Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellingar

Athygli skal vakin á Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellingar sem er hluti af ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar sem Háskólaútgáfan gefur út. Verkið kom út 2016 og er 352 síður.

12. nóvember síðastliðinn voru 100 ár síðan konur fengu kosningarétt í Þýskalandi. Þessi misserin er talsvert um að hinu og þessu, sem viðkemur réttindabaráttu kvenna, sé minnst.

Jafnréttisbaráttan er vörðuð slíkum atvikum og eftir því sem nær dregur samtímanum, sögulega, fjölgar þeim vörðum sem að sjálfsögðu eru misstórar. Skemmst er að minnast MeToo og Free the Nipple sem eru sannlega liðir í því að vekja fólk til umhugsunar, allavega þá sem kæra sig um að brjóta heilann um skipan mála. Allt andóf, allar byltingar, allt samfélagslegt umrót byggir á þeim sem vörðuðu leiðina, ekkert verður til í tómarúmi.

Þótt efalaust megi margt til betri vegar færa þegar kemur að jafnrétti kynjanna, að sömu möguleikum kynjanna og að fordómalausari samfélögum þá er ljóst að mikið hefir áorkast í gegnum tíðina. Kann að vera hollt, sérstaklega í ljósi þeirra samfélagslegu holskeflna sem ríða yfir okkur sínkt og heilagt, að staldra við og líta til baka til annars tíma þegar málum var öðruvísi farið. Að leitast við að fá í það minnsta nasasjón af samfélagslegri þróun.

Starafugl lætur ekki sitt eftir liggja í því frekar en öðru. Í því samhengi er mikilvægt  að benda á verk sem fara máski ekki svo hátt í bókaumræðunni. Liður í því var t.a.m. þegar minnst var á Margar myndir ömmu fyrr á þessu ári.

Nú er komið að því að minnast á aðra bók sem ágætlega passar inn í þetta samhengi. Það er verkið Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellingar eftir fræðikonuna Guðrúnu Ingólfsdóttur. Verkið atarna tekur á bókakosti þeim sem konur áttu frá miðöldum til 1730. Alveg eins og nú til dags getur bókakostur sagt mikið til um þjóðfélagsaðstæður og stöðu þeirra sem bækurnar eiga. Slíkt má auðvitað heimfæra upp á fleiri hluti ef svo ber undir en hér er á ferð rannsókn sem einblínir á bókakost.

Eins og gefur að skilja er komið inn á fleiri atriði sem bókum tengjast eins og læsi, skriffærni og menntun. Atriði sem á þeim tíma voru ekki sjálfsagðir hlutir og því síður fyrir konum.

Verkið er hluti af ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og það tuttugasta í röðinni

Nafn verks er bæði fengið frá Halldóri Laxness úr Íslandsklukkunni svo og Helgu Kress sem skrifaði um Halldór Laxness og Torfhildi Hólm og notaði samnefndan titill.

Eins og gefur að skilja kennir í verki ýmissa grasa og ættu fróðleiksfúsir að geta fundið margt fyrir sinn hatt. Eitt áhugaverðasta samhengið verður þó að teljast samanburður og söguleg þróun svo og tenging við nútímann. Þess vegna skal hér bent á téð verk.