Bubbi á friðarstóli

Bubbi, Bubbi Morthens! Það er ekkert smá að taka að sér að skrifa um Bubba Morthens. Maðurinn er fyrsti uppáhaldstónlistarmaðurinn minn og um hríð var svefnherbergi æskuheimili míns betrekkt með úrklippum um Bubba úr dagblöðum landsins. Hver einasta ný plata var keypt um leið og maður náði að öngla saman aurnum til að kaupa hana. Svo maður minnist ekki á leitina að eldra efni sem var oftast mjög erfitt að finna. Það verður að segjast eins og er að það er ekki laust við að hjá mér leynist óttablandin virðing fyrir manninum og verkum hans. Það gerir það að verkum að það er nokkuð erfitt að ætla svo að setjast niður og skrifa gagnrýni um það sem hann gerir. En maður fer nú ekki að láta það stoppa sig.

Fyrst verð ég að segja að það er langt síðan að ég hef haft gaman af plötu frá Bubba. Síðasta plata frá honum sem var mér að skapi var Kúbuplatan en svo hafa vissulega verið stöku lög sem hafa vermt hjartað. En þó ég væri sjálfur lítt hrifinn af því sem hann lét frá sér fannst mér hann samt alltaf vera sannur og leitandi, sem mér finnst algjört frumskilyrði í listsköpun. Ég var bara oft ekki að fíla það sem hann fann. Bubbi fer þangað sem listin tekur hann og þannig eiga listamenn að vera.

Á Túngumáli, fyrstu plötu Bubba í fjögur ár, leitar hann til Mið- og Suður Ameríku eftir innblástri og þvílík útkoma! Það verður að segja alveg eins og er að hér er komin ein af hans bestu plötum. Það er ljóst að biðin hefur borgað sig því það er hvergi snöggan blett að finna, lagasmíðarnar eru allar af háum gæðaflokki og sama er hægt að segja um textana. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart því textar Bubba hafa oftast haldið háum gæðastaðli í gegnum súrt og sætt.

En þó að Túngumál verði að teljast ein af hans bestu plötum þá verður líka að taka fram að hér situr Bubbi á friðarstóli, í.þ.m. gagnvart aðdáendum sínum. Þetta er Bubbi eins og okkur finnst hann bestur en hann er ekki að brjóta mótið. Mér finnst einnig gaman að hann virðist ekki hafa reynt að hafa neinn stórsmell á plötunni. Það þýðir ekki að ekki séu nein útvarpsvæn lög á henni, þvert á móti, Ég er maður margra galla, Sól bros þín og Ég hef enga skoðun gæti ég vel trúað að hafi fengið góða athygli í útvarpi. En, hér er ekkert lag á við Við Gróttu eða Þessi fallegi dagur og slíkur skortur gefur gott rými til þess að gera sér grein fyrir að bestu lög plötunnar eru seiðirnir Cohen blús og Guð blessi Ísland.

Maður á von á því að hljóðfæraleikur sé allur traustur og góður á Bubbaplötu og þær væntingar standast, þar eru á ferð Guðmundur Óskar Guðmundsson á bassa, Páll Eyjólfsson og Zoe Ruth Erwing á hljómborð, Zoe syngur líka, Eysteinn Eysteinsson og Þorvaldur Þór Þorvaldsson sjá um áslátt og Bubbi sjálfur syngur og leikur á alla gítara. Það að hann spilar sjálfur rafgítara á plötunni þykir mér sérstakt fagnaðarefni því mér hefur alltaf þótt Bubbi skemmtilegur rafgítarleikari en hann hefur gert alltof lítið af því að leika á hljóðfærið í gegnum tíðina.

Bubbi má vera ánægður með þessa nýjustu plötu sína. Hann hefur ekki hljómað svona vel í langan tíma og útkoman er eflaust ein af hans tíu bestu plötum. Ég vona að hann haldi áfram á þessu róli.