Andrés gefur öndunum


Hollustan geislar af Andrési fulltrúa Önd,
engan sá lýðurinn hlykkjast svo stinnan um bakka.
Hann stansar í frjálslegri pósu með poka við hönd;
postulínsgumpurinn rís undan matrósajakka.

Liðið á Tjörninni upphefur ómstríðan brag
athyglisfrekt líkt og hamstola gjallandi símar.
En Andrés fær svarað: „Æ ekki neitt japl eða jag;
Jóakim segir að nú séu erfiðir tímar.

Þekkiði muninn á græðgi og grundvallarþörf?
Gáiði að ykkur. Spariði ruddaleg hrópin.“
Hann þagnar og dvelur við dæmigerð embættisstörf:
Hann dembir úr galtómum pokanum útyfir hópinn.

„Ó, megi hér ríkja sem jákvæðast jafnaðargeð,
Jóakim segir það auglýst í reykvískum blöðum
að einmitt í dag verði kristilegt kvenfélag með
köku- og stríðstertubasar á Hallveigarstöðum.“

Og Andrés hann brosir: „Ég þarf víst að fara á fund.
Fögur er Tjörnin, en mér er þó bannað að doka.“
Hann kveður og hleypur á tauginni Templarasund.
Tíminn er naumur og hádegisbarinn að loka.