Ertu heimamaður?

Um drauga- og glæpasöguna Þorpið eftir Ragnar Jónasson (1976). Veröld gefur út. 318 síður.

 

Titillinn Þorpið kallar augljóslega fram hugrenningatengsl við samnefnt verk Jóns úr Vör (1917-2000) frá árinu 1946 þar sem hann fjallar, í óbundnum ljóðum, um lítið ónefnt sjávarþorp. Vitað er að verkið byggir á æsku hans á Patreksfirði. Þar var oft hart í ári, kalt, hráslagalegt og dimmt. Þorp Ragnars Jónassonar á lýsingarorðin sammerkt en ekki mikið meir. Verk Ragnars er af öðru sauðahúsi.

 

Annað verk sem hægt væri að láta sér detta í hug áður en Þorpið er lesið er hljómplatan Þorpið  eftir Bubba Morthens frá árinu 2012. Þá einkum og sér í lagi samnefnt lag sem hann söng með Mugison. Einnig mætti láta titillinn leiða hugann að þeim lögum Bubba sem fjalla um líf í sjávarbyggðum Íslands. Bara orðið sem slíkt gæti kallað fram þá tengingu. Þar er sýnin oft fremur myrk og útlitið dökkt.

 

Í því samhengi er ekki loku fyrir það skotið að myndin sem skyti upp kollinum væri af þorpi sem áður en langt um liði dæi drottni sínum. Kvótinn hefir verið seldur burt, ungdómurinn sér enga framtíð í slorinu og tilbreytingarleysinu. Það fækkar stöðugt. Þeir sem ekki fara suður, þar sem af draumunum er nóg, halda tryggð við staðinn og kunna að líta aðkomupeyja og -pæjur hornauga. Mörgum sögum fer af heimamönnum sem tortryggja utanaðkomandi. Einu sinni var það eitt að vera Reykvíkingur í Kanavík ávísun á að gengið yrði í skrokk á viðkomandi.

 

Ef nafngiftin kallar ekki á þessar tengingar er næsta víst að hún leiði allavega hugann að landsbyggðinni, ef til vill fjarri höfuðborgarsvæðinu. Þá erum við lent á réttum stað. Nánar tiltekið á Skálum á Langanesi sem eru sennilega eins langt frá höfuðborginni og hugsast getur. Ekki er einvörðungu átt við vegalengd.

 

Skálar á Langanesi eru sögusvið nýjustu skáldsögu Ragnars Jónassonar. Þorpið Skálar lagðist reyndar í eyði 1954 en er engu að síður notað sem vettvangur þessarar frásagnar. Sögutíminn er, aðallega, frá árinu 1985 (hefst í ágúst) og fram undir vor 1986. Í sögunni Rof er svipað upp á teningnum. Þar er Héðinsfjörður notaður á tíma þar sem hann var raunverulega kominn í eyði. Tala má um hliðarveruleika í þessu samhengi.

 

Skálar hafa verið í eyði frá miðjum sjötta áratug síðustu aldar en sögusviðið er þrátt fyrir það fengið að láni úr veruleikanum. (bls. 9)

 

Söguþráðurinn er á þessa leið: Þrítug kennslukona að nafni Una gerist kennslukona á Skálum. Hún á í basli fyrir sunnan og sér tækifæri í því að vinna tímabundið þarna fyrir norðaustan, safna peningum og ná áttum í lífinu. Hún er Reykvíkingur og eru því umtalsverð umskipti fyrir hana að flytja á Langanes, í fásinnið þar. Í ljós kemur að þar búa einvörðungu tíu manns, þar af tvö börn sem hún á að kenna. Auglýsingin fyrir starfið er eftirtektarverð: „Kennari óskast á hjara veraldar.“ (bls. 17).

 

Norður komin rennur upp fyrir henni að lýsingin er ekki fjarri lagi. Ekki er nóg með að þorpið sé fámennt og afskekkt heldur er eins og það sé í öðrum heimi sem það vissulega er. Það er jú í skálduðum raunsæjum hliðarveruleika. Raunsæjum að því leytinu til að svona hefði e.t.v. verið staða mála ef staður hefði haldist í byggð.

 

Þegar hún var farin að nálgast Skála lagðist skyndilega yfir þokumistur yfir umhverfið, landslagið og himininn runnu saman í eitt, henni leið eins og hún væri komin í órætt landslagsmálverk, þar sem áfangastaðurinn fjarlægðist jafnt og þétt og hún æki inn í tóm þar sem tíminn hætti að skipta máli. Og kannski varð það einmitt þannig, kannski skipti tíminn minna máli þarna, það skipti engu máli hvaða dagur var, hvað klukkan var, hér var fólkið eitt með náttúrunni (bls. 31)

 

Þegar mest var á Skálum bjuggu þar um 120 manns, fleira fólk yfir sumartímann. Var þar blómlegt fiskiþorp á stað þar sem fiskurinn var fólkinu allt.

 

Fiskurinn ræður öllu. Og veðrið. Bölvað veðrið, menn þurfa að komast út á miðin, og svo aftur heim. Hér í þorpinu er beðið fyrir fisknum og veðrinu og svo einhverju hversdagslegra (bls. 45).

 

Og þannig var það jú stundum, að heilu þorpin gufuðu upp, fiskurinn fór, fólkið fór, en hér höfðu þessar tíu sálir þraukað, og nú bættist hún sjálf við. (bls. 32)

 

Þeir aðilar sem enn búa þar, í sögunni, halda mikilli tryggð við staðinn og tortryggja aðkomumenn. Með smá hugmyndflugi mætti tengja stemmninguna við bresku hrollvekju-gamanþættina League of Gentlemen sem sýndir voru á BBC 1999 til 2002. Hér svífur yfir vötnum viðlíka andrúmsloft (minna gamansamt þó). Heimamenn treysta ekki aðkomufólki sem þekkja ekki siði og venjur staðarins og því síður leyndarmál hans. Gera heimamenn sitt til að halda fólki frá, eru hranalegir eða ýja að því leynt og ljóst að þetta sé ekki þeirra staður. Það er og það viðhorf sem Una mætir. Hér mælir Guðfinnur, útgerðarmaður þorpsins. Hann hefir 2/10 fólksfjöldans í vinnu hjá sér.

 

Þessi einangrun, fjarlægðirnar, myrkrið. Maður kemst varla lengra frá höfuðborginni. Og þetta hús sem þú býrð í er hús með sögu. Sumum líður illa þar. Þú gætir pakkað saman, farið heim og við myndum bjarga okkur. Lífið hér hefur gengið sinn vanagang hér öll þessi ár. (bls. 65)

 

Íbúar þorpsins eru misandsnúnir Unu. Enginn vill þó eiginlega fá hana nema Salka sem er rithöfundur og á ættir að rekja til þorpsins. Býr hún í gömlu húsi fjölskyldu sinnar ásamt dóttur sinni Eddu sem myndar helming nemenda skólans. Una fær þar inni á efri hæð hússins. Bæði Salka og Edda virðast opnar, skrafhreifnar og félagslyndar og eru viðmótsþýðar gagnvart Unu. Slíkt hið sama má ekki segja um hina íbúana, nema þá Þór sem gæti borið taugar til Unu. Una er svo ekki frá því að hún beri taugar til hans. Þór býr og vinnur hjá Hjördísi sem er þurr á manninn.

 

Hjónin Inga og Kolbeinn eru foreldrar hins skólabarnsins, Kolbrúnar. Kolbrún er andstæða Eddu, ófélagslynd og þögul. Inga er svipuð og Kolbrún. Kolbeinn fer á fjörurnar við Unu. Áðurnefndur Guðfinnur er höfuð þorpsins. Ræður hann þar flestu. Kona hans, Erika, er sjúklingur og kemur lítt við sögu. Guðfinnur er heimamaður með stórum staf. Guðrún vinnur í kaupfélaginu og maður hennar Gunnar vinnur fyrir Guðfinn.

 

Aðrar persónur sögunnar eru móðir Unu og vinkonan Sara. Þar að auki er þar glæpamaður og morðingi sem „hafði aldrei drepið mann áður. (bls. 27) og kona sem er handtekin fyrir morðið að ósekju. Sú frásögn er einskonar hliðarfrásögn og er þess vegna höfð skáletruð í texta. Hún tengist síðan aðalfrásögninni í lokin. Eins og gefur að skilja er þar um glæpamál að ræða, glæpamál sem svipar meira en lítið til og Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

 

Hafa ber svo í huga að eins og hjá Agöthu Christie og í öðrum verkum Ragnars hefir fólk alltaf eitthvað að fela, allir hafa leyndarmál.

 

Eftirtektarsamir taka svo kannski eftir því að upp voru taldar ellefu persónur í þorpinu, tólf að  Unu meðtalinni?

 

Af elleftu síðu verksins er þessi tilvitnun tekin:

 

Una hrökk upp.

Hún opnaði augun og sá ekkert, umlukin algjöru myrkri. …

Hún stirðnaði upp af hræðslu. Henni var kalt, hún fann að hún hafði sparkað sænginni á gólfið.

Það var nístíngskalt inni í herberginu. (bls. 11)

 

Með tilvitnuninni hefst verkið og með henni er tónn þess sleginn. Sá tónn er sleginn æ ofan í æ og felur í sér stemningu myrkurs, nístingskulda, hávaðaroks og rigningar. Yfir Langanesi og verkinu svífur dulúð. Það er eitthvað draumkennt og óraunverulegt á seyði (hér er notast við orðaforða verksins). Við þetta bætist að sjónvarp næst ekki og útvarp eingöngu á langbylgju og það illa. Þorpið sjálft er „eins og að stíga inn í gamla tíma“. (bls. 35)

 

Og nú sá hún móta fyrir nokkrum húsum í dimmri þokunni. Ef hún hefði ekki vitað betur, hefði hún haldið að þetta væri draugabær. En þarna bjó fólk, það vissi hún, og nú fékk hún sterklega á tilfinninguna að fylgst væri með henni, að hér væri einhver að gægjast út um rifu á gluggatjöldum til að athuga hvaða gest hefði borðið að garði. (bls. 32)

 

Aukinheldur er allslags fyrirboða að finna sem gefa ekki til kynna að eilíf hamingja sé í vændum. „Útsýnið á leiðinni var ekki sérlega fjölbreytt, landslagið heldur eyðilegt, grjót og gras.“ (bls. 30). „[H]enni leið ekki vel, alls ekki, hvorki í þorpinu né húsinu. (bls. 50) og „allt gat gerst í myrkrinu“ (bls. 51). Á blaðsíðum 55 og 56 dreymir Unu stelpu sem er kannski að vara hana við og „[s]egja henni að yfirgefa þorpið? Hefði hún ekki átt að koma hingað?“ Spurningin sem vaknar er hver þessi stelpa sé? Er hún ímyndun Unu? Er hún draugur eða kannski deleríum tremens? Ef þetta er stelpudraugur hvað vill hann þá Unu?

 

Una sjálf sver sig í ætt við aðrar aðalpersónur höfundar. Hér er átt við Ara og Huldu í fyrri verkum. Hún varð fyrir áfalli í fortíðinni sem leggst þungt á hana.

 

… hafði hún átt góða æsku, þar til allt splundraðist.

Fram að því höfðu æskuárin verið hamingjurík, í minningunni að minnsta kosti, leikir með vinkonunum á malarbornum götunum fram á kvöld í nýju hverfi í uppbyggingu … þessir horfnu dagar voru ljóslifandi í minningunni, sveipaðir einhvers konar dýrðarljóma, tími sem aldrei kæmi aftur. (bls. 19)

 

Una er því óstöðug mjög með innbyggðan ótta sem er nógur til að æra óstöðugan. Ofan á bætist einangrunin og andúðin sem hún verður fyrir í þorpinu. Og kannski hallar hún sér of mikið að flöskunni. Þrjár meginspurningar vakna við lesturinn: Hver er (drauma)stelpan sem birtist Unu og er reimt sé í húsinu? Hver er morðinginn í hliðarsögunni? Svo er þar önnur ráðgáta sem ekki verður nánar tíunduð.

 

Una er frásagnarmiðja frásagnar og eina persónan sem lesandi fær að gægjast inn í. Öll frásögnin (ekki hliðarsagan) tekur mið af hennar viðbrögðum og upplifunum.

 

 

Þetta er drauga- og glæpa- eða ráðgátusaga. Augljóslega er upplýsingum haldið leyndum í anda slíkra sagna. Í þessari umfjöllun er því leitast við að draga upp mynd af stemningu sögunnar. Saga þessi er skilgetið barn Ragnars þótt hér finnist ekki aðili sem kappkostar að leysa glæpamál. Hún sver sig í ættina að því leyti að unnið er með einangrun, stað þar sem fáar persónur eru, lítið lokað samfélag. Hefir Ragnar fengist við slíkt í öðrum verkum: Ísland, Reykjavík, Siglufjörður og svo Skálar. Sögur hans eiga það sammerkt að gerast á fámennum stöðum og þær eru oft eins konar mannlífsstúdíur. Ekki hasar og blóðsúthellingar.

Allir hafa eitthvað að fela, allir eiga sér leyndarmál. Undir og yfir er ógn. Ógnin felst oftlega í einangruninni, myrkrinu, náttúrunni eða endurspeglast í þessum atriðum og svo auðvitað persónunum. Þessi saga er alls ekki slæm þótt hún sé nokkuð endurtektarsöm líkt og þessi umfjöllun.