Þóra
Ljósmynd: Saga Sig

Brot úr Kviku

Orð

Hann er algjör meistari í að snúa orðum mínum gegn mér. Hann man allt betur en ég og getur rifjað upp ólíklegustu hluti sem ég hef sagt og sett þá í óheppilegt samhengi. Þegar við rífumst ræðst hann á mig með orðunum mínum. Þá líður mér eins og stúlku sem hefur klippt af sér handleggina og afhent honum í góðri trú. Nú notar hann líflausa armana til að löðrunga mig.

Reynsla sögunnar

Hann stakk upp á því um daginn að það gæti verið gaman ef við bökuðum oftar. Ilmur af nýbökuðum smákökum og öðru bakkelsi vegur svo sem líka upp á móti káminu, rykinu og súru tuskunum sem hafa hingað til einkennt kjallaraíbúðina þeirra. Hann kann sjálfur ekkert að baka, á meðan ég spreyti mig á alls konar uppskriftum er hann í tölvunni sinni frammi í stofu. Ég hef ákveðnar áhyggjur af þessum bakstri. Ég er mjög hrædd um að ég verði feit af öllu þessu kökuáti. Honum finnst feitar stelpur mjög fráhrindandi.
Þegar hann var unglingur átti hann kærustu sem hann var með í nokkur ár. Framan af var hann mjög skotinn í henni en svo fitnaði hún og hann missti alla lyst á henni.

Hringrás

Stundum sýður upp úr á milli okkar, ég tryllist yfir einhverju eða molna niður af sjálfsvorkunn, við hnakkrífumst, ég hóta að fara að eilífu, ég grenja, hann huggar mig, við ríðum og sofnum. Næsta dag þegjum við þangað til tilveran hefur stillst af. Þá gengur lífið sinn vanagang aftur.