Kvikmyndapistill #1: Sweet Smell of Success

Hugsunin á bakvið þennan vikulega pistil, sem mun hér eftir birtast á mánudögum að öllu óbreyttu, er að fjalla með einum eða öðrum hætti um kvikmyndilistina og það sem ég tel mikilvægt – annað hvort í sögulegu eða nútímasamhengi. Þá helst verk sem, af einni eða annarri ástæðu eru mikilvæg á einhvern hátt í sögulegu samhengi og/eða fyrir nútímann. Gleymd verk, vanmetin, misskilin, tímalaus klassík, glæpsamlega óþekkt verk, o.s.frv. Ég mun líklega mest koma til með að fjalla um gamlar myndir – hvort sem þær koma úr röðum breska sósíalrealismans, Hollywood söngleikja eða screwball kómedía frá gullöldinni, svo ekki sé talað um japönsku gullöldina, ítalska ný-realismann, rökkurmyndir, þöglar, og þar fram eftir götunum.

Óhjákvæmilega mun það sem ég kýs að fjalla um ráðast af persónulegum smekk að mestu leyti. Ég mun þó leggja mig fram svo að myndirnar verði ávallt a.m.k. á einhvern hátt mikilvægar í fagurfræðilegu, kvikmyndasögulegu og/eða listrænu samhengi. Og helst eitthvað sem er á sama tíma sérstaklega mikilvægt fyrir nútímaáhorfendur. Af nógu er að taka á sama tíma og ekki veitir af á þessum tímum Netflix, ofurhetjumynda og Óskara til Green Book.

Ætlunin er þó ekki endilega að spila ávallt einhvern einleik. Ef einhver lumar á einhverju í þessum stíl þá er ég mjög opinn fyrir pistlum, hugleiðingum eða hverju sem er áhugaverðu um kvikmyndir. Engin feimni við að hafa samband, ef einhver lumar á einhverju. Ástríða er eina krafan.

 

 

Sweet Smell of Success (1957, Alexander Mackendrick)

 

Engin sérstök ástæða svosem sem ræður því að mynd Mackendrick hafi fyrst orðið fyrir valinu hérna. Þá fyrir utan bara að ég elska þessa mynd og datt hún af einhverjum ástæðum í hug.

Hvað sem því líður: rúmum sextíu árum eftir frumsýningu Sweet Smell of Success  – sem sló í gegn meðal gagnrýnenda en floppaði illilega í miðasölunni – hefur hún og sá gengdarlausi cýnisismi frá McCarthy tímanum sem hún býður uppá löngu sannað sig sem tímalausa klassík. Það er óhætt að segja að hún sé búin að stimpla sig rækilega og varanlega inní amerísku kvikmyndakanónuna, þótt hún sé syndsamlega lítið séð. Svosem ekkert minna en gengur og gerist meðal svo gamalla klassískra kvikmynda þó. Eða kannski aðeins.

Stúdían sem myndin býður allavega uppá á af valdi, áhrifum og frægð – ekki síst löngunin og ásælnin í þessa hluti –  gerir hana jafnvel að einhverri mest relevant og áhugaverðri kvikmynd sem mér dettur í hug í fljótu bragði a.m.k. fyrir öld Trumps. Hvað velgengni krefst í því siðferðilega eyðilandi og syndabæli sem leikstjórinn skilur New York sem og setur fram á ógleymanlegan kvikmyndalegan hátt, undir frábærri jazz tónlist (eina persónan sem hægt er að segja að sé siðferðivera hér er einmitt jazz tónlistarmaður – áhugavert statement fyrir þennan tíma).

Leikstjórinn ásamt aðalleikurunum eru allir í toppformi. Raunar myndi ég segja að JJ Hunsecker (Burt Lancaster) og Sidney Falco (Tony Curtis) eru með allra bestu og eftirminnilegust persónum þeirra tveggja – ef ekki bara þær bestu. Í gegnum þær útlistar myndin á vægðarlausan hátt hvernig menning okkar er drifin áfram af brútal einstaklingshyggju. Þar sem prinsipp og karakter er beinlínis veikleiki sem dregur fólk niður,  allir sem reyna að spila eftir siðferðisreglum eiga lítinn séns í keppninni um velgengni, og lítt dulbúnir autokratar eru hylltir og dáðir sem hetjur.

It Can’t Happen here eftir Sinclair Lewis, og The Plot Against America eftir Phillip Roth voru mikið í umræðunni eftir sjokk niðurstöðu kosninganna 2016. Eru báðar frábærar, sérstaklega sú síðari. En Sweet Smell of Success, og noir útgáfa af The Great Gatsby sem hún reiðir fram, mætti alveg ræða og mæla einnig með í því samhengi.

Eins og ávallt þegar slíkt er í boði, þá má einnig mæla með Criterion útgáfu myndarinnar: https://www.criterion.com/films/27542-sweet-smell-of-success

 

 

Bibi Andersson (11. nóvember 1935 – 14. apríl 2019).

 

Í gærkvöldi frétti ég svo af fráfalli hinnar miklu Bibi Andersson. Taldi mig ekki geta annað en a.m.k. minnst á það hérna. Kannski bara örfá orð:

Ég er svo gott sem eins mikill Bergman aðdáandi og ég ímynda mér að hægt sé að vera. Tók 1-2 ára tímabil þar sem ég horfði varla á neitt annað en myndir hans. Hef séð um 80-90% af þeim (með öllu meðtöldu þá – maðurinn gerði fáránlega margar sjónvarpsmyndir og annað einnig). Þær stærstu og mikilvægustu horfði ég á aftur og aftur.

Enga þó eins oft og Persona (1966). Þrátt fyrir að ég telji hana augljóslega eina bestu og mikilvægustu mynd allra tíma, þá er ástæðan fyrir því að ég hef séð hana oftar en nokkra aðra mynd Bergmans (a.m.k. tíu sinnum) þó ekki endilega sú að hún er uppáhalds myndin mín eftir sænska meistarann (það myndi öllu heldur vera Nattvardsgästerna frá 1963 ef ég þyrfti að velja). Eru auðvitað ýmsar ástæður fyrir því, ekki síst sú að myndin ásækir mann einfaldlega – skorar á mann að reyna að skilja sig. Ef maður þorir.

En einnig Bibi Andersson. Frammistaða hennar í myndinni er einfaldlega ótrúleg, eru bara einhvers konar seiðkraftar að verki þarna. Hjá henni, Liv Ullman og samspilinu og dularfullu neistunum og töfrunum þeirra á milli. Sú frammistaða, ásamt öðrum sem hún reiddi fram í ýmsum myndum Bergmans, höfðu raunar svo mikil áhrif á mig að ég var bara djúpt ástfanginn af Bibi Andersson lengi vel. Ég meina, hvernig er annað hægt?

Slíkur er máttur Bibi Andersson. Hef þetta ekki lengra, en mæli þó með þeim myndum og frammistöðum sem eru í persónulegu uppáhaldi. Fyrir utan Persona (og af þeim sem ég hef séð) eru þær:

 

Babettes Feast (1987)

Scener ur ett äktenskap (1973)

En passion (1969)

Smultronstället (1957)

Det sjunde inseglet (1957)

Sommarnattens leende (1955)