það minnsta upp og sat eins og taugaveiklað fífl í sæti sínu hlæjandi á meðan aðrir sveifluðu, steyttu, kyrjuðu og öskruðu í takt við fyrirmæli leikaranna.

Leikmyndin var stórkostleg, stæðilegur kastali sem ég ímynda mér að hafi verið byggður úr pappa eða krossvið. Hún nýttist vel í þá tugi skipta sem leikarar voru á hlaupum í búningaskiptum og senubreytingum. Leikararnir voru jú bara þrír, leikverkin ekki nema 37 og tíminn sem þau voru leikin á 97 mínútur. Af þremur leikurum var ein kona, hin ærslafulla Sesselía Ólafsdóttir, sem stóð sig með prýði. Það hefur þó eflaust verið erfitt að deila sviði með þeim Benedikti Karli Gröndal og Jóhanni Axel Ingólfssyni. Þeir létu eins og bræður á aldrinum átta og tíu ára alla sýninguna. Eitthvað sem líklega hefur verið æft og þjálfað þar til báðir gátu leikið hvað og af hverju leikinn án þess að stökkva bros á vör.2 Þá er Jóhann Axel augljóslega yngri bróðirinn í þessari myndlíkingu minni enda lætur hann ávallt í minni pokann, leikur konurnar, þolir kossaflensið og fer loks í fússi eftir að honum hefur verið misboðið.

Sýningunni tekst þetta, að gera leikarana sjálfa að hluta af sýningunni, frábærlega. Áhorfendur eru einnig gerðir að virkum þáttakendum sbr. hér að ofan og sprenghlægilegt augnablik þar sem eitthvað grey er ásakað um væga emetophiliu.

Eins og gefur því að skilja eru sýningunni ekki sett þau mörk að fylgja verkum Sjeikspír eftir af of mikilli nákvæmni, í það minnsta ekki að forminu til. Þannig getur ein sagan verið sett upp í formi matreiðsluþáttar sem gerir dramatíkina ögn lágstemmdari og gerir áhorfendum kleift að láta orðið nauðgun fara inn um eitt eyra og út um hitt því strax í framhaldi koma orðin drepa, búta, elda og matreiða ofan í mömmu. Sem er að öllu jöfnu kokteill sem vænta mætti að fengi fólk til að gubba en fær það þess í stað til að hlæja ástúðlega.

Það er ekki þar með sagt að sýninginn sé tannlaus með öllu. Hún er þýdd og staðfærð af vandræðaskáldi, engum öðrum en Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni. Honum er ekki tamt að skrifa nokkuð án þess að koma í það minnsta ögn af samfélagsádeilu eða skeyta poppkúltúr tilvísun inn í eina efnisgrein og ég get ekki láð honum það hið minnsta. Það litla sem ég man af ádeilu í sýningunni kom mér fyrir sjónir sem almenn skynsemi. Komment á kvenfyrirlitningu, vandamál sem er enn viðloðandi í bókaútgáfu og öðrum þáttum mannlegs samfélags, eiga vel við þegar rætt er eitt dáðasta skáld Breta og hve illa hann lýsir konum og kvenlegum háttum í verkum sínum. Þá er ekki sagt að verkin eigi ekki þá hylli sem þau fá skilið, heldur það að læra eigi af því sem þau vanhagar um.

Ég sé fyrir mér tvennt sem staðið gæti í vegi fyrir þessari sýningu, grautfúlt húmorslaust gamalmenni sem situr á aftasta bekk og annaðhvort drepst við að reyna að bæla hamingjuna í brjósti sér, sem mun vafalaust gera vart við sig á sýningunni, eða fer af sýningunni og skrifar tíu blaðsíðna ritdóm um virðingarleysi æskunnar og dauða smekklegheitanna af mótþróa við þessa tilfinningu sem sá hinn sami hefur ekki upplifað í yfir tíu ár. Í öllu falli ættu aðstandendur sýningarinnar að láta slíkt fret sem vind um eyrun þjóta, ef ekki af því þau vita sjálf að það er bull þá vegna þess að ég segi það hér og nú: ÞAÐ ER ENDEMIS ÞVÆLA, SÝNINGIN ER SNILLD.

 

   [ + ]

1. Téður vinur hefur aldrei um ævina verið mættur tímanlega nokkuð, ég hef ekki þorað að spyrja en ég ímynda mér að hann hafi verið fæddur svona tveimur mánuðum eftir settan dag og aldrei almennilega náð að rétta þá skekkju.
2. Hvað og af hverju leikurinn er fyrirbæri sem við bróðir minn stunduðum fyrir einum tuttugu árum á ferðalögum fjölskyldunnar. Faðir minn keyrði, bróðir minn spurði „hvað er þetta?“ Faðir minn svaraði og ég spurði „af hverju?“ Leikur þessi, sem tilkominn var af saklausustu forvitni, gerði föður minn — að hans sögn — vitstola.