Konur, telpa, dömur, kerlingar, mæður, meyjur, systur, frænkur og kvensur í Konulandslagi

Laugardagur á Vorblóti. Svart sviðið í Tjarnarbíó er baðað bleikri birtu. Bleikur litur hefur einmitt lengi verið tengdur við kvenleika; litlar stelpur eru í bleiku og litlir strákar eru í bláu. Bleika birtan er sveipuð dúlúð en hún vekur einnig upp í hugann þá umræðu hvernig litir eru kynjaðir í samfélaginu og umhugsun um afhverju við höfum byggt í sameiningu slíkt tákn og fleiri fyrir kvenleika og svo önnur fyrir karlleika. Einhverjir vilja mótmæla táknunum, aðrir ákveða að taka þeim fagnandi og notfæra sér þau til valdeflingar. Það er þögn, áhorfendur bíða. Kona í gulu stígur berfætt á svið. Hún byrjar að humma með sjálfri sér. Hún er samt mjög meðvituð um að hún hefur áhorfendur. Hún horfir stíft fram fyrir sig á þá sem á horfa – ögrandi jafnvel.

Smám saman birtast fleiri konur á sviðið. Þær eru á öllum aldri, jafn misjafnar og þær eru margar. Þær eru allar klæddar í gult en klæðin verða jafnvel hálf appelsínugul í bleikri birtunni. Þær fara að fylgja þessari fyrstu í humminu. Smám saman myndast víbrandi hljóð sem minnir á býflugnabú. Konurnar dreifa sér um salinn og standa keikar. Það fær ekkert haggað þeim. Hljóðin frá þeim magnast þegar þær sameinast, þegar þær ná sömu bylgjulengd. Krafturinn býr í hinni sameinuðu rödd.

Vorblót er árleg sviðslistahátíð haldin af Tjarnarbíó og Reykjavík Dance Festival. Hún var haldin frá fimmtudegi til sunnudags, 4. – 7. apríl, en átta verk voru sýnd að þessu sinni. Hátíðin er ætluð til að upplifa fjölbreytileika íslenskra sviðslista á einu bretti en verkin á hátíðinni kanna mörkin á milli danslistar, leiklistar og tónlistar.

Yfirtaka: Konulandslag er verk eftir Önnu Kolfinnu Kuran. Verkið eða gjörningurinn er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem hún segir sjálf vera innblásið af þeirri upplifun að vera kona í stórborg. Í verkinu veltir hún fyrir sér spurningum um hvernig kvenlíkaminn birtist okkur og hvaða pláss konur fá eða þora að taka sér í samfélaginu. Hún býr til landslag úr kvenlíkömum til þess að láta áhorfendur velta fyrir sér þessum spurningum. Verkið fjallar þó einnig um samstöðu kvenna og þá sérstaklega hvernig sú samstaða getur náð þvert yfir kynslóðir.

Það voru nokkrar hugrenningar sem komu til mín sem áhorfandi að Konulandslagi. Þá var það í fyrsta lagi þessi býflugna samlíking. Vinnubýflugur í býflugnabúum eru allar kvenkyns, þær vinna sameinaðar í að færa björg í bú. Byggja upp búið. Svipað og formæður okkar sem unnu á sig sigg á hendur við heimilisstörf, við að ala upp börnin og skapa heimili. Óeigingjarnt og erfitt starf. Oft vanmetið. Konurnar í landslaginu fylltu út í rýmið og þær létu heyra í sér, voru ekki afsakandi eða smeykar. Konur hafa með aukinni umræðu byrjað að taka eftir því og greint frá að þær hafi frá blautu barnsbeini lært að gera sig smáar, láta iðulega lítið fyrir sér fara. Kvenleikinn er fíngerður. Umræðan um karlbreiðsluna (e. manspread) er til dæmis gott dæmi um hvernig við erum farin að taka eftir muni á kynjunum og hvaða pláss þau taka sér í almenningsrými. Sömu sögu má segja um hvernig konur hreyfa sig á götum úti miðað við karla. Niðurstöður í fremur óformlegri rannsókn sem hefur verið gerð ótal sinnum af konum, sem hafa síðan greint frá niðurstöðu sinni á netinu, sýna að konur eru líklegri til að færa sig ef tvær manneskjur mætast á gangstétt. Karlar labba ótrauðir áfram og rekast hissa beint í flasið á konum sem prófuðu að færa sig ekki. Hugtakið „manslamming“ var smíðað til að útskýra þetta. Hugmyndin með gjörningnum er að fylla rými af konum, án nokkurrar annarrar ástæðu en að fylla það af konum. Þær eru ekki hættulegar saman í hóp, ekki ógnandi og heldur ekki veikgeðja. Við sjáum konur sem taka sér meðvitað pláss og segja hér erum við og við erum alls konar og við eigum allan rétt á að vera hér.

Mér kom einnig til hugar önnur tenging við gula litinn en sú tenging er til gyðjunnar Oshun. Líklegast hafa flestir lært að þekkja þá gyðju í gegnum söngkonuna Beyoncé, sem klæddist fagurgulum kjól í stuttmyndinni Lemonade henni til heiðurs. Oshun er úr trú Yoruba fólksins í suðvestur Nigeríu, hún er gyðja ferska vatnsins, kynþokka, frjósemis, fegurðar og ástar. Hún hefur einmitt verið mikið tengd við valdeflingu kvenna og kvenleika.

Konurnar sem tóku þátt í verkefni Önnu Kolfinnu að þessu sinni voru um fimmtíu talsins. Mér fannst gaman að sjá hversu ólíkar þær voru í uppruna og í aldri. Það var einnig mjög ljúft að sjá óvænt nokkur kunnugleg andlit. Kynsystur sem ég hef hitt í gegnum lífsleiðina úr ólíkum áttum. Þetta auðvitað skrifast á litla Ísland en það var virkilega vinalegt og gaf verkinu meira vægi í mínum augum. Þegar raddirnar náðu sameiginlegum tón fékk maður smá gæsahúð en það er fallegt að heyra kvenraddir í slíkri harmóníu. Verkið var mjög áhugavert og líklegast mismunandi hugrenningar sem hver og einn upplifir við áhorf. Það kom mér á óvart og vakti í mér kraft.