Teikning eftir Sverri Norland, 2019.

Uppgjöfin gegn hávaðanum

Milan Kundera, sá ágæti og eitursnjalli höfundur, varð níræður um daginn. Ég get lesið ritgerðarsöfnin hans aftur og aftur, það eru fjársjóðskistur, eldsneyti fyrir frjóar hugleiðingar í allar áttir, og við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að Friðrik Rafnsson hefur þýtt nær allar bækurnar hans. Í einu ritgerðasafninu – og nú man ég skyndilega ekki hverju þeirra, afsakið það; ég hef bækurnar ekki við höndina – lýsir Kundera innreið bílsins í evrópskar borgir í upphafi 20. aldarinnar. „Fólk mun aldrei sætta sig við hávaðann sem bílarnir valda!“ á einhver að hafa sagt. Mér varð hugsað til þessara orða þegar ég var staddur í Bologna nýlega, ítalskri borg sem í núverandi mynd er margra hundruð ára gömul: bílarnir pössuðu einhvern veginn ekki inn í aldið borgarlandslagið, göturnar eru þröngar og víða hvelfigöng fyrir gangandi vegfarendur sem eins og magna upp óhljóð bensínknúinna farartækja þegar þau hjóta hjá eftir akstursstrætunum. Og auðvitað lýjandi mengun yfir öllu. Ég átti, röskum hundrað árum eftir áðurtilgreinda athugasemd, satt að segja erfitt með að sætta mig við hávaðann.

 

Nú, í upphafi 21. aldarinnar, sækir á okkur önnur ágeng spurning og tengist öðruvísi en þó skyldum hávaða af andlegum toga, sem einnig hlýst af „tækniframförum“ (les: iðnvæðingu og kapítalisma): nefnilega stafrænu látunum sem við streymum, sjálfviljug, inn í hausinn á okkur frá morgni til kvölds. Við hugsum: einstaklingurinn sættir sig aldrei við þetta áreiti snjallsímanna til lengdar, fólk gerir uppreisn. En er það? Hvað um börnin sem fæðast inn í heim þar sem normið er að stroka út eigin dagdrauma, skapandi gauf og hugleiðingar, með efni sem kemur og hverfur, kemur og hverfur, sérhvert andartak, eftir farvegi stórfyrirtækis sem er óseðjandi sólgið í hug okkar og athygli? Til frekari áhnykkingar: ef við fæðumst inn í heim þar sem flestir hafa þegar breyst í sæborgir (samruna manns og vélar) og fáir harma eða mótmæla markvisst þeirri þróun, er auðvitað sennilegast að maðurinn, sem er félags- og hjarðvera, líti svo á að slíkt sé eðlilegt fyrirkomuleg og felli hegðun sína mótþróalaust þar undir.

 

Sherry Turkle, bandarískur höfundur, skrifar um eina afleiðingu slíkrar þróunar, sem er hnignun samtalsins, og þar með hluttekningarinnar og jafnvel vináttunnar, í bók sinni Reclaiming Conversation: The Power of Talk in a Digital Age. Samræður byggjast á því að þátttakendurnir, tveir eða fleiri, verji fyrst drjúgum tíma í einrúmi, hljóðri íhugun, svo þeir hafi eitthvað bitastætt fram að færa þegar samtalið hefst. En vanrækjum við þetta kannski í auknum mæli? Í tilraun nokkurri, sem Turkle lýsir í bókinni, voru þátttakendur látnir sitja einir og yfirgefnir við autt borð, án síma, bókar eða annarrar afþreyingar, með ekkert fyrir stafni nema möguleikann á að veita sér vægt rafstuð ef þeim fór að leiðast. Margir hófu að misbjóða líkama sínum (einkum karlmenn) eftir einungis sex mínútur. Turkle óttast að börn bíði seint bætur af sívaxandi vangetu okkar til að vera ein með sjálfum okkur eða jafnvel annarri manneskju án milligöngu raftækis: í skóla einum í New York hegði tólf ára krakkar sér til að mynda í auknum mæli eins og átta ára börn á leikvelli; þau skilji skólafélaga sína blákalt útundan og hafi ekki lengur þroska og/eða hæfieika til að setja sig í spor annars fólks. Ástæðan? Þau verji svo miklum tíma í sýndarveröld þar sem ekki þurfi að horfa í augun á öðru fólki, taka tillit til annarra í rauntíma. Ég veit ekki hvort ég deili þessari sýn, en ég skil áhyggjurnar.

 

Stefan Durand, franskur höfundur, skrifar hugleiðingu annars efnis, en horfir af skyldum sjónarhóli, í nýlegri bók sem nefnist 20.000 ans, ou la grandes histoire de la nature, verki sem fjallar um náttúrusögu Frakklands síðustu 20.000 árin. „Ekki er svo ýkja langt síðan,“ ritar Durand (hér í frjálslegri þýðingu minni), „að við ókum á hlýjum sumarnóttum inn í skordýraregn sem flattist út á framljósunum. Oft ókum við í gegnum heilt haf af fiðrildum. Lesendur í eldri kantinum fyllast angurværð þegar þeir rifja þetta upp; hinir yngstu yppta öxlum. Þeir eiga bágt með að ímynda sér slíka tíma. Hér tæpum við á því sem kalla hefur verið vistfræðigleymska (fr. l’amnésie écologique), sem er sérstakt hugtak yfir tilhneigingu sem þrykkt er djúpt inn í eðli okkar: við lítum ævinlega svo á að sá heimur, sem við fæðumst inn í, sé hinn upprunalegi og rétti, og endurspegli hlutlaust ástand veraldarinnar. Í augum hinna yngstu er heimurinn án skordýra, en í augum hinna eldri er hann uppfullur af skordýrum. Þannig höfum við, í rás kynslóðanna, gleymt ríkidæmi og gnótt hins villta lífs sem var allsráðandi í Frakklandi fyrir ekki svo löngu. […] Við erum komin langleiðina með að breyta landinu okkar í eyðimörk.“

 

Ekki þarf raunar að ferðast mikið um jörðina til að sjá hvernig lífrænt ríkidæmi hennar hefur verið máð út. Og kannski er ekki heldur ósennilegt að við gleymum smátt og smátt ríkidæmi og hugmyndagnótt fyrra menningarlífs – bókmenntirnar eru hér gott dæmi – og tökum að líta svo á að samræmd hegðun flestra manna, með atbeina raftækis sem fletur út fjölbreytni og staðlar óhjákvæmilega upplýsingamiðlun og samskipti, sé hinn rétti og upprunalegi heimur, hið hlutlausa ástand veraldarinnar.

 

Sjálfur hef ég, nær alla mína tíð, alið manninn í borgum. Á síðustu árum eru þær þó teknar að þreyta mig í auknum mæli; ég sé því miður æ sjaldnar fegurðina nema í (kærkomnum) undantekningartilvikum, sem eru iðulega augnablik þar sem náttúra eða dýralíf nær, að því er virðist fyrir kraftaverk, að þrífast mitt í tortímingunni. (Um þetta skrifaði ég til dæmis í smásögunni „Hinir sönnu leyndardómar Parísarborgar“, smásögu úr Heimafólki, einni bókanna í bókaknippinu mínu.) Áður laðaði þéttbýlið mig að sér með loforði sínu um frjóa menningu, ríkulegt samneyti hugmynda; það segulmagn fjarar hins vegar út eftir því sem tæknin lempar í auknum mæli staðbundinn kúltúr og sjálfstæða, skapandi hugsun. Alþjóðahyggjan, og Internetið, eru óhjákvæmilega illsamræmanleg því sem við höfum fram til þessa kallað kúltúr: þessi öfl hampa hinu steríla og ýta undir einsleitni. Tyler Cowen viðrar hugleiðingar um þennan ósamræmanleika í nýlegri grein (þýðingin er mín): „Hraðsendingar Amazon, eða kaffihús sem líta eins út sama hvar þú ert niður kominn, eiga að stórum þræði rætur sínar í Internetinu,“ skrifar hann. „Ráðleggingar snjalls starfsmanns í hverfisbókabúðinni, eða sikileysk uppskrift sem engum tekst að leika eftir annars staðar, eru dæmi um kúltur.“

 

Kannski er engin flóttaleið undan hinu einhæfa og einfaldaða? Æ fleiri okkar eiga núorðið í fjarrænu túristasambandi við umhverfi sitt – og túrismi er kannski hin hreina andhverfa lókal menningar – og við látum eins og við getum flúið eitthvað annað þegar heimkynni okkar verða endanlega ónýt. Ég hef áður vísað í orð bandaríska skáldsins W.S. Merwins, sem lést nýlega, um endurtekna martröð hans úr barnæsku: mannkynið breytir smám saman allri jörðinni í borg, malbikar hvern einasta blett, og hvergi fyrirfinnst lengur skóglendi. Svona líður mér oft – og ekki nóg með að jörðin sé malbikuð heldur einnig heilarnir í okkur. Borgirnar taka á sig ásýnd antínáttúru, gegndarlauss ofbeldis gagnvart fegurðinni, og manneskjur breytast í antímanneskjur: notendur tækja, neytendur. Öll tjáning okkar er einfölduð niður í hnitmiðuð skilaboð markaðshyggju. Með öðrum orðum: allt verður eyðimörk.

 

Þetta er ógnvekjandi tilhugsun. Ég hef einnig áður imprað á grein sem Bill McKibben birti í The New Yorker í nóvember 2018, undir fyrirsögninni „Hvernig öfgar í veðurfari eru að smækka plánetuna“. Í grein sinni færði McKibben á hnitmiðaðan hátt í orð áhyggjur sem lengi höfðu sótt á mig – manns sem lifir vissulega svolítið fyrir ímyndunaraflið (þ.e. óendanleikann) – um hvernig jörðin er að verða einsleitari, litlausari, og kannski brátt ekki nema skugginn af sjálfri sér. Lífríkið er að skreppa saman. Hverjar verða afleiðingarnar af þeim aldauða sem við, mannkynið, erum að valda, bæði ytra og innra með okkur? Eða tökum við kannski ekki eftir neinu fyrir hávaða?

 

 

Grein þessi birtist upphaflega í Leslistanum (#60), vikulegu fréttabréfi um bækur og annað áhugavert Lesefni, sem Sverrir Norland gefur út ásamt Kára Finnssyni. Hér má skrá sig ókeypis í áskrift.